28.04.1970
Sameinað þing: 48. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1427 í B-deild Alþingistíðinda. (2035)

Almennar stjórnmálaumræður

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Rétt er að geta þess, að reynt var að ná samkomulagi um að breyta fyrirkomulagi þessara umræðna á þann veg, að eitt kvöld í sjónvarpi kæmi í stað tveggja í útvarpi. Ekki náðist samkomulag um þetta og verður þess vegna enn að halda hinum löngu úrelta hætti um eldhúsumræður.

Á landsstjórnarmönnum lendir stöðugt að leysa fjölda vandamála, sem að steðja, iðulega öllum að óvörum. Í daglegu þrasi og sviptibyljum líðandi stundar má þó aldrei missa sjónar á frambúðarstefnu, heldur verður að reyna að öðlast yfirsýn um hvað helzt megi verða til aukins öryggis og varanlegra umbóta alþjóð til heilla. Þótt hin hversdagslegu úrlausnarefni virðist á stundum smávægileg, þá er lausn þeirra oft miklum örðugleikum háð. Stjórnendum er oftast ætlað að leysa vanda, sem öðrum hefur reynzt torleystur. Því er ekki kyn, þó margt fari verr úr hendi en hugur manna stendur til.

Að sjálfsögðu má sitthvað finna að framkvæmdum þessarar ríkisstj. eins og allra annarra. Við hvorki erum né þykjumst vera alfullkomnir, heldur gerólíkir hinum, sem halda sig hafa fundið óskeikul ráð við öllum vanda. Engir gera meiri skaða en þeir, sem í slíkri villu vaða. Nægir þar að minna á hörmulega reynslu alls almennings af framkvæmd kommúnisma eða ómengaðs sósíalisma. Þetta gera flestir menntaðir menn sér nú ljóst. Þess vegna hafa jafnvel ungir öfgamenn í öðrum löndum horfið frá kommúnisma og til svokallaðrar „nýrrar vinstri stefnu“. Er erfitt að átta sig á, hvað fyrir því fólki vakir, annað en að vera á móti öllu og öllum. Minnir sú kenning mjög á ástandið í Rússlandi um síðustu aldamót. Hinir ungu íslenzku öfgamenn, sem hertóku eitt sendiráð lands síns á dögunum og fylgdu því, að sögn sænskra blaða, fordæmi Eþíópíumanna, mega þó eiga það, að þeir segja óhikað hvað fyrir þeim vakir, þ. e. a. s. sósíalistísk bylting eða sams konar þjóðskipulag og Tékkar, ásamt með öðrum Austur-Evrópuþjóðum verða nú að þola. Annað mál er, hvort margir verða til þess að trúa því, að ættjörðin frelsist af þeim boðskap.

Ég ætla ekki að eltast við sparðatíning hv. stjórnarandstæðinga, svo sem þegar þeir ætla ríkisstj. að telja upp fyrir þá, hversu margar fastanefndir Alþ. séu eða skólanefndir og áfengisvarnanefndir um land allt. Smásmygli andstæðinganna, a. m. k. sumra, er með ólíkindum. E. t. v. sprettur hún af því, að þeir treysta sér ekki lengur til að bera brigður á, að okkur hefur tekizt betur, jafnvel mun betur en þeir og flestir aðrir gerðu ráð fyrir, að leysa hinn geigvænlega vanda, sem fyrir nokkrum missirum virtist kominn vel á veg með að umturna íslenzku þjóðfélagi. Á tveggja ára bili minnkuðu útflutningstekjur þjóðarinnar af óviðráðanlegum orsökum um nálega helming. Þetta voru meiri umskipti og sköpuðu meiri efnahagsvanda en Íslendingar höfðu áður lent í, frá því að atvinnuhættir hér komust í nútímahorf. Hlutlausir erlendir atvinnurekendur og óyggjandi skýrslur segja og, að sambærileg sveifla sé óþekkt á friðartímum hjá þjóðum með sæmilega þroskað efnahagskerfi. Flestum Íslendingum var ljóst að gegn þessum erfiðleikum voru góð ráð dýr. Ríkisstj. viðurkenndi, að svo mikið væri í húfi, að kanna bæri, hvort unnt mundi að koma á víðtæku samstarfi um nauðsynleg viðbrögð. Það var reynt haustið 1968, en tókst því miður ekki. Stjórnarandstæðingar á Alþ. fengust að vísu til langvarandi umræðna, en vildu drepa öllum raunhæfum úrræðum á dreif og voru ófáanlegir til þess að játa þeim sjálfsögðu búhyggindum, að óhjákvæmilegt væri að sníða sér stakk eftir vexti og viðurkenna þá skerðingu á lífskjörum þjóðarheildarinnar og þar með almennings, sem orðin var. Skerðingin var óviðráðanleg, og eins varð að gæta þess, að hún kæmi sem réttlátast niður og með þeim hætti að auðvelda sem mest afturbata. Í þessu skyni voru margar samfelldar aðgerðir óhjákvæmilegar, en allar gagnlegar. Í þessum vanda brugðust foringjar stjórnarandstöðuflokkanna hatrammlega og miklu verr en oddvitar verkalýðshreyfingarinnar, sem urðu að þola mörg frýjunarorð af því að þeir reyndust stjórnmálaforingjum sínum manndómsmeiri, — enda var nú svo að heyra á síðasta ræðumanni, að hann ætlaði ekki að brenna sig aftur á því soðinu.

