29.04.1970
Sameinað þing: 50. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1499 í B-deild Alþingistíðinda. (2053)

Almennar stjórnmálaumræður

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Enginn, sem þarf að sjá heimili farborða, hefur komizt hjá því að finna, hvernig peningarnir hafa með ári hverju enzt verr og verr til heimilisrekstrarins. Enda þótt launin hækki að krónutölu, fer sífellt stærri hluti þeirra til kaupa á hinum allra brýnustu daglegu nauðsynjavörum, og því stærri sem fjölskyldan er, þeim mun meir hafa aukizt erfiðleikarnir að láta launin endast til nokkurs annars en allra óhjákvæmilegustu og óbrotnustu lífsnauðsynja. Hins vegar hafa aðrir hlutir ekki hækkað í verði að sama skapi. Kaupgildi krónunnar hefur jafnvel aukizt gagnvart ýmsum ónauðsynlegri vörum, en þess njóta fyrst og fremst aðrir en þeir, sem berjast við að láta launin endast fyrir matvörum, húsnæði og sköttum. Minni hækkun ónauðsynlegri vara hefur á hinn bóginn þau áhrif, að vísitala hækkar ekki í sama mæli og brýnustu nauðsynjavörur, og vísitölubætur á laun verða þeim mun minni.

Hvernig stendur nú á þessari þróun? Hafa kaupmenn tekið sig saman um að velja úr matvörurnar og hækka þær sérstaklega, langt fram yfir allt annað? Ekki liggur hundurinn þar grafinn. Þessi þróun er afleiðing af markvissri stefnu stjórnarvaldanna s. l. áratug, yfirveguð ákvörðun Sjálfstfl. og Alþfl. Þessi stefna hefur verið framkvæmd með því að skattleggja landsmenn í ríkissjóð á allt annan veg en áður var gert. Fram að tíma viðreisnarstjórnarinnar voru aðaltekjur ríkissjóðs tollatekjur, en tekjuöflun með tollum var hagað á þann veg, að hann var svo til enginn á nauðsynjavörum, en þeim mun hærri sem varan var talin fjær því að vera nauðsynjavara og óhjákvæmileg dagleg neyzluvara heimilanna. Söluskattur var þá aðeins tekinn af innflutningi, en alls enginn af innlendum neyzluvörum. Á árinu 1959 námu tollar 450 millj. kr., en söluskattur af innflutningi 151 millj. kr.

Með tilkomu viðreisnarstjórnarinnar var farið inn á nýjar brautir í þessum efnum. Almennur söluskattur var lagður á alla smásöluverzlun og þar með á allar brýnustu matvörur, þó var mjólk og neyzluvatn allra náðarsamlegast undanskilið með sérstökum ákvæðum.

Þegar viðreisnarstjórnin innleiddi söluskatt í smásölu, nam hann fyrst 3%, en svo dyggilega hefur þessi stefna verið rekin, sem hafin var 1960 með gjörbyltingu í innheimtuaðferðum ríkisins, að hann er nú kominn upp í 11%. Hér er um að ræða grundvallarbreytingu á skattheimtukerfinu, sem bitnar harðast á barnafjölskyldum og elli- og örorkulífeyrisþegum og öðrum þeim, sem nota meginhluta launa sinna til kaupa á brýnustu matvörum, sem nú eru skattlagðar í stórauknum mæli.

Tölulega sést þessi breyting sem heild, ef borin er saman hlutdeild einstakra aðalskattstofna ríkissjóðs í heildarsummu þeirra, þ. e. í fyrsta lagi tekju- og eignarskatts, í öðru lagi tolla og í þriðja lagi söluskatts. Árið 1959 nam tekju- og eignarskattur 145 millj. kr., en árið 1970 911 millj. kr., nam áður 19.4% af heildarsummu þessara þriggja skattstofna, en nú 15.8%. Árið 1959 námu tollar 450 millj. kr., nú 2305 millj. kr., áður 60.3% af heildarsummunni, nú 40%. Árið 1959 nam söluskattur 151 millj. kr., nú 2545 millj., áður 20.3% af heildarsummu þessara þriggja skattstofna, nú 44.2%. Hlutfallstalan hefur hækkað um 117.7% og er þá á það að líta, að áður var söluskattur einungis á innflutningi og því enginn á innlendri matvöru, en er nú 11% á öllum vörum nema mjólk og fiski. Áður var söluskattur einn þriðji hluti af tollaupphæðinni, nú er hann 250 millj. kr. hærri en tollarnir.

