30.04.1970
Neðri deild: 94. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (2022)

215. mál, skemmtanaskattur

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir þá gagnrýni, sem fram kom hjá hv. þm., Sigurvin Einarssyni, á þeim vinnubrögðum, sem til er ætlazt að Alþ. hafi í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Þetta stjfrv. er lagt fram örfáum dögum áður en þingi á að ljúka, svo seint, að þess er ekki nokkur kostur að þm. fjalli um þetta frv. eins og vert væri. Á þeim eina raunverulega fundi, sem haldinn var í n. um þetta mál í gær, komu fram óskir um að fá að ræða við ýmsa aðila í sambandi við þetta mál, en þess gafst enginn kostur vegna þessa mjög óeðlilega hraða.

Nú er það svo, að þetta frv. er ekki til komið af neinum nýorðnum vanda. Það átti að vera hæstv. menntmrh. í lófa lagið að leggja þetta frv. fram miklu fyrr á þessu þingi. En eina ástæðan til þess að þetta frv. er flutt er vandi kvikmyndahúsanna í Reykjavík og nágrenni. Eins og allir vita, telja þau rekstur sinn afar lélegan eftir að sjónvarpið tók til starfa og hafa farið fram á það við hæstv. ríkisstj., að hún veiti þeim á þennan hátt efnahagslega aðstoð, og hæstv. ríkisstj. hefur orðið við þeirri beiðni með því að flytja þetta frv. En vandi kvikmyndahúsanna stafar sannarlega ekki af því einu, að þau hafa fengið þessa miklu samkeppni við sjónvarpið. Kvikmyndahúsin hér í Reykjavík og nágrenni hafa lengi verið ákaflega illa rekin, og ekki fylgt neinni raunverulegri menningarstefnu í starfsemi sinni, enda hefur hér á landi ekki verið til nein heildarlöggjöf um kvikmyndamál, eins og er í öllum löndunum umhverfis okkur. Þessum kvikmyndahúseigendum eru ekki lagðar neinar skyldur á herðar af opinberum aðilum. Þeir eru algerlega einráðir um það, hvernig þeir haga starfsemi sinni, og sú starfsemi hefur yfirleitt staðið á ákaflega lágu stigi, nema á einstökum stuttum tímabilum. Kvikmyndavalið hefur verið algerlega fráleitt, eins og marka má m. a. af því, að ég held, að á síðasta ári hafi 80% af kvikmyndunum verið bandarískar. Ég geri ekki ráð fyrir, að slíkt hlutfall sé finnanlegt í nokkru öðru landi. Þetta stafar auðvitað af því, að þeir, sem sjá um innflutning á kvikmyndum, hafa sín sérstöku viðskiptasambönd. Þarna er ekki um að ræða nein menningarleg sjónarmið eða nein sjónarmið, sem styðjast við kvikmyndalist.

Ég kvaddi mér hér hljóðs í sambandi við þetta mál vegna þess, að menntmn. barst merkilegt erindi í þessu sambandi frá kvikmyndaklúbbnum, sem starfar hér í Reykjavík og mér hefði fundizt að hv. form. n. hefði mátt gera grein fyrir. Þar lagði kvikmyndaklúbburinn fyrir okkur nokkrar staðreyndir um kvikmyndalöggjöf í nágrannalöndum okkar, um það, hvaða skyldur eru lagðar á kvikmyndahús og hvernig er varið skattlagningu á kvikmyndum og hvernig skatturinn er notaður. Þessu fylgdi bréf frá kvikmyndaklúbbnum, og ég vil, með leyfi forseta, lesa hluta úr því, svo hv. þm. fái hugmynd um þau sjónarmið, sem þar koma fram. Þar segir svo m. a.:

