29.04.1970
Sameinað þing: 50. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1527 í B-deild Alþingistíðinda. (2060)

Almennar stjórnmálaumræður

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Í þessum umr. hefur hvað eftir annað verið ráðizt beint eða óbeint á ríkisútvarpið, sem nú er vafalaust sterkasta fjölmiðlunartæki þjóðarinnar. Sumir telja útvarp og sjónvarp um of opið fyrir róttækum öflum. Aðrir telja ríkisútvarpið handbendi ríkisstj., enda séu vondir ritstjórar og áróðursmenn flokkanna þar við stjórn. Lengst í þessu hefur Hannibal Valdimarsson gengið, sem hefur í ræðum sínum í þessum umr. reynt að gera sig að píslarvotti. Hann telur, að hann hafi ekki fengið að koma fram í útvarpsumr., og bendir á það, að leiðarar í blaði hans séu ekki lesnir eins og leiðarar dagblaðanna. Út af þessu tel ég rétt að skýra frá því, að s. l. þriðjudag flutti ég, formaður útvarpsráðs, till. í útvarpsráði til þess að rétta hlut Hannibals og flokks hans og líka Sósíalistafélags Reykjavíkur í þessu efni. Ég ætla að lesa þessa stuttu till. Hún hljóðar svo: „Útvarpsráð samþ. að til kosninga verði lesinn útdráttur úr ritstjórnargreinum aðalmálgagna þeirra framboðslista í Reykjavík, sem ekki eru studdir af dagblöðum.“ Meðferð till. er ekki lokið, en ég hef vissu fyrir því, að hún verði samþ.

En svona er nú lífið. Sömu dagana og ég stend í því að reyna að rétta hlut minna pólitísku andstæðinga í útvarpsráði, þá fæ ég sem þakkir frá Hannibal Valdimarssyni það, að hann eys yfir mig og ráðið svívirðingum hér í áheyrn alþjóðar í útvarpið. Ég á kröfu á því, að hann biðjist afsökunar á þessu og taki þessar árásir sínar til baka. Hann hefur tækifæri til þess hér á eftir, og ég vona, að hann sýni það í verki, að hann metur einhvers orðið drengskap, sem honum er svo mjög tamt í munni. Það er raunar athyglisvert, að í þessum umr. skuli þessi maður, sem er að reyna að telja þjóðinni trú um, að hann fái ekki að koma skoðunum sínum á framfæri, fá að tala þrisvar. Hann talar einn þrisvar hér í yfir 40 mínútur, meðan við hinir erum að dunda með eina og eina ræðu á 10–15 mínútum. Ég vil líka benda á það, að fáir Íslendingar hafa komið eins oft fram í fréttum hljóðvarps og sjónvarps, í samtalsþáttum og í umræðum, eins og Hannibal Valdimarsson. Flokkur hans var tekinn með í EFTA-umr., sem útvarpið sá um sjálft án samráðs við flokkana. Hann hefur því ekki yfir neinu að kvarta í þessum efnum, nema síður sé. Ég vil taka það fram, að ég hef einnig flutt í útvarpsráði till. um lestur úr vikublöðum og öðrum blöðum, ekki sízt utan Reykjavíkur, og vænti ég þess, að hún muni einnig á sínum tíma ná afgreiðslu.

Það er ekki óeðlilegt, að stofnun eins og hljóðvarp og sjónvarp verði fyrir gagnrýni, en sú gagnrýni, sem fram hefur komið bæði frá hægri flokkum og vinstri flokkum undanfarin missiri, kann að gefa til kynna, að stofnunin sé e. t. v. í heild nokkuð nálægt því að fara bil beggja, eins og lög mæla fyrir. Það finnst mér gagnrýni úr báðum áttum bera vott um.