Ef sleppt er hugleiðingum um tölulega heildarhækkun þessara skattstofna úr 746 millj. kr. árið 1959 í 5761 millj. kr. árið 1970, — nærri áttföldun, þegar laun hafa um það bil þrefaldazt, — er rétt að huga að því, hver ætti að vera upphæð einstakra skattstofna í dag. Ef heildarupphæðin er sú sama nú en hlutföllin hin sömu og 1959, kemur í ljós, að tekju- og eignarskattur ættu að vera 1118 millj. kr. í stað 911, þar munar 207 millj. kr. Tollar ættu að vera 3474 millj. í stað 2305 millj. kr., þar munar 1169 millj. kr. Og söluskattur ætti að vera 1169 millj., en er 2595 millj. kr., þar munar 1376 millj. kr. M. ö. o.: mismunurinn á hlutfallslegri stærð þessara einstöku skattstofna nú og 1959 svarar til þess, að af heildarupphæðinni sé söluskattur 1376 millj. kr. hærri en hann væri, ef hlutfallið væri óbreytt frá 1959. Hér er um að ræða upphæð, sem nemur 34–35 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu á þessu ári, upphæð, sem færð hefur verið yfir á söluskatt, en það er skattur, sem hvert mannsbarn verður að játa, að er ósanngjarnasta tegund skattheimtunnar, vegna þess að hún bitnar á þegnunum í beinu hlutfalli við fjölskyldustærð og leggst að öðru leyti þyngst á þá, sem nota tekjur sínar að mestu leyti í brýnustu lífsnauðsynjar, þ. e. barnafjölskyldur og elli- og örorkulífeyrisþega.

Þessi stefna ríkisstjórnarflokkanna hefur raskað svo aðstöðu þeirra, sem við erfiðust kjör lifa, að í dag búum við, að því er varðar tilhögun um álögur á þegnana, í allt öðru þjóðfélagi en fyrir áratug. Með afleiðingunum af þessari stefnu eru barnafjölskyldur og elli- og örorkulífeyrisþegar að uppskera það þjóðfélagslega réttlæti, sem Alþfl. hefur verið að sá til með þjónustu sinni við íhaldið rúman áratug. Og þið skuluð ekki halda, hlustendur góðir, að hér hafi Sjálfstfl. og Alþfl. náð endanlegu markmiði. Nei, þessi braut er ekki til enda gengin. Söluskatturinn hækkaði í vetur úr 7.5% í 11%, þegar verið var að mæta afleiðingunum af fyrsta áfanga af efnahagsráðstöfununum vegna inngöngu í EFTA. Verði þeim mætt á sama hátt í þeim áföngum, sem eftir eru, eins og allt bendir til að gert verði, þá hækkar söluskatturinn upp í 20%.

