28.04.1970
Sameinað þing: 48. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (2036)

Almennar stjórnmálaumræður

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Allt okkar stjórnarkerfi þarf endurskoðunar við.

Það er víða pottur brotinn, bæði á lægri og æðri stigum og þá einnig hjá sjálfum toppmönnum valdakerfisins. Ég hef m. a. gagnrýnt harðlega óeðlileg aukastörf ráðherra. Það hefur að vísu lengi viðgengizt hér á landi, að ráðh. hefðu nokkur aukastörf á hendi, svo að hér er ekki við núv. ráðh. eina að sakast. En auðvitað eru fyrri fordæmi aldrei nein afsökun fyrir óviðeigandi og röngum starfsháttum. Samt hefur þessi ósiður færzt mjög í vöxt á undanförnum árum. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt, að ráðh. sitji í sjóðsstjórnum og úthlutunarnefndum, sem þeir eiga svo yfir að segja og hafa eftirlit og umsjón með sem æðra stjórnvald. Slíkt brýtur í bága við allar grundvallarreglur um nútímahugmyndir um óvilhalla og sjálfstæða stjórnsýslu, enda munu slíkir stjórnarhættir ekki lengur tíðkast í nálægum löndum.

Hér hafa allir ráðh. nokkur aukastörf á hendi, að vísu misjafnlega mikil. Ég ætla ekki að tíunda þau hér, en það má t. d. nefna það, að nú sitja 3 ráðh. í atvinnumálanefnd ríkisins, 2 í stjórn framkvæmdasjóðs, 2 í stjórn atvinnujöfnunarsjóðs, 2 í orkuráði og 1 eða jafnvel 2 í bankaráði. Það sjá allir réttsýnir menn, að þetta nær ekki nokkurri átt. Hvernig eiga ráðh. að geta litið hlutlægt á þau mál, sem þeir hafa þannig fjallað um og tekið afstöðu til á lægra stjórnarstigi? Halda menn, að svona stjórnarhættir dragi ekki dilk á eftir sér í öllu stjórnarkerfinu? Vissulega gera þeir það og þar um sjást óræk merki. Ég er ekki að telja eftir þær tekjur, sem ráðh. kunna að hafa af þessum aukastörfum, enda veit ég ekkert um, hverjar þær eru. Það er ekki aðalatriðið. Mér dettur ekki í hug, að ráðh. séu að seilast til þessara aukastarfa af auragræðgi. Nei, það er annað, sem kemur til. Það er valdasýkin. Það er þessi óseðjandi löngun til þess að koma puttanum alls staðar að, þar sem um einhver áhrif, völd eða úthlutun fjár er að tefla.

Ég hef á þessu þingi flutt svohljóðandi þáltill. um þetta efni:

„Alþingi ályktar að lýsa yfir því, að það telur óheppilegt og óviðeigandi, að ráðh. sitji í stjórnum eða stjórnsýslunefndum, sem lúta yfirstjórn eða eftirliti ríkisstj. eða einstakra ráðh.“

Till. þessari var útbýtt 2. des. s.l. Hún hefur ekki enn fengizt tekin til umr. Það segir sína sögu.

Ofhleðsla starfa á einstaka menn er með réttu gagnrýnd. Þar er komið út í hreinar öfgar og reyndar í sumum tilfellum orðið augljóst hneyksli. Því má þó ekki blanda saman við setu ráðh. í sjóðsstjórnum og úthlutunarnefndum. Það er mál út af fyrir sig, en ráðh. vísa veginn með fordæmi sínu og bitlingasýki sumra lukkuriddara er orðin alvarleg meinsemd í íslenzku þjóðfélagi. Hana ber að fordæma, bæði í ríkiskerfinu og á öðrum sviðum. Óþarft er að ræða um, hver áhrif valdaflækjan hefur á afgreiðslu mála. Þar verður margur maðurinn sárfættur á langri leið til keisaranna í íslenzku valdakerfi. Það má heldur ekki gleyma öllum bakdyragreiðslunum til þeirra, sem eru í náðinni: ómældu eftirvinnunni, bílafríðindunum o. s. frv. Hér þarf að verða breyting á til batnaðar, en það eru ekki líkur til að hún komi frá þeim mönnum, sem höfuðábyrgð bera á þessu kerfi, þó að ekki vilji ég skrifa það allt á reikning núv. valdhafa.

