29.04.1970
Sameinað þing: 50. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1494 í B-deild Alþingistíðinda. (2052)

Almennar stjórnmálaumræður

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Auðheyrt var í gærkvöld, að viðskmrh. sveið sárt undan því, að afstaða framsóknarmanna til verðgæzlufrv. fletti ofan af óheilindum stjórnarflokkanna.

Verðgæzlufrv. ríkisstj. var algert sýndarmál af hennar hendi, m. a. vegna þess að það átti ekki að öðlast gildi fyrr en að áliðnu ári 1971, en því ákvæði bætti stjórnin inn í frv. Einn af ráðh. var svo látinn drepa frv., en sjálfur hrósaði viðskmrh. sér af því í gærkvöld í útvarpinu, að hann hefði lagt til í flokki sínum, að menn skyldu skiptast um frv., og bruggaði því þannig banaráðið sjálfur, sínu eigin frv. Frv. átti að vera sjónhverfingaspil sjálfstæðismanna til að róa einhverja, en hluti af Alþfl, átti að hrósa sér af því að vera á móti. Það sýnir svo pólitískt siðferðismat ráðh., að hann skuli telja sér ávinning í því að draga athygli manna að þessum ósköpum.

Framsóknarmenn eru fylgjandi frjálsri verðmyndun, en hún er ekki framkvæmanleg, nema skynsamlegri efnahagsmálastefnu sé fylgt og skilyrði þannig til þess. Það væri t. d. fullkomið ábyrgðarleysi að samþykkja algert álagningarfrelsi, en banna með lögum verðlagsuppbætur á laun. Það kom að sjálfsögðu ekki til mála í þingflokki framsóknarmanna að styðja þetta sjónhverfingabrall ríkisstj. með verðlagsmálin, en flokkurinn staðfesti stefnu sína í þeim málum á miðstjórnarfundinum um daginn á þá lund, sem ég rifjaði upp rétt í þessu. Til þess að flóðlýsa svo í lokin heilindin í þessu máli má minna á, að viðskmrh. hefur verðlagsákvæðin í hendi sér gegnum oddamann sinn í verðlagsnefnd, eins og lögin eru núna, og verðlagsákvæðin, sem gilda, eru raunverulega ákveðin af honum og forsrh., eins og annað, sem verulegu máli skiptir.

Af og til í vetur hafa stjórnarsamsteypumenn minnzt á afstöðu framsóknarmanna til EFTA og fært þar margt úr lagi. Ég vil hér fara um hana nokkrum orðum.

Á árunum 1960–1962 var farið að ræða um Efnahagsbandalag Evrópu og síðan um EFTA. Framsfl. mótaði fljótt afstöðu sína til bandalaganna þannig, að Íslendingar gætu alls ekki gengið í Efnahagsbandalagið, ekki gengið undir Rómarsamninginn né annan hliðstæðan. Á hinn bóginn yrðum við að búa okkur undir vaxandi fríverzlun. Þetta yrði þó því aðeins hægt, að íslenzkt atvinnulíf, og þó einkum iðnaður og sjávarútvegur, yrði fært um að heyja samkeppni á innlendum og erlendum vettvangi við atvinnufyrirtæki annarra þjóða.

Strax á Alþ. 1960 flutti Framsfl. till. um, að mörkuð yrði iðnþróunarstefna og iðnaðurinn efldur á þeim grundvelli. Síðan hefur flokkurinn flutt fjölda mála í sömu stefnu, en engu verið anzað. Og þegar EFTA-nefndin skilaði áliti í fyrra kom í ljós, að nálega allt var ógert, sem gera þurfti, til þess að búa íslenzkt atvinnulíf undir þá fríverzlun og harðnandi samkeppni, sem EFTA-aðild hefur í för með sér, og við sama stóð í vetur.

Afstaða Framsfl. í EFTA-málum nú var eðlileg í framhaldi af stefnu hans frá upphafi í málum þessum. Flokkurinn lagði til, að við þessar aðstæður yrði því frestað að taka afstöðu til EFTA-aðildar, en það tekið frsm yfir að gera lífsnauðsynlegar ráðstafanir í málefnum atvinnuveganna, sem sé tekin upp skýr og afdráttarlaus stefna í iðnþróunarmálum, en slíkt er alger forsenda þess, að smáþjóð af okkar tagi geti haft von um að þrífast við þau skilyrði, sem EFTA-aðild mótar.

