30.04.1970
Efri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í B-deild Alþingistíðinda. (1958)

188. mál, sala Fagraness í Öxnadalshreppi

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Frv. þessu var vísað til landbn. eftir 1. umr. N. hefur ekki getað komið á formlegan fund, en við höfum talazt við og athugað frv. og þau gögn, sem því fylgja, og er n. sammála um að mæla með, að þetta frv. verði samþ. óbreytt. Málið er að því leyti til einfalt og ætti að vera fljótlegt að átta sig á því, því að í gildi eru lög, sem heimila ríkisstj. að selja þessa ákveðnu jörð bóndanum á Engimýri, en sú heimild er bundin við nafn annars manns, sem þá var eigandi að Engimýri. Af einhverjum ástæðum varð ekki af því, að sá maður keypti eyðijörðina, en hinn nýi eigandi hefur óskað eftir að fá heimild til að fá hana keypta og er því þetta frv. flutt.

Sem sagt, nm. eru allir sammála um að mæla með því, að þessi heimild verði veitt bóndanum á Engimýri.