11.12.1969
Neðri deild: 23. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

123. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það um nýja tollskrá, sem hér liggur fyrir hv. d., er afleiðing af fyrirhugaðri aðild Íslands að Fríverzlunarbandalagi Evrópu og má því segja, að það sé að nokkru leyti fylgiplagg með till. þeirri, sem ríkisstj. hefur lagt fram á Alþ. um aðild að EFTA. Í grg. frv. eru því gerð rækileg skil hvaða meginbreytingar felast í frv., og með hliðsjón af því, að tími er nú naumur, – en nauðsynlegt er að koma þessu frv. áleiðis, þannig að það geti orðið afgreitt áður en þinghlé hefst — þá mun ég reyna að stytta mjög mál mitt hér við þessa umr. og aðeins gera grein fyrir höfuðatriðum frv, og jafnframt, eins og ég skýrði frá við 2. umr. fjárl., gera grein fyrir fjárhagsdæminu, eins og það liggur fyrir, því að jafnhliða þessu frv. verður útbýtt hér nú frv. til l. um breytingu á l. um söluskatt, sem felur í sér þær ráðstafanir, sem ríkisstj. hyggst gera til þess að jafna þessi met.

Það er alllangt síðan hafizt var handa um breytingu á tollskránni, eða raunar snemma á þessu ári, en það gefur auga leið, að það var ekki auðið að vinna nema viss undirbúningsverk í því sambandi, fyrr en umr. um EFTA þokaði það áleiðis, að ljóst yrði, hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla í sambandi við tollamál, til þess að þeir aðildarsamningar næðust. Þar sem fram hafa komið raddir um það, að það sé óverjandi, hvað þetta frv. um tollskrána kemur seint fram, þá vildi ég láta þetta koma fram: að af hálfu rn. hefur undirbúningsvinna að þessu máli verið í gangi með mjög eðlilegum hætti og var hafin snemma á þessu ári, en það þurfti að gera flokkun á EFTA–vörunum sérstaklega og það varð því að vera ljóst, hverjar þær vörur væru, áður en hægt var að ganga frá frv. endanlega. Auk þess hefur verið lögð á það rík áherzla við undirbúning málsins, að hafa um það samstarf fyrst og fremst við samtök iðnrekenda, sem málið varðar langmest, og hafa óskir af hálfu þeirra um ýmiss konar breytingar og það veigamiklar, verið að berast alveg fram til síðustu stundar að segja má, þannig að ógerlegt var að ganga frá málinu fyrr, en þau atriði öll höfðu verið grandskoðuð. Með þessu er ég ekki að bera neinar sakir á samtök iðnrekenda. Það var eðli málsins samkv., að þeir þurftu að íhuga sitt mál. Það hafa verið athuganir í gangi í allt sumar um aðstöðu iðnaðarins og því eðlilegt, að þeir óskuðu eftir því, að þessi skoðun færi fram.

Það var tollamálanefnd fjmrn., sem er fastanefnd og sem í eiga sæti fulltrúar bæði frá fjmrn. og frá viðskrn. og frá ýmsum hagsmunasamtökum, þ.á.m. frá Félagi ísl. iðnrekenda og Verzlunarráði Íslands, sem kannað hefur allt þetta mál og haft á hendi alla vinnu við það í einstökum atriðum, þó að meginlínurnar hafi að sjálfsögðu verið lagðar af ríkisstj. í sambandi við undirbúninginn að EFTA. Það er öllum hv. þdm. mjög kunnugt, hversu aðflutningsgjöld eru stórkostlegur hluti af tekjum íslenzka ríkisins og miklu meiri hluti heldur en í tekjum nokkurra nálægra landa, því að það er gert ráð fyrir því, miðað við fjárlagafrv., eins og það liggur fyrir nú, að um 30% af heildartekjum ríkissjóðs séu tekjur af aðflutningsgjöldum. En í öðrum löndum mun þetta vera innan við 10%, alls staðar sem við þekkjum til og víða ekki nema 2–3%.

