24.04.1970
Efri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (1988)

215. mál, skemmtanaskattur

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Á dagskrá þessa fundar eru tvö mál, sem standa í nánu sambandi hvort við annað. Annars vegar er frv. það, sem nú er til umr., um skemmtanaskatt, og hins vegar frv. um félagsheimili. Ég mun e. t. v. í þessum orðum, sem ég segi hér, víkja nokkuð að báðum þessum málum, vegna þess hve náið samband er þeirra á milli.

Þessi frv. eru flutt af menntmn. þessarar hv. d. að beiðni hæstv. menntmrh. Þau eru flutt með þeim fyrirvara, eins og algengt er, þegar málsmeðferð er á þessa lund, að nm. hafi óbundnar hendur um afgreiðslu frv. Þessi mál komu til n. mjög seint á þessu þingi, þannig að í rauninni eru ekki nema fáir dagar síðan n. fékk tök á að fara að fjalla um þau. Þó að n. hafi út af fyrir sig lagt alúð við að reyna að kynna sér efni þessara frv., þá er það skoðun mín, að það vanti mikið á, að henni hafi gefizt kostur á að brjóta þetta vandamál svo til mergjar sem vera þarf. Og það lítur út fyrir, að menntmrn. hafi þurft langan tíma til þess að móta þær till., sem fram eru settar í þessum frv. Nú er talið, að þessi frv. séu fram borin og að því stefnt að lögfesta þau nú á þessum fáu dögum, sem þingið á eftir að starfa, annars vegar vegna fjárhagsvandamála félagsheimilanna og hins vegar vegna fjárhagsvandamála kvikmyndahúsa.

Nú er það svo, að vissulega eiga félagsheimilin við allmikil fjárhagsvandamál að stríða, þar sem Félagsheimilasjóður hefur ekki sökum fjárskorts getað greitt það framlag, sem aðstandendur félagsheimilabygginga hafa vonazt eftir og raunar treyst á að þeir fengju. En þessi vandi er ekki nýtilkominn og ég held, að þó að málsmeðferð yrði sú, að löggjöf yrði ekki sett um þessi efni nú á þessum fáu dögum, sem eru eftir af þinginu, heldur yrði það látið bíða næsta hausts, þá mundi það ekki hafa nein úrslitaáhrif á afkomu eða hag félagsheimilanna. Þessi vandi hefur verið að skapast á mörgum undanförnum árum. Lög um félagsheimili eru frá 1947, þannig að það vantar lítið á, að þau séu orðin aldarfjórðungs gömul, og þessi fjárhagsvandi hefur orðið til smátt og smátt á þessum tíma. Hvort núgildandi ákvæði eru látin standa óbreytt fáum mánuðum lengur eða skemur, fæ ég ekki séð, eins og ég sagði áðan, að hafi úrslitaáhrif á afkomu eða fjárhagslega stöðu félagsheimilanna.

Segja má, að þessi fjárhagsvandræði félagsheimilanna séu nú fyrir hendi og hafi verið að aukast á undanförnum árum, vegna þess að framkvæmdir á þessu sviði hafi orðið of örar. Þess ber þó að gæta, þegar á þetta mál er litið, að í mjög mörgum byggðarlögum hefur verið alveg knýjandi þörf á því að koma upp þessum stofnunum, félagsheimilunum. Og við verðum varir við það á öðrum sviðum, þegar þörfin er afar brýn og knýjandi fyrir framfarir, þá fara menn að bjóða lánsfé til þess að hraða framkvæmdum, svo sem á sér stað um rafvæðingu sveitanna, svo að eitt dæmi sé nefnt. Ég held því, að bygging félagsheimilanna hafi verið í því horfi, sem raun er á, vegna þess að fólkið í byggðarlögunum taldi þessar framkvæmdir og þá aðstöðu, sem þær hafa veitt og veita til félagstarfs, alveg ómissandi. Að vissu leyti má líka gleðjast yfir því í þjóðfélagi, þar sem verðbólgan vex ár frá ári, hve mikið hefur áunnizt í því að koma upp víða um land myndarlegum félagsheimilum, sem áreiðanlega fullnægja þörfum á þessu sviði um alllanga framtíð. Eigi að síður er það staðreynd, að þær vangreiðslur, sem átt hafa sér stað af hálfu Félagsheimilasjóðs sökum fjárskorts, valda vissulega erfiðleikum hjá mörgum félagsheimilum, og kemur þar m. a. til sú þunga vaxtabyrði, sem á þeim hvílir vegna lausaskulda, sem stofnað hefur verið til. Ég vil út af fyrir sig ekki gera lítið úr þessu.

