29.04.1970
Neðri deild: 89. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

109. mál, atvinnuleysistryggingar

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Eftir þær ítarlegu umr., sem urðu um þetta mál við 2. umr. málsins, sé ég nú ekki ástæðu til þess að fara efnislega út í þetta mál. Ég vil aðeins leyfa mér að kynna hér brtt., sem ég leyfi mér að flytja, ásamt þm. frá öllum þingflokkunum, þeim hv. þm. Þórarni Þórarinssyni, Unnari Stefánssyni, Eðvarð Sigurðssyni og Hannibal Valdimarssyni, þess efnis, að sú breyting verði gerð við 1. gr., að í stað orðsins „kauptúnum“ komi: sveitarfélögum.

Ég held, að engum dyljist, sem hafa sett sig inn í þetta mál, að þarna er þó nokkuð komið til móts við réttlætismál, hafandi í huga, að miklir erfiðleikar munu skapast um leið og vissu réttlæti er fullnægt með ákvæði 2. gr. frv., en ég vil undirstrika það, verandi kjörinn af Alþingi í stjórn þessa sjóðs, að mikil vinna hefur verið lögð í það að undanförnu að endurskoða lög atvinnuleysistrygginganna, og á næsta hausti vænti ég þess, að fyrir Alþ. muni liggja nýtt frv. til l. um þessar mikilsverðu tryggingar, atvinnuleysistryggingarnar. En ég vænti þess jafnframt, að það verði ekki ágreiningur um þessa breytingu. Hins vegar gæti hún orðið nokkuð mótandi, þegar næsta þing kemur saman, um vilja Alþingis.

Ég vil leyfa mér að biðja hæstv. forseta, vegna þess að þessi brtt. er skriflega fram borin, að leita afbrigða um hana.