Þessa afstöðu sína setti Framsfl. fram í dagskrártill. við lokameðferð málsins á Alþ. og þegar flokkurinn hafði það gert og þar með allt, sem í hans valdi stóð til að fá þá afgreiðslu á málinu, sem hann áleit skynsamlegasta, þá sáu þm. flokksins ekki ástæðu til þess að taka frekar þátt í atkvgr. um málið, enda gat það engin áhrif haft á úrslit þess. En úrslitin réðust í raun og veru endanlega með atkvgr. um dagskrártill. Framsfl.

Með þessum hætti var myndin skýrust af því, hvað Framsfl. vildi, sem sé að setja það á oddinn að búa þjóðina undir fríverzlun og fá heppilega samninga, en ekki andstaða við EFTA-tengsl, ef hyggilega væri um búið.

Núv. stjórnarsamsteypa hefur verið 11 ár við völdin. Þetta tímabil hefur verið, þegar á heildina er litið, langmesta uppgripatímabil í sögu þjóðarinnar og viðskiptakjör við önnur lönd þau beztu, sem þekkzt hafa, og það svo framúrskarandi, að þegar talað var um verðfall og jafnvel verðhrun 1968, jöfnuðust viðskiptakjörin á við það, sem bezt tíðkaðist fyrir 1960, og þegar talað var um aflabrest þá, var heildaraflinn í meðallagi miðaður við það, sem lengstum tíðkaðist, þótt síldina vantaði að mestu, en hana hafði vantað alveg í 10 ár fyrir 1960. Þessi 11 ár eru langmestu framfaraár allra nálægra þjóða í efnahagslegu tilliti og það svo, að sums staðar má nálega kalla byltingu.

En hvað hefur gerzt hér? Við höfum búið við bullandi verðbólgu og gengishrun. Óðaverðbólgan og óttinn við næstu gengislækkun hafa verið látin og eru látin stjórna fjárfestingunni, því það hefur ofan á annað verið liður í stjórnarstefnunni að stjórna ekki fjárfestingarmálum og hafa ekki forystu um uppbyggingu atvinnulífsins, eins og áður hafði þó tíðkazt hér. Stjórnleysisstefnan var tekin í stað forystustefnu þeirrar, sem áður var fylgt, en árangur hennar hafði orðið sá, að í lok tíunda síldarleysisársins í röð, 1958, höfðu hér allir verk að vinna og vantaði fólk, og kaupmáttur launa var meiri en hann er nú.

Óðaverðbólgan hefur stjórnað fjárfestingunni þannig í umboði ríkisstj., að tilfinnanlegur skortur er á framleiðslu- og atvinnutækjum, verulegt atvinnuleysi hefur haldið innreið sína víða, nema stórfelldar aflahrotur komi til um stundarsakir og nú kosningaframkvæmdir sums staðar. Landið er hlaðið skuldum, togaraflotinn hefur verið látinn grotna niður. Iðnaðaruppbyggingin hefur sáralítil orðið, þegar álverksmiðja útlendinga er frá talin, á sama tíma sem iðnaði annarra þjóða hefur fleygt fram. Í skólamálum, heilbrigðismálum og öðrum þjónustumálum höfum við dregizt aftur úr. Kaupmáttur kaupgjalds og launa er minni nú, þ. e. a. s. kaupgjald raunverulega lægra hér nú en fyrir 12 árum, en í nálægum löndum hafa lífskjör almennings batnað jafnt og þétt með vaxandi þjóðarframleiðslu.

Sú stjórnarstefna, sem hér hefur verið fylgt, er líka algert einsdæmi, miðað við þau lönd a. m. k., sem menn vilja bera sig saman við. Þar er hvergi neina hliðstæðu að finna. Þessi úrelta stefna, sem enn er fylgt, er í því fólgin að reyna að halda jafnvægi í þjóðarbúskapnum neikvæðu leiðina, með því að takmarka sem mest peningamagn í umferð, draga úr lánsfjármagninu, hækka látlaust álögurnar, til þess að draga úr kaupmættinum, og bæta síðan við gengislækkunum eftir þörfum til þess að „bjarga“, eins og það heitir á þeirra máli, bíta svo höfuðið af skömminni með því að dást að því, hvað gengislækkanirnar hafi borið glæsilegan árangur.