Nú er talið, að það, sem knýr á um að samþykkja þessi frv., séu einnig vandamál kvikmyndahúsa, m. a. kvikmyndahúsa, sem bezta hafa aðstöðu hér á mesta þéttbýlissvæði landsins. Það er talið, að orsök þessara breytinga á rekstraraðstöðu kvikmyndahúsanna sé fyrst og fremst tilkoma sjónvarpsins. Nú felast í þessum frv. tili. menntmrn. í þessu efni. Ekki er nema gott um það að segja, að slíkar till. komi fram. Þá fá menn málið til athugunar og í tillöguformi. En eigi að síður eru mörg atriði í þessu máli þannig, að hér er vissulega um álitamál að ræða, hvort ganga á lengra eða skemmra í einstökum atriðum. Það er því fyllsta ástæða til þess að mínum dómi, að hv. alþm. fái betra tóm til þess að glöggva sig á þeim efnisatriðum, sem í þessum málum eru fólgin, áður en til lögfestingar kemur. Og nú er talið, að stefnt sé að því af hálfu hæstv. ríkisstj. eða jafnvel að það sé ákveðið, að þinglausnir verði að þessu sinni eftir fáa daga eða helzt síðasta dag þessa mánaðar. Þá ber þetta allt að sama brunni, að á þeim fáu dögum, sem eftir eru af þinghaldi í þetta sinn, og einnig þegar tekið er tillit til þess málafjölda, sem fyrir liggur og þarf að afgreiða, þá er ekki hægt að ætlast til þess, að þm. geti virt fyrir sér, kannað til hlítar eða tekið afstöðu til allra þeirra atriða, sem í þessu máli eru fólgin. Þess vegna er það mín skoðun, að það væri eðlilegasta málsmeðferðin, þar sem þessi frv. eru þegar komin fram og menn hafa kynnt sér þau að nokkru, að ekki væri haldið lengra að þessu sinni, en afgreiðslu málsins frestað til næsta þings, sem á að hefjast í október n. k., þannig að það eru ekki nema nokkrir mánuðir þangað til.

Ég hef vikið að því, að í þessum frv. felast allmörg efnisatriði, sem að nokkru leyti eru nýmæli og að öðru leyti breytingar frá gildandi lögum. Ég skal nú drepa á helztu efnisatriðin, sem hér er um að ræða.

Samkv. frv. um skemmtanaskatt á að lækka skatt af kvikmyndasýningum úr 27.5%, sem gjaldið er raunverulega nú af andvirði miðanna, og í 15%. En miðað er við, að skattgjald af öðrum skemmtunum skili svipuðum tekjum og verið hefur.

Skattinn á nú samkv. frv. að innheimta af öllum kvikmyndahúsum, en að undanförnu hafa allmörg hús notið undanþágu um skattgjaldið. Þó á að haldast heimild til þess að endurgreiða skattinn þeim, sem áður hafa notið undanþágu, ef fénu er varið til menningar- eða mannúðarmála.

Gjaldskyldan samkv. frv. um skemmtanaskatt er færð mjög út eða aukin, þannig að verði þetta frv. lögfest, nær gjaldskyldan til alls landsins, en nær nú samkv. gildandi lögum til kaupstaða með 1500 íbúa og fleiri.

Samkv. lögum frá 1918 hefur sveitarfélögum verið heimilt að fá settar reglugerðir um að ákveða og innheimta skemmtanaskatt til sveitarsjóðs eða í þágu sveitarmálefna, og það hafa verið settar 45 reglugerðir samkv. þessum lögum frá 1918. Nú er gert ráð fyrir að afnema þessa heimild og fella lögin frá 1918 úr gildi.

