29.04.1970
Sameinað þing: 50. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1508 í B-deild Alþingistíðinda. (2055)

Almennar stjórnmálaumræður

Unnar Stefánsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í skólamálum höfum við dregizt aftur úr, sagði Eysteinn Jónsson hér rétt áðan. Svo mörg voru þau orð. Hvað á fyrrv. formaður Framsfl. við með þessum ummælum? Lítum yfir stjórnartíð núv. ríkisstj. og lítum á þetta nokkru nánar, í ljósi þeirra talna, sem fyrir liggja. Undanfarin tíu ár hefur verðmæti þjóðarframleiðslu Íslendinga aukizt úr 7300 millj. kr. árið 1959 í 33400 millj. kr. s. l. ár, árið 1969. Þetta er aukning um 360%. Á sama tíma hafa útgjöld þjóðarinnar til menntunarmála aukizt úr 250 millj. kr. 1959 í um 1750 millj. kr. árið 1969. Þetta er aukning um 600%. Þessar vaxtartölur segja þrennt: Verðhækkanir, sem orðið hafa á tímabilinu, raunveruleg framleiðsluaukning á hvert mannsbarn og fjölgun vinnandi manna. Þær segja því ekki annað en að sívaxandi hluta af þjóðartekjum landsmanna hafi verið varið til menntunarmála.

Lítum á málið frá annarri hlið. Að meðaltali voru ráðstöfunartekjur á hvern Íslending um 30% hærri árið 1969 en 1959, og er þá búið að taka fullt tillit til verðbreytinga. Á sama hátt reiknað voru útgjöld á hvert mannsbarn til menntamála um 100% hærri 1969 en 1959. Raunverulegar tekjur á mann hækkuðu um tæpan þriðjung, en útgjöld til menntamála tvöfölduðust. Svo kemur fyrrv. form. Framsfl., Eysteinn Jónsson, og segir, að í skólamálum höfum við dregizt aftur úr. Ég læt hlustendum eftir að dæma slíkan málflutning.

Gils Guðmundsson minntist í gær á störf Gylfa Þ.Gíslasonar menntmrh. Hann viðurkenndi, að menntmrh. sé hæfileikamaður, en sagði, að enginn gæti haft störf menntmrh. í hjáverkum. Sönnun þess, að Gylfi hefði menntmrh.-störfin í hjáverkum, var þá sú, að skrifstofa hans væri í viðskmrn., en ekki í menntmrn. Ef Gylfi hefði skrifstofu sína í menntmrn., mætti með sama hætti segja, að hann hefði embætti viðskmrh. í hjáverkum. Sannleikurinn er sá, að allir ráðh., nema forsrh., stjórna tveimur rn. Allir vita, að enginn meðalmaður gæti gert það, sem Gylfi hefur afkastað sem menntmrh. í hjáverkum, svo sem áðurgreindar tölur bera ljósast vitni um. Enda er nú sagan vafalaust að fella þann dóm, að hann sé dugmesti menntmrh., sem þjóðin hefur átt.

Ég ætlaði ekki að taka þátt í umr. um dægurmál af þessu tagi, sem hér gafst tilefni til. Ég ætlaði að vekja athygli hlustenda á nokkrum málum, sem ég tel framtíðarmál. Meðal þeirra er frv., sem nú er væntanlega afgr. og lætur ekki mikið yfir sér, um sameiningu sveitarfélaga. Með samþykkt þess mun Alþ. í fyrsta skipti marka stefnu af hálfu hins opinbera að því er varðar umdæmastærð sveitarfélaganna í landinu. Sem sé er í stuttu máli um það að ræða, að ríkisvaldið hlutist til um, í samráði við sveitarstjórnir og samtök þeirra, að umdæmastærðin, að félagsheildir fólks í landinu verði miðaðar við þarfir og aðstæður okkar tíma. Hrepparnir eru elztu félagsmálastofnanir í landinu, eldri en sjálft Alþ., og standa því traustum fótum sem hornsteinar okkar þjóðskipulags. En við því er tæpast að búast, að forfeður okkar á 10. og 11. öld hefðu haft þá framsýni til að bera, að þeir gætu séð fyrir þarfir okkar tíma hvað snertir samgöngur og aðra samfélagshætti. Ég tel engan vafa á því, að þegar fram líða stundir, muni íbúar hinna ýmsu byggðarlaga telja, að þeim muni skapast betri lífsstaða með því að skipa sér saman í fjárhagslega stærri og sterkari félagsheildir til lausnar á þeim mikilsverðu málum, sem nú eru fram undan víðast hvar um landið. Það var ánægjulegt, að fulltrúar allra flokka í félmn. Nd. mæltu einróma með því, að frv. yrði að lögum.

