28.04.1970
Neðri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (2010)

215. mál, skemmtanaskattur

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed., sem gerði smávægilegar formbreytingar á frv. eins og það var lagt fram, en engar efnisbreytingar.

Í þessu frv. felst það fyrst og fremst, að gert er ráð fyrir lækkun skemmtanaskatts af kvikmyndasýningum úr 27.5% í 15%. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að síðan sjónvarpssendingar hófust á Íslandi, hefur aðsókn að kvikmyndahúsum minnkað stórlega og nú mun vera svo komið, að óhætt er að fullyrða, að kvikmyndahúsarekstur á Íslandi er rekinn með tapi. Við svo búið getur að sjálfsögðu ekki staðið.

Skemmtanaskattur af kvikmyndahúsum, eins og annar skemmtanaskattur, hefur runnið til þriggja aðila. 45% hans hafa runnið til að greiða hallarekstur Þjóðleikhússins, 45% hafa runnið til að styrkja byggingu félagsheimila og 10% hafa runnið til að greiða hluta af hallarekstri sinfóníuhljómsveitarinnar. Ef skemmtanaskatturinn yrði lækkaður úr 27.5% í 15%, þá gefur auga leið, að endurskoða þarf fjáröflun til þeirra þriggja stofnana, sem notið hafa tekna af skemmtanaskatti. Í þessu sambandi er þess líka að geta, að um langt skeið hefur það tíðkazt, að ákveðin kvikmyndahús njóti undanþágu frá greiðslu skemmtanaskatts, og var þeim undanþágum fjölgað mjög verulega, þar til fyrir u. þ. b. 10 árum, að hætt var að veita nýjum kvikmyndahúsum undanþágu frá skemmtanaskatti. Til eru skýrslur um árið 1968. Aðgangseyrir kvikmyndahúsa, sem greiða skatt, nam þá 39.6 millj. kr., en aðgangseyrir kvikmyndahúsa, sem ekki greiða skatt, nam þá 41.3 millj. kr. M. ö. o.: það voru fleiri, sem sóttu þau kvikmyndahús, sem ekki greiddu skatt, en þau, sem greiddu skatt. En aðgangseyririnn til kvikmyndahúsanna nam samtals 80.9 millj. kr.

Í þessu frv. felst það, að skemmtanaskatturinn skal, eins og ég gat um áðan, lækka úr 27.5% í 15%. Tekjur af skemmtanaskatti árið 1968 námu 10.9 millj. kr., en 15% skemmtanaskattur á því ári hefði numið 5.9 millj. kr. Gefur því auga leið, að gera verður sérstakar ráðstafanir til þess að bæta sérhverjum þeirra þriggja aðila, sem skemmtanaskatts hafa notið, tekjumissinn vegna þessarar lækkunar skemmtanaskattsins úr 27.5% í 15%. Niðurstaða ríkisstj. varð sú, að ríkissjóður skyldi framvegis, ef þetta frv. næði fram að ganga, taka að sér allan rekstur Þjóðleikhússins, þannig að Þjóðleikhúsið fengi framvegis engar tekjur af skemmtanaskatti. Tekjurnar skyldu fyrst og fremst renna í Félagsheimilasjóð, þ. e. a. s. 90% af tekjunum, en 10% af tekjunum skyldu renna eins og áður til sinfóníuhljómsveitarinnar.

Til þess að gera sér grein fyrir, hvaða breytingu þetta hefði haft í för með sér á árinu 1968, sem öruggar tölur eru til um, þá er þess að geta, að félagsheimilin fengu árið 1968 45% af 27.5% skatti, þ. e. a. s. 45% af 10.9 millj. eða 4.9 millj. kr. Félagsheimilin fengu því 1968 með því kerfi, sem gildir í dag, 4.9 millj. kr. Ef þetta frv. hefði verið orðið að lögum á því ári, þá hefðu félagsheimilin fengið 90% af 15% skatti, þ. e. a. s. 90% af 5.9 millj. kr. eða 5.3 millj. kr. Hin nýja skattprósenta hefur einmitt verið miðuð við þetta, að hvorki Félagsheimilasjóður né heldur sinfóníuhljómsveitin, sem áfram eiga að njóta góðs af skemmtanaskattinum, sköðuðust af, heldur að hagur þeirra batnaði lítið eitt. M. ö. o.: breytingin hefði að öllu óbreyttu haft í för með sér á s.l. ári hækkun á tekjum Félagsheimilasjóðs úr 4.9 millj. kr. í 5.3 millj. kr. Og gera má ráð fyrir, að líkt hlutfall gildi á þessu ári, þó að ekki séu til um það tölulegar upplýsingar. Sinfóníuhljómsveitin hefði fengið mjög svipaða upphæð, en ríkissjóður tekur að sér hlut Þjóðleikhússins og tekur þannig á sig þá heildartekjulækkun, sem af lækkun skemmtanaskattsins hlýzt.