Skatturinn, sem innheimtist samkv. ákvæðum þessa frv., ef að lögum verður, á að skiptast þannig, að 90% skattgjaldsins renni til félagsheimila, en 10% til sinfóníuhljómsveitar. Að undanförnu hafa 45% af skattgjaldinu runnið til Þjóðleikhússins, en sá hluti á nú að falla niður sem tekjur Þjóðleikhússins og þá á sjálfsagt að mæta þeim tekjumissi Þjóðleikhússins með auknum framlögum á fjári. til þeirrar stofnunar.

Samkv. gildandi lögum hefur það verið svo, að íþróttanefnd og fræðslumálastjóri hafa í sameiningu haft vald til þess að ákveða, hvort hefja skuli byggingu félagsheimilis eða ekki. En hafi þessa tvo aðila greint á, hefur átt að skjóta þeim ágreiningi til menntmrh., og hefur hann þá fellt úrskurð um þetta atriði. Nú er stefnt að því að gera þá breytingu á þessu ákvæði, að leyfi menntmrh. þarf eftirleiðis, ef þetta frv. verður lögfest, til þess að hefja byggingu félagsheimilis.

Samkv. frv. því um félagsheimili, sem hér liggur fyrir og ég leyfi mér að víkja ofurlítið að í þessu sambandi, á að leysa skuldamál félagsheimilanna, sem eru í smíðum eða lokið er smíði á, en ekki hafa verið gerðir upp reikningar fyrir að fullu. Það á að leysa úr skuldamálum þessara félagsheimila á þann hátt að heimila Félagsheimilasjóði að gefa út skuldabréf til allt að 15 ára til greiðslu á þeim styrk, sem nú er vangreiddur til félagsheimila.

Þá er það nýmæli í þessu frv., að 10% af tekjum Félagsheimilasjóðs skuli renna í sérstaka deild í sjóðnum, menningarsjóð félagsheimila, og að fé úr þeirri deild verði einungis varið til þess að styðja menningarstarfsemi í félagsheimilunum.

Og loks er, eins og greinilega kom fram hjá hv. 5. þm. Reykn., sem hér talaði næst á undan mér, gerð breyting á því gjaldi, sem rennur til Menningarsjóðs og undanfarið hefur verið fast gjald, 1–2 kr. af aðgöngumiða. Nú á að breyta því gjaldi prósentugjald.

Ég hef rakið þessi efnisatriði, til þess að það liggi ljóst fyrir, að það er ekki ofsagt, sem ég áðan sagði, að í þessum málum felast veigamiklar breytingar frá því, sem gilt hefur, og nýmæli, sem vissulega getur verið álitamál, hvort lögfesta á eða ekki, eða hvaða breytingar er ástæða til að gera á þeim till., sem hér eru bornar fram.

Ég vil þó taka fram, að ég lít þannig á, að eitt þessara atriða, sem ég hef minnzt á, sé varhugaverðast í þessum málum, en það er jafnframt að vissu leyti undirstöðuatriði beggja þessara frv., sem hér liggja fyrir. Það er þetta efnisatriði, að færa gjaldskylduna um skemmtanaskattinn út til alls landsins, án tillits til mannfjölda og annarrar aðstöðu í þeim byggðarlögum, þar sem skemmtanir eru haldnar. Undanfarið og um langan tíma, ég ætla allt frá 1927, hefur þessi gjaldskylda um skemmtanaskatt til ríkisins verið bundin við kaupstaði með 1500 íbúa eða fleiri. Þetta hefur vafalaust á sínum tíma verið sett í lög að vel athuguðu máli. Það er ákaflega mikill munur á því, hvað rekstrargrundvöllur kvikmyndahúss eða annars skemmtistaðar er betri og tryggari í byggðarlögum, þar sem fjölmenni er, heldur en í byggðarlögum, þar sem fámennt er. Hitt er svo annað mál, að öll byggðarlög eru að reyna að halda í horfinu að þessu leyti og halda uppi kvikmyndasýningum og öðrum skemmtunum, því það er álitið óhjákvæmilegt menningaratriði í hverju þorpi eða í hverju byggðarlagi, að völ sé á kvikmyndasýningum, þó að erfitt sé um reksturinn og mjög takmarkað, hvað hægt er til þess að kosta. Og það er sannast sagna, að þær upplýsingar, sem hv. formaður menntmn. vék að og hafði eftir íþróttafulltrúa og var vitanlega alveg rétt með farið, eftir því sem fram kom á nefndarfundi, eru að mínum dómi, — og ég tala þar sem maður utan af landsbyggðinni, sem nokkuð þekkir til mála, þar sem ekki er um fjölmenni að ræða, - ekki tæmandi eða segja ekki allt í þessu máli.