Svo eru það allar nefndirnar. Það er nefnd á nefnd ofan og mönnum er vísað frá einni nefnd til annarrar. Nýlega var lögð fram fsp. á Alþ. um stjórnskipaðar og þingkjörnar nefndir, tölu þeirra, verkefni og laun. Þá gerðist spaugilegt atvik. Ráðh. stóð upp og lýsti yfir því, að þetta væri óframkvæmanlegt fyrir þinglok, það væri svo mikið verk og vandasamt. Manni skildist, að nefndir væru orðnar nær óteljandi, ráðh. óklárir á verkefnum þeirra og ekkert yfirlit til um, hvað þær kosta. Yfirskoðunarmenn ríkisreikninga hafa einnig óskað eftir talningu á nefndum. Í svari fjmrn., sem prentað er með ríkisreikningi fyrir 1968, segir svo m. a.:

„Talning er ekki til á nefndum, sem störfuðu á árinu 1968, en gerð var tilraun“ —Takið eftir: Tilraun —„ á vegum fjárlaga- og hagsýslustofnunar síðari hluta sumars 1969 til að gera talningu af þessu tagi. Var þá leitað til allra ráðuneyta eftir upplýsingum um nefndir og ráð, eins og gert var í fsp., og má af svörunum ráða mjög greinilegan skoðanamun milli ráðuneyta um það, hvað teljast skuli starfsemi af þessu tagi og hvað ekki. Í önnum fjárlagaundirbúnings fyrir árið 1970 var þessu verki ekki lokið.“

Þessi voru orð ráðuneytisins. Nú hefur forsrh. látið gera skyndikönnun á stjórnskipuðum og þingkjörnum nefndum. Við þá leit fundust 708 nefndir, en ráðh. undirstrikaði, að þetta væri aðeins bráðabirgðayfirlit og vel mætti vera, að fleiri kæmu til skila í eftirleit. Ekkert yfirlit hefur fengizt um kostnað við nefndirnar og afköstin liggja heldur ekki ljóst fyrir. Auðvitað eru margar nefndir sjálfsagðar og nauðsynlegar, en allir sjá af því, sem sagt var hér, í hvert óefni nefndafarganið er komið. Þannig hefur það farið í höndunum á mönnunum, sem ætluðu að fækka nefndunum, því það var þó eitt af viðreisnarloforðunum á sínum tíma. En e. t. v. hrökkva menn nú ekki við af þeirri ástæðu. Það er nú reglan, að framkvæmdin hefur orðið þveröfug við fyrirheitin.

Ég ætla ekki hér að fara að rifja upp allan loforðalistann, en vil aðeins minna á örfá atriði, sem ekki mega gleymast, enda eiga vanefndir þeirra ríkan þátt í þeirri þjóðfélagsmynd, sem blasir við í dag.

Númer eitt á loforðalistanum var stöðvun verðbólgunnar. Það var jafnvel sagt, að ef hún ekki tækist, væri allt annað unnið fyrir gýg. Staðreyndin er hins vegar sú, að verðbólgan hefur aldrei tekið önnur eins risaskref og síðasta áratug. Verðhækkanir á ýmsum nauðsynjum eru þar órækasta sönnunin. Frá 1. janúar 1960 hefur kaffi t. d. hækkað um 432%, strásykur um 299%, smjörlíki um 380%, franskbrauð um 285%, súpukjöt, þ. e. dilkakjöt, um 485%, ýsa slægð með haus 814%, vísitala byggingarkostnaðar hefur hækkað um 219%. Þessar örfáu tölur tala skýru máli um efndir stjórnarflokkanna á þessu höfuðloforði sínu. Og þær segja meira en mörg slagorð. Það skal og tekið fram, að þessar tölur, sem ég fór með, eru miðaðar við febrúarmánuð. Þær kunna því að vera eitthvað hærri nú.

