25.04.1970
Efri deild: 79. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (2000)

215. mál, skemmtanaskattur

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða um efni þessa máls nú, en ég vildi skjóta því til hæstv. forseta, hvort það væri ekki rétt að fresta þessari 3. umr. fram yfir helgina. Það var bent á það við 2. umr. þessa máls, að það hefði fengið heldur flausturslega meðferð, og þar voru talin upp æðimörg atriði, sem ekki höfðu fengizt svör við, og einnig að það hefðu ekki verið til kvaddir þeir aðilar, sem þó hefði verið eðlilegt að ræða við. M. a. tók ég eftir því, að það hafði ekki verið rætt neitt við kvikmyndahúsaeigendur hér í Reykjavík, en það er vitað mál og því er lýst yfir, að þetta frv. sé fyrst og fremst flutt til þess að greiða fyrir þeim.

Þegar þess er gætt, að þessi kvikmyndahús, sem hafa þurft að greiða skemmtanaskatt, hafa að því er talið er verið rekin með umtalsverðu tapi á s. l. ári a. m. k., og þegar þess er gætt, að skattgjaldið af þeim á að lækka um 12½%, — en jafnframt verður að gæta þess, að þar frá verður í raun og veru að draga þá 4% hækkun söluskatts, sem orðið hefur, þannig að raunveruleg lækkun á skattgjaldi þessara fyrirtækja er nú ekki nema 8½%, — þá fyndist mér ekki úr vegi, einkanlega með tilliti til þeirrar ályktunar, sem þeir hafa sent frá sér og hér var lesin upp, þar sem þeir fóru fram á það, að skemmtanaskatturinn væri með öllu niður felldur, að kannað væri með viðræðum við þá, hvort þeir telja þetta nokkra lausn á sínum málum. Ef sú væri raunin á, að þeir teldu þetta alls enga lausn, er þá ástæða til þess að vera að sulla þessu máli hér í gegn með þeim hætti, sem hér er gert, á síðustu dögum þingsins og án þess að nokkur athugun fari fram á málinu? En eins og kom reyndar greinilega fram í þeirri ræðu, sem hæstv. menntmrh. hélt um þetta mál við 1. umr., þá eru æðimörg efnisatriði í þessu frv., sem full ástæða er til að velta fyrir sér. Hins vegar sér maður ekki beint aðra knýjandi ástæðu, sem færð hefur verið fram fyrir þeim hraða, sem hafður er á málinu, heldur en þessa, að bjarga kvikmyndahúsunum úr sínum vandræðum. En ég get ekki betur séð en að forsendan fyrir þessu frv. væri eiginlega fallin, ef það kæmi nú á daginn, að þau teldu þetta enga lausn.

Ég held þess vegna, að þetta mál hefði ekki illt af því að vera athugað örlítið betur. Og í öllu falli finnst mér að það væru skynsamleg vinnubrögð, að forseti frestaði þessari umr. fram yfir helgina, þannig að n. gæfist nokkurt tóm til að athuga málið og til þess að bera sig saman við hæstv. menntmrh., en málið er flutt að hans beiðni. Hann hefur þó vegna anna annars staðar ekki getað verið viðstaddur umræður um málið í þessari hv. d., og það er þó lágmarkskrafa, sem gera verður til ráðh., að þeir fylgi málum sínum eftir með þeim hætti, að þeir séu viðstaddir í málstofunum, þegar umr. fara fram um þau.

Ég get tekið undir með hv. 2. þm. Austf., ég ætla ekki að fara að gera þetta að neinu kappsmáli, en ég vildi aðeins skjóta þessu til hæstv. forseta.