30.04.1970
Efri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

56. mál, gjöld til holræsa og gangstétta á Akureyri

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta tekur til breyt. á l. nr. 66 frá 1917, um gjöld til holræsa og gangstétta á Akureyri. Hér er um að ræða þmfrv., sem flutt var í Nd. og samþykkt þar shlj. að ég hygg.

Efni frv. er að breyta 2. gr. þessara laga frá 1917, þ. e. ákvæði um að kostnaður við holræsagerð í götum bæjarins, sömuleiðis við steinlímdar, hellulagðar og aðrar jafnvandaðar gangstéttir, greiðist úr bæjarsjóði. Í frv. er hér bætt við: „gerð varanlegs slitlags“, og í framhaldi af þessu segir í 2. gr. l. frá 1917, að bæjarstjórninni sé heimilt að leggja á holræsa- og gangstéttagjald, en hér er bætt við orðinu „gatnagerðarskatt“.

Bæjarstjórn Akureyrar leggur áherzlu á, að þetta frv. nái fram að ganga hér á Alþ., og einnig hefur þetta frv. verið sent til umsagnar Sambands ísl. sveitarfélaga, sem mælir með samþykkt þess, en stjórn sambandsins bendir á, að hún telur eðlilegt, ef þetta frv. verður að lögum, að þá verði ákvæði þess felld inn í lög um tekjustofna sveitarfélaga við heildarendurskoðun þeirra laga, ásamt öðrum hliðstæðum lögum um holræsa- og gangstéttagjöld.

Þessu frv. var vísað til heilbr.- og félmn. Nál. er því miður víst ekki komið fram enn þá, en menn voru þar sammála um að mæla með því, að þetta frv. yrði samþykkt. Einn nm., hv. 1. þm. Vesturl., var þó fjarstaddur, þegar málið var afgreitt.