27.04.1970
Neðri deild: 85. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

214. mál, félagsheimili

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara að tala langt mál um þetta frv. um breyt. á l. um félagsheimili, en vil víkja að þeim atriðum, sem hæstv. menntmrh. vék hér að, og þá sérstaklega að einu. Mér hefði fundizt eðlilegt, þó fyrr hefði verið, að tekin hefði verið upp sú regla að afgreiða byggingar félagsheimila með svipuðum hætti og skóla. Ég hefði talið það eðlilegt, að fjvn. hefði í sambandi við afgreiðslu fjárlaga einnig samþ. slíkar byggingar, eins og gert hefur verið með skólabyggingar. Núverandi fyrirkomulag hefur orðið til þess, að skuldir Félagsheimilasjóðs við félagsheimilin eru gífurlega miklar.

Nú er það samt svo, að miðað við ríkisútgjöldin er það ekki hærri fjárhæð en svo, að mér þykir rausn sú lítil að ætla að greiða þetta á 15 árum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þetta hefur verið gert með því, að peningastofnanir og verzlanir heima fyrir hafa lánað til byggingar félagsheimila, vegna þess að áhugi hefur verið í byggðarlaginu fyrir því að koma þessu áfram. Þó ég meti það nokkurs að fá tryggingu fyrir því, að þetta verði greitt, svo sem gert er ráð fyrir í félagsheimilalögum, og einnig það, að af þessu verði greiddir vextir, sem er aðalatriðið í þessu, þá er hér um það langan tíma að ræða, að ég er undrandi yfir því, að það skuli þurfa hans með til þess að greiða ekki hærri fjárhæðir en þetta í einu, miðað við ríkisútgjöldin. Ég hefði talið, að 5 ár og í allra lengsta lagi 10 ár þyrfti til að greiða þessar skuldir. Ég verð því að segja það, að mér líkar sá þáttur þessa frv. ekki nógu vel, að það skuli þurfa svo langan tíma til þess að greiða þetta upp, þó ég meti það mikils, að af þessu eru greiddir vextir.

Ég hefði því viljað leyfa mér að fara fram á það við hv. menntmn., sem fær þetta mál til meðferðar, að hún tæki það til athugunar að stytta þennan tíma, a. m. k. svo að það yrði ekki lengra en 10 ár. Ég tel, að ekki hefði verið óeðlilegt þó ríkissjóður hefði lagt Félagsheimilasjóði til fjármuni til þess að leysa það af hendi.