Nú er talið, að annað aðalatriðið, sem knýr á um að gera breytingar á þessum lögum, sé fjárhagsaðstaða kvikmyndahúsanna og það ekki sízt hér á mesta þéttbýlissvæði landsins. Eftir þeim upplýsingum, sem unnt hefur verið að afla á þessum fáu dögum, hygg ég, að þetta hafi við nokkur rök að styðjast. En hvað er það þá, sem veldur þessari breytingu, að kvikmyndahús, sem kannske fyrir fáum árum eða allt fram að þessu hafa skilað hagnaði, berjast nú í bökkum með rekstur sinn? Skýringin á þessu er fyrst og fremst talin vera sú, að kvikmyndahúsin eiga erfitt með samkeppni við sjónvarpið.

Nú er það svo, að sjónvarpið kom fyrst til nota hér í Reykjavík og í næsta nágrenni Reykjavíkur, þannig að það er lengri reynsla, — þó að hún sé raunar ekki löng enn þá, — fengin af þessari samkeppni hér á þéttbýlissvæðinu heldur en orðið er annars staðar á landinu. En nú er sjónvarpið góðu heilli sem óðast að færast út um landsbyggðina. Hvernig halda menn þá að áhrifin verði, þegar hin smáu, fjárhagslega veiku kvikmyndahús eiga að fara að keppa við sjónvarpið, þegar það kemur út í byggðarlögin? Hver verður þá rekstrargrundvöllur hinna smáu kvikmyndahúsa úti um landið?

Ég held, að hér sé mjög alvarlegt málefni til íhugunar, hvort það eigi að stefna að því fyrir áhrif löggjafarvaldsins að lama verulega eða jafnvel varanlega slíka starfsemi úti í fámenninu, með lagaákvæðum eins og þeim, að færa gjaldskyldu skemmtanaskattsins út yfir allt landið. Ég tel það styðja þá skoðun, að rétt sé að hraða ekki afgreiðslu þessa máls nú á þessum fáu dögum, sem þingið á eftir að standa, því að á næstu mánuðum hlýtur að fást meiri reynsla heldur en nú er fyrir hendi af því, hvaða áhrif sjónvarpið hefur á skemmtanahald úti í kaupstöðunum, kauptúnunum og sveitabyggðunum. Og það er rétt og skylt að það komi fram, að þær tölur, sem íþróttafulltrúinn gaf á nefndarfundi og vikið var að í ræðu form. menntmn. alveg réttilega, eru allar miðaðar við fyrri ár, 1968 og þar áður, þ. e. a. s. það er miðað við rekstrargrundvöllinn eins og hann var, áður en sjónvarpið kom til sögu eða var fært út yfir landsbyggðina.

Ég endurtek það, að þetta er í mínum huga eitt meginatriði þessa máls og ákvæði, sem ég álít varhugavert að samþykkja nú í skyndi, án þess að meiri reynsla og fyllri áætlanir séu fyrir hendi heldur en nú eru um þetta mál. Ég hef því hugsað mér ásamt hv. 11. þm. Reykv., Kristjáni Thorlacius, að bera hér fram brtt. við þetta frv. um skemmtanaskattinn, sem yrði þannig að 1. gr. frv. orðist svo:

„Í öllum sveitarfélögum landsins, sem hafa 1500 íbúa eða fleiri, skal greiða skatt samkv. lögum þessum, þegar aðganga er seld að skemmtunum fyrir almenning.“