Fram að þessu hafa fjölskyldur í ríkum mæli mætt kjaraskerðingunni, verðhækkuninni á matvælum, með því að færa neyzlu sína í einstökum atriðum yfir í ódýrari vöruflokka, t. d. keypt jurtasmjörlíki í stað smjörs, svo að niðurgreiðslur ríkisins á smjöri, 100 kr. á kg, koma nú í sífellt meira mæli aðeins í hlut hinna efnameiri. Smjörsalan mun t. d. hafa minnkað um fjórðung frá 1. okt. s. l. haust þar til 1. apríl s. l., miðað við sömu mánuði árið áður. Það stafar sannarlega ekki af því, að fólk hafi orðið illan bifur á smjöri, það mega hæstv. ráðh. vita. En hvað eiga barnafjölskyldur og elli- og örorkulífeyrisþegar að gera, þegar peningarnir renna eins og sandur um greiparnar, þegar kaupa þarf brýnustu nauðþurftir? Það eru hins vegar takmörk fyrir því, hversu lengi er hægt að mæta stöðugum verðhækkunum matvæla með þessum hætti, að kaupa ódýrari og lakari vörutegundir, og hver verða viðbrögðin, þegar næsti áfangi söluskattshækkunar verður lögfestur? Það þrengist sífellt um möguleika í þessu efni.

Þegar athugað er verðlag einstakra matvöruflokka, sem eru aðalliðirnir í daglegum innkaupum almennings, kemur bezt í ljós, við hvaða afleiðingar viðreisnarstefnunnar launþegar þurfa daglega að kljást. Síðan 1957 hefur tímakaup um það bil þrefaldazt, og á sama tíma hefur verðið á mjólk um það bil fjórfaldazt, á súpukjöti nær fimmfaldazt, á nýjum fiski rúmlega áttfaldazt, á kaffi rúmlega sexfaldazt, á hveiti nær áttfaldazt, á hrísgrjónum um það bil nífaldazt, á smjörlíki nær tífaldazt og á kartöflum rúmlega fjórtánfaldazt. Launin hafa hins vegar um það bil þrefaldazt, eins og ég áður sagði. Þetta er m. a. afleiðingin af þeirri stefnu ríkisstj. að færa skattheimtuna í sívaxandi mæli í það horf að gera nauðsynlegustu matvæli að skattstofni. Mér kemur í hug kaupmaður, sem verzlaði með matvörur, og var spurður að því, hvort hann hefði ekki hug á að verzla fremur með aðrar vörur. „Nei“, sagði hann, „það er öruggast að vera í matvörunum. Þær verður fólk alltaf að kaupa.“ — Hér eru ríkisstjórnarflokkarnir á sama máli. Í sambandi við skattheimtuna er öruggast að vera í matvörunni. Þar sleppur enginn.

Þegar verið var að innleiða þessa stefnu Sjálfstfl. og Alþfl. með lögfestingu 3% söluskatts í smásölu, fylgdu þær yfirlýsingar, að hlutur þeirra, sem verst eru settir og afleiðingarnar bitnuðu harkalegast á, yrði bættur með myndarlegum fjölskyldubótum og elli- og örorkulífeyri. Við þann áfanga, sem 11% söluskatturinn er, var sá hlutur þessa fólks á þann veg, sem nú skal greina, og er þá reiknað með nýjustu hækkunum bótanna: Elli- og örorkulífeyrir fyrir einn mánuð dugði við 3% söluskattsáfangann fyrir 326.6 kg af nýjum fiski, en við 11% áfangann, þ. e. a. s. í dag, fyrir 138.4 kg. Af súpukjöti fengust þá fyrir ellistyrkinn 53.1 kg, nú 30 kg, af nýmjólk 334 lítrar, nú 263 lítrar, af saltfiski 149.9 kg, nú 78.6 kg, af smjörlíki 87.2 kg, nú 60.2 kg, af kaffi 24.4 kg, nú 20 kg, af kartöflum 208.6 kg, nú 188.7 kg. Kaupmáttur bótanna gagnvart þeim vörum, sem þær eru fyrst og fremst notaðar til kaupa á, hefur hríðfallið með ári hverju undanfarið. Sama er að segja um fjölskyldubæturnar, sem ætlaðar eru barnafjölskyldum til að mæta vöruverðshækkunum. Þær hafa þó hrapað enn meir. Við 3% söluskattshækkunina dugðu eins mánaðar fjölskyldubætur með fjórum börnum fyrir 257.4 kg af nýjum fiski, nú fyrir 62.4 kg. Af súpukjöti fengust 38.4 kg, nú 13.9 kg. Af nýmjólk fengust 241.2 lítrar, nú 122.1 lítri. Af saltfiski fengust 108.2 kg, nú 36.4 kg. Af smjörlíki fengust 63 kg, nú 29.2 kg. Og af kartöflum fengust 511.7 kg, nú 87.3 kg.

