30.04.1970
Neðri deild: 94. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (2020)

215. mál, skemmtanaskattur

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Menntmn. hefur fjallað um frv. um skemmtanaskatt og orðið sammála um að mæla með samþykkt þess, en með þrem breytingum, sem n. gerir till. um. Áður en ég lýsi þeim brtt., vil ég taka fram, að í n. var nokkuð rætt um íslenzka kvikmyndagerð, og getur n. þess í nál. sínu, að hún telji aðkallandi að styðja íslenzka kvikmyndagerð og nauðsyn að taka það mál til ítarlegrar athugunar til þess að finna því framtíðarskipun. Brtt., sem n. flytur og stendur öll að, eru þessar:

Fyrsta brtt. er við 1. gr. frv., eins og það kom frá Ed., og hljóðar svo: „Í stað orðanna „í 1. og 2. flokki“ komi: í 1., 2. og 3. flokki.“ Þetta þýðir, að n. leggur til, að skemmtanaskattur skuli í sveitarfélögum, sem hafa færri en 1500 íbúa, ekki innheimtur af skemmtunum, sem eru í 3. flokki, eins og hann er talinn í upprunalegu þskj., en þar eru allar almennar skemmtanir, dansleikir, brúðuleiksýningar, fjölleikasýningar o. s. frv.

Önnur brtt., sem n. er sammála um að flytja, er við 3. gr. Í þeirri gr. eru taldar upp undanþágur frá öllum skemmtanaskatti. E-liður gr. er svo í upprunalega frv.: „Sýningar á íslenzkum kvikmyndum.“ Brtt. er á þá leið, að í staðinn fyrir þessi orð verði e-liður sem hér segir: „Sýningar á íslenzkum kvikmyndum og telst það sýning á íslenzkri kvikmynd, ef hún tekur a. m. k. helming venjulegs sýningartíma, þótt erlend kvikmynd sé sýnd með henni.“ Þetta þýðir, að íslenzkir kvikmyndagerðarmenn þurfa ekki að hafa efni í nema hálfa venjulega kvikmyndasýningu eða svo til þess að geta notið þeirra hlunninda, sem felast í 3. gr., og ætti þetta að reynast allmikill styrkur við kvikmyndagerð hér á landi, því sjaldan hefur hér verið ráðizt í að gera mjög langar kvikmyndir. Yfirleitt eru framleiddar hér stuttar myndir, sem ekki nægja til þess að fylla sýningartíma.

Þriðja brtt., sem n. er sammála um að leggja til, er við 6. gr. Til skamms tíma hafa sveitarfélög haft rétt til þess að leggja á, innan sinna marka, sérstakan skemmtanaskatt samkv. lögum frá 1918. Alls munu milli 40 og 50 sveitarfélög hafa á einhverju tímabili notfært sér þetta, þó að þau séu miklu færri nú í seinni tíð. Ed. samþykkti að fella niður úr 6. gr. málsgr., sem hefði framlengt rétt þeirra sveitarfélaga, sem hafa sett slíkar reglugerðir, og staðfest þær reglugerðir áfram. Við leggjum til, að þessi málsgr., sem var upphaflega 2. málsgr. 6. gr. í frv. en var felld niður í Ed., verði sett inn í frv. á nýjan leik, þannig að ekki verði breyting á því ástandi sem verið hefur og þau sveitarfélög, sem hafa notfært sér þessi lög og sett reglugerðir um sérstakan skemmtanaskatt á sínu svæði, geti haldið því áfram.

Þetta eru þær þrjár brtt., sem menntmn. leggur til og stendur öll að. Nm. áskilja sér rétt til þess að flytja frekari brtt. eða fylgja öðrum, er fram kynnu að koma.