16.04.1970
Efri deild: 71. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (1982)

215. mál, skemmtanaskattur

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af menntmn. að beiðni hæstv. menntmrh. og hafa nm., eins og fram kemur í aths., óbundnar hendur um afstöðu til málsins. Frv. felur í sér breytingar frá núgildandi lögum, bæði varðandi skattheimtuna sjálfa og ráðstöfun á því fé, sem innheimtist með skemmtanaskatti. Varðandi síðara atriðið, þá segir í 6. gr. frv., að skemmtanaskattur skuli renna í Félagsheimilasjóð, nema annars sé getið í lögum þessum. Í 7. gr. er hins vegar kveðið svo á, að af skemmtanaskatti skv. 2. gr. skuli 10% renna til Sinfóníuhljómsveitar Íslands, og skerðist þá upphæðin að sama skapi. Eins og menn vita, þá skiptist skemmtanaskattur nú að jöfnu milli Félagsheimilasjóðs og Þjóðleikhússins.

Varðandi skattheimtuna sjálfa er skattskylda færð út samkv. frv. og látin ná til allra staða á landinu, en hún nær skv. núgildandi lögum til kaupstaða með 1500 íbúa eða fleiri. Eins og segir í grg. með frv., leiðir af þessu að felld eru úr gildi lög nr. 34 frá 1918, en skv. þeim lögum er með reglugerðum, sem bæjarstjórnir eða hreppsnefndir semja og ráðherra staðfestir, heimilt að leggja skatt á skemmtanir, sem haldnar eru í sveitarfélaginu og aðgangur er seldur að, og rennur sá skattur í hlutaðeigandi sveitarsjóð. Með lögum frá 1927 voru ákvæði þessara laga frá 1918 numin úr gildi að því er varðar kaupstaði með 1500 íbúa eða fleiri. Nú hafa ýmis sveitarfélög notfært sér heimildina í lögunum frá 1918, sem nú er lagt til, að verði felld úr gildi, og segir um það í 2. málsgr. 6. gr. frv., að að því er taki til reglugerða fyrir bæjar- og sveitarfélög, sem hafa verið settar og staðfestar samkv. lögum frá 1918 og enn eru í gildi, þá skuli haldast réttur viðkomandi bæjar- og hreppsfélaga til að innheimta í sveitarsjóði skemmtanaskattinn, eins og í reglugerðunum greinir, og þá skuli skemmtanaskatturinn jafnframt skv. frv. lækka um þann hluta, sem fellur til hrepps- eða bæjarfélags skv. reglugerð.

Aðalbreytinguna, varðandi skattinn sjálfan, að ég ætla, a. m. k. hvað krónutöluna snertir, er að finna í ákvæðinu um kvikmyndasýningar. Skv. núgildandi lögum er greiddur 10% skattur af kvikmyndasýningum með heimild til 200% álags. Gjaldið mun nú vera innheimt með 27.5% af andvirði aðgöngumiða. Í frv. eru kvikmyndasýningar settar í sérstakan flokk, þ. e. a. s. 2. flokk í 2. gr. frv., og þar segir, að af þeim skuli greiðast 15% skemmtanaskattur. En 200% álagsheimildin fellur hins vegar niður. Þarna er því um að ræða verulega lækkun á skattheimtunni hjá kvikmyndahúsunum, en þau hafa, eins og menn vita, borið fyrir sig mjög slæma rekstrarafkomu undanfarið.

Þá er jafnframt í 3. málsgr. 6. gr. frv. felld niður undanþága frá greiðslu skemmtanaskatts, sem kvikmyndasýningar á vegum Sáttmálasjóðs og kvikmyndasýningar bæjarsjóða Akraness og Hafnarfjarðar hafa notið samkv. d-lið 3. gr. laga nr. 56 frá 1927, og einnig undanþágur, sem öðrum kvikmyndahúsum munu hafa verið veittar samkv. 2. málsgr. 3. gr.l. nr. 56 1927, sbr.l. nr. 24 1963. Enn fremur segir í þessari frvgr., að skemmtanaskattinn skuli ráðh. þó vera heimilt að endurgreiða þeim aðilum, sem að undanförnu hafa notið tekna vegna framangreindrar undanþágu, með þeim skilyrðum, að féð verði notað í því skyni, sem var ástæða undanþágunnar.