Hannibal réðst harkalega á sína gömlu félaga og stuðningsmenn úr Alþfl., m. a. fyrir það, að við höfum um nokkurt árabil haft samstarf við Sjálfstfl. í ríkisstj. En skyldi það nú vera mjög fjarri Hannibal sjálfum að eiga eitthvert samstarf við Sjálfstfl.? Ætli hann hafi ekki makkað eitthvað við íhaldið, — svo ég noti orðalag, sem er honum kært, — til þess að fá það til þess að kjósa hann sem forseta Alþýðusambandsins? Ætli hann hafi ekki makkað eitthvað við íhaldið til þess að fá peninga úr ríkissjóði í blað sitt, eina vikublaðið á landinu, sem fær þá aðstoð? Ætli þeir Hannibal og Björn hafi ekki makkað eitthvað við íhaldið til að koma Birni inn í atvinnumálanefnd ríkisins og fá þar með aðgang að úthlutun á miklu fé? Ég held, að hann ætti að spara sér stóru orðin, þegar hann ræðir um Alþfl. í þessum efnum.

Það er ekkert einkennilegt í mínum augum, þó ungir sjálfstæðismenn falsi lög Alþfl., þegar illa liggur á þeim í okkar garð. En mér þykir það skrambi hart, þegar fyrrv. formaður Alþfl., Hannibal Valdimarsson, kemur fram fyrir alþjóð til þess að falsa lög þessa flokks vísvitandi. Það stendur í lögum Alþfl., að flokkurinn eigi að vinna að því, að kosnir séu til opinberra starfa Alþýðuflokksmenn, og að reyna að vinna að kosningu manna er allt annað heldur en að skipa í embætti. Það er lágkúrulegt að blanda þessu tvennu saman.

Leiðinlegast af öllu þótti mér þó að heyra hina persónulegu árás Hannibals á Sigurð Ingimundarson, gamlan starfs- og baráttufélaga. Sigurður hefur frá bernsku tekið þátt í félagsmálastarfi og er nákunnugur tryggingamálum og þörfum íslenzkrar alþýðu á því sviði. Ég vil minna á það, að tryggingaráð taldi hann, eins og hina tvo umsækjendurna, vera alveg fullfæran til starfsins með ályktun sinni, og ég vil spyrja Hannibal Valdimarsson, hvort hann telji að Haraldur Guðmundsson hefði verið ófær um að vera forstjóri trygginganna, af því að hann hafði ekki sérmenntun til þess. Hefur Hannibal Valdimarsson ekki lært það enn þá á sínum langa stjórnmálaferli, að stundum verður að meta félagslega reynslu og félagslega forystu til jafns við hina faglegu þekkingu, og það á ekki sízt við í málum, sem hafa eðli tryggingamálanna. Ég vísa því algerlega á bug þeirri persónulegu, óverðugu árás á Sigurð Ingimundarson fjarstaddan, sem Hannibal leyfði sér að gera hér áðan.

Eitt furðulegasta atvik í þessum umr. er hin margumrædda yfirlýsing Ingvars Gíslasonar í gærkvöld um, að það dygði ekkert minna en uppþot til að fá Gylfa Þ. Gíslason til að hlusta á mál manna, og var mál Ingvars óbein hvatning til óspekta, eins og margoft hefur verið bent á. Sem dæmi um það, að Gylfi hafi hlustað og fylgzt með málefnum námsmanna, áður en til uppþota kom, vil ég minna á þá staðreynd, að á árabilinu frá 1966–1970 jókst ráðstöfunarfé námslánasjóðs úr 21 millj. kr. í 86 millj. kr. Það er erfitt nokkurs staðar í íslenzkum fjármálum og íslenzku þjóðlífi, íslenzku opinberu lífi, að finna aðra eins aukningu á fjárveitingum til eins máls, enda þótt stúdentunum, sem njóta þess, hafi fjölgað mikið á þessu tímabili. Og Gylfi Þ. Gíslason hefur marglýst yfir því, að það sé ósk hans, von og trú, að þessari þróun verði haldið áfram. Þessi stórkostlega aukning, meira en fjórföldun á fjórum árum, á þessum fjármunum til námsmanna hefur orðið án þess, að Magnús Kjartansson eða sálufélagar hans hafi komið þar nokkurs staðar nærri, og mun geta haldið áfram, hvað sem þeim og yfirboðstillögum þeirra líður.