Deila má um, hverjir hafa kveðið fastast að orði í köpuryrðunum um þá mannvonzku, sem kjaraskerðingin lýsti og fánýti hennar: Þjóðviljinn eða Tíminn, Alþb.-menn eða framsóknarmenn. En eftir á segir Þórarinn Þórarinsson í Tímanum hinn 8. apríl á þessa leið:

„Batinn hafði náðst sökum þess, að alþýðustéttirnar höfðu sætt sig við kjaraskerðingu, aflabrögð orðið hagstæð og verðlag hækkað á útflutningsvörum.“

Hinn málsskrafsmikli, mjög skrifandi, hv. 4. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson, sér þessi sannindi helzt til seint. Sama má segja um sessunaut hans, hinn sjálfumglaða hv. 6. þm. Reykv., Magnús Kjartansson. Árum sama hafa þessir sálufélagar suðað um lök lífskjör og landflotta. Nú hefur hv. þm., Magnús Kjartansson, flutt þáltill. um heimflutning Íslendinga frá Ástralíu, væntanlega ekki vegna vesældar hér, heldur velsældar miðað við almenningskjör í Ástralíu. Tíminn skrifar nú ekki einungis um ófarnað Íslendinga í Ástralíu, heldur segir einnig kjötkatla Svía ekki hafa reynzt eins saðningsmikla og af hafði verið látið. Aldinn þulur, vinur minn úr hópi stjórnarandstæðinga, hafði fáum dögum fyrir tillöguflutning Magnúsar Kjartanssonar komið til mín og sagt, að þótt ekki mætti hafa bágindi Ástralíufara að leiksoppi, þá væri fróðlegt að sjá, hvernig stjórnarandstæðingar brygðust við till. um heimflutning á þessu fólki. Þegar til kom, reyndi ekki á fylgi við till., annarra en Magnúsar Kjartanssonar sjálfs. Hann varð öðrum fljótari til að ómerkja margra ára málflutning sinn. En dýrkeyptur mundi áróður þeirra félaga verða íslenzka ríkinu, ef í það verður lagt að styrkja útflytjendurna til ferðalags um hálfan hnöttinn á ný, heim í sælureitinn, sem þeir létu ginna sig til að flýja, og mundi þó kostnaður ríkisins smáræði, miðað við armæðu útflytjendanna nú þegar. Enginn vandi er að vera vitur eftir á. Verra er þó að vita hið rétta, en hafa annaðhvort ekki haft vilja eða kjark til að framfylgja því, meðan á reyndi.

Verðlag og aukinn afli ráða miklu um afturbatann. En hvorugt hefði að gagni komið, ef ríkisstj. og flokkar hennar hefðu ekki skapað skilyrði fyrir honum. Engum blandast hugur um, að verulegur afturbati hefur orðið og við erum á réttri braut. Sjálfsagt er að allur almenningur njóti batans, eftir því sem efni standa til. En nú ríður á að villast hvorki af veginum né ætla, að menn séu lengra komnir en þeir í raun og veru eru. Fólkið lét ekki villa um fyrir sér, meðan hættan var geigvænlegust. Spurning er, hvort það kann síður fótum sínum forráð, þegar sæmilega horfir. Nú, fremur en nokkru sinni fyrr, mun ráðlegast að flýta sér hægt.