Það komu vitanlega fram ýmsar óskir um það, að gera breytingar á tollskránni almennt og þá sérstaklega lækka hæstu tollflokka, sem að hefur verið stefnt með tollalagabreytingum síðustu ára. Þetta þótti ekki fært að gera og í rauninni er ekki svigrúm til þess, nema að framkvæma þá viðbótarhækkun á söluskatti, sem ekki var talið gerlegt að gera nú, heldur yrði að takmarka hækkun hans sem mest við það, sem óumflýjanlegt væri vegna aðildarinnar að EFTA. Hitt er ljóst mál, að það verður ekki svo lengi áfram haldið að gera jafnmikinn mun á tollum, eins og hér er gert, því að þegar menn tala um hátollavörur, verða menn að horfast í augu við það, að hér er auðvitað í fjöldamörgum tilfellum langt í frá, að um neinar lúxusvörur sé að ræða, þó að það hafi verið flokkað undir þennan flokk, heldur vörur, sem eru mjög mikilvægar í notkun hverrar fjölskyldu í landinu, svo sem ýmiss konar heimilisbúnað og búsáhöld og ótal margt annað, sem er í óeðlilega háum tollflokkum. Að sjálfsögðu verður innan tíðar að reyna að lækka þessa hæstu tolla, þó að það hafi verið gert allverulega með þeim tollalagabreytingum, sem gerðar hafa verið á undanförnum árum.

Meginbreytingin í þessu frv., sem raunar hefur verið gerð grein fyrir í sambandi við aðildina að EFTA, er sú, að allar vörur, sem fluttar eru frá EFTA–löndum og eru af EFTA–uppruna, eru lækkaðar um 30% í samræmi við samninginn, sem náðst hefur við EFTA–löndin. Enn af hálfu iðnrekenda var lögð mikil áherzla á það, að almenna reglan varðandi hráefni yrði sú, að þau yrðu lækkuð að meðaltali um 50% og má segja, að þeirri meginreglu sé fylgt. Þess ber þó að geta, að í ýmsum tilfellum er þetta ekki gert, bæði vegna þess, að það er um blandaðar vörur að ræða, sumt er hráefni og annað er selt á almennum markaði, sem notkunarvara til annars en iðnaðar og enn fremur og þó veigameira atriði er það, að við athugun á aðstöðu iðnaðarins sjálfs kom í ljós, að það var ekki hægt að framkvæma þessa tollalækkun alls staðar, þar sem um margþættan iðnað var að ræða, svo sem fataiðnað. Þetta er ekki vegna andstöðu af hálfu rn., heldur vegna þess, að það var ekki hægt, þar sem voru kannske fjórar greinar iðnaðar, þar sem hver tekur við af annarri. Það er allt frá lopabandi og upp í föt og þetta skiptist í fjóra flokka. Þá var ekki hægt að ná saman endum, nema með því að lækka hráefnin minna, heldur en til stóð og var það gert í fullu samráði við iðnrekendur.

Þá er það, eins og menn sjá, meginstefna frv., að það eru almennt ekki lækkaðar vörur nema frá EFTA–löndum og það er í samræmi við EFTA–samkomulagið. Þess vegna kemur inn í tollskrána sérstakur EFTA–tollur, sem mun verða í notkun framvegis á þeim vörum, sem eru EFTA–vörur og til þess að gera mönnum auðveldara um samanburð, er einnig sett inn í frv., sem að sjálfsögðu verður tekið út úr l., við hvern einasta tollflokk, hver núv. tollur er, þannig að þetta auðveldar mönnum ákaflega allan samanburð. Hins vegar er það að segja um hráefnin, að þau eru almennt lækkuð, eins og ég sagði, um 50% og eru þau lækkuð frá öllum löndum hvaðan sem þau eru keypt. Þá hafa almennt verið lækkaðir tollar á iðnaðarvélum, sem hafa verið háðar miklu hærri tollum heldur en vélar í flestum greinum landbúnaðar og sjávarútvegs. Er gert ráð fyrir, að þessar vélar iðnaðarins fari almennt niður í 7% toll, sem er mjög veruleg lækkun. Mundi þá verða fullt samræmi milli véla allra atvinnuveganna að þessu leyti.

