13.01.1970
Neðri deild: 36. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (1927)

132. mál, almannatryggingar

Flm. (Sverrir Júlíusson):

Herra forseti. Á þskj. 193 flyt ég ásamt 4. þm. Vestf. og 3. þm. Sunnl. frv. til l. um breyt. á I. nr. 40 30. apríl 1963, um almannatryggingar. Frv. þetta felur það í sér, að lagt er til, að ráðh. verði gefin heimild til þess að skylda útvegsmenn til að taka aukatryggingu vegna bóta á slysum og veikindum, sem sjómannalögin hafa lagt á útgerðarmenn.

Eins og segir í grg. frv., er aðdragandi þessa máls sá, að á þinginu 1962–1963 var samþ. breyting á sjómannalögum, sem fól það í sér, að slysa- og veikindabætur til skipverja voru hækkaðar verulega. Sú kvöð var sett á útvegsmenn, að ef um slys eða veikindi væri að ræða, ætti að greiða aflahlut til undirmanna á skipum í einn mánuð, í stað 7 daga áður, en til annarra yfirmanna en skipstjóra í tvo mánuði, í staðinn fyrir einn mánuð áður. En ákvæðið um skipstjóra, sem voru þrír mánuðir, hélzt óbreytt.

Það má segja, að lög þessi hafi verið verulega vel undirbúin, því að þau voru mjög lengi í endurskoðun. Þórður Eyjólfsson hæstaréttardómari endurskoðaði þessi lög, og þau munu hafa komið tvisvar eða þrisvar fyrir Alþ. án þess að fá afgreiðslu.

Það sýndi sig, ekki hvað sízt á uppgangsárunum, þegar aflahlutir voru mjög háir, að það var mjög tilfinnanlegt fyrir útgerðina að greiða þetta, og eru dæmi til þess á árunum 1964–1966, að það hafi skipt tugum eða jafnvel hundruðum þús. kr., sem varð að greiða til skipverja, sem urðu fyrir veikindum.

Það má nú segja, að það hafi verið ekki óeðlilegt, að komið var með breytingu á sjómannalögunum, en það er ekki það, sem hér er um að ræða, heldur er hér farið inn á aðra braut en áður hefur verið talað um, þ. e. að útgerðarmenn kaupi tryggingu hjá Tryggingastofnun ríkisins og henni verði falið að taka tryggingu vegna þessa.

Ég verð að skýra lítils háttar frá aðdraganda þess, að farið hefur verið inn á þessa braut. Útvegsmenn samþykktu á fundi eftir fund að óska eftir leiðréttingu eftir að þessi breyting var gerð, en hv. Alþ. mun hafa samþykkt hana að mjög lítt athuguðu máli, er mér alveg óhætt að segja, og hef ég þá í huga ummæli fyrrv. sjútvmrh. En hann flutti málið á sínum tíma og n. beggja deildanna munu ekki hafa athugað málið nægilega vel. Nú er það svo, að erfiðara er að fá leiðréttingu hér á hinu háa Alþ. heldur en menn kannske gera sér grein fyrir, ekki hvað sízt þegar álitið er, að verið sé að skerða rétt sjómanna eða launþega, sú hefur reyndin orðið á. Samtök útvegsmanna hafa hvað eftir annað, bæði í samningum og viðræðum við stjórnvöldin og þá sérstaklega fyrrv. sjútvmrh. og núv. sjútvmrh., gert tilraun til þess að fá leiðréttingu á þessu, því að það skal tekið fram, að þau ákvæði í sjómannalögum, sem gilda um fiskimennina, eru þau sömu og gilda um sjómenn á farskipum, en á farskipum er allt annar háttur á hafður. Nú er það þannig, að núv. sjútvmrh. sýndi þessu máli verulegan skilning, en sagði, að þessu yrði ekki breytt nema með samkomulagi við sjómannasamtökin. Ég hef tekið þátt í mjög mörgum fundum, þar sem þetta mál hefur verið rætt, bæði við fulltrúa Alþýðusambandsins, Sjómannasambandsins og Farmannasambandsins, en ekki hefur náðst samkomulag um það. Það skal líka tekið fram, að hv. forseti Sþ., formaður sjútvn. Nd., lagði sig fram á árunum 1966 og 1967 við það, að samkomulag næðist um þessi atriði, en það tókst ekki. Það má einnig minna á það, að á árunum 1966–1967 bárum við 4 þm. fram þáltill., þar sem farið var fram á, að sjómannalögin væru endurskoðuð og þetta væri fært til samræmis við greiðslur í svipuðum tilfellum. En sú till. sofnaði í hv. allshn. Sþ. Þess vegna hafa nú samtök útvegsmanna óskað eftir því tvo aðalfundi í röð, að flutt yrði frv., þar sem Tryggingastofnun ríkisins væri heimilað að taka þessa tryggingu að sér.

Hér er um það að ræða, að útvegurinn kaupi þessa tryggingu. Það liggur ekki fyrir nú, hvað þetta muni nema háum iðgjöldum, en það skal tekið fram í sambandi við þetta, að við Tryggingastofnun ríkisins hefur verið haft samband allt frá s. l. sumri, og þetta frv., sem hér liggur fyrir, var undirbúið og hefur það verið borið undir Tryggingastofnunina í sambandi við formið á því. Það skal ekki dulið hér, að Tryggingastofnun ríkisins telur það ekki hina réttu leið að fela Tryggingastofnuninni að taka þetta að sér. Telur hún, að réttara hefði verið að breyta sjómannalögunum. Þó að það hafi kannske ekki komið nógu skýrt fram í þessum málflutningi, þá tel ég, að eins og sakir standa sé þrautreynt, að það fáist ekki skynsamleg eða viðunandi lausn á sjómannalögunum til leiðréttingar á þessu. Þess vegna er farið inn á þá braut, sem hér er lagt til með þessu frv., þ. e. a. s. að ráðh. geti heimilað Tryggingastofnuninni að taka þessar tryggingar að sér.

Ég vona, að þetta mál verði skoðað rækilega af þeirri n., sem fær það til meðferðar. Mér er það ljóst, að þetta leggur kvaðir á útgerðina, en það má segja, að í þessu samábyrgðarþjóðfélagi, sem við lifum í, verði það ekki meira í heild en það kostar nokkra einstaklinga, sem hafa orðið og geta orðið fyrir þessu, eins og sjómannalögin eru í dag. Þess vegna er það eins og ég sagði, að samtök útvegsmanna hafa óskað eftir því, að þetta frv. yrði fram borið, og ég vona, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, athugi það ítarlega og verði við þessari ósk, sem hér er fram komin.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara lengra út í þetta mál. Ég held, að greinarnar séu alveg skýrar og grg. skýri það, sem ósagt er.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.