Í þessari brtt. felst það að halda sama marki um mannfjölda, þar sem gjaldskylda er um skemmtanaskatt til ríkisins, eins og verið hefur í lögum um fjöldamörg undanfarin ár. Það er raunar gerð breyting frá gildandi lögum, því þau binda þetta eingöngu við kaupstaði, en það finnst okkur, sem stöndum að þessari brtt., ekki eðlilegt, heldur eigi það blátt áfram að vera mannfjöldamarkið í sveitarfélagi, sem lagt er til grundvallar, en ekki það, hvort sveitarfélagið er kaupstaður eða kauptún. Ég mun svo, áður en ég lýk máli mínu, afhenda hæstv. forseta þessa till., en ætla að bæta fáum orðum við, áður en ég lýk máli mínu.

Það hefur verið vikið að því lauslega í þessum umr., að það sé eðlilegt og rök fyrir því að lögleiða gjaldskyldu um allt landið, vegna þess að samkv. þessum till., sem hér eru til umr. í frv.-formi, á meiri hlutinn af tekjum, sem af skemmtanaskatti fást, að renna til félagsheimilanna. Ég tel ekki rétt að ræða málið sérstaklega á þeim grundvelli. Skemmtanaskatturinn er almennt gjald, sem lagt er á af hálfu ríkisvaldsins, svipað og önnur almenn gjöld, sem í ríkissjóð falla. Því er náttúrlega ekki að neita, að um langt árabil rann skemmtanaskatturinn eingöngu til Þjóðleikhússins, allt frá 1927–1947. Það var gert til þess að gera þetta átak að koma upp þessari menningarstofnun. Þessi menningarstofnun er eign þjóðarinnar og hennar njóta vissulega allir landsmenn. Þó er ekki hægt að neita því, að íbúar þess sveitarfélags eða höfuðborgarinnar, þar sem þessi menningarstofnun er og starfar, hafa bezta aðstöðu til þess að njóta þess, sem þar fer fram. Ef ætti að fara að skoða þetta frá sjónarhóli einstakra sveitarfélaga, þá er það mestur ávinningur fyrir höfuðborgina, að slík menningarstofnun komst upp og starfar. Fólk víðs vegar að af landinu er langdvölum í þéttbýlinu við nám í skólum og því um líkt, þar sem ekki er völ á að njóta þeirrar menntunar, sem það sækist eftir, nema í tiltölulega fáum sveitarfélögum, og þá stendur þetta fólk að vissu leyti undir þeirri tekjuöflun, sem þarna fer fram.

Ég vil eiginlega ekki ótilneyddur ræða þessi mál á þessum grundvelli, þó ég hafi vikið að þessu með fáum orðum. Hér er um menningarmál að ræða. Það þarf að líta til allra manna í þessu efni. Það má segja, að það væri a. m. k. fræðilegur möguleiki að binda ekki framlagið til félagsheimilanna við þennan ákveðna skatt. Það er fræðilegur möguleiki að greiða í Félagsheimilasjóð framlag úr ríkissjóði, ef menn vildu frekar hafa þann hátt á.

En til viðbótar því, sem ég hef nú tekið fram til stuðnings þeirri skoðun minni, að eðlilegasta málsmeðferðin nú sé að láta afgreiðslu þessara frv. bíða til næsta þings, kemur það, sem hv. 5. þm. Reykn. ræddi um og færði rök fyrir í sinni ræðu, að jafnvel þó þessi frv. verði samþ., þá er þetta tæplega nema til bráðabirgða. Hér vantar kvikmyndalög eða heildarlöggjöf um kvikmyndir, og sumir þeir, sem kunnugir eru kvikmyndahúsarekstri og hafa áhuga á því máli, hafa gefið mjög skýrar bendingar í þeim efnum í erindi til menntmn. Hv. 5. þm. Reykn. gerði þennan þátt nokkuð að umtalsefni og las upp kafla úr þessu erindi, þannig að ég skal ekki fjölyrða um það.

