28.04.1970
Neðri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (2011)

215. mál, skemmtanaskattur

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt með því að lýsa undrun minni yfir því, hvernig staðið hefur verið að undirbúningi þessa máls. Þetta mál kemur til með að hafa meiri áhrif á skemmtanalíf og félagslíf almennings í landinu, a. m. k. úti í dreifbýlinu, heldur en undirbúningurinn gefur til kynna. Ég vil minna á það, að um áratuga skeið hafa það verið ungmennafélögin og æskulýðsfélög úti um landsbyggðina, sem hafa staðið fyrir samkomuhaldi þar. Það er því undrunarefni að enginn ungur maður skuli vera látinn koma nærri endurskoðun á þeirri löggjöf, sem til þess nær, heldur er þannig að málum staðið, að menntmrn. ákveður að fela fyrrv. hæstaréttardómara að semja frv. eftir sinni ósk. Þannig er frá þessu frv. gengið, að það var ekki fyrr en í framsöguræðu hv. menntmrh., sem upplýsingar komu um, hvaða niðurstaða kann að verða af þeirri breytingu, sem hér er lögð til. Þó er frv. ekki víðtækara en svo, að dæmið er aðeins gert upp varðandi kvikmyndahúsin. Aðrar breytingar er ekki lagt til að gerðar verði á þessari löggjöf.

Ég álít, að það sé nauðsynlegt fyrir hv. alþm. að gera sér grein fyrir því, hvað mikið starf ungmenna- og æskulýðsfélögin í landinu hafa unnið fyrir þjóðfélagið með því að sjá um samkomuhald og beita sér fyrir félagsstarfsemi. Og ég vil líka leggja áherzlu á það, að þarna hefur verið mikil sjálfboðavinna unnin. Þetta hefði ekki verið framkvæmanlegt, ef það hefði átt að reikna hverja vinnustund, sem í þetta hefur farið. Þrátt fyrir þetta er fólkið ekki virt meira en svo, að það er ekki talað við einn einasta mann frá félagssamtökum ungmenna í landinu eða íþróttasamtökunum í sambandi við þetta mál, heldur ákveður menntmrn. að breyta þessu í skyndi og leggja svo fyrir hv. Alþ. frv., sem er þannig frá gengið, að það er ekki einu sinni í sjálfu frv. hægt að fá upplýsingar um, hvaða áhrif það kann að hafa. Þetta frv. er, eins og fleiri frv., lagt fram á síðustu dögum þingsins, svo að þm. gefst lítill tími til þess að skoða það eða leita álits hjá kjósendum sínum úti um landið, sem þetta mál varðar þó mikið. Ég vil því segja, að þetta eru vinnubrögð, sem ekki á að viðhafa, og hér er stærra mál á ferðinni en svo, að það eigi að ganga þannig að því. Hér er stórt mál á ferðinni. Það er ekkert smámál, hvort hægt er að halda uppi félagsstarfsemi og skemmtanahaldi úti um byggðir landsins. Og það er ekkert smámál, að þannig skuli búið að æsku landsins, að hv. Alþ. taki á þessu máli á þann hátt, að æskan er ekki virt viðlits.

Ég vil líka benda á það, að fari svo, að sá áhugi, sem æskan í landinu hefur sýnt með slíkum aðgerðum sem þessum eða öðrum álíka í sambandi við félagsstarf og skemmtanalíf, verði drepinn niður, hvað gerist þá? Það getur ekki gerzt annað en að þessi starfsemi færist meir og meir yfir á herðar þeirra, sem sjá um sveitarstjórnarmál og um leið yfir á herðar almennings í byggðarlögunum. Sveitarfélögin verða þá að reka félagsheimili og kvikmyndahús úti um landsbyggðina með því að láta borgarana almennt leggja þeim til fé. Ef við töpum alveg niður sjálfboðaliðavinnunni og hættum að nota okkur áhuga æskufólksins í landinu til þessarar starfsemi, hlýtur það að leiða til þess. Svo mikils virði hefur það starf verið, sem æskan í ungmennafélögunum og öðrum slíkum félögum hefur unnið í sambandi við skemmtanahald og félagslíf úti um landsbyggðina, að því verður ekki hægt að mæta með öðru en fjárframlögum frá byggðarlögunum.

Það, sem hér er að gerast, er það, að hér er verið að létta skemmtanaskatti af kvikmyndahúsum, vegna þess að rekstur þeirra er svo bágborinn, að þau hafa ekki getað borið sig. Nú þurfti í sjálfu sér ekki lagabreytingu til að gera þetta, því skemmtanaskatturinn, eins og hann er nú samkv. lögum, er innheimtur með 200% álagi. Ef hæstv. menntmrh. hefði ákveðið að fella niður álagið, þá væri hægt að breyta þessu. Þess vegna var hægt að leysa þann þáttinn án þess að fara inn á það, sem hér er verið að gera.