Þetta eru þær tollalækkanir, sem sérstaklega snerta aðildina að EFTA, en hins vegar hefur í sambandi við þetta mál þótt óumflýjanlegt að ganga til móts við óskir iðnaðarins að öðru leyti. Það er í tveimur efnum, sem meginmáli skipta. Annars vegar það, að vélatollalækkunin gildi fyrir þær vélar, sem fluttar hafa verið inn frá því að gengisbreytingin nú í lok árs 1968 var gerð og verði þá endurgreiddur mismunurinn af þeim tollum iðnaðarvéla, sem sérstök heimild er veitt til. Og í annan stað verði einnig endurgreiddur tollur af hráefni til iðnaðarins, sem keypt er eftir 1. desember og fram til 1. marz n.k. Það er gert til þess að ekki þurfi að verða nein stöðvun á innflutningi iðnaðarvarnings, en hins vegar er ljóst, að ógerlegt yrði að hafa á markaðnum vöru, sem framleidd væri þannig úr ódýrara hráefni, heldur en á að koma til eftir þennan tíma. Þetta eru þau meginatriði í fljótu bragði, sem snerta aðildina að EFTA.

Ég vil hins vegar geta tveggja atriða, sem skipta miklu máli í þessu sambandi. Í fyrsta lagi er sérstakt heimildarákvæði, sem sett er inn í sambandi við nýjan iðnað, sem kynni að verða settur á laggirnar nú á næstunni. Þar er gefin heimild til að fella niður gjöld af vélum og tækjum, sem þarf til þessara nýju iðngreina, ef þar er um veigamikinn iðnað að ræða, annað hvort útflutningsiðnað eða iðnað, sem keppir við ótollverndaðan innflutning. Í öðru lagi vil ég benda á það, að heimild mun verða notuð svo ríflega sem kostur er á, sem hefur raunar verið í gildandi tollskrá, en verður raunhæfari núna – til að endurgreiða í ýmsum tilfellum tolla af vörum, sem almennt eru í hærri tollflokki, en eru notaðar til framleiðslu á öðrum vörum og á þá ekki hér sízt hlut að máli vélaiðnaðurinn í landinu, vegna þess að það er ljóst, að þessi almenna lækkun á vélum hefur þau áhrif, að aðstaða vélaiðnaðarins innanlands verður mjög erfið. En hins vegar eru margir hlutir, sem fara í vélar, sem hafa almennt notagildi og er því ógerlegt að lækka almennt, heldur verður að hafa þessa aðferð, sem er hér heimild í tollskránni til að endurgreiða vörur og hráefni í slíkum tilvikum, til þess að ekki skapist þarna misræmi og ekki verði hindruð samkeppnisaðstaða járnvöru– og vélaiðnaðarins að þessu leyti.