Skattheimtustefna Alþfl. og íhaldsins, sem rekin er undir kjörorði kaupmannsins: „Það er öruggast að vera í matvörunni“, kemur sér vel fyrir ríkiskassann varðandi ellistyrkinn og fjölskyldubæturnar. Með þessari tilhögun er nefnilega hægt að ná verulegum hluta bótanna aftur inn í ríkissjóð. Hvar sem húsmóðir eða ellilífeyrisþegi kaupa svo mikið sem eitt smjörlíkisstykki í búð, þá er Magnús þar kominn með baukinn sinn og í hann verður að láta 11%. Með síhækkandi söluskatti fara fjölskyldubæturnar og ellistyrkurinn í jafnvaxandi mæli beint í ríkissjóð. Þar við bætist, að fjölskyldubæturnar, sem að nafninu til a. m. k. eru ætlaðar til að mæta verðhækkunum á nauðsynjavörum, hirða sum bæjarfélögin að verulegu leyti með því að leggja á þær útsvar. Samkvæmt lögum er þó heimilt að undanþiggja þær útsvarsálagningu. Í þeim bæjarfélögum, þar sem þeir fara með stjórn, sem hugsa meir um hag annarra en þeirra, sem dýrtíðin þjarmar mest að, fara jafnvel 20–30% bótanna beint í bæjarsjóð. Þetta gerist t. d. í mínum heimabæ, þar sem bæjarstjórnarmeirihlutinn hefur ásamt Alþfl. fellt till. Alþb. um að undanþiggja fjölskyldubætur útsvarsálagningu, á sama hátt og gert er t. d. í Kópavogi og Neskaupstað. Þannig hefur stjórnarstefnan leikið þá, sem nota meginhluta tekna sinna í brýnustu lífsnauðsynjar. Þeir hafa orðið verst úti, og einnig þannig er komið kaupmætti tryggingabótanna.

Margir Alþfl.-menn, sem fordæma stjórnleysið í innflutnings- og fjárfestingarmálum, athafnaleysið í málum togaraútgerðarinnar, óheft umsvif gróðaaflanna og aðra þætti stjórnarstefnunnar, telja sér trú um, að umhyggja Alþfl. fyrir almannatryggingum og hlutverk hans að auka þær og bæta réttlæti rúmlega 10 ára íhaldsþjónustu og þátttöku í öllum hervirkjum viðreisnarinnar. Þegar þeir kanna nú árangurinn í málefnum almannatrygginganna og leita þar afreka Alþfl., koma þeir þar að tómum kofunum. Og hver er þá réttlætingin fyrir íhaldsþjónkuninni á öllum öðrum sviðum, þegar staðreyndin er sú, að þessi þjónusta við íhaldið nær einnig til trygginganna?

Það er ljóst, að stefna ríkisstjórnarflokkanna í skattheimtu- og verðlagsmálum hefur bitnað harðast á bótaþegum, barnafjölskyldum og elli- og örorkulífeyrisþegum. Það er eftirtektarvert og ætti að vera þeim lærdómsríkt, sem kosið hafa Alþfl. til þessa vegna umhyggju hans fyrir almannatryggingum, að þegar ein stærsta árásin á afkomu bótaþega var gerð með hækkun söluskatts úr 7.5% í 11%, fékkst ekki einn einasti Alþfl: þm. til að samþ. eyris meiri hækkun til ellilífeyris en 6.20 kr. á dag. Þetta var mat Sjálfstfl. og Alþfl. á því, hver skyldi vera hlutur þeirra, sem erfiðast eiga í þjóðfélaginu, á sama tíma og hér stöð yfir mesta og gjöfulasta vertíð, sem þessi þjóð hefur nokkru sinni notið og sjáanlegt er að stóreykur tekjur ríkissjóðs fram yfir það, sem áætlað var, þegar fjárl. voru samþykkt. Þótt ekki væri hægt að samþykkja á Alþ. meiri hækkun til ellilífeyrisþega en 6.20 kr. á dag og ekki þætti heldur unnt að samþ. aukinn skattfrádrátt einstæðra foreldra, þá var samt talið jafnsjálfsagt að veita fyrirtækjum alveg ný hlunnindi í skattamálum á þann veg að auka fyrningu til frádráttar skattskyldum tekjum.