Mörg mál, sem þetta þing hefur fjallað um, stuðla einmitt að því, að sveitarstjórnir fá meiri og stærri verkefni en áður hefur verið. Þó hygg ég, að í framtíðinni muni þetta frv. leiða til allvíðtækra breytinga á stjórnskipulagi okkar úti um byggðir landsins. Skilyrði munu nú skapast til að mynda öflugri héraðsstjórnir með myndun landshlutasamtaka, sem fengju smám saman í hendur aukið framkvæmdavald og gerð landshlutaáætlana, — sem þegar eru hafnar með gerð Vestfjarðaáætlunar og Norðurlandsáætlunar, þar sem heimamenn munu hafa það hlutverk að leysa úr læðingi þau öfl, sem orðið gætu viðkomandi byggðarlögum til styrktar og eflingar í atvinnumálum og menningarmálum. Í annan stað mundi skapast grundvöllur til að taka til heildarendurskoðunar alla núverandi verkefnaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaganna. Það lætur að líkum, að sárafámenn sveitarfélög geta naumast tekið aukin og vandasöm verkefni í sínar hendur.

Ríkisstj. hefur nú óskað eftir því, að upp verði tekin slík endurskoðun á verkefnaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Ég tel, að slík endurskoðun eigi að leiða af sér, að sveitarfélögin fái í hendur aukna tekjustofna, meira svigrúm í framkvæmdum, til þess að heimafólk sjálft fái auknu hlutverki að gegna í atvinnu- og fræðslumálum og öðrum málefnum landsins.

Sem dæmi um mál, þar sem sveitarstjórnum eru lögð aukin verkefni á herðar, vil ég nefna nokkur mál frá þessu þingi. Nú er verið að afgr. frv. til l. um húsnæðismál. Aðstoð við sveitarfélög vegna togarakaupa. Ný hafnalög voru sett fyrir nokkrum árum og er nú unnið skipulega að hafnarframkvæmdum á meira en 30 stöðum á landinu, þar sem meira en 100 millj. kr. er varið til hafnarmála. Ný skólakostnaðarlög gera einfaldari samskipti ríkis og sveitarfélaga um meðferð allra fræðslumála. Þannig eru nú í smíðum 94 skólar, sem sveitarfélög og ríki standa sameiginlega að, og til þeirra framkvæmda mun varið yfir 200 millj. kr. á þessu ári. Nýju skólakostnaðarlögin gefa sveitunum enn fremur tækifæri, sem þær höfðu ekki áður, til þess að stórauka kennslu án aukinna útgjalda, með því að allur kennslukostnaður er nú greiddur af ríkissjóði innan sanngjarnra heildarmarka. Skólakostnaðarlögin stuðla einnig að aukinni samvinnu sveitarfélaga um sameiginleg fræðslumál. Í þeim tilvikum greiðir ríkissjóður t. d. heimavistir að fullu. Drepa má einnig á vegalög, en samkv. þeim hafa sveitarfélög fengið hlutdeild í vegasjóði, sem numið hefur um 250 millj. kr., aðeins sex árum frá því að vegalög tóku gildi. Með því að nefna þetta vil ég vekja athygli á aukinni tillitssemi stjórnvalda við hlutverk sveitarfélaganna í landinu, og í þeim efnum má enn fremur geta þess, að hlutdeild sveitarfélaga í jöfnunarsjóði mun á þessu ári nema 360 millj. kr.