Þótt efnahagsörðugleikar undanfarinna ára hafi verið miklir og að flestu leyti erfiðari en aðrar ríkisstj. íslenzkar hafa þurft að glíma við, þá hefur ýmis önnur og ólík úrlausnarefni borið að á hennar valdadögum. Mörg þau, sem minni háttar voru, uxu hv. stjórnarandstæðingum samt svo í augum, að þeir töldu víst, að stjórnin yrði þeirra vegna að hrekjast frá og þar með fá þeim lykilinn að stjórnarráðinu, sem þeir öllu öðru fremur þrá og svífast fárra ráða til að hremma. Um þessar mundir þykjast þeir helzt fá þeirri sáru löngun fullnægt með því að magna ágreininginn innan ríkisstj. Auðvitað er ekki að undra þótt nokkur ágreiningur sé milli stjórnarflokkanna, þegar haft er í huga, hversu ólíkar grundvallarskoðanir þeirra eru. Einmitt vegna þessa grundvallarmunar hafa þeir öðru hvoru tekið stjórnarsamstarfið til endurskoðunar. Við sjálfstæðismenn könnuðum t. d. alla möguleika rækilega í viðræðum við flokkana haustið 1968. Þá kom glögglega í ljós, að skoðanaágreiningur við hina flokkana var mun meiri í þýðingarmestu málum en við Alþfl. Aukin höft og hömlur voru af hálfu stjórnarandstæðinga skilyrði þess, að þeir fengjust til að taka þátt í lausn vandamálanna. Við sjálfstæðismenn töldum það þvert á móti hafa úrslitaþýðingu, að hvorki væru sett ný innflutningshöft né hömlur á framkvæmdafrelsi í skjóli bráðabirgðaerfiðleika. Enda hefur nú tekizt að ráða bug á þeim örðugleikum að verulegu leyti, án þess að til slíkra neyðarúrræða hafi þurft að grípa. En ef svo hefði verið gert, skyldi enginn ætla, að ófagnaður hafta og hamla hefði verið úr sögunni með þessu bráðabirgðaástandi. Höftin eru þvert á móti, að skoðun hv. stjórnarandstæðinga, nauðsynlegt stjórnartæki, sem þeir sí og æ heimta að til sé gripið, þó að þeir reyni að fela fyrirætlanir sínar með síbreytilegum nafngiftum.

Hitt er rétt, að við sjálfstæðismenn höfum nú orðið að una annarri skipan verðlagsmála en við teljum skynsamlegt, hvort heldur frá sjónarmiði neytenda eða verzlunarstéttarinnar. Um skeið virtust horfur á, að þessu mætti fá breytt með samþykki meiri hl. á Alþ. Framsóknarmenn hétu líklegum stuðningi við slíka breytingu, og vitað var, að nokkur hluti Alþfl. mundi styðja hana, þrátt fyrir hatramma andstöðu sumra flokksmanna, sem þó sögðust sætta sig við, að atkv. á Alþ. væru látin skera úr. Þegar á reyndi var hin nýja skipan hins vegar felld fyrir atbeina þessara manna og með shlj. atkv. stjórnarandstæðinga, þ. á m. þeirra framsóknarmanna, sem höfðu látið á sér skilja, að þeir væru málinu fylgjandi. Skýringar þeirra á andstöðu sinni voru óhaldbærar í sjálfu sér og þar að auki ósannar. Þeir halda því t. d. fram, að ekki hafi verið leitað samkomulags við þá um málið. Slíks samkomulags var þvert á móti leitað með ýmsu móti, svo sem með þátttöku þeirra í mþn. og í samtölum, bæði innan þings og utan. Um skoðun þeirra, sem bezt þekkja til, á atferli Framsóknar, má skírskota til vitnisburðar Erlends Einarssonar, forstjóra SÍS, í Frjálsri verzlun nú ekki alls fyrir löngu. Sjálfstfl. er einn og óskiptur meðmæltur skipulagsbreytingu, sem í senn mundi bæta hag neytenda og tryggja frjálsa verzlun. Aðrir eru ýmist óskiptir eða svo margir á móti, að endist um sinn til að stöðva æskilega réttarbót. Þessum augljósu staðreyndum fá engir vafningar eða útúrsnúningar haggað. Og mikinn barnaskap þarf til að trúa því, að ég og samflokksmenn mínir látum hræða okkur frá þjóðnýtu samstarfi, þótt hvergi nærri gallalaust sé, með brigzlyrðum um að við stöndum ekki, eins og framsóknarmanna er háttur, í stöðugum illindum við samstarfsmenn okkar. Í núverandi stjórnarsamstarfi höfum við með þolinmæði þokað málum áfram í vitund þess, að til lengdar verður þeim mest ágengt í stjórnmálum, sem gera sér grein fyrir því, hvað hverju sinni er mögulegt, og einbeita sér að framkvæmd þess. Okkur hefur tekizt að skapa hér stöðugra stjórnarfar en áður þekktist og leysa þær þrautir, sem andstæðingarnir voru öruggir um, að okkur tækist ekki að leysa, og skutu sjálfum sér undan að fást við, nema með því að leggja illt til mála, ekki alltaf allir, en allt of margir of oft. Sumum ofurhugum í Sjálfstfl. þykir við stundum beygja okkur um of í samstarfinu. En ætíð verður að setja það ofar, sem meira er um vert en minna, og skammt verður komizt, ef ekkert er gert nema það, sem allir halda, að vinsælt sé, eða telja harla gott við fyrstu sýn.