Þó væri rangt að segja, að Alþfl. hafi ekki sýnt áhuga á málefnum almannatrygginga um þær mundir sem hann ásamt íhaldinu skammtaði gamalmennum 6 kr. á dag upp í verðhækkanirnar. Sá áhugi beindist að vísu ekki að auðum pyngjum þessa fólks, en hann beindist þeim mun fastar að auðum stól forstjóra almannatrygginga, og þótt áhyggjur bótaþega um afkomu sína kunni enn að vera til staðar, þrátt fyrir að heilar 6 kr. hafi bætzt í pyngjuna á dag í öllum verðhækkununum, þá mun áhyggjum Alþfl. út af þessum auða stól hjá almannatryggingunum nú hins vegar, guði sé lof, hafa af þeim létt. Það hafa þá kannske ekki allir orðið fyrir vonbrigðum með almannatryggingarnar á þessu vori. En velkist einhver Alþfl.-maður enn í vafa um, hvert sé hlutverk flokksins í ríkisstj. með íhaldinu í rúman áratug og hverra hagsmuna hans sé þar að gæta, þá ætti sá hinn sami að hlusta grannt eftir, þegar birtar eru opinberar tilkynningar um stöðuveitingar hjá ríkinu, þá kynni hann að fá svar við þeirri spurningu.

Góðir hlustendur. Sú skattheimtuaðferð, sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa innleitt á undanförnum árum, að ná stærri og stærri hluta ríkisteknanna með sköttum á nauðsynjavörur, er ríkur þáttur í versnandi afkomu þeirra, sem verða að nota meginhluta tekna sinna til kaupa á brýnustu lífsnauðsynjum. Það ætti því að vera ljóst hverjum þeim launþega, sem geldur þessarar vísvitandi stefnu, að kjarabaráttan er tvíþætt, annars vegar stéttabarátta verkalýðsfélaganna fyrir hækkuðu kaupi og hins vegar átökin um stjórnarstefnuna í landinu í því skyni að koma í veg fyrir, að launabaráttan verði að engu gerð með aðferðum eins og þeim, sem ég hef hér verið að lýsa og stjórnarflokkarnir beita. Bæjarstjórnarkosningarnar, sem fara fram um land allt í maílok, eru mikilsverður þáttur í baráttu fyrir bættum kjörum. Baráttan í bæjarstjórnarkosningunum hvarvetna um landið er því á hverjum stað, auk deilna um bæjarmál, þáttur í þeirri heildarbaráttu, sem alþýða manna um land allt er nú að heyja fyrir hækkuðu kaupi og bættum stjórnarháttum í landinu. Úrslit bæjarstjórnarkosninganna munu hafa afdrifarík áhrif á það, hvern sigur almenningi auðnast að vinna að ári, þegar úrslitaátök um stjórnarstefnuna í landinu fara fram. Ríkisstjórnarflokkarnir verða því að bíða ósigur í bæjarstjórnarkosningunum sem víðast í landinu, og sigurinn þarf jafnframt að falla í hlut Alþb., þess eina flokks, sem nú og í framtíðinni er fær um að vera forystuafl verkalýðsstéttarinnar í landinu á stjórnmálasviðinu. — Góða nótt.