28.04.1970
Neðri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (2013)

215. mál, skemmtanaskattur

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þær aðfinnslur, sem komið hafa fram gegn þeim tveimur frv., sem hér er um að ræða, eru mjög léttvægar og snerta eingöngu algjör aukaatriði málsins, en hafa að engu leyti snert kjarna þess. Það, sem hér er fyrst og fremst um að ræða, er það, að verið er að koma í veg fyrir, að u. þ. b. helmingur kvikmyndahúsa á Íslandi stöðvi rekstur sinn. Almenningur yrði þá framvegis að vera án þeirrar mikilvægu þjónustu, sem þau kvikmyndahús hafa látið í té. Þetta er mergur málsins. Ég hika ekki við að fullyrða, að ef þetta frv. hefði ekki verið flutt og ef ekki stæðu vonir til þess mjög eindregið, að þetta næði fram að ganga, þá mundi helmingi íslenzkra kvikmyndahúsa verða lokað um næstu mánaðamót. Ef einhverjum hv. þm. er sama þó þetta gerist, þá þeir um það. Það er sannarlega ekki í þágu íslenzks æskulýðs og þess hluta íslenzks almennings, sem metur þjónustu kvikmyndahúsanna mjög mikils og telur hana mjög mikilvæga fyrir sig, bæði sem skemmtiatriði og menningaratriði.

Þetta vandamál kvikmyndahúsanna er leyst hér í þessum frv. með þeim hætti, að ríkið lækkar skemmtanaskattinn til sín og tekur að sér að bæta einum þeirra aðila, sem notið hefur tekna af skemmtanaskatti, upp tekjumissinn, þ. e. Þjóðleikhúsinu. Þetta er kjarni málsins. Ekki hefur verið hreyft orði af hálfu þessara tveggja manna, sem talað hafa, gegn þessum megintilgangi málsins. Þeir hafa ekki heldur vikið að því, sem ég segi að sé næstmikilvægasta atriðið í málunum tveimur, það að nú er það heimilað, sem oft hefur verið á döfinni áður, en aldrei náðst nægilegt samkomulag um, að Félagsheimilasjóður megi gefa út skuldabréf með ríkisábyrgð til þess að greiða fram úr hinum alvarlegu skuldamálum félagsheimilanna. Þetta tel ég mikilvægasta atriði málsins. Hvorugur þessara þm. hefur nefnt þetta atriði, sem er þó aðalatriði málsins. Væntanlega af því að þeir gera sér grein fyrir því, að hér er þó í öllu falli um mjög mikilvægt framfaraspor að ræða. Það, sem ég tel, að væri þriðja aðalatriðið, er, að Félagsheimilasjóður er sjálfur efldur með þessu frv. Hann er efldur. Með þessari nýju skipan mun Félagsheimilasjóður fá meiri tekjur árlega en hann hefur fengið hingað til. Þetta vona ég, að enginn maður kæri sig um að gagnrýna. Þetta eru þrjú aðalatriði frv. Í þessu sambandi vil ég líka geta þess, að ákvæðin um menningarsjóð félagsheimilanna eru mjög til bóta.

Það, sem þessir hv. 2 þm. hafa hins vegar gert að umtalsefni, eru alger aukaatriði í þessu sambandi alger aukaatriði. Það er rétt, að eins og frv. var lagt fram, var gert ráð fyrir því, að allir landsmenn sætu við sama borð að því er snerti greiðslu skemmtanaskatts af kvikmyndasýningum og dansleikjum. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé rétt, að allir menn eigi að greiða sama skemmtanaskatt, hvort sem þeir eru hér í Reykjavík eða norður í Eyjafirði, ef þeir fara í kvikmyndahús eða sækja dansleik, ekki hvað sízt, þegar skemmtanaskatturinn á að vera jafnlágur og hann nú er, þ. e. a. s. aðeins 15%. Hingað til hefur ríkt mikið misrétti í þessum efnum, sem hefur haft mjög óheilbrigðar félagslegar afleiðingar. Vegna þessa mismunandi skemmtanaskatts hafa staðir með færri en 1500 íbúa engan skemmtanaskatt greitt, en þar sem íbúar eru fleiri, hefur verið greiddur 27.5% skemmtanaskattur. Þetta hefur valdið því, að ekki er efnt til dansleikjahalds t. d. í Hafnarfirði, heldur byggð danshús í Garðahreppi, rétt fyrir utan landamæri Hafnarfjarðar. Ekki er heldur efnt til dansleikja á laugardagskvöldum á Akureyri, heldur byggð danshús, 2, 3 eða fleiri í Eyjafirði, rétt fyrir utan landamæri Akureyrar. M. ö. o.: skemmtanastarfsemi unglinganna hefur flutzt úr þéttbýlinu út í dreifbýlið, þar sem er sízt hollara, að hún fari fram. Þetta hefur jafnvel átt sér stað um kvikmyndasýningar, þó í miklu minna mæli.

Hitt er mér ljóst, að aðstaða til kvikmyndasýninga í miklu strjálbýli er erfið. Þegar um það var rætt í hv. Ed. að hafa mun á skemmtanaskatti af kvikmyndasýningum í þéttbýli og dreifbýli, miðað við íbúatölu, þá beitti ég mér ekki gegn því, að sú breyting yrði gerð, enda var hún gerð í Ed. En þetta tel ég frekar sem aukaatriði í sambandi við allt málið. Hinu var haldið, að menn skyldu greiða sama skemmtanaskatt, þennan nýja 15% skemmtanaskatt, af dansleikjum, hvort sem dansleikurinn væri haldinn á Akureyri eða í samkomuhúsi rétt utan við bæjarmörk Akureyrar og hvort sem dansleikurinn er haldinn í Hafnarfirði eða í Garðahreppi, 5 mínútna akstur frá miðpunkti Hafnarfjarðar. Ég skil satt að segja ekki þær réttlætishugmyndir, sem því liggja að baki, að mönnum finnst rétt, að unglingur, sem sækir dansleik í Hafnarfirði, skuli greiða 15% skatt, en ef unglingurinn fer út í Garðahrepp, þá skuli engan skemmtanaskatt greiða af aðgangseyrinum að dansleiknum þar. Þetta er hugsunarháttur, sem mér er framandi, og ég hika ekki við að mæla með því, að frv. verði samþykkt óbreytt, eins og það hefur komið frá hv. Ed. að þessu leyti. Það eru auðvitað fáránlegustu öfgar að halda því fram, að 15% skemmtanaskattur af dansleik í Garðahreppi eða dansleik í Eyjafirði, í nágrenni Akureyrar, eyðileggi allt skemmtanahald á þessum stöðum. Þetta eru fáránlegustu öfgar. Sannleikurinn er sá, að það þarf ekki annað en að hlusta á útvarp og lesa dreifbýlisblöðin til þess að sjá það, að skemmtanahald í dreifbýli hefur blómgazt mjög á undanförnum árum, og fer sívaxandi ár frá ári. Það er alveg út í bláinn að halda því fram, að 15% skemmtanaskattur, til jafns við það, sem menn í þéttbýlinu verða að greiða, geti haft nokkur úrslitaáhrif á það, hvort efnt er þar til heilbrigðra skemmtana eða ekki.

Ég svara þeirri spurningu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar algerlega neitandi, hvort til greina komi að fresta þessu frv. til hausts. Ef því verður frestað til haustsins, verður helmingi íslenzkra kvikmyndahúsa lokað í sumar, meðan á þeim fresti stendur.