Þá er rétt, að n. reyndi eftir beztu föngum, á þessum fáu dögum, sem hún hefur haft þetta mál til athugunar, að gera sér grein fyrir því, hvaða fjárhagsgrundvöllur lægi eiginlega á bak við þetta, eða á hvaða fjárhagsgrundvelli þetta skemmtanaskattsfrv. hvíldi. En ég verð að segja, að þrátt fyrir viðleitni í þessu efni tel ég vanta mjög mikið á, að fullkomnar eða fullnægjandi áætlanir um ýmsa þætti þessa máls séu nú fyrir hendi.

Það er, eins og kom fram í ræðu formanns menntmn., ekki fyllilega ljóst, hve mikið fé sveitarfélögin hafa innheimt samkvæmt þeim reglugerðum, sem þau hafa fengið settar. Þetta eru tæplega 40 sveitarfélög, sem nú innheimta þennan skatt. Og það liggja engar áætlanir fyrir um það, svo mér sé kunnugt, hvað ætla má, að þessi útfærsla á gjaldskyldunni gefi mikið í auknum tekjum. En með því að gera sér eitthvað nánari grein fyrir því heldur en nú virðast vera tök á, þá væri auðveldara að meta málið annars vegar út frá því, hver efling þetta væri Félagsheimilasjóði, og hins vegar skoða það frá þeim sjónarhóli, hve mikið skattgjald hér væri um að ræða frá hinum ýmsu stöðum. Það virðast engin tök á því að kanna þetta núna í skyndi.

Enn kemur það til viðbótar, að ýmsir aðilar, m. a. félagasamtök, sem beita sér fyrir skemmtanahaldi úti í héruðum landsins, hafa ekki fengið tækifæri til þess eða aðstöðu til þess að senda umsagnir eða láta í ljós, hvorki við n. né við þingið, álit sitt á þessu máli. En yrði málinu nú frestað, þá mundi vissulega gefast ráðrúm til þess að leita álits ýmissa félagasamtaka, ég nefni sem dæmi Ungmennafélag Íslands, og jafnvel sveitarfélaga. Ég vil því vænta þess, þó þessi umr. fari fram nú, að samkomulag kunni að takast um það, að málsmeðferð verði þannig í reynd, eins og ég hef leitazt við að færa rök fyrir að ég teldi skynsamlegt.

Ég viðurkenni þessa fjárhagserfiðleika félagsheimilanna, en þeir hafa ekki orðið til núna á síðustu vikum, og ég endurtek það, sem ég sagði í upphafi, að ég fæ ekki séð, að það ráði neinum úrslitum gagnvart þeim, hvort þetta mál er lögfest nú í lok apríl eða tekið upp aftur síðar á þessu ári, þá eftir nánari athugun og meiri undirbúning en nú hefur farið fram.

Ég hef vikið að því, að samkvæmt þessu frv. um skemmtanaskatt á að afnema lögin frá 1918, sem heimila sveitarfélögum að fá settar reglugerðir um að innheimta skemmtanaskatt í sveitarsjóð eða til sérstakra þarfa í sveitarfélagi. Hins vegar er gert ráð fyrir því í frv. að láta þær reglugerðir halda gildi sínu, sem áður hafa verið settar og skattar eru nú innheimtir eftir. Nú sé ég, að menn, sem mynda meiri hl. menntmn., leggja til í sérstakri brtt., að þessi heimild eða þessi réttur til að innheimta samkv. reglugerðum, sem í gildi eru nú, verði niður felldur. Það leiðir af því, sem fram hefur komið í mínu máli, að ég vil binda gjaldskyldu skemmtanaskatts til ríkisins við 1500 íbúa í sveitarfélagi eða fleiri, að ég get ekki fylgt þeirri brtt. að afnema þennan rétt, sem þegar er fyrir hendi. Það leiðir af því, að ef mín brtt. verður samþ., þá er það alls kostar eðlilegt, að þessi réttur haldist áfram. Þetta er efnislega á móti því, sem ég hef látið í ljós um skoðun mína á málinu.

Ég mun nú afhenda hæstv. forseta þessa brtt. Hún er skrifleg og of seint fram komin og ég vænti þess, að leitað verði afbrigða um hana, og hér er um svo veigamikið efnisatriði að ræða, að það hlýtur að hafa áhrif á afstöðu mína til málsins, hvort hún verður samþ. eða ekki.