29.04.1970
Sameinað þing: 50. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1516 í B-deild Alþingistíðinda. (2057)

Almennar stjórnmálaumræður

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh., Bjarni Benediktsson, og hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, ræddu í gærkvöld um hið svokallaða verðgæzlumál. Báðir þóttust þeir vera mjög mótfallnir verðlagshöftum og vilja koma þessum málum í svipað horf og annars staðar á Norðurlöndum. Ég held satt að segja, að ég hafi ekki heyrt meiri óheilindi á Alþ. Þeir forsrh. og viðskmrh. þurfa ekki annað en að leggja það fyrir fulltrúa ríkisstj. í verðlagsnefndinni að breyta framkvæmd verðlagsmálanna á þann hátt, sem þeir telja æskilegt, og þá verður það gert, alveg eins og á árunum 1964–1966. Það er ekkert lagaákvæði til, sem hindrar þá í að gera þessa breytingu. Þá skortir ekki neitt til þess nema viljann og trú á frjálsa verslun. Sannleikurinn er sá, að öll þau verðlagsákvæði, sem eru í gildi í dag og gera Ísland að mesta haftalandi V.-Evrópu, eru í reynd ákveðin með samþykki Gylfa Þ. Gíslasonar, sem vafalaust hefur haft full samráð við Bjarna Benediktsson um þau efni. Verðlagshöftin, sem gilda á Íslandi nú, eru verðlagshöft þeirra Gylfa og Bjarna.

Hæstv. forsrh. lét svo um mælt í gærkvöld, að hin langa seta ríkisstj. hefði tryggt stöðugt stjórnarfar. Ekkert sýnir betur en þessi ummæli, hvað ráðherrann er illa að sér í efnahagsmálum. Bezti mælikvarðinn á það, hvort stjórnarfarið er stöðugt í reynd eða ekki, er verðgildi peninganna. Stöðugt peningagildi er bezta merkið um stöðugt stjórnarfar. Hér hefur krónan verið felld fjórum sinnum á áratug, og er ekki hægt að finna neitt hliðstætt dæmi í Evrópu. Ísland hefur í reynd búið við óstöðugasta stjórnarfar allra Evrópulanda á þessum tíma, þótt sömu aðalmennirnir, þeir forsrh. og efnahagsmálarh., hafi setið í stjórnarstólunum allan þennan tíma.

Gylfi Þ. Gíslason flutti hér ræðu í gærkvöld, sem var barmafull af ofstæki. Hann veittist m. a. harðlega að ungmennum þeim, sem settust að í sendiráðinu í Stokkhólmi og menntmrn. Ég harma þessi verk, en tel þau litlu verri en þau, er menn á aldri okkar Gylfa Þ. Gíslasonar reyna að nota þau til að koma af stað æsingaöldu, sem skyggir á allt annað. Öðruvísi fórst líka Gylfa Þ. Gíslasyni, þegar hann var ungur og afsakaði grjótkast á Alþingishúsið, sem var framið í stundaræsingi hinnar pólitísku baráttu. Við skulum réttilega harma slík verk og vara við þeim, en ekki gera það að máli málanna, þó ungmennum verði einstöku sinnum slíkur fótaskortur. Hins vegar get ég vel skilið stjórnmálamenn, sem ekki hafa góða samvizku, að þeir vilji nota slíka atburði til að láta þjóðmálaumræður snúast um annað en eigin verk.