Það eru í rauninni ekki nema tvær veigamiklar tollabreytingar, sem gerðar eru utan EFTA–aðildarinnar. Það er annars vegar í sambandi við pappír og bókagerð. Það hefur lengi verið vandamál og áður að því vikið í sambandi við tollskrárbreytingar, að nauðsynlegt væri að laga það, vegna þess að íslenzk bókagerð hefur, ef svo má segja, öfuga tollvernd. Þ.e.a.s. það eru ótollaðar innfluttar bækur, en hins vegar töluverður tollur á pappír og því, sem til prentverks þarf. Sömuleiðis hafa verið mörg vandamál í sambandi við umbúðaiðnaðinn, ýmsir erfiðleikar á framkvæmd þess, að hann geti verið með eðlilegum hætti og árekstrar og þetta mál allt er tekið til meðferðar nú og heildarlausnar, sem við teljum vera endanlega á þessu vandamáli. Þetta hefur að vísu kostað mjög mikið fé eða samtals þessar vörur og lækkun, sem gerð hefur verið jafnhliða á rafhitunartækjum, til þess að auðvelda það, að hægt væri að taka upp rafhitun húsa, sem hefur mikið verið um rætt og er að sjálfsögðu mikilvægt atriði. Þau eru færð niður í sama tollflokk og olíukyndingartæki. Og í þriðja lagi hefur komið í ljós, sem skiljanlegt er, að það er ómögulegt að aðgreina timbur, sem er notað af iðnaðinum og annað timbur, sem fer almennt til húsbygginga og annarra nota, þannig að það þótti óumflýjanlegt að framkvæma heildarlækkun á timbri og er sú lækkun 30%. Þetta allt kostar um 40 millj. kr., þannig að þarna er töluvert, sem ríkið missir af tekjum, en þótti hins vegar óumflýjanlegt að framkvæma.

Þá eru taldar upp ýmsar aðrar breytingar, sem þarna eru gerðar meira til samræmingar. Það eru auðvitað stöðugt að koma upp í sambandi við tollskrána meiri og stærri vandamál, sem þurfa úrlausnar við og hafa þau eftir atvikum verið tekin hér til meðferðar, auk þess sem ný mál koma upp. Nefni ég þar t.d. minkaræktina, sem margir hafa áhuga á. Það hefur verið mjög hár tollur á innfluttum minkum, en til þess að koma þessari atvinnugrein á, þótti óumflýjanlegt að fella niður þennan toll. Þá nefni ég aðeins sem dæmi, að það hefur verið í lögum heimild til þess að lækka öll gjöld af heilum, innfluttum dráttarbrautum, sem er mjög einkennilegt ákvæði og erfitt að skilgreina og hefur í framkvæmd reynzt nánast lítt gerlegt að túlka þetta af neinni skynsemi og þess vegna hefur þessi heimild verið útvikkuð, svo að hún væri framkvæmanleg.

Aðrar heimildir, sem hér eru nákvæmlega tilgreindar, bæði í hinni sérstöku grein, sem heimildirnar felast í og svo í grg., eru þannig að hér er tiltekið alveg sérstaklega hvaða atriði það eru, sem hér hafa orðið fyrir breytingum, þannig að mönnum á að vera mjög auðvelt að bera þetta saman. Ég held ekki, herra forseti, að varðandi tollskrána sjálfa, nema fsp. berist um það, sé ástæða til að ég reki þetta nánar. Það er að sjálfsögðu margt, sem mætti segja til skýringar frekar, en það tæki allt of langan tíma og verð ég að láta nægja að drepa á þessi meginatriði, en ætla þá að leyfa mér að víkja næst að því, hvaða áhrif þetta hefur á tekjur ríkissjóðs og hvernig það heildarvandamál stendur.

Í frv. sjálfu er þess getið, að á heils árs grundvelli sé gert ráð fyrir, að tekjutapið verði 495 millj. kr. Á EFTA–vörunum sérstaklega 245 millj., vegna lækkana á hráefnum og vélum 180 millj. og lækkana á öðrum vörum 40 millj. kr. Við þetta bætist svo endurgreiðsla á vélatollum, sem er ekki gott að segja hver er, en við höfum við lauslega athugun talið, að mundi verða um 25 millj. kr. af vélum, sem innfluttar eru eftir að gengisbreytingin varð og fram til gildistöku þessara 1. og endurgreiðsla af hráefnum, sem við höfum áætlað, að yrði um 15 millj. kr., þannig að þetta næmi þá alls 505 millj. kr., að viðbættum tekjumissi á tveimur mánuðum ársins 1970, en við gerum ráð fyrir, að stöðvun verði þá á innflutningi þessara vara að verulegu leyti. Við höfum áætlað, að sá tekjumissir næmi um 30 millj. kr. Við það er miðað, vegna þess að fyrri talan er miðuð við innflutninginn 1969, en þær 30 millj., sem hér hafa bætzt við, er sú aukning innflutnings, sem áætlað er í fjárlagafrv. fyrir árið 1970, að eigi sér stað á því ári, þannig að sjálfsögðu verður þá að draga frá, hvað lækkunin á EFTA–vörunum, sem þar er gert ráð fyrir, mundi nema miklu. Þetta yrðu sem sagt 535 millj. kr.