Annað loforðið var það, að verðgildi krónunnar skyldi tryggt. Efndirnar eru fjórar gengisfellingar, þar af tvær á ellefu mánaða fresti, 1967 og 1968. En með þeim var verð á Bandaríkjadollar rúmlega tvöfaldað. Telja fróðir menn, að núverandi stjórn eigi heimsmet í gengislækkunum. Það þarf ekki að eyða orðum að því, hvernig þessar aðgerðir hafa leikið sparifjáreigendur, bæði þá, sem voru að spara til að eignast íbúð eða koma á annan hátt undir sig fótunum, og hina, sem dregið höfðu eitthvað saman til elliáranna. Það er eiginlega kraftaverk, að hér skuli enn vera til fólk, sem sparar.

Stjórnin ætlaði að koma atvinnuvegunum á traustan og heilbrigðan grundvöll. Ekkert af viðreisnarloforðum hefur reynzt meira öfugmæli. Hvað eftir annað hafa höfuðatvinnuvegirnir verið reknir með stórfelldu tapi, það hefur verið vanrækt að endurnýja afkastamestu framleiðslutæki þjóðarinnar, togarana. Iðnaði hefur verið haldið í lánsfjárkreppu, staða landbúnaðarins hefur sjaldan verið veikari, atvinnuleysi og landflótti tvo seinustu vetur segja líka sína sögu, þó að nú sé bjartara fram undan vegna ágætra aflabragða. Sannleikurinn er sá, að eftir meira en 10 ára viðreisnarstjórn er uppbygging atvinnuveganna og efling atvinnulífsins brýnasta verkefnið, sem úrlausnar bíður.

Það átti að lækka skuldirnar við útlönd. Þær námu í upphafi viðreisnar um 5 milljörðum. Afborganir þeirra og vextir námu 1958 rúmum 8% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Sérfræðingar stjórnarinnar töldu þá, að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar væri hætta búin af þessari greiðslubyrði. Þróunin hefur orðið sú, að á valdatíma stjórnarflokkanna hafa skuldirnar við útlönd meira en tvöfaldazt og eru nú skuldirnar hátt á 12. milljarð kr. Greiðslubyrðin var í fyrra um 15% af gjaldeyristekjunum, en nú þegja allir efnahagssérfræðingar. Sannleikurinn er sá, að núverandi valdamenn eiga öllum öðrum fremur skilið að kallast skuldakóngar. Þeir reyna alls staðar að slá lán og hugsa sem svo: Það kemur ekki að skuldadögunum fyrr en eftir minn dag, en það verða einhverjir einhvern tíma að borga öll þessi lán, því ættu menn ekki að gleyma.

Það átti að afnema beina skatta af venjulegum þurftartekjum. Það hefur ekki verið gert. Þvert á móti er nú svo komið, að skattabyrði almennings er orðin óhæfilega þung. Gildi persónufrádráttar hefur rýrnað vegna vaxandi verðbólgu og er hann nú vanreiknaður. Söluskatturinn hefur verið hækkaður í 11%. Aðflutningsgjöldin hafa verið jöfnuð út, en voru áður mishá eftir því, um hve nauðsynlegar vörur var að tefla. Skattaframkvæmdin er svo kapítuli út af fyrir sig. Réttlætinu í þeim efnum kynnast menn, ef þeir lesa skatt- og útsvarsskrárnar. Þetta hefur og orðið úr skattaloforði stjórnarflokkanna.

Það átti að bæta kjör venjulegra launamanna. Þar eru staðreyndirnar þær, að launagreiðslur hér eru orðnar langtum lægri en í nálægum löndum. Á undanförnum árum hefur kaupmáttur launa á Íslandi farið minnkandi, og er það sennilega einsdæmi. Kaupmáttur vikukaups ófaglærðra verkamanna er í dag minni en þegar núv. ríkisstj. kom til valda. Þannig hefur verið staðið við loforðið um bætt kjör launamanna.

Það var lofað sparnaði í opinberum rekstri. Staðreyndin er hins vegar síhækkandi fjárlög með ári hverju.

Ég ætla ekki að dvelja lengur við loforðalista stjórnarflokkanna og vanefndir hans. Það er leiðindasaga, sem alþjóð ætti nú orðið að þekkja. En það, sem að mínum dómi er þó stærsti gallinn á núverandi valdamönnum, er handahófið, fálmið og fyrirhyggjuleysið. Þess vegna vorum við svo illa undir það búnir að mæta erfiðleikum, þegar harðnaði í ári. Það er ekki farið eftir neinum fyrir fram ákveðnum leiðarmerkjum, heldur látið reka fyrir veðri og vindi. Samkomulag virðist nánast um það eitt að sitja.