Menn máttu í gærkvöld enn einu sinni hlusta á forsrh. dást að því, hve vel hefði tekizt, þegar svo rækilega var komið í strand undir hans stjórn, að hann beitti sér fyrir gengishruni tvívegis á einu ári. Hvað má segja um raunsæi og skilning þeirra manna, sem hrósa sér af öðru eins og þessu? Er ráðh. svo blindur, að hann geri sér ekki grein fyrir því, að gengishrun af þvílíkri stærð sem hér varð, eftir mörg toppár í röð, er gleggsti vottur, sem verða má, um skipbrot stjórnarinnar? En þetta var þó aðeins einn snúningur svikamyllunnar, sem þeir halda gangandi, en þjóðin sýpur seyðið af. Hún er nálega orðin að viðundri í hópi nágranna sinna með hin vel heppnuðu gengishrun forsrh., lækkandi kaupgjald, dynjandi óðaverðbólgu, landflótta og ört vaxandi skuldasúpu út á við — og þetta á sama tíma sem aðrir rífa sig áfram óðfluga.

Það er ekki seinna vænna að gera sér grein fyrir því, að alger stefnubreyting verður að eiga sér stað. Eða telur nokkur hugsandi maður, að þjóðin geti búið farsællega í EFTA með þessu lagi? Það mætti líka spyrja að því og væri engin goðgá, hvort menn telji núv. ríkisstj. líklega til þess að hafa forystu fyrir þeirri stefnubreytingu, þ. á m. þeirri atvinnubyltingu, sem hér þarf að verða, ef vel á að fara? Sannarlega benda þau vettlingatök, sem enn hafa verið viðhöfð í málefnum iðnaðarins t. d., jafnvel eftir að við komum í EFTA, hvað þá áður, ekki til þess. Skyldu margir álíta, að þessi ríkisstj. geti haft forystu fyrir þeirri byltingu, sem hér þarf að verða í sjávarútvegi og fiskiðnaði í þá átt, að gæði og fullvinnsla komi til í vaxandi mæli? Þar er þó um lífshagsmunamál að ræða, sjálfan sjávarútveginn, sem verður að vera kjarninn í velmegun landsmanna. Og hvað um traustið á forystu þeirra í menntamálunum? Svona mætti halda áfram að spyrja.

Menn mega ekki láta mistökin draga úr sér kjarkinn, en gera sér grein fyrir því, að skilyrði skortir hér ekki til þess, að menn geti lifað góðu lífi og komið sér upp þeim atvinnurekstri, sem til þess þarf. Það sýnir m. a. sú staðreynd, að fyrir 11 árum var hér ekkert atvinnuleysi til og kaupgjald var hærra en nú, og voru þó ytri skilyrði lakari þá. En forystustefna byggð á skipulagshyggju verður þá að taka við af því úrræðaleysi, sem allt of lengi hefur einkennt stjórnarfarið. Skynsamlegur áætlunarbúskapur verður að koma til framkvæmda, til þess að þær framkvæmdir komist á oddinn, í stað þess að sitja á hakanum, sem þýðingarmestar eru til eflingar atvinnulífinu, ásamt þeim þjónustuframkvæmdum, sem mestu skipta.

Það má ekki viðurkenna það né þola það, að málefnum landsins sé stjórnað frá því sjónarmiði, að Íslendingar séu orðnir svo margir, að fyrir þá finnist ekki verkefni í landinu, og dugmiklu fólki sé sá kostur vænstur að hypja sig úr landi til þess að vinna fyrir sér. Þjóðinni vegnar ekki sízt eftir því, hvernig til tekst að búa í haginn með þeim framkvæmdum, sem í er lagt. Þess vegna verður að raða þeim eftir þörfum þjóðarinnar. Mistakist fjárfestingin, grefst undan afkomunni með flughraða, um það er reynslan ólygnust núna eftir þetta tímabil.

Snúa verður við blaðinu í lánamálum og taka hæfilegt tillit til þess, hve mikið peningamagn verður að vera í umferð, til þess að atvinnufyrirtækin hafi lífsnauðsynlegt rekstrarfé í stað þess að herða að lánastarfsemi með formúlum gerðum af handahófi, sem banna nálega allar bjargir í atvinnurekstrinum. Seðlabankinn verður að leggja fé inn í útlánakerfið, í stað þess að draga fé út úr því. Sterk og samræmd stjórn verður að komast á lánastarfsemina, svo aukið peningamagn nýtist til að auka framleiðsluna, auka atvinnuna, rífa upp fyrirtækin og gera þeim kleift að standast þá síharðnandi erlenda samkeppni innanlands sem utan, sem fram undan er. Þetta er enn meiri nauðsyn nú, vegna EFTA, en nokkru sinni áður.