En svo er annað í þessu frv., sem hæstv. menntmrh. taldi að vísu í ræðu sinni hér áðan, að skipti ekki verulegu máli, en það er það, að nú á að innheimta skemmtanaskatt af öllu samkomuhaldi í landinu. Að vísu gerði hv. Ed. nokkrar umbætur á frv. frá því, sem það var af hendi hæstv. menntmrh., þó þær séu langt frá því að vera nægilegar. Hæstv. ráðh. segir og það er rétt, að kvikmyndahúsin geti ekki haldið uppi starfsemi sinni núna eftir tvær gengisbreytingar og eftir að sjónvarpið fór að starfa. En samt leggur hæstv. ráðh. fram frv., sem gerir ráð fyrir því, að kvikmyndahús, sem ekki hafa áður greitt þennan skatt, eigi nú að greiða 15% skatt. Í frv. var gert ráð fyrir því, að úti um landsbyggðina yrði greiddur 15% skattur af kvikmyndasýningum, sem ekki hafa verið skattlagðar til þessa. Heldur hæstv. menntmrh., að þessir aðilar séu frekar færir um að greiða skattinn en hinir, sem kvikmyndahúsin reka? Þessu var breytt í Ed., ekki fyrir áhrif hæstv. ráðh., heldur hv. þm.

En það er fleira, sem þarf að breyta í þessu frv. Hæstv. ráðh. gerir ráð fyrir því, að af skemmtanahaldi eigi að greiða 20% skemmtanaskatt. Ég hef fyrir mér tölur um það, hvernig samkomurnar skila sér yfirleitt fjárhagslega, þ. e. þær sem haldnar eru úti um landsbyggðina. Það er alls ekki nein almenn tekjuöflunarleið að halda samkomur hér á landi. Ég hef tölur úr tveimur byggðarlögum, aðrar eru úr minni heimabyggð, en hinar eru norðan úr landi. Þessir aðilar gera báðir ráð fyrir því, að meðalsamkoma hjá þeim sé með um 150 manns. Dæmið norðan úr landi, frá Hvammstanga, sýnir, að þeir héldu sex samkomur í félagsheimili sínu s. l. ár og í heild skiluðu þær 12000 kr. hagnaði. Í Borgarnesi er selt fyrir 200 kr. á mann. Hljómsveitin kostar minnst 15 þús. kr. 5000 kr. verða þeir að greiða fyrir bifreiðina, sem flytur hljómsveitina upp eftir. Þarna eru komin 20 þús. Þeir verða að borga lögreglu, því það er tilskilið af yfirvaldi þeirra, að þar skuli vera fjórir lögreglumenn, og þeir taka 6000 kr. í greiðslu. Af þeim borgar ríkissjóður 1000 kr. Þarna eru komin 25 þús. kr. í kostnað af þessari samkomu.

Því miður sé ég, að hæstv. dómsmrh. hefur nú gengið út úr þd., en ég hefði nú gjarnan viljað fá upplýsingar frá honum í sambandi við löggæzlu á samkomum, sem mér virðist að sé ekki alls staðar eins varið.

Nú er það svo, að ef við tökum þau gjöld, sem á að greiða af þessari miðasölu, þessum 30 þús. kr., þá eru það 20%, sem á að greiða í skemmtanaskatt, 11% í söluskatt, 8% STEF-gjald og svo er það 3% gjald í Menningarsjóð. Þá eru komin 42%, sem þarf að greiða í skatta af aðgöngumiðasölu upp á 30 þús. kr. Og ef ég tek saman þessa kostnaðarliði, sem hér eru taldir, hljómsveitina 20 þús., löggæzluna 5 þús., svo er þeim áskilið að hafa 2 dyraverði og verða að greiða þeim 2 þús. kr. og svo auk þess 12 600 kr. í skatta, þá er kostnaðurinn við þessa samkomu orðinn 39 600 kr. En aðgangseyririnn er aftur 30 þús. kr. Þá er eftir að greiða auglýsingar, þá á eftir að greiða húsaleigu og þá á eftir að greiða öðru fólki, sem við þessar samkomur vinnur. Þetta verður þá að gerast með þeirri sælgætissölu, sem samkomuhúsin hafa, og öðru slíku.

Telur hæstv. menntmrh., að það sé framkvæmanlegt af Alþ. að setja lög, sem þannig búa að samkomuhaldi í landinu? Það þýðir ekki að halda því fram, að það sé hægt að bjarga þessum málum með því að hækka aðgangseyrinn að samkomunum, því það er farið að draga úr samkomuhaldinu vegna þess hve aðgangseyririnn er hár. Og það þýðir ekki heldur að halda því fram, að hér sé verið að fara með staðlausa stafi, vegna þess að það er algert lágmark að fá hljómsveit fyrir þetta gjald. Til þess að samkoma sem þessi standi undir sér, þarf hún að hafa um 250 samkomugesti. Og þó væru ekki eftir nema 3000 kr. upp í auglýsingar og vinnu annars starfsfólks en lögreglu og dyravarða og upp í húsaleiguna. Telja hv. alþm., að það sé hægt að nota samkomurnar sem aukinn tekjustofn?

