27.04.1970
Neðri deild: 85. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (1884)

109. mál, atvinnuleysistryggingar

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég tel, að það frv., sem hér liggur fyrir, fjalli um mjög nauðsynlegt og aðkallandi mál og það þurfi að gera á lögum um atvinnuleysistryggingar þær breytingar, sem þessu frv. er ætlað að gera, sem lágmarksbreytingu, en mér sýnist orðalag það, sem er á 1. gr. frv., ekki duga til þess að ná því marki, sem flm. hefur sett sér í grg. frv. og að mínum dómi skiptir öllu máli að ná í þessu tilfelli.

Í grg. segir, að allir meðlimir sama verkalýðsfélags njóti óskoraðs réttar, án tillits til þess, hvar þeir eru búsettir á félagssvæði félagsins. Þetta er eitt höfuðatriðið, sem þarf að nást fram. En eins og 1. gr. frv. er orðuð, þá kemur í ljós, að hún nær ekki að tryggja þetta í framkvæmd. Í 1. gr. frv. segir:

„Ákvæði laga þessara taka til atvinnurekenda, verkalýðsfélaga og meðlima þeirra í kaupstöðum og kauptúnum með 300 íbúum eða fleiri, svo og til atvinnurekenda og meðlima verkalýðsfélaga í kauptúnum, sem fámennari eru, ef þar er starfandi verkalýðsfélag, sem nær til kaupstaða eða kauptúna, sem telja 300 íbúa eða fleiri.“

Þetta er ljóst samkvæmt þessu orðalagi, að lögin eiga að ná til kaupstaða og kauptúna, sem eru fjölmennari en 300 íbúar, en nú er því bætt við, að þetta skuli einnig ná til meðlima verkalýðsfélaga í kauptúnum, sem fámennari eru, ef þar er starfandi verkalýðsfélag, og þetta er algerlega bundið við kauptún. En það er einmitt um það að ræða í fjöldamörgum tilfellum, að starfandi eru verkalýðsfélög í kauptúnum eða kaupstöðum, sem einnig ná yfir aðliggjandi sveitir, og í þeim sveitarfélögum, ekki þarf endilega að vera um kauptún að ræða, eru oft og tíðum starfandi verkamenn, sem sækja vinnu til kaupstaðarins eða kauptúnsins. Það eru þeir, sem nú njóta ekki réttinda, samkvæmt atvinnuleysistryggingalögum.

Að mínum dómi er alveg nauðsynlegt, að haga þessari breytingu þannig, að það sé tryggt, að meðlimir verkalýðsfélaga, þó þeir búi í dreifbýli, þar sem ekki er um kauptún að ræða, eða í sveitum, geti notið réttinda þessarar löggjafar, enda er enginn vafi á því, að flm. frv. hefur ætlað sér að ná þessu fram, a. m. k. miðað við það orðalag, sem er að finna í grg. frv.

Ég tel því, að það þurfi að gera orðalagsbreytingu á 1. gr. frv. Það væri að vísu hægt að hafa þá orðalagsbreytingu á fleiri en einn veg, m. a. þannig, að orðalag gr. væri þrætt að mestu leyti að öðru en því, að þar sem orðalag gr. er nú bundið við kauptún, þar yrði almennt talað um sveitarfélag. En ég tel fyrir mitt leyti, að það sé rétt — miðað við þá reynslu, sem fengizt hefur — að orða þessa gr. á þann hátt, sem ég geri ráð fyrir í brtt., sem ég hef leyft mér að flytja við frv. og er á þskj. 706, en í þeirri brtt. geri ég ráð fyrir, að orðalagið verði þannig, að ákvæði þessara laga nái til allra sveitarfélaga í landinu þar sem starfandi eru verkalýðsfélög, svo þar fari ekkert á milli mála. Ég tel, að atvinnuleysistryggingalöggjöfin sé orðin svo þýðingarmikil tryggingalöggjöf, að það sé ekki lengur verjandi að skilja eftir fjölmenna starfshópa verkafólks, eftir því hvar það á heima á landinu, án þess að það njóti þeirra trygginga, sem löggjöfin fjallar annars um. Ég held því, að réttast sé að slá því föstu, eins og nú er komið, að þessar tryggingar nái til allra sveitarfélaga í landinu, skilyrðislaust, þar sem verkalýðsfélög starfa. Eigi að síður vil ég taka það fram, að það er höfuðatriði að mínum dómi, að fenginni reynslu, að ná þeim tilgangi, sem fram kemur í grg. þessa frv. að vakti fyrir flm., en það er að tryggja, að allir meðlimir sama verkalýðsfélags njóti réttinda laganna, hvar svo sem þeir búa á sínu félagssvæði. Það er grundvallaratriðið.