Ofstækið í ræðu hæstv. viðskmrh. varð þó fyrst áberandi, þegar hann fór að tala um Framsfl. Þá greip hann til gömlu ræðunnar, sem hann er búinn að flytja með litlum breytingum í meira en aldarfjórðung. Fyrstu 15 árin var sú ræða tileinkuð Sjálfstfl. Honum var þá lýst sem miklum afturhaldsflokki, er notaði aðstöðu sína purkunarlaust í þágu gróðalýðs og braskara. Íslenzkur almenningur yrði því að skilja, að áhrifum Sjálfstfl. yrði að ljúka. Þessa ræðu flutti hæstv. viðskmrh. t. d. mjög kröftuglega fyrri hluta árs 1958, en þá um haustið urðu skyndileg veðrabrigði. Alþfl. óttaðist þá að hann væri að hrökklast úr ríkisstj. og mundi ekki eiga þangað afturkvæmt. Þá var það, að Sjálfstfl. bauð fram faðm sinn, og sá, sem var fyrstur til að falla í hann, var Gylfi Þ. Gíslason. Síðan hefur hann oft lýst því, að þegar Sjálfstfl. og Alþfl. fóru að ræða saman 1958, hafi komið í ljós, að þeim bæri eiginlega ekki neitt á milli um lausn hinna helztu efnahagsmála. Alþfl. var allt í einu orðinn skoðanafélagi braskaraflokksins, sem Gylfi Þ. Gíslason fordæmdi mest áður. Þetta samstarf hefur nú haldizt í nær 12 ár og allan þann tíma hefur hæstv. viðskmrh. helgað Framsfl. ræðuna, sem hann tileinkaði Sjálfstfl. áður. Þau ræðuhöld munu þó ekki breyta neinu um það, að komist Gylfi Þ. Gíslason aftur á pólitískan vonarvöl, mundi hann ganga jafnfúslega til samstarfs við Framsfl., ef hann ætti þess kost, og hann gekk til samstarfs við Sjálfstfl. 1958. Gylfi Þ. Gíslason er nefnilega mesta snælda íslenzkra stjórnmála og skoðanir hans fara mest eftir því, hvernig hann getur tryggt sér og flokki sínum þátttöku hverju sinni.

Athygli manna um þessar mundir hlýtur mjög að beinast að þeim kjarasamningum, sem senn hefjast með viðræðum milli verkalýðsfélaganna og atvinnurekenda. Það ætti að vera öllum augljóst, að launþegar verða nú að fá verulegar kjarabætur. Gylfi Þ. Gíslason hefur játað á Alþ., að kjör almennings hafi versnað um allt að því 20% síðan 1967. Á sama tíma hefur kaupmáttur launa aukizt mjög verulega í nágrannalöndum okkar. Það er því ekki undarlegt, að verkalýðsfélögin krefjist nú verulegra kjarabóta, þar sem árferði fer nú mjög batnandi.

En kjarabætur má veita á ýmsan hátt. Það er hægt með beinum kauphækkunum, með lækkun á sköttum o.fl. Við framsóknarmenn höfum lagt til á þessu þingi, að söluskattur yrði ekki látinn ná til ýmissa brýnustu nauðsynjavara, og að frádráttur í útsvars- og tekjuálagningu yrði aukinn verulega, með því að láta skattvísitöluna fylgja framfærsluvísitölu. Hvort tveggja hefði orðið veruleg kjarabót, sem ekki hefði leitt til vísitöluhækkana á kaupgjaldi og verðlagi. Báðum þessum tillögum okkar hafa stjórnarflokkarnir hafnað og þá jafnframt svikið það gamla kosningaloforð sitt, að ekki ætti að skattleggja almennar launatekjur. Afleiðingin af þessu atferli stjórnarflokkanna verður sú, að skattar hækka og dýrtíð eykst, og verkalýðsfélögin verða við kaupsamningana í vor að fá fram meiri kauphækkun en ella.

Íslenzkt stjórnarfar einkennist um þessar mundir meira af því en nokkru öðru, að ríkisstj. er orðin gömul, þreytt og sundurþykk. Hún er orðin ófær um að stjórna, en vill samt endilega hanga í valdasessi. Stjórnarsamstarfið minnir orðið um margt á heimili í upplausn. Það er ekki til lengur neitt sérstakt húsbóndavald, heimilisfólkið orðið þreytt og leitt, og gengur því illa að leysa nokkurt meiri háttar verkefni. Hið eina, sem fullt samkomulag er enn um, er, að þrátt fyrir allt skuli þó ekki leysa heimilið upp, heldur sitja meðan sætt er.