Að undanförnu hefur verið fjölyrt um till. um lífeyrissjóði í húsnæðismálafrv., er fyrir Alþ. liggur. Mikil óánægja spratt af því, að málið var ekki undirbúið betur með samningum við rétta aðila. Nú hefur verið bætt úr því og viðhlítandi samkomulag hefur náðst um framlög sjóðanna á þessu ári og athugun verið gerð á frambúðarþætti þeirra í lausn húsnæðismálanna. Ber að þakka öllum þeim, er þar hafa lagt gott til mála. Jafnframt ber að minnast þess, að engin nýjung er, að lánakerfi húsnæðismála verði ekki tryggt, nema með atbeina lífeyrissjóðanna og samræmingu á störfum þeirra og lánastofnunar ríkisins. Slík ráðagerð var einmitt ein aðalforsenda júní- samkomulagsins við verkalýðinn 1964, þó að sumir hv. þm., sem þar áttu hlut að, sýnist nú hafa gleymt því. Hér er síður en svo um að ræða sérmál stjórnarflokkanna, annars eða beggja, heldur vanda, sem leysa þarf, en auðvitað æskilegt að leysa með sem allra víðtækustu samkomulagi.

Á sama veg og núv. ríkisstj. hefur tvímælalaust tekizt að ráða fram úr flestum aðsteðjandi vandamálum, eftir því sem efni stóðu til, hefur hún einnig ráðið algerri stefnubreytingu um uppbyggingu íslenzkra atvinnuvega. Þegar allmörgum árum áður en afturkippurinn varð, höfðum við lagt ríka áherzlu á nauðsyn þess að skjóta fleiri stoðum undir íslenzkt atvinnulíf. Stöðugum aðvörunum mínum var tekið með svívirðingum um að ég gerði mig sekan um vantrú á landið og landkosti og hafði ég það þó að aðalefni máls míns, að við yrðum að hagnýta öll gæði okkar elskaða, er erfiða lands, til að forðast stórhættulegar sveiflur og ofþyngja ekki nokkurri atvinnugrein. Og einmitt nokkrum mánuðum áður en efnahagsörðugleikarnir hófust, var á Alþ. háð hörð barátta um, hvort gera ætti Búrfellsvirkjun framkvæmanlega og tryggja atvinnu og efnahag með gerð álsamningsins. Þá skrifaði Þjóðviljinn sífellt um, að fyrirhuguð Búrfellsvirkjun væri tæknileg skyssa. Hv. þm. Sigurvin Einarsson var margmáll um, að álbræðslan mundi eitra svo loftið umhverfis sig, að óttast mætti, að Hafnarfjörður yrði hér um bil allur á hættusvæðinu. Hv. þm. Einar Olgeirsson kvað baráttuna gegn varnarsamningnum mundu reynast smáræði gegn mótstöðunni, sem hafin yrði gegn þessum framkvæmdum. Sá af þessum herrum, sem hófsamlegast tók til orða, Hannibal Valdimarsson, bar fram kröfu um, að þessu máli yrði nú vikið frá ákvörðun Alþ., en vísað til þjóðaratkvæðis, m. a. til þess að þjóðin væri spurð um það, hvort hún teldi ástandið í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar nú vera slíkt, að við þyrftum þessara úrræða með, en í stað þeirra að snúa okkur að því að efla okkar „eðlilegu atvinnuvegi“, eins og Hannibal sagði. Hann taldi þá auðheyrilega ekki eðlilegt, að við notuðum fossaaflið til að útvega landsfólkinu meiri og öruggari atvinnu.