Um slík handahófsleg og tætingskennd vinnubrögð má nefna mörg nýleg dæmi. Það má t. d. nefna verðgæzlufrv. fræga, sem stjórnin flutti og rak á eftir með offorsi, þó að ekki ætti það að koma til framkvæmda fyrr en einhvern tíma á árinu 1971, en einn ráðh. varð svo til að fella. Það er einsdæmi, en ráðh. segja, að það geri ekkert til, stjórnin ætli ekki að segja af sér vegna svoleiðis smámuna.

Það má nefna húsnæðismálafrv., þar sem lífeyrissjóðum er gert að skyldu að afhenda fjórðung ráðstöfunartekna. Obbinn af sjálfstæðismönnum virðist því algerlega andvígur og raunar hefur því verið mótmælt úr öllum áttum af allra flokka mönnum. Er augljóst, að því hefur verið kastað fram í fljótræði. Í Morgunblaðinu 15. apríl segir m. a. svo um þetta mál:

„Áformið um þjóðnýtingu lífeyris- og eftirlaunasjóðanna að 1/4 hluta til að fjármagna húsnæðismálin er andstætt grundvallarstefnu Sjálfstfl. og fráleitt í alla staði.“

Og fyrirsögn þessarar Morgunblaðsgreinar var: „Í duftið að kröfu Alþfl.

Það má nefna skattamálafrv., sem fjmrh. biður nefnd að flytja, því að engin samstaða er um málið innan ríkisstj. Og sama er að segja um frv. um lífeyrissjóð bænda. Frv. er flutt af nefnd samkv. beiðni ráðh., sem lýsir því jafnframt yfir, að engin afstaða hafi verið tekin til þess innan ríkisstj.

Þannig mætti nefna mörg dæmi um ástand það, er nú ríkir á kærleiksheimili stjórnarinnar. Raunar sjá flestir nema ráðh. sjálfir, að botninn er dottinn úr núv. ríkisstj., en þeir vilja sitja, ganga með sams konar grillu og gamli, franski kóngurinn, sem sagði: „Ríkið, það er ég.“ Þeir halda, að þeir séu ómissandi, landinu verði ekki stjórnað án þeirra, þeir eigi stjórnarstólana, og þeir eru farnir að ímynda sér, að þeir og ríkið séu eitt og hið sama. Undir þessa meinloku er svo ýtt af launuðum loftungum, sem syngja ráðherrunum sætan söng. En auðvitað er þetta ímyndunarveiki á háu stigi. Hún birtist nú í ýmsu, sem frá ráðherrum kemur. Það var t. d. broslegt karlaraup, sem 19. apríl stóð í Morgunblaðspistlum þeim, sem kenndir eru við eða eignaðir forsrh. Þar sagði svo:

„Reynslan hefur nú skorið úr um það, að þeir, sem ábyrgð bera á stjórn landsmála síðustu árin, geta vel við unað, og enginn efi er á því, að dómur sögunnar mun verða sá,“ — já, takið eftir, — „að frábærlega vel hafi tekizt að ráða fram úr þeim gífurlegu vandamálum, sem að steðjuðu.“

Ég held, að sá, sem þetta skrifar, sé haldinn hættulegri blindni og hugsi og álykti öðruvísi en annað fólk. Það er fáum hollt að fara of lengi með völd í senn. Það leiðir oftast til ofmetnaðar og spillingar í einni eða annarri mynd. Samfelld valdaaðstaða núverandi stjórnarflokka er þegar orðin of löng. Lýðræðinu er bezt borgið með því, að stjórnmálaflokkar skiptist á um það að fara með völdin. Það er bezta vörnin gegn stöðnun og öruggasta ráðið til að knýja á um framfarir og æskilega endurnýjun í þjóðlífinu.