Ég vil nefna hér eitt dæmi til skýringar, og ég efast ekkert um, að það gætu aðrir þm. einnig nefnt frá þeim svæðum, sem þeir þekkja til. Í því byggðarlagi, sem ég á heima í, Neskaupstað, þar nær félagssvæði verkalýðsfélagsins ekki aðeins yfir kaupstaðinn, heldur nær það einnig yfir Norðfjarðarhrepp, sem liggur inn af kaupstaðnum í firðinum. Þar búa allmargir verkamenn, sem vinnu stunda, sumir algerlega úti í kaupstað og margir að mjög verulegu leyti. Þegar upp kom atvinnuleysi á þessum stað, þá kom það í ljós, að þeir sem heima áttu inni í sveitinni, nutu ekki réttinda samkvæmt atvinnuleysistryggingalöggjöfinni; þeir gátu ekki fengið atvinnuleysisbætur.

Þetta er vitanlega alveg óviðunandi ástand og það þarf að leiðrétta þetta, eins og flm. frv. gerir ráð fyrir. En eins og orðalagið er nú á gr., þá mundu íbúar í Norðfjarðarsveit ekki verða aðnjótandi bóta, alveg tvímælalaust ekki, því það mundi enginn maður reyna að halda því fram, að þar í sveitarfélaginu sé kauptún, en ákvæði frv. eru alveg greinilega þannig orðuð, að þau ná aðeins til kaupstaða og kauptúna, sem hafa yfir 300 íbúa, og auk þess til meðlima verkalýðsfélaga í kauptúnum, sem fámennari eru, ef þar er starfandi verkalýðsfélag, sem nær til kaupstaða eða kauptúna, sem telja 300 íbúa eða fleiri. Ég efast ekkert um, að þetta orðalag á við í ýmsum tilfellum, t. d. eins og með smæstu kauptúnin við Eyjafjörð, sem nú eru komin í verkalýðsfélagið á Akureyri. Þar mundi þetta orðalag nægja. En þetta nægir ekki í t. d. austfirzku byggðarlögunum, þar sem verkalýðsfélögin eru starfandi í kauptúnunum, en hafa einnig starfssvæði yfir nálægar sveitir. Og þessu er einnig svona háttað hér á Reykjavíkursvæðinu, þar er ekki í öllum tilfellum um að ræða kauptún eða íbúa kauptúna, og þess vegna þarf að gera á þessu breytingu.

Ég veitti því hér athygli við 1. umr. þessa máls, að hv. 2. landsk. þm., Eðvarð Sigurðsson, benti á, að það mundi þurfa að gera nokkra breytingu á orðalagi þessarar gr., ef það ætti að ná þeim tilgangi, sem að væri stefnt með frv. Því miður hefur heilbr.- og félmn. ekki gert það og er það eflaust vegna þess, að málið hefur ekki verið athugað nægilega. En ég vil leggja á það áherzlu fyrir mitt leyti, að þó ég flytji till. í þessa átt, þá vil ég vænta þess, að það megi takast að afgr. þetta mál með nauðsynlegri breytingu. Skal ég þá ekki hafa um þetta mál öllu fleiri orð, fyrst og fremst til þess að reyna að stuðla að því, að málið nái fram að ganga, en þá vitanlega með því orðalagi, sem nær þeim tilgangi, sem að er stefnt.