Hvernig væri nú komið, ef þessir menn hefðu þá fengið að ráða? Hvernig hefði þá tekizt að vinna bug á atvinnuleysi og hverjar væru nú framtíðarhorfur? Sjálfur tel ég framkvæmdirnar við Búrfell og við Straumsvík einungis upphaf þess, sem koma skal. Þær hafa þegar gert ómetanlegt gagn, en þó einungis lítið miðað við það, sein verða mun, ef haldið verður áfram á sömu braut. Hér er um að ræða nýtt landnám, ekki ómerkara en endursköpun sjávarútvegs og upphaf nýtingar nútímatækni á fyrstu áratugum þessarar aldar, sem var forsenda fullveldisins 1918.

Nú þurfum við bæði getu og vilja til þess að umgangast aðrar þjóðir á grundvelli jafnréttis og hafa við þær svipað samstarf eins og aðrar sjálfstæðar þjóðir telja sér lífsnauðsyn á okkar dögum. Aðild okkar að EFTA var þar eðlilegur áfangi og mun, ef vel tekst, gera okkur mögulegt að efla innlendan iðnað með öflun markaða erlendis. Ef slíkt tekst ekki, er auðvelt að hverfa úr þeim samtökum. En hingað til hafa Íslendingar hvergi reynzt eftirbátar annarra, ef þeir hafa búið við sömu skilyrði. Tal um aðild okkar að NORDEK var hins vegar alltaf óraunsætt og þó aldrei fremur en nú, þegar það samstarf sýnist með öllu úr sögunni, og dylst engum, hverjum er þar um að kenna. Samt þykir ekki hlýða að strá salti í sár með því að segja berum orðum, hver sökina eigi. En hlálegt er, að slíkir atburðir skuli gerast einmitt um sömu mundir og bæði innanlands og utan er hert á áróðri um það, að við Íslendingar höfum glatað sjálfstæði okkar með aðild að Atlantshafsbandalaginu og með vist erlends varnarliðs í landinu. Í stað þess er sagt, að við eigum að tryggja sjálfstæði okkar með vopnlausu hlutleysi. Hlutlausir eru Finnar og með engan erlendan her í landi. Engu að síður verða þeir að una erlendri íhlutun, slíkri sem við höfum aldrei þurft að reyna og óhugsanleg er af hálfu bandamanna okkar.

Því var fyrir skemmstu haldið fram á Alþingi, að leita bæri skoðunar sænskra sósíaldemókrata á því, hvort hér væri þörf á vörnum. Þess vegna er fróðlegt að kynnast því, sem Olof Palme, átrúnaðargoð allra vinstri manna hérlendis, sagði nýlega í London við brezka blaðamenn. Hann komst m. a. svo að orði:

„Pólitísk afstaða ýmissa Evrópuríkja, einnig hinna hlutlausu, markast svo til ævinlega af landfræðilegri og herfræðilegri stöðu þeirra og af sögulegri reynslu. Svíþjóð er hér engin undantekning. Hlutleysisstefna vor er gömul og stendur á föstum rótum í sögu vorri og er byggð á stöðu landsins í miðri Skandínavíu, milli austurs og vesturs. Það er staðreynd, að eftirtektarvert jafnvægi hefur ríkt í norðanverðri Evrópu síðan í ófriðarlok. Við höfum ástæðu til að telja, að þetta sé að þakka miklu jafnvægi í því stjórnmálakerfi, sem Norðurlöndin hafa mótað. .Danmörk og Noregur hafa gengið í Atlantshafsbandalagið, Svíþjóð og Finnland eru hlutlaus. Finnland hefur raunar sérstök tengsl við sinn mikla nágranna. Í þessu kerfi felst veruleg innri rökvísi. Það hefur reynzt gagnsamlegt afl — element í stjórnmálakerfi álfunnar eftir ófriðinn. Hluta þess kerfis verður ekki breytt nema með því að setja allt jafnvægi þess í hættu. Hlutleysisstefnu slíka, sem vér höfum valið oss, verður að framkvæma af mikilli festu og samkvæmni. Það eitt nægir ekki, að standa utan við hernaðarsamninga. Hlutleysið verðum vér að gera trúverðugt með því að tryggja hervarnir vorar.“

Þetta sagði Palme, og allt það, sem hann segir hér um hin Norðurlöndin, á því fremur við um Ísland, og er þá eftir að sjá, hvort sá, er lýsti eftir skoðun sænskra sósíaldemókrata, fylgir henni, þegar hún er fram komin!

Ég hef þá í örstuttu máli lýst helztu viðfangsefnum á liðnum og komandi árum. En hvort sem talað er lengur eða skemur, er ekki um það að villast, að núv. stjórn hefur rutt leið til varanlegra heilla með lausn aðsteðjandi vandamála og markað frambúðarstefnu af stórhug, víðsýni og raunsæi. — Góða nótt.