Ég get nefnt Ingvari Gíslasyni annað dæmi um það, að ekki þarf uppþot til að hreyfa Gylfa, því yfirleitt hefur verið kvartað undan því, að það væri helzt til mikil hreyfing á honum, en ekki of lítil. Hann hefur t. d. sent því þingi, sem nú er langt liðið, a. m. k. 10 frv. um menntamál og mörg þeirra eru veigamiklir lagabálkar og þurfti engin uppþot til að ýta við þeim aðgerðum. Mörg þessi mál hafa verið vandlega undirbúin í langan tíma, áður en þau hafa verið lögð hér fram. Það þurfa sýnilega að verða einhverjar róstur í huga þessa unga framsóknarmanns til þess að hann átti sig á hinu sanna og geri sig ekki aftur sekan um svo ábyrgðarlaust fleipur sem hann gerði í gærkvöld.

Lúðvík Jósefsson gerði sér að vanda tíðrætt um sjávarútveg og togarakaup í gær og vantaði ekki kokhreystina. Lúðvík var einu sinni sjútvmrh., eins og minnt hefur verið á, og var þá mjög vinsæll meðal útgerðarmanna, en hélt niðri hluta sjómanna með því að hafa tvöfalt fiskverð, og auðvitað var skiptaverðið jafnan miklu lægra. Dulbúnar gengislækkanir voru nefnilega sú stefna, sem Lúðvík og flokksfélagar hans framkvæmdu á þeim árum. Ég veit ekki, hvort þær dulbúnu eru skárri en þær, sem eru ekki dulbúnar. Lúðvík sagði, að hefði Alþb. ráðið undanfarin ár, hefðu komið til landsins 15 skuttogarar. Hann keypti engan togara stærri en 250 lestir, þegar hann var ráðh., en strax og hann var farinn, tók Emil Jónsson sig til og keypti 5 stærstu togara, sem Íslendingar hafa átt. Það er því von, að Lúðvík gorti af því, sem hann hefði gert, ef hann hefði haft völdin.

Lúðvík sagði í ræðu sinni, að afkoma þjóðarinnar væri nú batnandi, af því að bátarnir hefðu snúið sér frá síldveiðum að öðrum veiðum. Hvaða bátar, Lúðvík? Hvaða bátar? Ætli maðurinn hafi ekki átt við eitthvað af þessum 315 fiskibátum, sem íslenzka þjóðin eignaðist í stjórnartíð Emils Jónssonar og Eggerts G. Þorsteinssonar á árunum 1960–1968? 315 nýir fiskibátar, 4 togveiðibátar og fimm togarar eru sá floti, sem keyptur var á þessu árabili, samkvæmt opinberum skýrslum, og ég hygg, að þetta sé mesta aukning fiskiflotans, sem nokkru sinni hefur átt sér stað.

Herra forseti. Það er vor í lofti, afli er mikill, afkoma þjóðarinnar fer batnandi. Allt er þetta gleðiefni. En við skulum minnast þess, að við höfum áður siglt upp úr öldudal, en gleymt því að haga seglum með gætni. Nú skulum við reyna að halda svo á málum okkar, að ávinningur verði traustur og varanlegur, en leiði ekki til nýrra vandræða eftir skamma stund. En þrátt fyrir þessi varnaðarorð, sem eiga jafnt erindi til allra landsmanna, þá vil ég nú hiklaust lýsa þeirri skoðun minni, að launþegar verði að fá verulegar kjarabætur á næstu vikum. Láglaunafólkið, sérstaklega þeir, sem misst hafa eftirvinnuna, eða jafnvel alla vinnu, hefur borið þungann af þeirri kreppu, sem er að líða hjá. Þetta fólk verður nú að fá eins væna kjarabót og framast er unnt að veita því, í kaupi, sköttum og á annan hátt. Um leið er að sjálfsögðu óhjákvæmileg mikil hækkun ellilauna og annarra tryggingabóta. Við skulum ekki taka alvarlega tal manna eins og Geirs Gunnarssonar. Það er lítill vandi að flytja till. um hækkanir, en meiri vandi að útvega fjármunina. Stjórnarandstæðingar geta flutt till., en stjórnarsinnar verða að útvega fjármunina. Við skulum minnast þess, að í tíð vinstri stjórnarinnar fékkst engin meiri háttar breyting á tryggingakerfinu fram.