Senn kemur að því, að fóstbræðrasögu Alþfl. og Sjálfstfl. ljúki. Þá hefst ný saga. Þá þarf að taka upp nýja stefnu og ný vinnubrögð. Þar mun Framsfl. koma við sögu. Við framsóknarmenn höfum ekki ráð á neinum töframeðulum og við lofum engu gulli og grænum skógum. Ég held, að það sé betra að hafa fyrirheitin heldur færri, en reyna að standa við þau þeim mun betur. Það eru hvort sem er verkin og framkvæmdirnar, sem skipta meira máli en falleg orð. En við framsóknarmenn viljum vissulega vinna að gagngerðri stefnubreytingu. Það þarf að ráða bót á því, sem miður hefur farið og við höfum gagnrýnt. Það þarf að hverfa frá handahófinu og tregðustefnunni. Við teljum, að hið opinbera eigi að hafa forystu um uppbyggingu nýs og betra þjóðfélags, — þjóðfélags, sem byggir á jafnrétti þjóðfélagsþegnanna, hvar sem þeir eru búsettir og hvar í stétt sem þeir standa, — þjóðfélags, sem stefnir að því að sætta fjármagn og vinnuafl, tryggja réttláta skiptingu þjóðarteknanna. Það þarf að hefja framsókn og framfarastefnu á fjölmörgum sviðum þjóðlífsins. Við viljum beita okkur fyrir slíkri vakningar- og framfarastefnu. Það er margt, sem er ógert, og margt, sem kallar að.

En við vitum og viðurkennum, að það er ekki hægt að gera allt í einu, og það er ekki hægt að gera allt fyrir alla. Þess vegna verður að velja það úr, sem fyrir á að ganga og nauðsynlegast er og þjóðarheildinni fyrir beztu. Þess vegna leggur Framsfl. áherzlu á nauðsyn ítarlegrar áætlunargerðar um atvinnuþróunina. Það verður að einbeita fjárhagslegri getu þjóðarinnar að uppbyggingu fjölbreytts og gróskumikils atvinnulífs. Atvinnuleysi má ekki þola. Það verður að tryggja atvinnuöryggi í öllum byggðarlögum landsins. Það verður að leggja ríka áherzlu á að efla jafnvægi á milli landshluta. Það verður að hafa í huga við ráðstöfun ríkisfjármuna á komandi árum. Það verður að sýna meiri ráðdeild í ríkisbúskapnum en nú hefur verið gert um sinn.

Framsfl. leggur áherzlu á nauðsyn þess að vera vel á verði um verndun og eflingu menningarlegs, efnalegs og stjórnarfarslegs sjálfstæðis þjóðarinnar. Hann vill vinna að efnalegu sjálfstæði sem allra flestra einstaklinga á grundvelli einkaframtaks og samvinnu. Hann vill stuðla að sem mestu félagslegu öryggi og góðri og jafnri aðstöðu fyrir alla til menntunar. Við framsóknarmenn teljum, að breyta þurfi um stefnu í atvinnumálum, menningarmálum, skattamálum, samgöngumálum og kjaramálum, svo að nefndir séu nokkrir þeir málaflokkar, sem nú skipta hvað mestu máli. Stefnu sína í þeim málaflokkum hafa framsóknarmenn mótað í samþykktum sínum og með tillöguflutningi á Alþ. Hér er þess ekki kostur að rekja þær till. Ég vil hvetja alla til að kynna sér frv. og þáltill. okkar framsóknarmanna um þessi efni. Þeim munum við hrinda í framkvæmd, þegar við fáum aðstöðu til.

Vegna EFTA-aðildar verður nú þegar og á næstunni að gera sérstakar ráðstafanir til að bæta samkeppnisaðstöðu iðnaðarins. Án þess eru engar líkur til þess að EFTA-aðild verði okkur að gagni. Við framsóknarmenn höfum bent á aðgerðir í þá átt og flutt um þær sumar hverjar sérstakar till. Við framsóknarmenn töldum inngöngu í EFTA ekki tímabæra einmitt af því fyrst og fremst, að vanrækt hafði verið að gera þessar ráðstafanir. Nauðsynlegt er á næstunni að hefja stórsókn í markaðsmálum. Markaðskönnun og markaðsleit þarf að stórefla. Þar þurfa útflytjendur og hið opinbera að taka höndum saman. Við framsóknarmenn höfum á þessu þingi flutt þáltill. um undirbúning löggjafar um útflutningsráð. Er vonandi, að sú hugmynd komist í framkvæmd.

