28.04.1970
Neðri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (2015)

215. mál, skemmtanaskattur

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans, þó að það hryggi mig, að þau skyldu verða á þann veg, sem þau urðu. Hann sagði í sinni ræðu, að það mundu stöðvast öll kvikmyndahús, ef þetta frv. næði ekki fram að ganga. Ég stend nú í þeirri trú, að þetta 200% álag sé bara heimildarákvæði, sem hv. ráðh. getur breytt og notað, ef vilji er fyrir hendi. Ég hef haft samband við ráðamenn kvikmyndahúsanna, og þeir hafa upplýst mig um það, að það mundi verða ákaflega líkt gjaldinu, sem frv. felur í sér, ef að lögum verður, og ég sé þess vegna ekki að það séu nein rök fyrir því, að berja þetta fram nú á síðustu dögum þingsins.

Svo ég víki að skuldabréfunum. Hann minntist á það, að við hefðum aðeins rætt aukaatriðin í þessu sambandi, en ekki aðalatriðin. Þó að menn fái skuldabréf núna, þá er svo sem ekki mikið til að borga með. Ég sé ekki að það breyti neinu máli. Hæstv. ráðh. talar um, að það sé verið að efla Félagsheimilasjóðinn, en verði sú raunin á, sem ég er alveg viss um, að þetta þýði í mörgum tilfellum samkomubann í hinum dreifðu byggðum, þá þýðir lítið að efla Félagsheimilasjóðinn, ef grundvöllurinn fyrir félagslífinu í hinum dreifðu byggðum er þannig alveg úr sögunni.

Ráðh. var að minnast á 15% gjald. Hvaða 15% gjald er það? Kannske af danssamkomum? Ég hélt, að það væri 20% gjald, en ekki 15%. Ætlar hæstv. ráðh. að koma með brtt. um þetta gjald og hafa það aðeins 15%?

Ég heyrði engin frambærileg rök hjá ráðh. hér áðan fyrir því, að málið mætti ekki vel bíða haustsins. Ég held, að það væri ekki ráðlegt fyrir hæstv. ríkisstj. að knýja þetta mál fram nú, eins og allt er í pottinn búið, og það er alveg áreiðanlegt, að það fer ekki umræðulaust hér í gegnum þessa deild.