Afleiðingin af þessu ástandi á stjórnarheimilinu birtist einna greinilegast á tvennan hátt: Annars vegar dregst lausn stórmála á langinn vegna úrræðaleysis, sinnuleysis og ósamkomulags. Þannig hefur endurnýjun togaraflotans dregizt ár eftir ár af þessum ástæðum, og þegar loks er hafizt handa, fæðist ófullkomin bráðabirgðalausn. Sama gildir um endurnýjun hinna minni fiskiskipa. Stjórnin hefur lengi lofað endurskoðun á skattamálum fyrirtækja, en í stað þess að þar bóli á nokkurri lausn, bætast árlega við margir nýir skattar, og loks þegar fjmrh. hefur lokið endurskoðun á einum þætti skattanna, tekjuskattinum, er Alþfl. ekki undir það búinn að taka afstöðu á yfirstandandi þingi og málið verður því að daga uppi. Stjórnin hefur einnig lofað að koma verðgæzlumálunum í svipað horf og í nágrannalöndunum, en þegar hún loks, eftir miklar vangaveltur, sendir frá sér frv. um þetta efni, er það bæði flausturslegt og illa unnið. Úr því mátti að sönnu bæta á þinginu, en áður en það væri reynt, var málið fellt af einum ráðherranum, enda þótt um stjfrv. væri að ræða.

Húsnæðismálin eru enn ömurlegra dæmi þess, hvernig ríkisstj. hefur dregið stórmál á langinn, misseri eftir misseri, og loks, er hún hyggst leysa það, er lausnin fólgin í stórfelldri, ranglátri þjóðnýtingu, sem hún gefst upp við að framkvæma, sökum almennrar andstöðu í landinu. Þannig mætti halda áfram að rekja dæmi, sem sýna það hversu fullkomlega ríkisstj. er orðin óhæf til að leysa hin stærstu mál, sökum dæmafás úrræðaleysis og ósamkomulags.

Þetta er ekki nema önnur meginafleiðingin, sem hlýzt af ástandinu á stjórnarheimilinu. Hin er sú, að ráðherrarnir hafa yfirleitt gefizt upp við að stjórna, sökum þeirrar stöðnunar og værðar sem hlýzt af langri stjórnarsetu. Völdin hafa því dregizt í hendur embættismanna og sífjölgandi nefnda, sem ekki bera neina stjórnarfarslega ábyrgð. Eins og oft vill verða hjá þreyttum valdamönnum, hefur ríkisstj. lagt oftrú á fáa útvalda gæðinga og lagt sívaxandi völd í hendur þeirra. Gleggsta dæmið um þetta er stjórn efnahagsmálanna. Þar hefur forsrh. lagt blindan átrúnað á aðra, sökum þess að hann vantreystir réttilega sjálfum sér í þessum efnum. Fyrst og fremst hefur hann lagt trú sína á efnahagsmálarh. sinn, Gylfa Þ. Gíslason, en Gylfi síðan á efnahagsmálaráðgjafa sína og þó fyrst og fremst á fulltrúa Alþfl. í Seðlabankanum, Jóhannes Nordal. Engin nefnd, sem fjallar um efnahagsmál eða atvinnumál, þykir nú vel skipuð nema Jóhannes Nordal eigi sæti í henni. Þessi ofsatrúnaður á einstaka menn veldur því m. a., að þeir verða ofhlaðnir störfum, meðan starfskraftar annarra engu síður hæfra manna eru vannýttir. Jafnframt veldur þetta því, að ráðherrarnir verða eins konar fangar í sínu eigin kerfi. Það verða þeir, sem láta stjórna sér, í stað þess að stjórna sjálfir. Bak við ráðherrana eru komnir huldumenn, sem stjórna raunverulega, en þurfa þó enga persónulega ábyrgð að bera og sleppa oftast við alla gagnrýni. Þetta hefur jafnan þótt einn meginágalli stjórna, sem lengi fara með völd. Þegar þreyta og værð sækir valdamennina heim, búa þeir sér til kerfi alls konar ráða, nefnda og stofnana og verða svo fangar þess, áður en þeir gera sér sjálfir grein fyrir því.

Þetta er í dag eitt höfuðeinkenni stjórnarfarsins á Íslandi. Stjórn, sem ætlaði að afnema nefndir, hefur búið til svo margar nefndir, að hún getur ekki lengur talið þær. Stjórn, sem ætlaði að draga úr skriffinnsku og gera stjórnarkerfið einfaldara, er stöðugt að bæta við nýjum og nýjum skriffinnskustofnunum. Kerfið verður flóknara og skriffinnskan meiri með ári hverju.