Ríkisstj. hefur, allt síðan gengi krónunnar var lækkað, gert margvíslegar ráðstafanir til að styrkja hag atvinnufyrirtækja, nú síðast með því að breyta sköttum þeirra til samræmis við það, sem keppinautar í öðrum EFTA-löndum búa við. Af þessum sökum eiga fyrirtækin að standa vel að vígi og geta tekið mannlega undir óskir launþega, og það sem meira er, fyrirtækin verða að losa sig við þennan gamla og úrelta hugsunarhátt, að þau geti velt kauphækkunum jafnóðum út í verðlagið. Þetta er e. t. v. nauðsynlegast af öllu. Kjarabætur launþeganna verða að byggjast á bættri aðstöðu fyrirtækjanna, aukinni tækni og betri stjórnun. Það er svo margt að breytast þessi árin, en ef við gætum hætt að velta öllum kauphækkunum jafnóðum út í verðlagið, væri mikið unnið í baráttunni við verðbólguna. Sú leið er ein fær að því marki, sem þjóðin hefur sett sér með aðildinni að EFTA, sem sé að lífskjör Íslendinga verði með tímanum jafngóð og jafnörugg og þau, sem önnur EFTA-lönd, svo sem hin Norðurlöndin, búa við. Það er nauðsynlegt, að atvinnufyrirtækin lifi góðu lífi, en við skulum samt aldrei gleyma því, að endanlegt takmark allrar efnahagsstarfsemi og stjórnmálastarfsemi er að fólkið í landinu lifi góðu lífi. Það takmark er kjarninn í stefnu Alþfl.

Sveitarstjórnarkosningar eru nú fram undan, nýir flokkar hafa komið fram, t. d. hér í Reykjavík, og er gert mikið veður út af því, hve góðir og ferskir þeir séu, en gömlu flokkarnir vondir og spilltir. Við nánari athugun kemur í ljós, að leiðtogar nýju flokkanna eru yfirleitt gamlir stjórnmálamenn, eins og Steingrímur Aðalsteinsson, Hannibal Valdimarsson og Björn Jónsson. Hins vegar er áberandi í fari sumra gömlu flokkanna, og þá ekki sízt Alþfl., hve þar er mikið af nýjum og ungum mönnum í framboði til æðstu trúnaðarstarfa. Kjósendur geta því að þessu sinni valið á milli nýrra flokka undir forystu gamalla og gatslitinna stjórnmálamanna, eða gamalla flokka, þar sem ný kynslóð er að taka við stjórnartaumum, þar sem nýir menn eru í fylkingarbrjósti með nýjar hugmyndir.

Alþfl. hefur verið í sókn á undanförnum árum og í undanförnum kosningum, af því að hann hefur lengi verið ábyrgur flokkur, sem hefur náð árangri. Það er ekki tilviljun, að stjórnarandstæðingar hafa ráðizt svo mjög á flokkinn og forystumenn hans sem þeir hafa gert í gær og í kvöld. Stjórnarástand í landinu er nú þannig, að vænlegast er að efla Alþfl. enn. Hann einn getur tryggt þjóðinni það bezta úr jafnaðarstefnunni, sem svo margir segjast vilja fylgja. Alþfl. hefur með hófsemd og hugsjónum dregið fram það bezta í samstarfi við aðra og þannig komið miklu fram. Eflið farsælan flokk, eflið Alþfl. — Góða nótt.