Við skulum gera okkur grein fyrir því, að það er fullkomin þörf á því að halda uppi samkomuhaldi og skemmtanalífi úti um landsbyggðina. Og það er ekki sanngjarnt að meta á sömu vog byggðarlög, sem hafa ekki möguleika á nema 100–200 gestum á samkomur, og hinum, sem geta fyllt húsin kvöld eftir kvöld og hafa þar vínsölu, sem gefur aðaltekjurnar. Þetta er staðreynd, sem við verðum að gera okkur grein fyrir. Það er ekki verið að bjarga málefnum félagsheimilanna með þessu frv., heldur er verið að setja samkomuhaldið í landinu í algera sjálfheldu. Það er staðreynd, sem mun sýna sig síðar meir.

Ég sé, að hæstv. dómsmrh. er kominn, og mig langaði því til þess að spyrja hæstv. ráðh. um það, hvort hann getur svarað mér í sambandi við samkomur úti um landsbyggðina og tölu lögregluþjóna. Í byggðarlagi eins og í Borgarnesi er ekki hægt að fá að halda opinberlega auglýsta samkomu nema hafa 4 lögregluþjóna. Mér er aftur sagt, að á stöðum eins og hér austan fjalls séu á 1–2 hundruð manna samkomu ekki nema tveir lögregluþjónar. Það er áhugamál okkar þar efra að vita, hvort hæstv. ráðh. hefur nokkuð um þetta að segja og hver sé ástæðan fyrir þessum mun. Ég vil líka geta þess, að fyrir nokkrum árum greiddi ríkissjóður 25% af kostnaði við löggæzlu á slíkum samkomum, en nú greiðir hann aðeins 1000 kr., en lögreglan kostar 6 þús. kr. Það er því mikil breyting til hins verra fyrir samkomuhaldarann, og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort rn. fjallar nokkuð um þetta mál eða kann nokkuð að skipta sér af því.

Ég verð að segja það í sambandi við þetta frv., að auk þess sem þessi meginstefna, að fara að leggja skemmtanaskatt á allar samkomur, hvar sem er á landinu, er að minni hyggju rothögg á samkomuhald úti um landsbyggðina, og ég trúi því ekki, að hv. alþm. samþykki það, ef þeir hafa gert sér grein fyrir því. Þá vil ég líka segja það, að ég tel, að í lagafrv. eins og þessu sé heil grein af undanþágum, sem hæstv. ráðh. má veita, afskaplega óeðlileg og óæskileg í lagabálki.

Ég hefði talið, að það væri nauðsynlegt að endurskoða lög um félagsheimili og skemmtanaskatt með þeim hætti, að þeir væru kvaddir til, sem bezt þekkja inn á þessi mál, hafa kynnzt þeim af eigin raun og vita hvar skórinn kreppir. En að gera það á svo flausturslegan hátt sem hér er gert er alveg óafsakanlegt. Ég tel því að nauðsyn beri til, að hv. Nd. sameinist um það að fresta afgreiðslu þessa máls. Það ber brýna nauðsyn til þess, að þetta mál verði kynnt þeim, sem við þessi lög eiga að búa, og að stjórnvöld fái að heyra þeirra álit og þeirra sjónarmið í þessu máli. Svo mikils virði er skemmtana- og félagslíf í landinu öllu, að hv. Alþ. má ekkert gera í þá átt, sem getur torveldað framgang þess eða jafnvel riðið því að fullu.

Það er ekki hægt að halda því fram, að það sé hægt að breyta miklu í þeim gjaldaliðum, sem ég nefndi hér í sambandi við samkomuhaldið, og það er ekki heldur hægt að halda því fram, að samkomur séu ónauðsynlegar. Það vita allir, sem vilja skilja æskuna í landinu. En með því að fara inn á þá braut að ætla að innheimta skemmtanaskatt af hverri samkomu, sem haldin er í landinu, eins og er meginstefna þessa frv., þá er verið að drepa í dróma félags- og skemmtanalíf landsbyggðarinnar. Þess vegna endurtek ég það og treysti hv. dm. til þess að fylgja því eftir, að þetta mál bíði haustsins, enda er hægt að leysa það, sem leysa þarf. Það er hægt með því að lækka álagið eða fella niður álagið á skemmtanaskatt af bíóunum. Á þann hátt er hægt að greiða úr fyrir þeim. Það er hægt að komast þannig niður fyrir þau 15%, sem hér er gert ráð fyrir, ef 200% álagið er fellt niður. Og fyrst ríkissjóður er undir það búinn að greiða kostnað við rekstur Þjóðleikhússins, hallarekstur þess að öllu leyti, þá getur hann gert það jafnt, þó að þessi lög hafi ekki tekið gildi, enda væri hægt að ganga frá þeim strax í haust, svo þau verði afgreidd fyrir áramót, ef unnið væri að málinu á skynsamlegan og eðlilegan hátt í sumar.

Og það er alveg óafsakanlegt, þegar æska, ungmennafélög og íþróttafélög þessa lands eru búin að halda uppi skemmtana- og félagslífi hér á landi í tugi ára, í um hálfa öld eða meira, að þá skuli þau ekki vera virt þess að gefa þeim eitt samtal til þess að fjalla um mál, sem hefur jafnmikil áhrif á starfsemi þeirra og þetta frv. hefur.