25.04.1970
Neðri deild: 83. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

132. mál, almannatryggingar

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. gerir ráð fyrir því, að útgerðarmönnum sé skylt að tryggja gegn aukagjaldi áhættu þá, sem þeim ber samkv. sjómannalögum, bæði að því er varðar slys og veikindi. Frv. gerir ráð fyrir, að þessa tryggingu sé hægt að taka hjá Tryggingastofnun ríkisins og henni verði gert að greiða í slysa- og veikindatilfellum sjómanna þær bætur, sem útgerðarmönnum er skylt að greiða, samkv. núgildandi sjómannalögum.

Heilbr.- og félmn. hefur haft þetta frv. til athugunar og leitað um það umsagna. Að vísu má segja, að umsögn Tryggingastofnunar ríkisins hafi verið fremur neikvæð, því stofnunin leggur til, að það sé ekki orðið við þessu frv. á þessu stigi, en hins vegar svarar Sjómannasamband Íslands umsögninni á þann veg, að það mælir með því, að frv. verði samþ., en þó með þeirri athugasemd, að niður falli orðin í 1. gr. „eða útgerðarmanni vegna hins slasaða“, þannig að þær bætur, sem greiddar verða, skuli greiða hinum slasaða, en það fari ekki gegnum hendur útgerðarmannsins, heldur beint til hins slasaða. Sama er svo að segja í sambandi við sjúkrabæturnar í 3. gr.

N. er sammála um að leggja til, að þessi orð falli niður úr frv., en mælir með því að öðru leyti, að það verði samþ. N. telur, að hér sé stigið spor í rétta átt, því það sé meiri og betri trygging fyrir sjómanninn, sem verður fyrir slysum eða veikindum, að ganga til ákveðinnar stofnunar, eins og Tryggingastofnunar ríkisins, og svo jafnframt hitt, að skylda útgerðarmenn til þess að taka þessa tryggingu, en á því er auðvitað misbrestur nú í frjálsri tryggingu, að útgerðarmenn taki slíkar tryggingar. Ef slík trygging væri frjáls, þá mundu aðeins einstaka útgerðarmenn, og þá helzt þeir, sem yrðu fyrir áföllum, kaupa slíka tryggingu á frjálsum markaði, en hinir láta það vera. Það mundi hafa það í för með sér, að iðgjöldin yrðu mjög há á hinum frjálsa markaði, en með skyldutryggingu verður iðgjöldum auðvitað stillt í hóf, þegar útgerðarmenn allra skipa verða að taka slíkar tryggingar.

Við í heilbr.- og félmn. teljum, að hér sé hreyft merku máli, og því mælum við eindregið með því, að þetta frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem ég hef áður skýrt frá.