En hér eru ekki öll kurl til grafar komin og verður því að bæta við þessa upphæð allstórum fjárhæðum. Í fyrsta lagi er þess að geta, að ákveðið hefur verið að greiða niður söluskattshækkunina á kjöti og smjöri. Það er ekki söluskattur á mjólk, þannig að það hefur ekki áhrif á hana, en það verður greidd niður verðhækkunin á kjöti og smjöri, sem er áætlað, að muni kosta um 30 millj. kr. Þá er gert ráð fyrir því, að fella niður leyfisgjald bifreiða að fullu. Það er nú 60%, en gert er ráð fyrir, að leyfisgjaldið verði fellt niður. Það hefur verið tiltölulega lítill bílainnflutningur á þessu ári, miklu minni en var áður og tekjur af þessu gjaldi í ár verða sennilega ekki nema um 35 millj. kr., en í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því aftur á móti, sem sennilega ekki hefði verið óraunhæft, þó að gjaldinu hefði verið haldið, að 50 millj. kr. tekjur yrðu af þessu gjaldi árið 1970. Við hins vegar reiknum með því, að þetta hafi ekki áhrif og ég geri ekki ráð fyrir neinum tekjumissi í sambandi við þessa niðurfellingu, heldur mundi þetta skila sér í auknum bílainnflutningi, þannig að þessar 50 millj. gengju þá út og inn og hefðu ekki áhrif á dæmið. Þá er gert ráð fyrir því að hækka ellilífeyri og þær bætur, sem fylgja þeim lífeyri, þannig að það yrði haft sem viðmiðun, sem samið var um við verkalýðsfélögin á s l. ári, þ.e.a.s. 8.800 kr. á manninn og það hvernig ákvörðuð eru laun hans, þannig að bættur verði upp sá munur, sem nú er á ellilífeyri og skyldum bótum og þeim launum, sem verkafólk hefur fengið með þessum samningum. Þarna er töluverður munur á. Eins og ég gat um í ræðu minni við fjárlagaumr., þá hafa þessar bætur í heild haldið fullkomlega verðgildi sínu, miðað við framfærsluvísitölu yfir 10 ára tímabil, en kaupmáttur þeirra hefur lækkað verulega og dregizt aftur úr seinni partinn á þessu ári. Það er fyrst nú á þessu ári, sem það er, en miðað við að koma þessu fólki aftur í sömu aðstöðu, hvað þetta snertir hlutfallslega, þá mundi það kosta um 54 millj. kr. á eins árs grundvelli. En það er að sjálfsögðu ekki nema hluti af þessu, sem ríkið þarf að standa undir, því að það skiptist með eðlilegum hætti lögum samkv. milli hinna ýmsu aðila.

Þá eru enn óleyst ýmiss konar vandamál. Í fyrsta lagi að jafna 87 millj. kr. halla, sem er á fjárlagafrv. við 2. umr. og sömuleiðis hafa verið geymdir ýmsir liðir, sem enn hefur ekki verið tekin afstaða til. Iðaþróunarsjóðurinn t.d., hann fær 11 millj. kr. framlag af Íslands hálfu á þessu ári, verði aðildin að EFTA raunhæf og þá upphæð í 4 ár og svo eru ýmsir aðrir liðir, sem skipta nokkrum millj. Þetta eru stærstu liðirnir, sem ég hef hér talið og munu koma til meðferðar fyrir 3. umr. Verður að sjálfsögðu í dæminu í heild, þegar það er gert upp, að reikna með þessu. En mér þykir ekki ósennilegt, að alls muni þessar hækkanir á útgjöldum fjárlaga geta farið upp undir 250 millj. kr. og er þá innifalinn í því sá 87 millj. kr. halli, sem þegar er kominn fram. En dæmið í heild mundi þá líta þannig út, að tekjumissirinn plús fjárlagavandamálið mundi kosta um 780 millj. kr. á árinu 1970.