„Með hinu nýja frv. til laga um skemmtanaskatt, sem fram er borið vegna þeirra fjárhagsörðugleika, sem kvikmyndahús í eigu einkaaðila hafa talið sig eiga í af völdum ofangreindra skatta, hafa stjórnvöld viðurkennt, að sýningar á kvikmyndum fyrir almenning ættu nokkurn rétt á sér. Tilveruréttur kvikmyndahúsanna er viðurkenndur og eigendum þeirra forðað frá gjaldþroti með vægari skattálagningu en tíðkazt hefur. Þessi stefnubreyting gagnvart kvikmyndahúsaeigendum leiðir hugann að því, hvort ekki sé rétt og tímabært að leggja þeim nokkrar skyldur á herðar, um leið og tilveruréttur þeirra er viðurkenndur og af þeim létt skattabyrðinni. Forsenda hinna háu skatta var sú, að þær kvikmyndir, sem húsin sýndu, væru eða mættu a. m. k. vera svo gjörsneyddar menningarlegu, listrænu og uppeldislegu gildi, að full ástæða væri til að leggja á þær hærri skatta en t. d. dansleiki og loddarasýningar. Þá virðist og einhlítt að gera þær kröfur til stjórnvalda, sem jafneindregið hafa tekið tillit til peningahagsmuna kvikmyndahúseigenda, að þau einnig taki með einhverjum hætti að sinna óskum þeirra, sem ástunda kvikmyndalist hérlendis eða leggja rækt við menningarsögulegar hliðar kvikmynda. Í því samhengi má benda á það, hversu nágrannaþjóðir okkar velflestar hafa grundvallað kvikmyndamál sín með allsherjarlöggjöf. Okkur væri það vandinn hægari að hlíta reynslu þessara þjóða, enda löngu tímabært að grundvalla kvikmyndamál okkar á menningarlegum og þjóðlegum grundvelli. Fyrir því mælumst við til þess við hæstv. menntmn., að þær beiti sér fyrir því nú þegar í sambandi við afgreiðslu þessa frv., að hafinn sé umsvifalaust undirbúningur að sérstökum kvikmyndalögum fyrir Ísland, sem afgr. verði á næsta þingi. Einnig bendum við á það, að strax í þetta frv., sem væntanlega tekur lagagildi innan skamms, mætti vel auka ákvæðum um sjálfsagðar menningarskyldur kvikmyndahúsanna:

a. Einhvers konar lágmark um val mannsæmandi kvikmynda. b. Verulegt eftirlit með efnisvali á barnasýningum og íslenzkt tal á allar barnamyndir. c. Skyldur til að sýna íslenzkar aukamyndir, eitthvert lágmark sýningarfjölda.

Þá væri heldur engin goðgá að mynda af skemmtanaskatti bíóanna eða a. m. k. hluta hans fyrsta vísi að hérlendum kvikmyndasjóði.“

Þannig er komizt að orði í þessu bréfi. Þær hugmyndir, sem þarna koma fram, eru sannarlega vel þess virði að um þær hefði verið fjallað af fullri alvöru. En eins og ég lýsti áðan hefur ekkert ráðrúm gefizt til þess. Og auðvitað er það ekki vansalaust, að þannig haldi áfram.

Ég freistaði þess í n. að leggja þar fram tvær till., sem fólu í sér aðstoð við íslenzka kvikmyndagerð. Þar er um mikið stórmál að ræða, bæði til þess að leysa vanda kvikmyndahúsanna hér á landi og ekki síður í sambandi við tilkomu sjónvarpsins. Það gefur auga leið, að ef við ætlum að starfrækja menningarlegt sjónvarp á Íslandi, þá hlýtur undirstaðan að verða kvikmyndagerð hér á landi, og slík kvikmyndagerð sprettur ekki upp af sjálfu sér. Í öllum löndum, meira að segja stórveldum, þá tíðkast það að styrkja kvikmyndagerð og styrkja sérstaklega þá kvikmyndagerð, sem setur sér menningarleg takmörk. Þetta tíðkast á Norðurlöndum og þetta tíðkast einnig með stærri þjóðum. Bæði í Danmörku og í Svíþjóð er sá háttur á hafður, að sá skattur, sem innheimtur er í kvikmyndahúsum, rennur algerlega til þess að auka menningarlega kvikmyndastarfsemi og til þess að efla innlenda kvikmyndagerð.