Það verður hiklaust að styðja íslenzkan atvinnurekstur og íslenzkt framtak, og þótt einhver erlendur atvinnurekstur komi til í landinu, þá jafngildir hann aldrei íslenzkum að notagildi fyrir þjóðina, og engin dvergþjóð fær staðizt, sem treystir að mestu á forsjá og framtak útlendinga. Það verður því að vera grundvöllur nýrrar stefnu, að íslenzkum atvinnufyrirtækjum sé gert fært að keppa við erlend. En það geta þau ekki, nema þau búi við hliðstæð skilyrði og þau erlendu í öllum meginatriðum. Þetta tekur til skatta, tolla, stofnlána, rekstrarlána, vaxtakjara, tæknimenntunar starfsfólks og alls aðbúnaðar í þjóðfélaginu af hendi hins opinbera. Þetta sýnir, að hafi verið nauðsyn á stefnubreytingu og bættum aðbúnaði fyrirtækja fyrir EFTA-aðild, eins og Framsfl. hamraði á, þá er það orðin lífsnauðsyn nú, þegar við erum komin í EFTA.

Því fer fjarri, að kákráðstafanir þær, sem stjórnin hefur beitt sér fyrir á þessu ári, beri þess vott, að hún hafi skilning á þessu eða getu til rösklegra framkvæmda. Enda er þar hver höndin uppi á móti annarri, þegar til á að taka, og kveður svo rammt að þessu, að ráðh. fella jafnvel frv. sjálfrar ríkisstj. Um suma þætti, eins og skattamál félaga, getur ríkisstj. ekki einu sinni staðið saman að flutningi frv., hvað þá meir. Í húsnæðismálum verður kák eitt vegna þreytu og óeiningar í stjórnarliðinu.

Menn ættu að gera sér ljóst, að ríkisstj. hefur setið of lengi, ber þess merki og nær sér tæpast úr þessu. Ellefu ára lota þessarar stjórnarsamsteypu er þegar orðin of löng. Að dómi framsóknarmanna hefur ætíð verið rangt stefnt og nú upp á síðkastið bætast við vonbrigðin, sárindin og þreytan, sem átakanlega segja til sín í vinnubrögðunum, eins og rakið hefur verið af stjórnarandstæðingum í þessum umr. Þetta finna menn í stjórnarflokkunum, þótt ekkert sé viðurkennt á yfirborðinu.

Í allri þeirri tröllauknu flækju nýrra stofnana utan yfir þær, sem fyrir voru, sem ríkisstj. hefur ofið utan um sig á þessum 11 árum, er fólgin mikil hindrun á eðlilegri framþróun. Við þetta ryðgaða bákn streitast framfaramenn landsins, yngri og eldri, með málefni sín, unz menn verða hópum saman að gefast upp. Það verður að ná þessari kergjulegu tregðu, sem nú mætir mönnum í nálega hverri átt, út úr stjórnarkerfinu og gera kerfið hvetjandi, í stað þess, að nú er það letjandi. Í staðinn fyrir þetta endalausa, lamandi áróðursmálæði, sem ríkisstj. notar og lætur nota í stað raunhæfra framkvæmda, — en það eru hennar steinar fyrir brauð verða að koma myndarleg átök, sem efla framtak landsmanna, ekki sízt unga fólksins í námi og starfi. Til þess að þetta komist í framkvæmd, þurfa ný öfl að koma til, nýir, óþreyttir menn, sem endurskoða stjórnarkerfið frá rótum og gæða það nýju lífi.

Okkur er sagt, að ráðherrar hafi nú ákveðið, að Alþ. skuli hætta næstu daga og alþm. fara heim frá öllum þeim aragrúa merkra nauðsynjamála, sem fyrir liggja og sum hafa ekki einu sinni fengizt tekin á dagskrá vikum og jafnvel mánuðum saman. Síðan ætla þeir að stjórna með brbl. fram á haustið, nálega hálft árið. Þetta er ein af aðferðum ráðlítillar ríkisstj., sem orðin er hrædd við Alþ. og hefur misst tökin á löggjafarstarfinu, eins og dæmin sýna ljóst síðustu vikurnar. Sýnir þetta enn með öðru að breyta þarf til. Engir geta þó bót á ráðið nema kjósendurnir. Þeir ættu að byrja á því verki núna í kosningunum í vor, þar sem tækifæri gefast til þess í bæjar- og sveitarstjórnakosningunum. Þurfa menn víst ekki að hafa hlustað lengi á þessar umr. til þess að ganga úr skugga um, að aðeins ein leið er fær til þess að knýja fram breytingar, sem sé sú að styðja Framsfl. — Góða nótt.