Ég hef hér tekið þetta dæmi brúttó, til þess að það yrði auðveldara til samanburðar við þær tölur, sem notaðar hafa verið, svo ekki sé hægt að segja, að það sé verið að villa um fyrir mönnum og þetta gerir málið skiljanlegra. En við gerum ráð fyrir því, enda þótt hér verði að sjálfsögðu töluverð röskun á öllu við það að breytingar verða, eftir að tveir mánuðir ársins eru liðnir, að það dragi mjög úr innflutningi fyrstu tvo mánuðina, sérstaklega á öllum þeim vörum, sem tollabreytingar verða á og ekki komi til neinn innflutningur að ráði á þeim tíma, nema þá hráefnum, sem heimilt er að endurgreiða tolla af. Hitt væri áhætta, sem menn leggja naumast í, en það eru engu að síður gert ráð fyrir því í okkar dæmi, að innflutningurinn skili sér til fulls á þessum 10 mánuðum og við höfum talið vera gerlegt að gera ráð fyrir auknum innflutningi, að nokkru vegna tollalækkananna, sem næmi 30 millj. kr. auk þess, sem eru unnir upp þessir tveir mánuðir, þegar stöðvun yrði að verulegu leyti á innflutningi EFTA–vara. Þá höfum við jafnframt gert ráð fyrir því, að hugsanlegt væri, án þess að maður viti nokkuð um það, að a.m.k. fyrst mundi töluverður innflutningur verða á þessum vörum frá öðrum löndum en EFTA–löndum, en ekki allur innflutningurinn færast þar yfir og hef ég gert ráð fyrir, að það gætu orðið um 60 millj. kr. Og í þriðja lagi, að það gæti orðið einhver innflutningur EFTA–vöru í janúar og febrúar, sem ég hef gert ráð fyrir, að gæti numið um 35 millj. kr. Þetta mundu verða 125 millj. kr. samtals.

1% viðbót við söluskatt gefur ríkissjóði nettó á ársgrundvelli 220 millj. kr., miðað við þá viðskiptaveltu, sem reiknað er með í fjárl. 1970. En þar er að sjálfsögðu við þann vanda að glíma, að söluskatturinn með núverandi innheimtuaðferðum mundi ekki skila sér nema fyrir tvo ársfjórðunga, þannig að annað hvort yrði hér að koma til stórkostleg hækkun söluskatts, til þess að ekki yrði stórhalli á árinu, eða þá að það verður að breyta fyrirkomulagi á innheimtu söluskatts að einhverju leyti og innheimta hann hraðar, eins og ég mun ræða nánar í sambandi við söluskattsfrv., sem að sjálfsögðu er mjög æskilegt að geta gert af mörgum ástæðum, ekki sízt eftir að hann hækkar, eins og nú er gert ráð fyrir. Þess vegna hef ég áætlað nokkuð djarft fyrir innheimtu á söluskatti á árinu, til þess að ná saman endum, gerandi ráð fyrir, að hægt væri að framkvæma þessar breytingar. En till. um hækkun á söluskatti er sú, að gert er ráð fyrir, að hann hækki um 3.5%, þ.e.a.s. úr 7.5% í 11 %. Söluskattur hefur hér ekki verið hækkaður í 5 ár, og eins og ég hef oftlega áður vikið að, er það beinlínis vegna þess, að gert hefur verið ráð fyrir því, að tollabreytingar stæðu fyrir dyrum og þá yrði óumflýjanlegt að fara inn á þá braut að breyta söluskattinum, til þess að vega upp það fjárhagsvandamál, sem þá skapaðist. Þessar tölur ganga nokkurn veginn upp, eins og menn sjá, þannig að það er ekkert svigrúm til þess að auka útgjöld ríkissjóðs með neinum hætti, hvorki með auknum tollalækkunum né heldur með auknum útgjöldum, fremur en þeim, sem ég hef hér gert grein fyrir og ég get fullvissað hv. þm. um það, að það hefur verið reynt af fullum heiðarleika og svo sem beztu menn hafa getað áttað sig á, að gera sér grein fyrir því, hvernig þetta dæmi allt saman kæmi út. Ég skal taka það sérstaklega fram hér, að það er ekki ætlunin að breyta hluta sveitarfélaga af söluskatti og verðtolli. Svo sem mönnum er kunnugt, fá sveitarfélögin í sinn hlut 5% af verðtolli og 8% af söluskatti, þannig að hér mundi geta orðið um að ræða 30–40 millj. kr. tekjuaukningu fyrir sveitarfélögin, en bæði með hliðsjón af því, að það er gert ráð fyrir, að nokkrar álögur verði á þau lagðar með bjargráðasjóðsfrv., sem hér liggur fyrir og í öðru lagi vegna hækkunar á ellilífeyri, sem fellur einnig nokkuð á sveitarfélögin, þá hefur ekki þótt ástæða til þess að vera að hagga þessum tölum, þar sem þær skipta ekki meginmáli.