Þær brtt., sem ég gerði grein fyrir í hv. menntmn., voru tvær. Í annan stað lagði ég til, að við þá undanþágu á skemmtanaskatti, sem þar er tilgreind og fjallar um sýningar á íslenzkum kvikmyndum, verði einnig bætt heimild til menntmrh. til að undanþiggja sýningar erlendra mynda með íslenzkri aukamynd, ef ráðuneytið metur aukamyndina verðuga slíks stuðnings. Þetta fannst mönnum ganga of langt, en um það tókst þó samkomulag í n. að flytja aðra brtt., sem frsm. menntmn. gerði grein fyrir áðan. Í því er vissulega fólgið nokkurt spor í þá átt, sem ég gerði þarna till. um.

Í hinn stað gerði ég grein fyrir annarri till. í n., sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta. Hún er svo hljóðandi:

„Á eftir 7. gr. frv. komi ný gr., er verður 8. gr., svo hljóðandi:

Skemmtanaskattur skv. 2. gr. 2. fl. (þ. e. a. s. skemmtanaskatturinn, sem innheimtur er af kvikmyndasýningum) renni til kvikmyndasjóðs, sem heyrir undir menntmrn. Í stjórn sjóðsins eiga sæti 5 menn, skipaðir af ráðh. til fjögurra ára í senn. Eftirtalin samtök tilnefna einn mann hvert í stjórn sjóðsins: samtök kvikmyndahúsaeigenda, samtök kvikmyndagerðarmanna, Bandalag íslenzkra listamanna og samtök kvikmyndaklúbba, en ráðh. skipar formann kvikmyndasjóðsins án tilnefningar. Á sama hátt skal skipa jafnmarga varamenn. Hlutverk sjóðsins er: a. Að styrkja og efla íslenzka kvikmyndagerð með beinum fjárstyrkjum, lánum, ábyrgðum og verðlaunum. b. Að koma á fót kvikmyndasafni, sem heimilt skal að sýna kvikmyndir sínar á sýningum, sem undanþegnar eru öllum opinberum gjöldum. c. Að verðlauna kvikmyndahús, sem fram úr skara við val á góðum erlendum og innlendum kvikmyndum, svo og barnamyndum til sýninga. d. Að stuðla á annan hátt að bættri kvikmyndamenningu. Menntmrh. skal setja reglugerð, sem kveður nánar á um starfsemi kvikmyndasjóðsins.“

Með þessari till. var sem sé lagt til, að við tækjum upp þann hátt, sem upp hefur verið tekinn m. a. í Danmörku, Svíþjóð og í fleiri löndum, að skattur af kvikmyndasýningum yrði hagnýttur til þess að efla innlenda kvikmyndagerð og auka menningarlega kvikmyndastarfsemi í landinu.

Auðvitað var mér það ljóst, að hér er um að ræða svo stórt mál, að það er ekki hægt að ætlast til þess, hvorki að n.Alþ. afgr. slíka till. á einum degi, eins og ætlazt er til að við afgr. þetta frv. Hins vegar kom það fram í n. að menn skildu vel það sjónarmið, sem í þessari till. felst, og varð um það samkomulag, að taka upp í nál. setningu þá, sem formaður n. gerði grein fyrir áðan, að n. teldi mikla nauðsyn að gera skipulegar ráðstafanir til þess að efla íslenzka kvikmyndalist. Ég lít á þá setningu sem fyrirheit um það, að n. muni í haust beita sér fyrir því, að sett verði sérstök löggjöf um það efni, og ég vil raunar beina því til hv. menntmrh., hvort ekki megi vænta þess, að hann muni einnig stuðla að því, að slík löggjöf verði sett.

Þetta er, eins og ég sagði áðan, mjög mikið og brýnt menningarmál og við getum ekki skotið okkur undan því að leysa það. Um þetta mál hefði verið hægt að fjalla miklu lengur, en ég skal gjarnan taka tillit til þess, að tími Alþ. er orðinn naumur. Ég hef ekki frekar en aðrir áhuga á því að lengja þinghaldið fram yfir það sem orðið er, en ég taldi óhjákvæmilegt að gera grein fyrir því, að í sambandi við þetta frv. tel ég vanta algerlega þessa jákvæðu hlið málsins.