Ég skal víkja nánar að frv. til l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Húsnæðismálastjórn er nú heimilt að veita þeim sveitarfélögum, sem byggja íbúðir og selja einstaklingum, lán meðan á byggingu stendur, enn fremur lán til byggingar leiguhúsnæðis í kaupstöðum, kauptúnum og öðrum skipulagsskyldum stöðum. Þá greiðir ríkissjóður jafnhátt framlag móti framlagi sveitarfélaga til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði. Þá er í frv. fólgin stórfelld efling á verkamannabústaðakerfinu og sveitarstjórnum falið frumkvæði að byggingu verkamannabústaða. Sveitarstjórnir skulu ákveða framlög til 4 ára í senn og framlög sveitarfélaganna skulu vera frá 200–400 kr. á hvern íbúa, og svo greiðir ríkissjóður jafnháa upphæð á móti til sveitarfélagsins. Kerfi þetta yrði í framkvæmd þannig, að sá, sem byggir samkvæmt þessum ákvæðum, fær tvö lán: Lán úr byggingarsjóði ríkisins með venjulegum kjörum og lán frá byggingarsjóði verkamanna til 42 ára með 2% ársvöxtum. Sjálfur leggur íbúðareigandinn fram 20% byggingarkostnaðarins. Sé miðað við 100 m2 íbúð, sem kostar 1200 þús. kr., yrði fjármögnun hennar með þeim hætti, að væntanlegur kaupandi greiddi 240 þús. kr., lán frá byggingarsjóði ríkisins næmi 600 þús. kr. og lán frá byggingarsjóði verkamanna 360 þús. kr. Ég vek athygli á því, að hin nýju lög, sem væntanlega verða samþ. á þessu þingi, veita möguleika á því, að allar sveitarstjórnir í þéttbýlisstöðum, kaupstöðum og kauptúnum geti veitt væntanlegum íbúðareigendum hin sömu kjör eða betri kjör en íbúðarbyggjendur í Breiðholti í Reykjavík nutu á seinasta ári samkvæmt þeim reglum, sem framkvæmdanefnd byggingaráætlunarinnar gat þar boðið.

Þá vil ég enn vekja athygli á því, að nú verður húsnæðismálastjórn í fyrsta skipti veitt heimild til að veita lán til kaupa á eldri íbúðum. Þetta tel ég mikilsvert ákvæði. Það greiðir fyrir íbúðaskiptum og ætti að stuðla að hagkvæmari nýtingu íbúðarhúsnæðis, þegar til lengdar lætur. Sérstaklega er þetta atriði mikilsvert, ef horfið yrði að því ráði, eftir að nýtt fasteignamat öðlast gildi seinna á þessu ári, að hækka fasteignaskatta, sem ég held, að muni hafa hagstæð áhrif fjárhagslega og færa skattheimtu í réttlátara horf frá því sem verið hefur.

Herra forseti. Tveir málaflokkar varða mestu um framtíð okkar þjóðfélags á næstu árum. Annars vegar skipan efnahagsmála og hins vegar utanríkismál okkar.

Það málefni, sem þetta löggjafarþing hefur afgr. og marka mun dýpst áhrif á okkar þjóðfélag, er aðild okkar að Fríverzlunarbandalagi Evrópu. Hún kallar á vakningu landsmanna um eflingu atvinnulífs og framleiðslustarfsemi til útflutnings. Iðnframleiðslan jókst á seinasta ári um 8%, og búizt er við, að útflutningur tvöfaldist á þessu ári, eins og hann gerði á seinasta ári. Það er höfuðnauðsyn, að menn sameinist um það átak, sem gera þarf í atvinnumálum og efnahagsmálum á næstu árum, í framhaldi af aðild okkar að Fríverzlunarbandalaginu, og geri allt, sem í valdi stjórnvalda stendur, til þess að efla atvinnulífið, byggja hér ný iðnfyrirtæki, laða hingað fjármagn til þróttmikillar framleiðslustarfsemi í þjóðfélaginu.