Ég held, herra forseti, að ég hafi mál mitt ekki lengra að sinni, nema sérstakt tilefni gefist til, en er að sjálfsögðu reiðubúinn til að svara fsp., ef þess er óskað. Ég vildi leyfa mér að fara þess á leit, að lögð yrði áherzla á að hraða þessu máli. Það er, eins og ég sagði, óumflýjanlegt margra hluta vegna að fá það afgreitt, áður en jólaleyfi hefst. Það er búið að vinna í þessu mjög vendilega, eins og ég sagði, í samráði, þó að ekki kunni þar allir að vera á einu máli. Það verður aldrei svo. En þetta mál hefur verið skoðað mjög rækilega niður í kjölinn og sérstaklega verið höfð mjög náin samvinna við iðnrekendur. Ég er ekki með þessu að segja, að þeir séu ánægðir með allt, sem hér stendur. Eftir atvikum hygg ég það þó vera, að það hefur verið gengið til móts við allar þeirra meginóskir, við þessar breytingar hér. Að öðru leyti er hér um að ræða mörg tæknileg atriði og ef menn ætluðu að fara að setja sig inn í þau öll, sem ég hygg, að hafi nú aldrei verið gert hér sérstaklega, þá er það geysileg vinna, sem í því er fólgin. Það kann að þykja óbilgirni að ætlast til, að þetta sé gert með þessum hætti, en það mundi skapa mjög mikil vandræði viðskiptalega að hafa tollskrána opna, án þess að menn hafi fullkomna vissu um það, hvernig tollar endanlega verða. Það þarf ekki að útskýra það fyrir hv. þdm. hvaða öryggisleysi það mundi skapa í viðskiptalífinu, ef það ætti að standa svo, jafnvel fram í febrúar. Þess vegna vildi ég leyfa mér að fara fram á það við hv. fjhn. þessarar hv. d., að hún taki frv. þetta til meðferðar strax að umr. lokinni og jafnframt, að samvinna verði höfð, eins og raunar alltaf hefur verið venja með mál eins og tollskrá, milli fjhn. beggja d., þannig að n. gætu upp úr næstu helgi skilað áliti sínu um frv. Sérfræðingar þeir, sem að þessu hafa unnið, eru að sjálfsögðu reiðubúnir til samstarfs og að veita n. upplýsingar, eftir því sem hún telur þörf á vera, jafnframt því, sem ég að sjálfsögðu er reiðubúinn til þess að leggja þar til mitt lið, eftir því sem óskað verður.

Ég legg svo til, herra forseti, að, að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.