Þá er í frv. gert ráð fyrir því, að skemmtanaskattur af öðrum skemmtunum haldist óbreyttur.

Í lögunum eru ákvæði um 1 kr. gjald á aðgöngumiða að kvikmyndahúsum og 2 kr. gjald á aðgöngumiða að dansleikjum, sem renna skuli í Menningarsjóð. Þessu gjaldi er nú breytt í hundraðshlutagjald af núgildandi aðgöngumiðaverði, þannig að krónutala þess breytist framvegis í samræmi við breytt aðgöngumiðaverð, en tekjur Menningarsjóðs hafa ekki aukizt af hækkuðu verði aðgöngumiða að kvikmyndahúsum eða að dansleikjum síðan þessi ákvæði voru tekin í lög.

Þá gerir frv. ráð fyrir því, að skemmtanaskattur af kvikmyndasýningum greiðist af öllum kvikmyndasýningum, þ. e. a. s. einnig þeim, sem nú eru undanþegnar skemmtanaskatti. Hins vegar er ákvæði um það í frv., að endurgreiða megi eigendum undanþágubíóanna skemmtanaskattinn með þeim skilmálum, að féð verði notað í því skyni, sem var ástæða undanþágunnar, þannig að ef rekstur þeirra kvikmyndahúsa, sem hér eiga hlut að máli, er með eðlilegum hætti, þá skaðast þau eða það málefni, sem þeim er ætlað að styðja, ekkert við samþykkt þessarar breytingar.

Þá gerir frv. ráð fyrir því, að skemmtanaskattur og menningarsjóðsgjald verði greitt alls staðar á landinu. En nú er sem kunnugt er ekki greiddur skemmtanaskattur til ríkisins á stöðum þar sem eru færri en 1500 íbúar.

Jafnframt þessu frv. var flutt frv. um breyt. á lögum um Félagsheimilasjóð, og gerði ég, ef ég man rétt, grein fyrir meginefni þess frv. í gær. Hér er í raun og veru um fylgifrv. þess að ræða. Þar er gert ráð fyrir að lögum um Félagsheimilasjóð verði breytt þannig, að leyfi menntmrh. þurfi til þess að hefja byggingu nýs félagsheimilis, ef það á að njóta byggingarstyrks frá sjóðnum, enda þurfi hann að staðfesta og samþykkja staðsetningu þess og teikningu. Miklu mikilvægara er þó hitt, að lögtekin eru sérstök ákvæði, til að greiða fyrir því, að Félagsheimilasjóður geti greitt þann hluta byggingarstyrks, sem enn er ógreiddur, til félagsheimila, sem ýmist er lokið eða eru í byggingu. Og það, sem gert er nú ráð fyrir, er það, að Félagsheimilasjóður fái heimild til að gefa út skuldabréf til allt að 15 ára með venjulegum vöxtum til greiðslu á styrk til þeirra félagsheimila, sem byggingu er lokið á eða eru í byggingu.

Gert er ráð fyrir að menntmrn. skuli að fenginni till. stjórnar Félagsheimilasjóðs gera áætlun um, hvernig væntanlegum tekjum sjóðsins skuli skipt milli félagsheimila og hversu þær skuli endurgreiða á skuldabréfum ásamt vöxtum, og skulu þá tekjur sjóðsins áætlaðar varlega. Það er gert ráð fyrir ríkisábyrgð á þessi skuldabréf, til þess að gera þau að gjaldmiðli til greiðslu á útistandandi skuldum þeirra félagsheimila, sem væntanlega munu fá þessi bréf frá Félagsheimilasjóði.

Að síðustu er þess að geta, að tekið er upp það nýmæli í frv., að 10% af tekjum Félagsheimilasjóðs skuli renna í Menningarsjóð félagsheimila og honum skuli varið til að stuðla að menningarstarfsemi í félagsheimilunum, en verulega hefur þótt á það bresta, að öll sú starfsemi, sem þar hefur farið fram, sé með nægilega miklum menningarbrag. Ætti það að auðvelda mjög heilbrigða menningarstarfsemi í félagsheimilunum, ef heimilt er að nota 10% af tekjum Félagsheimilasjóðs til þessara þarfa, en á árinu 1968 hefði hér orðið um rúma hálfa millj. kr. að ræða miðað við það fyrirkomulag, sem nú er lagt til.

Með þessu móti vona ég, að mér hafi tekizt að skýra meginatriði þessara tveggja fylgifrv., sem hér er um að ræða, og vil leyfa mér, herra forseti, að óska þess, að eftir 1. umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.