02.04.1970
Neðri deild: 67. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (1946)

188. mál, sala Fagraness í Öxnadalshreppi

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér, ásamt hv. 9. landsk. þm. og hv. 11. landsk. þm., að flytja frv. til I. um heimild fyrir ríkisstj. til að selja Gísla Jónssyni, bónda á Engimýri í Öxnadal, eyðijörðina Fagranes þar í hreppi.

Um ástæður þessa máls er það að segja, að Gísli Jónsson, bóndi á Engimýri í Öxnadal, sem einnig er eigandi þeirrar jarðar, hefur óskað eftir því að fá keypta af ríkinu eyðijörðina Fagranes. En þannig stendur á, að Fagranes er löngu komið í eyði, fyrir u. þ. b. 20 árum eða meira, og er næsta jörð við Engimýri, sem er góð bújörð og þar rekinn allmikill og góður búskapur. Bóndinn á Engimýri telur sig hafa þörf fyrir að fá aukið land, og þess vegna hefur hann augastað á því að kaupa Fagranesið. Þess má líka geta, að Engimýrarbændur, bæði sá bóndi, sem bjó áður á Engimýri og svo nú Gísli Jónsson, hafa nytjað þessa jörð nú í meira en 20 ár, þannig að það er út af fyrir sig ekki nýtt, að þeir falist eftir því að hafa nytjar þessarar jarðar, en ýmsir kostir fylgja því að bóndinn eigi jörðina.

Þess er líka vert að geta, eins og fram kemur í 1. gr., að til er heimild í lögum um sölu þessarar jarðar frá því 1950, en þá fékk þáverandi ábúandi, Rútur Þorsteinsson, heimild til þess að kaupa jörðina, eða réttara sagt, þá fékk ríkisstj. heimild til að selja Rúti Þorsteinssyni þessa jörð. En af kaupum varð ekki af ástæðum, sem ég kann ekki að greina frá. En nú er verið að ítreka þetta mál og þess óskað, að bóndinn á Engimýri fái Fagranesið keypt.

Oddviti Öxnadalshrepps, Sigurður Jónasson, hefur látið svo um mælt í símtali við mig, að hreppsnefnd Öxnadalshrepps sé því meðmælt, að þessi sala fari fram, og hefur lýst yfir, að hann muni votta það í bréfi, ef þess verði óskað.

Ég legg til, herra forseti, að þessu máli verði vísað til 2. umr. og til landbn., og geri ráð fyrir, að n. taki þetta mál þeim tökum, sem venja er um jarðasölumál.