Sá pólitíski atburður, sem væntanlega vekur mesta athygli á næstunni, eru þær bæjar- og hreppsnefndarkosningar, sem fram eiga að fara síðasta dag maímánaðar. Á öllum hinum stærri stöðum eru þær pólitískar. Úrslit þeirra geta skipt miklu um pólitíska framvindu í landinu. Þær geta sýnt, hversu pólitísk viðhorf eru að breytast. Þetta er auðvitað öllum ljóst og þess vegna verða þær sóttar af kappi. En stjórnarflokkarnir segja, að ekki megi blanda landsmálum inn í þessar kosningar, þar sé ekki kosið um stjórnarstefnuna o. s. frv. Þess vegna eiga ráðherrarnir að vera í felum í þessum kosningum. Þeir mega ekki láta sjá sig, á þá og þeirra stefnu má ekki minnast. Ekkert sýnir betur uppgjöf og óvinsældir núv. ríkisstj. en einmitt þetta. Halda menn, að ráðherrunum og stjórnarstefnunni hefði ekki verið hampað í þessum kosningum, ef frambjóðendur stjórnarflokkanna hefðu talið það vænlegt málstað sínum til framdráttar? En það mun ekki takast að fela ráðherrana og þeirra mistök í þessum kosningum. Þeir verða miskunnarlaust dregnir fram í dagsljósið. Það er barnaskapur að ætla að reyna að telja mönnum trú um það, að ráðandi landsmálastefna skipti engu fyrir málefni bæjanna. Sannleikurinn er sá, að stjórnarstefnan endurspeglast í ástandi bæjarfélaganna, t. d. í atvinnumálum, þó að stjórnir bæjarfélaganna bregðist þar við með mismunandi hætti. Bæjarstjórnir þurfa svo margt til ríkisvaldsins að sækja og samvinna þessara aðila er svo margháttuð, að það skiptir meginmáli um hag og framkvæmdir bæjarfélaganna, hvaða stefnu er fylgt í stjórnarráðinu. Jafnvíst er og hitt, að tap stjórnarflokkanna í þessum bæjarstjórnarkosningum mun hafa sín áhrif á stjórnarsamstarfið. Það ættu allir að hafa hugfast. Þess vegna hljóta landsmálin og stjórnarstefnan að koma við sögu í þessum sveitarstjórnarkosningum, og þess vegna verða ráðherrarnir þar á forsíðu, hvernig svo sem reynt verður að breiða yfir þá.

Þessu þingi er senn að ljúka. Það hefur ekki verið sérlega tilþrifamikið, að mér finnst. Skal ég þó engu spá um það, hver eftirmæli þess verða í sögunni. Sennilega verður ákvörðunin um EFTA-aðild talin mikilsverðasta mál þess. Með því var óneitanlega stigið stórt spor. Hvort sú ákvörðun verður til góðs eða ills, er að mínu mati undir því komið, hvernig á verður haldið í framkvæmdinni. Nú ríður á því, að aðlögunartíminn sé réttilega notaður og nauðsynlegar ráðstafanir gerðar undandráttarlaust. Við framsóknarmennirnir munum styðja allar skynsamlegar ráðstafanir í þá átt.

Það er ýmislegt, sem betur mætti fara í störfum Alþ. að mínum dómi. Starfshættir þess eru sumir úreltir og starfsaðstaða þm. er ekki sem skyldi. Ég hef eins og fleiri gagnrýnt sitthvað í vinnubrögðum Alþ. Þá gagnrýni ætla ég ekki að endurtaka hér, en ég vil segja það, að ég er reiðubúinn til viðræðna og samstarfs um nauðsynlega endurskoðun á starfsháttum Alþ., enda verði við okkur talað sem jafningja, en ekki með

„ordrum“ ofan úr stjórnarráði. Við, sem erum í þessu húsi, deilum oft hart, en við skulum aldrei gleyma hlutverki Alþ. og sögu. Það má aldrei gleymast, að Alþ. er sú stofnun, sem á að skipa öndvegi í okkar þjóðfélagi. Það er hyrningarsteinn okkar þjóðskipulags. Þess vegna ber okkur alþm. hverjum og einum að gera veg þess sem mestan og standa vörð um virðingu þess og reisn. En þjóðin má heldur aldrei gleyma, hvað hún hefur átt í Alþ. og hvað hún á í Alþingi. — Góða nótt.