Þá er loks í 8. gr. frv. gerð sú breyting á því gjaldi, sem rennur í Menningarsjóð, að í stað þess að samkv. núgildandi lögum er það 1 króna af aðgöngumiðum að kvikmyndasýningum og 2 kr. af aðgöngumiðum að dansleikjum, — sem hefur reyndar staðið óbreytt í mörg ár, — þá er lagt til, að gjaldið miðist við andvirði aðgöngumiðanna og verði 1.5% af brúttóverði aðgöngumiða að kvikmyndasýningum og 2% af aðgöngumiðum að dansleikjum, og mun þá gjaldið að krónutölu haldast í hendur við verð aðgöngumiða, eins og það er á hverjum tíma.

N. hafa borizt nokkur gögn um það, hvaða áhrif frv. mundi hafa á upphæð þess skatts, sem innheimtur er, í nokkrum atriðum. Ég skal til glöggvunar fyrir hv. þdm. nefna hér nokkur af þessum atriðum.

Eins og menn sjá, þá er alls staðar í frv. miðað við brúttóverð miða í stað þess, að nú er skattheimtan miðuð við nettóverð. Um það, hvaða áhrif þessi breyting hefur, eru í þessum plöggum þær upplýsingar, að 10% af brúttóandvirði jafngildi 11.11% af nettóandvirði. Þetta gildir um 1. fl. í 2. gr. frv. Í 2. fl., þar sem um er að ræða 15% af brúttóandvirði, jafngildir það 17.64% af nettóandvirði. Þá er 3. fl., sem er með 20% af brúttóandvirði, en það mundi jafngilda 25% af nettóandvirði.

Þá eru hér loks nokkrar upplýsingar um áhrif skattbreytingarinnar á tekjur af skemmtanaskattinum og er þá í því, sem ég næst nefni, miðað við skemmtanaskatt, sem innheimtur hefur verið hér í Reykjavík. Er þá fyrst að nefna skemmtanir, sem falla undir 1. fl. Þar segir, að skemmtanaskattur af tónleikum í Rvík á s.l. ári, — þetta er allt miðað við innheimtan skatt á árinu 1969, — hafi numið tæplega 120 þús. kr., en af brúttóverði hefði hann orðið tæplega 106 800 kr. Þá er 2. fl., þ. e. skemmtanaskattur af kvikmyndasýningum 5 kvikmyndahúsa hér í Rvík á s. l. ári. Hann var tæplega 9 100 000 kr., en með 15% skatti, eins og frv. gerir ráð fyrir, hefði hann orðið 5 034 000 kr., og er þarna að sjálfsögðu um töluverða tekjurýrnun að ræða. Í 3. fl. eru dansleikir. Skemmtanaskattur af þeim í Rvík nam á árinu 2 100 000 kr. tæpum, en 20% af brúttóverði hefðu orðið 1 835 000 kr.

Um áhrif skattbreytinga skv. frv. á tekjur Menningarsjóðs segir, að innheimta menningarsjóðsgjalds af 5 skattskyldum kvikmyndahúsum í Rvík árið 1969 hafi orðið 481 þús. kr. Með 1.5% skattheimtu af brúttóverði, eins og frv. gerir ráð fyrir, hefði hún orðið 503 þús. kr. tæpar og munar því raunverulega sáralitlu þar.

Þetta var um menningarsjóðsgjaldið af kvikmyndahúsunum, en um menningarsjóðsgjald af dansleikjum í Rvík eru þær upplýsingar, að það hafi numið 168 þús. kr. tæpum á árinu, en 2% af brúttóverði hefðu hins vegar verið 185 þús. kr.

Þá segir einnig í þessum upplýsingum, að sinfóníuhljómsveitin fái nú 9.09% af skemmtanaskattinum, en sú prósenta verði að hækka í 12.74%, ef tekjur hljómsveitarinnar eiga ekki að lækka, vegna lækkunar á skatti af kvikmyndasýningum. Sinfóníuhljómsveitin hefur fengið 10% álag á skemmtanaskattinn og skv. því fengið greidd 9.09% af heildarskattinum.

Þá er vikið að því, að eins og áðurnefndar tölur bera með sér, lækki skattur þeirra kvikmyndahúsa, sem skatta hafa greitt að undanförnu, samkv. frv., en þar á móti kemur skattgreiðsla þeirra kvikmyndahúsa, sem skattfrjáls hafa verið, og mun láta nærri, segir í þessum upplýsingum, að þetta vegi hvort annað upp.

Um áhrif útfærslu skattskyldunnar til alls landsins, sem í frv. felst, er að sjálfsögðu erfitt að segja með nokkurri vissu og skal ég ekki hafa uppi neinar getgátur í þeim efnum.

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af n. og ég geri því ekki till. um að vísa því til n., en vil þó taka það fram, að menntmn. mun að sjálfsögðu taka frv. til ítarlegri athugunar á milli umr.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr.