29.04.1970
Sameinað þing: 50. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1523 í B-deild Alþingistíðinda. (2059)

Almennar stjórnmálaumræður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Fundið hefur það verið ríkisstj. til foráttu, að hún hafi verið of lengi við völd. Ekki eru það ávirðingar í sjálfu sér, nema síður sé. Þegar árferðið var gott og mikill vöxtur í þjóðarbúskap, var það látið heita svo af stjórnarandstæðingum, að landsmenn byggju við almenna velmegun þrátt fyrir duglitla ríkisstj. Þegar áföll dundu yfir til sjós og lands, voru þau talin ríkisstj. að kenna. Landflótti til Ástralíu hefur verið talinn ríkisstj. að kenna. Nú sagði Magnús Kjartansson hér rétt áðan: Fólkið tók ranga ákvörðun. Það er gott, þegar menn sjá að sér. Skyldi önnur þjóð í raun og veru hafa orðið fyrir hliðstæðum áföllum og þessi litla þjóð við svipaðar kringumstæður. Um helmingur af tekjuöflun þjóðarinnar af útflutningi rann út í sandinn á einum þrem árum. Vissulega gátu menn ekki borið óskertan hlut frá borði, en var slíkt ríkisstj. að kenna? Já, segja sumir. Hún felldi gengi krónunnar þrisvar sinnum á tveimur árum. Gengisfellingarnar voru afleiðing áfallanna, en ekki meinfýsni ríkisstj. Hver einstaklingur og stétt geldur þess, þegar afrakstur þjóðarbúsins minnkar stórlega. Á ríkisstj. hvílir sá vandi að gera að hennar dómi viðeigandi ráðstafanir til þess að mæta aðsteðjandi vanda og komast upp úr öldudalnum. Svokölluð uppbótaleið gat verið úrræði, hafa sumir stjórnarandstæðingar sagt. Henni hefði fylgt 1000 millj. kr. skattlagning á allan almenning. Hún hefði auk þess lagt iðnaðinn að velli í samkeppni við erlendan iðnvarning.

Ágúst Þorvaldsson talaði um fjórar hrikalegar gengisbreytingar og glæfralega meðferð á gjaldeyri. Má ég minna stjórnarandstæðinga á, að gengisbreytingin 1960 var afleiðing þess, að moka þurfti flórinn eftir vinstri stjórnina. Enginn vissi þá, hvert gengi krónunnar var í raun og veru. Það voru útflutningsbætur, yfirfærslubætur, sérstakt gengi fyrir innflutning og gjaldeyrisyfirfærslur, 155% álag þar, 170% álag hér og 180% álag annars staðar. Allar tegundir þessa fargans skiptu tugum og þýddu, að gengi krónunnar var 35–40% lægra með þessum útreikningi. Hins vegar var það alkunna, að Bandaríkjadollar var á tíma vinstri stjórnarinnar seldur á svörtum markaði fyrir um og yfir 60 kr. Og það er meira en 100% hækkun erlends gjaldeyris frá því, sem hann þá var skráður. Gjaldeyrissjóðir voru tæmdir, lánstraustið þrotið, betligöngur stjórnarliðsins þá til NATO-ríkja voru helzta úrræðið, en árangurslítið, utan niðurlægingarinnar, sem því fylgdi. Þetta var þó á tímum mestu veiðiuppgripa. Þetta þrotabú fölsunar og úrræðaleysis var gert upp. Gengisfellingin 1960 var því skilgetið afkvæmi núv. stjórnarandstæðinga, og þeim heiður, sem heiður ber.

Mér þykja smjaðurskennd ummæli þm. út af ofbeldisaðgerðum ekki stórmannleg í þessum umr. Ingvar Gíslason flutti í gærkvöld ræðu, sem að því hneig efnislega að hvetja til ofbeldis. Hann segir á þessa leið:

„Stúdentar og aðrir hafa beitt ofbeldi. Ég er á móti ofbeldi, en ríkisstj. á ekki betra skilið.“

Hvílík karlmennska og einurð. Í ríkisútvarpi og blöðum hef ég heyrt ávæning af mótmælum stúdenta erlendis vegna ummæla minna á Alþ. um innrásina í sendiráðið í Stokkhólmi. Ég vil gjarnan, að allur almenningur megi heyra, hvað ég sagði, og ekki væri mér á móti skapi, að stúdentum bærist orðrétt til eyrna það, sem þeir telja sig hafa verið að mótmæla. Ég sagði um innrás ellefumenninganna í sendiráð Íslands í Stokkhólmi eftirfarandi, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Mér er nær að halda, að það muni margur maðurinn á Íslandi í dag vera þeirrar skoðunar, að slíkir atburðir ættu að leiða til endurskoðunar á því, sem greitt er íslenzkum námsmönnum erlendis í styrki og lán, sem þannig hegða sér. Þetta er eðlilegt hugarfar hjá fólki. Ég held þess vegna, að slíkt eins og þetta sé því miður mjög líklegt til þess fremur að spilla almenningsáliti á því, hve mikið á að gera fyrir slíka námsmenn erlendis, eins og þeir atburðir bera vitni um, sem hér eru að eiga sér stað. Hitt er annað mál, að það hefur engin áhrif á alþm., og þeir munu í sínum fjárveitingum og styrkveitingum til námsmannanna sýna fullt umburðarlyndi þessum ungu mönnum, sem þarna eiga hlut að máli. En því miður held ég, að þeim hafi missýnzt, að þeir, sem þarna áttu hlut að máli, hafi því miður gripið til ráða, sem óvænlegust voru til þess að skapa þeim meiri byr í seglin um fjárveitingar og lán frá íslenzka ríkinu.“

Ríkisstj. átti langvarandi viðræður við stjórnarandstæðinga um úrlausnarefnið, þegar verst lét 1968. Jafnan var á huldu, hvað fyrir þeim vakti. Sú saga er kunn. Talað var um „hina leiðina“ eða þriðju leiðina, án þess að nokkur væri nær, við hvað væri átt. Nú er talað um nýtt heildarskipulag, þ. e. ný höft og hömlur. Þetta er nýjasti boðskapur núv. formanns Framsfl., sem virðist ekki rata „hina leiðina“ fremur en margir aðrir.

Þegar undan lét vegna algers aflabrests á síldveiðum, erlendir markaðir lokuðust og mikið verðfall á öðrum, fylgdi atvinnuleysi í kjölfarið. Ríkisstj. hafði um það samvinnu við fulltrúa verkalýðs, launþega og vinnuveitenda að gera víðtækar ráðstafanir til þess að mæta þessum vágesti. Atvinnumálanefndir voru settar á laggirnar og ríkisstj. beitti sér fyrir fjáröflun til úrbóta. Því miður er nú á það að líta, að svo óhönduglega hefur til tekizt, að hér mun halda áfram að vera skráð atvinnuleysi, enda þótt atvinna sé næg sem stendur, nema víðtækar og heilbrigðar leiðréttingar séu gerðar á skráningarreglum. Veit ég, að um þetta þarf ég ekki að deila við hv. stjórnarandstæðinga. Þeir viðurkenna það sjálfir.

Á 2–3 áfallaárum vorum við að byggja upp stórvirkjanir og stóriðju í landinu. Enginn þarf að gjalda stjórnarandstæðingum þakkir fyrir slíkt framtak, né þann mikla ávinning, sem leitt hefur og leiða mun af. Um næstu helgi verður stórvirkjunin í Þjórsá, Búrfellsvirkjun, vígð og samtímis álverið í Straumsvík. Um leið liggja fyrir tillögugerðir að nýjum frv. til l. um auknar og fleiri aðgerðir á sama sviði, um nýjar virkjanir í Tungnaá, við Sigöldu og Hrauneyjafoss, enda þótt hv. Alþ. hafi ekki enn verið sýnd þessi áform, en að því mun koma innan skamms.

Lagt hefur verið fram á Alþ. frv. til l. um olíuhreinsunarstöð á Íslandi. Er þar gerð ítarleg grein fyrir undirbúningi málsins og færðar að því sterkar líkur, að hér gæti verið um mikilvæga framkvæmd að ræða, bæði í sjálfu sér, frá þjóðhagslegu sjónarmiði, og í tengslum við annan efnaiðnað í landinu. Gert er ráð fyrir framhaldsathugun málsins af hálfu iðnmrn., en að afgreiðsla málsins komi til kasta Alþ. strax og það kemur saman að nýju á næsta hausti. Veigamiklar rannsóknir og allfjárfrekar aðgerðir hafa verið og eru framkvæmdar á Reykjanesi til undirbúnings sjóefnavinnslu. Kísilgúrverksmiðja við Mývatn hefur verið tvöfölduð og áætlað, að hún eigi nú að geta náð 24000 tonna ársafköstum, en hrein gjaldeyrisöflun af þessu fyrirtæki samsvarar þá gjaldeyristekjum fjölda togara.

Lúðvík Jósefsson sagði í þessum umr.: „Það munar ekkert um ál og kísilgúr.“ Þessi hv. þm. var broslegur. Hann sagði: „Ef ég væri ráðh., væri hér heill floti stórra nýtízku skuttogara.“ Nú væri betra að tala varlega. Í Þjóðviljanum 18. febr. 1958, þegar Lúðvík var ráðh., stóð eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og skýrt var frá í síðasta blaði, er nú farin utan nefnd á vegum Lúðvíks Jósefssonar sjútvmrh. til þess að ganga frá samningum um smíði stóru togaranna, sem ríkisstj. hét að kaupa, en öllum hinum fjölþætta undirbúningi þeirra samninga er lokið fyrir nokkru.“

Þetta stóð þá. Það kann að vera gott að vera gleiður í eldhúsumr. En þjóðina munar um margt meira en slíkan stóran togaraflota, sem aldrei var á sjó settur. Þessi hv. þm. gæti reynzt góður liðsforingi á loforðaflota.

Við höfum sagt okkur í viðskiptasamfélag við Norðurlöndin og félagsríki þeirra í Fríverzlunarsamtökum Evrópu. Enginn getur með sanni sagt, að hér á landi hafi orðið stöðnun, þrátt fyrir geysilega örðugleika um tíma. Gerð hefur verið grein fyrir því af Seðlabanka Íslands og fleiri aðilum, að á s. l. ári hafi verið mikill hagvöxtur á flestum sviðum, sem beri þess vitni, að aðgerðir stjórnvalda til nýrrar viðréttingar hafi borið tilætlaðan árangur. Einstaklingar, atvinnufyrirtæki og margs konar hagsmunasamtök hafa sýnt skilning, vilja og hugvitssemi til þess að aðlagast nýjum viðhorfum, nýjum aflabrögðum og úrvinnsluaðferðum, og nýjar atvinnugreinar hafa skotið rótum. Til þessa hafa stjórnarandstæðingar reyndar óspart vitnað í þessum umr., þegar þeir tala um möguleika og nauðsyn kjarabóta öllum almenningi til handa.

Þegar þjóðarhagur batnar, eiga kjör almennings að batna. En fráleitar eru þær staðhæfingar, sem við höfum heyrt hér frá stjórnarandstæðingum um minnkandi kaupmátt atvinnutekna, þegar litið er til síðasta áratugs eða um það bil. Gils Guðmundsson taldi í gær, að í nágrannalöndum okkar hefði kaupmáttur hækkað um 30–50% síðasta áratug, en minnkaði á sama tíma á Íslandi um 20%. Eysteinn Jónsson var hér einnig áðan að tala um minnkandi kaupmátt síðasta áratug, en hér á landi hefur kaupmáttur atvinnutekna aukizt um 37% á síðasta áratug og líka frá árinu 1958. Það liggja fyrir um það óyggjandi upplýsingar í skýrslu til hagráðs, um ástand og horfur í efnahagsmálum í apríl 1970 frá Efnahagsstofnun Íslands, sem hagráð fær nú til meðferðar. Þetta geta allir þm. kynnt sér. Þess vegna er það laukrétt, sem hæstv. fjmrh. staðhæfði áðan í þessu sambandi. Og niðurstöður kjaranefndar um kauptaxta styðja þessar niðurstöður. Það er hins vegar á það að líta, að það var mikil kjaraskerðing, sem varð í kjölfar áfallanna. En þegar á heildina er litið og til síðasta áratugsins, þá var um að ræða um 37% aukningu á kaupmætti atvinnuteknanna.

Nú smíðum við okkar eigin fiskiskip. Á döfinni er sala fiskiskipa til annarra landa. Farskip höfum við byggt í landinu. Lágmarksþörf er að efla veiðarfæraiðnað. Atvinnuleysið kenndi þjóðinni að meta þá miklu möguleika á atvinnuöryggi, sem fólgið er í iðnþróun í landinu. Það er unnið að iðnvæðingaráformum. Það verður leitað nýrra tæknimöguleika og lagt kapp á markaðskannanir erlendis. Útflutningsmiðstöð iðnaðar er í undirbúningi. Afgreidd hafa verið á Alþ. lög um Útflutningslánasjóð til útflutningslána á íslenzkum iðnvarningi og samkeppnislána vegna aðflutts iðnvarnings. Einnig hefur Alþ. afgreitt lög um tryggingadeild útflutningslána. Útflutningsskrifstofa Félags ísl. iðnrekenda hefur starfað með góðum árangri og verið studd með fjárframlögum úr ríkissjóði. Iðnþróunarsjóður hefur tekið til starfa og hefur þegar veitt Iðnlánasjóði 50 millj. kr. lán umfram hans eigið ráðstöfunarfé, sem nú í ár er meira en áður eða nokkuð á annað hundrað millj. kr. Framkvæmdastjórn Iðnþróunarsjóðs á að undirbúa till. um lánveitingar á næsta fundi Iðnþróunarsjóðs í júnímánuði, allt að 50 millj. kr. Útflutningssjóðnum hafa verið veittar 50 millj. kr. að láni. Aflað hefur verið upplýsinga frá tilteknum aðilum um ráðagerðir um aukningu iðnaðarvöruútflutnings á þessu ári, og gert er ráð fyrir, að hann muni nema um 100%. Löggjöf um Útflutningslánasjóð og tryggingasjóð útflutningslána er eftir vandlega athugun sniðin eftir sambærilegu kerfi, er þróazt hefur hjá nágrannaþjóðum okkar, Vestur-Evrópuþjóðum og víðar. Nú kemur hv. þm. Þórarinn Þórarinsson og telur, að kerfið beri vott um þreytu íslenzkra ráðh.

Gert er ráð fyrir, að útflutningur á áli vaxi úr 519 millj. kr. árið 1969 í 1950 millj. kr. árið 1970. Um fjórðungur af verðmæti útflutts áls er talið innlend verðmætasköpun eða um 660 millj. kr. þetta ár. Fullbyggð verður álbræðslan þó ekki fyrr en á árinu 1972. Aukning iðnaðarframleiðslunnar árið 1969 er talin um 8–9%. Hún verður meiri í ár og er þó álið ekki meðtalið. Framlag iðnaðarins til þjóðartekna hefur aukizt meir s. l. ár en meðaltal framlags allra annarra atvinnugreina.

Eysteinn Jónsson talaði hér áðan um vettlingatök í málefnum iðnaðarins. Það er leitt, að þessi gamli pólitíski baráttumaður skuli vera hættur að fylgjast með því, sem er að gerast í atvinnulífinu á Íslandi. Veit hann ekki heldur, að framleiðsluaukning í iðnaði var 31% frá árinu 1960–1966. Hann talaði um sáralitla uppbyggingu í iðnaðinum. Maður skyldi þó ætla, að hann vissi um hina stórkostlegu iðnaðaruppbyggingu fyrirtækja Sambands ísl. samvinnufélaga á Akureyri. Ég hygg, að gallinn sé sá, að þessi hv. þm. hafi ekki farið á iðnsýningar, sem hér hafa verið haldnar að undanförnu, minni ég sérstaklega á iðnsýninguna 1966, á margháttaða iðnkynningu, sem hér hefur átt sér stað að undanförnu, — og þess vegna ekki fylgzt með þeirri þróun í iðnaðarframleiðslu, sem átt hefur sér stað, og ekki lagt sig niður við að reyna að gera sér nokkra grein fyrir þeirri miklu uppbyggingu, sem hér er á ferðinni. Og 8–9% framleiðsluaukning í einni atvinnugrein er meiri en í flestum nágrannalöndum okkar, að ég hygg.

Viðskiptalífið í heild og þar með talin verðlagsmál þurfa að komast í heilbrigt horf. Við sjálfstæðismenn urðum fyrir vonbrigðum vegna afgreiðslu verðgæzlufrv. á þessu þingi. En haldið verður áfram þeirri baráttu, sem bæði er til hags neytendum og kaupsýslustétt og almenningi öllum. Sú barátta endar með sigri.

Kosningar fara í hönd, að vísu ekki alþingiskosningar, en e. t. v. ekki áhrifaminni. Ég leyfi mér að ljúka máli mínu með ósk til allra þeirra, sem snúið hafa bökum saman í Sjálfstfl., að sækja fram til nýrra sigra stefnu okkar, sem verða mun þjóðinni í heild til mestrar farsældar. — Góða nótt.