Gils Guðmundsson ræddi í gær um utanríkismálin og ræddi um tregðu stjórnarsinna til rökræðna um þau efni. Það væri skemmtilegt að ræða við þann mann og kommúnista um utanríkismál, en ég hefði haldið, og það mundu fleiri hyggja, að hafi einhverjir menn ástæðu til að vera tregir til rökræðna um utanríkismál um þessar mundir, þá væru það einmitt kommúnistar. Atlantshafsbandalagið er varnarbandalag og hefur náð tilætluðum árangri á þeim tíma, sem það hefur starfað, að tryggja frið í Evrópu og viðhalda friði. Mikill meiri hluti íslenzku þjóðarinnar stendur samhuga að því, að Íslendingar haldi áfram aðild sinni að Atlantshafsbandalaginu. Það var stofnað á sínum tíma til varnar útþenslustefnu Sovétríkjanna og jafnframt í framhaldi atburða, sem áttu sér stað í Tékkóslóvakíu, og maður skyldi halda, að kommúnistar hefðu ekki sérstakan áhuga á að draga það land fram í dagsljósið núna, eftir þá atburði, sem þar hafa gerzt nýlega. Sannleikurinn er sá, að Sovétríkin hafa, þrátt fyrir það að Vesturveldin hafa lagt sig í líma við seinustu árin og mánuðina að draga úr spennu í alþjóðamálum, aukið herskipaflota sinn, t. d. á hafinu hér í kringum Ísland, með stórkostlegustu heræfingum frá stríðslokum hér í Atlantshafi, umhverfis Færeyjar og nálægt Íslandsströndum. Sovétríkin eiga núna um 400 kafbáta, 7–8 sinnum fleiri en Þjóðverjar áttu við upphaf seinustu styrjaldar, og þessi floti er á sífelldum ferðum, einmitt hér á norðanverðu Atlantshafi, kringum land okkar. Það er þessi aðstaða, sem gerir það að verkum, að Atlantshafsbandalagið þarf að starfa áfram svo sem verið hefur. Þrátt fyrir þessa stefnu Sovétríkjanna hafa vestrænir leiðtogar undir forystu Willy Brandts, kanzlara í Þýzkalandi, leitazt við að taka upp viðræður til þess að útrýma þeirri tortryggni, sem er undirstaða allra væringa, milli austurs og vesturs. Um þessar mundir er einmitt utanrrh. okkar staddur í einu A.-Evrópuríkjanna til þess m. a. að stuðla að bættri sambúð austurs og vesturs. Ég hygg, að mikill hluti þjóðarinnar geti tekið undir þau meginatriði í utanríkisstefnu Íslendinga, sem Emil Jónsson utanrrh. lýsti hér á Alþ. í skýrslu um utanríkismál. En hún er fólgin í öflugu samstarfi við Norðurlöndin, þátttöku í Atlantshafsbandalaginu, þátttöku í Sameinuðu þjóðunum og vinsamlegri sambúð við allar þjóðir.

Gils Guðmundsson ræddi í gær um hlýðnisafstöðu við Bandaríkin og benti á seinasta þing Sameinuðu þjóðanna því til sönnunar. Til þess gefst ekki færi hér að ræða nánar þau brigzl, sem kommúnistar hafa verið að halda á lofti um hlýðnisafstöðu Íslendinga við Bandaríkin. Hvað snertir seinasta allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, þá væri fróðlegt að geta þess að lokum, að í þeim efnum hygg ég, að því hafi verið alveg öfugt farið. Það var einmitt fulltrúi Bandaríkjanna, ambassador þeirra, sem veitti Íslandi öflugan stuðning þann 10. nóv. s. l., þegar rætt var um okkar brýnasta hagsmunamál, sem utanrrh. og Íslendingar hafa verið að vinna að sleitulaust, þó ekki hafi hátt farið, á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og víðar á seinustu árum. Í þeim efnum standa Íslendingar sem forysturíki smáríkjanna andspænis vissri hættu, sem okkur stafar af samdrætti Bandaríkjanna og Sovétríkjanna um mörkun stefnu um nýtingu landgrunns og landhelgismála.

Góðir hlustendur. Tíma mínum er lokið. Fram undan er sumar. Við búum núna við bata í efnahagsmálum. Sá bati er vissulega stjórnvöldum að þakka að nokkru leyti, en ekki að öllu leyti. Að verulegu leyti er hann að þakka því trausti, sem íslenzkur almenningur hefur sýnt stjórnvöldum, sleitulausu striti, sem nú hefur leitt til þess, að þjóðin hefur unnið sig út úr erfiðleikunum með aukinni framleiðslu og mikilli árgæzku til lands og sjávar. Launþegar og aðrir landsmenn verða að geta treyst því, að þeir fái í sinn hlut réttmætan skerf af aukningu þjóðarteknanna. Í trausti þess, að svo verði og þjóðin öll fái notið batnandi hags af okkar bættu aðstæðum og betri afkomu, óska ég öllum gleðilegs sumars.