28.04.1970
Neðri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1406 í B-deild Alþingistíðinda. (2012)

215. mál, skemmtanaskattur

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Eins og kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, 3. þm. Vesturl., þá er þetta frv. sýnilega samið í mikilli skyndingu. Síðan þetta mál kom fyrir Ed. hafa ýmsir af forráðamönnum ungmennasambandanna haft samband við mig og ég heyri, að það munu vera fleiri hv. þm., sem þeir hafa haft samband við.

Ég vil byrja á því að mælast til þess og spyrja hæstv. menntmrh. að því, hvort það sé ekki hugsanlegt að fresta þessu máli til haustsins, því það væri óþarfi fyrir okkur að vera að ræða þetta mikið núna, ef hann féllist á þá lausn málsins. Eins og kom fram í ræðu síðasta ræðumanns, þá er ekki hægt að sjá, að það sé knýjandi nauðsyn að koma þessu í gegn nú á þessu vori.

Einn af forráðamönnum kvikmyndahúsanna hefur haft samband við mig og sagt, að ef 200% gjaldið yrði lagt niður, þá mundi það verða ákaflega líkt gjald og þetta frv. felur í sér að eigi að greiða eftir að það yrði lögfest. Ef hæstv. ríkisstj. er svo tilbúin að taka á sig hallann af rekstri Þjóðleikhússins, þá get ég ekki séð, að það breyti neinu, þó að slík fjárhæð færi í Félagsheimilasjóð. Þess vegna er ég ekki farinn að sjá, að það sé nein nauðsyn á því að knýja þetta mál fram. Ég vil nú ekki ætla annað en það sé af ókunnugleika ráðh., að þetta frv. er þannig úr garði gert, sem raun ber vitni. En sannleikurinn er sá, að ef það verður lögfest, þá þýðir það í mörgum tilfellum samkomubann úti í hinni dreifðu byggð. Mér finnst það ekki forsvaranlegt að lögfesta það öðruvísi en að ungmennasamböndin fái tækifæri til þess að tjá sig um málið.

Ég geri ráð fyrir, að hv. alþm. muni eftir því, hvernig ástandið hér í landinu var í samkomumálum, t. d. í útisamkomumálunum, fyrir u. þ. b. 10 árum. Hverjir hafa breytt þessu að miklu leyti, þannig að það er nú allt annað ástand? Er það löggæzlan? Nei, það eru fyrst og fremst þessi félagasamtök, sem nú á að fara að skattleggja og í raun og veru að eyðileggja alveg grundvöllinn undir þeirra starfsemi. Ég held, að þetta mál sé langtum stærra en hæstv. menntmrh. hefur gert sér grein fyrir, og ég vil ekki ætla annað en það stafi af því að hann hefur ekki kynnt sér þetta mál nóg.

Ég sé ekki ástæðu til þess að flytja hér í þetta sinn langt mál, en ég vil minna á, í sambandi við það, sem síðasti ræðumaður sagði um löggæzluna og þann kostnað, sem félögin verða að standa undir af þeim ástæðum, að það hefur gjörbreyting átt sér stað frá því sem var fyrir nokkrum árum. Ég man eftir því, þegar ég stóð fyrir samkomum, fyrir svona 10–15 árum, að þá var greiðsla frá ríkinu 300 kr. fyrir fyrsta lögregluþjóninn, 150 kr. fyrir annan og þriðja, en ef það voru fleiri en þrír lögregluþjónar, þá tók það ekki þátt í kostnaði fram yfir það. Þá var gjaldið ekki nema um 400 kr. á hvern lögregluþjón. Enn í dag er þetta sama greiðslan frá ríkinu og þó er gjaldið orðið 1000–1100 kr. á hvern mann. Þetta er orðið vandamál fyrir þau félög, sem eru að reyna að halda uppi samkomum í landinu, og það er víða svo komið, að það verður halli af skemmtunum hvað eftir annað, þannig að það er tvísýnt, hvernig fer með kostnaðinn, hvort þær standa undir sér eða ekki, og um teljandi hagnað af þeim er yfirleitt ekki að ræða. Í ljósi þessa hljóta hv. þm. að sjá, hvernig mundi fara, ef þessi viðbótarskattur kæmi á þessa félagsstarfsemi í landinu.

Ég vil, áður en lengra er haldið, spyrja hæstv. menntmrh. að því, hvort það sé ekki hugsanlegt að fresta þessu máli til haustsins, þar sem það er ekki hægt að sjá, að það sé nein nauðsyn að knýja það fram nú, ef vilji væri fyrir hendi til að leita annarra ráða og a. m. k. að ræða við þá menn, sem eru forsvarsmenn æskulýðsfélaganna í landinu.