Glöggt dæmi um þetta er að finna á yfirstandandi Alþ. Unnið hefur verið að því að auka lánveitingar til iðnaðarins. Fyrir eru margar lánastofnanir, sem annast þessa fyrirgreiðslu nú, eins og t. d. viðskiptabankarnir, Iðnlánasjóður, Seðlabankinn og svo ýmsir sérlánasjóðir. Eðlilegt hefði verið, að einhverjir þessara aðila hefðu verið látnir taka að sér hinar nýju lánveitingar. Í stað þess eru búnar til þrjár nýjar stofnanir með tilheyrandi stjórnum til að annast þær, þ. e. Iðnþróunarsjóður, Útflutningslánasjóður og ábyrgðardeild útflutningslána. Þannig verða iðnrekendur eftirleiðis að sækja undir þremur fleiri lánastofnanir en áður.

Eins og oft hefur verið vikið að, bíða íslenzku þjóðarinnar mörg stór verkefni á komandi árum. Að mínum dómi eru fá verkefni stærri en að draga úr því mikla skriffinnskukerfi, sem hér hefur skapazt á síðari árum, að fækka bönkum og lánastofnunum, að færa saman ýmsar stofnanir, sem nú eru að dútla við sama verkefnið, að fækka skattstofnunum, sem valda nú óhemjulegri skriffinnsku, og reyna á allan hugsanlegan hátt að gera ríkiskerfið ódýrara og einfaldara. Ef þjóðinni auðnast ekki að breyta hér um stefnu og vinnubrögð, er voðinn vís. Skriffinnskan verður þá svo þungur baggi á þjóðinni, að hún fær ekki undir honum risið. Að mínum dómi er hér um að ræða eitt allra stærsta hagsmunamál og sjálfstæðismál þjóðarinnar. Það liggur í augum uppi, að sú stjórn, sem mest allra stjórna hefur aukið skriffinnskukerfið, er allra stjórna ófærust til að hefjast handa um þá byltingu, sem þar þarf að eiga sér stað. Það er jafnaugljóst, að sú stjórn, sem mistekizt hefur að finna lausn á málum eins og endurnýjun togaraflotans, uppbyggingu húsnæðislánakerfisins, eðlilegri skipan verðgæzlumálanna og nýskipan skólamálanna, svo að fá dæmi séu nefnd, er alveg ófær til að fást við þann margvíslega vanda, sem þjóðarinnar bíður á áttunda áratug aldarinnar. Þau mál verða ekki leyst af þreyttum mönnum og þreyttum flokkum, værugjörnum og úrræðasnauðum. Íslendingar verða eins og aðrar lýðræðisþjóðir að læra þá meginreglu, að það er ekki heppilegt að búa lengi við sömu stjórnina, hvort heldur þar er um stjórn eins flokks eða sambræðslustjórn að ræða. Með nýjum stjórnum og nýjum stjórnarflokkum gerist alltaf einhver gagnleg breyting. Gömlum og úreltum venjum og vinnubrögðum er vikið til hliðar og ný tekin upp. Allir þeir Íslendingar, sem með sanngirni og raunsæi hugsa þessi mál, hljóta við nánari athugun að sannfærast um, að það er komið að þeim tímamótum, þegar óhjákvæmilegt er að skipta um stjórn, þannig að nýir menn og ný sjónarmið fái að móta nauðsynlegar breytingar á vinnubrögðum og stjórnarstefnu.

Af hálfu stjórnarflokkanna er um þessar mundir glaðzt yfir því, að klofningur hefur orðið í Alþb., þannig að gamlir fylgismenn þess sækja nú fram í þrennu lagi. Þessi klofningur breytir þó raunar litlu. Það hefur verið öllum ljóst, síðan Framsfl. hóf að efla fylgi sitt í bæjunum, að undir merkjum hans hlyti frjálslynt og umbótasinnað fólk í sveit og við sjó að sækja fram í sívaxandi fylkingu. Í seinustu bæjar- og sveitarstjórnarkosningum náði Framsfl. því marki að verða annar stærsti flokkurinn í kaupstöðum og kauptúnum. Þennan sess mun hann tryggja sér enn betur í bæjar- og sveitarstjórnarkosningunum í vor. Fleira frjálslynt og umbótasinnað fólk mun þá fylkja sér undir merki hans en nokkru sinni fyrr í bæjar- og sveitarstjórnarkosningum. Það mun ekki aðeins hafa heppileg áhrif á stjórn sveitar- og borgarmála, heldur einnig stuðla að þeirri nauðsynlegu breytingu, sem óhjákvæmilega þarf að verða á stjórn landsins. — Ég þakka þeim sem hlýddu. Góða nótt.