27.04.1970
Neðri deild: 85. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (1886)

109. mál, atvinnuleysistryggingar

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Í frv. því, sem hér er til umr., um breyt. á atvinnuleysistryggingalöggjöfinni, felast tvær breytingar, en ekki þrjár. Það er um útvíkkun á því svæði, sem tryggingarnar eiga að taka til. Það er hins vegar óbreytt, eins og frv. kemur hingað til þessarar hv. d., ákvæðið varðandi breytingar, sem næðu til annarra staða, ef verkalýðsfélag og atvinnurekendur óska þess og hlutaðeigandi sveitarstjórn mælir með því. Það ákvæði er óbreytt, frá því sem er í lögunum núna. Síðan er breyt. í 2. gr. frv.

Við 1. umr. þessa máls í þessari hv. d. lét ég í ljós þá skoðun, að orðalag 1. gr. frv. næði ekki þeim tilgangi, sem flm. þessa frv. ætlast til og gerir grein fyrir í grg. frv. Ég fæ ekki séð, að þetta orðalag tryggi það, að allir félagsmenn verkalýðsfélaga fái notið þessara réttinda. Ég vakti athygli á þessu og bað hv. n. að taka málið til athugunar, svo þarna væru tekin af öll tvímæli. Ég gat þess einnig, að í þeirri nefnd, sem starfar að endurskoðun atvinnuleysistrygginganna, hefði þetta mál komið á dagskrá og þar væru menn sammála um, — það er kannske fullmikið að segja alveg sammála, en sammála þó, — að svo framarlega sem svæðið yrði fært út, — sem ég trúi að meiri hl. sé fyrir í nefndinni, — þá verði það gert á annan hátt heldur en hér segir. Ég skýrði frá þessu og það hefði átt að vera innan handar fyrir þessa nefnd, að vinna málið þannig, að ekki væru um það deilur strax og búið væri að koma því hér frá Alþ., hvað í lögunum ætti að felast.

Eins og þetta hefur komið upp hér, og raunar víðar, þá gæti ég bezt trúað, að hjá framkvæmdaraðila laganna, þ. e. a. s. þessum sveitarfélögum o. fl. gæti komið til ágreinings, ef orðalagið er ekki skýrt.

Ég fæ ekki séð, að þetta nái í raun og veru þeim tilgangi, sem hv. flm. ætlast til, nema með breyttu orðalagi. Ég sé ekki annað en að það orðalag, sem er á brtt. hv. 4. þm. Austf., sé ákaflega einfalt og nái alveg þeim tilgangi, sem flm. frv. ætlast til, og ég er sammála um að þurfi að breyta lögunum á þann veg. Ég held, að það ætti ekki að þurfa að stofna framgangi málsins neitt í hættu, því þetta er ákaflega einfalt, og hv. Ed., sem ég skal ekki draga í efa að telur sig hafa verið að samþykkja einmitt það, sem nú stendur í brtt., lætur málið áreiðanlega ekki verða fyrir neinum töfum hvað afgreiðslu snertir. Ég veit ekki til hvaða aðila væri hér í raun og veru hægt að skírskota. Hæstv. félmrh., sem á að hafa þessi mál með höndum, er nú víst ekki viðstaddur, en hvort hæstv. forsrh. eða einhver annar hæstv. ráðh. vildi gefa þá yfirlýsingu hér um, sem dygði, veit ég ekki, en að öðrum kosti sé ég ekki, að málið nái tilgangi sínum.