19.03.1970
Sameinað þing: 40. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1538 í B-deild Alþingistíðinda. (2063)

Utanríkismál

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Fyrir ári flutti ég hér á Alþ. yfirlitsskýrslu um utanríkismál. Það var hinn 24. febrúar í fyrra. Með tilvísun til þeirrar skýrslu er nú ætlun mín að rekja helztu atburði s. l. árs á alþjóðavettvangi, sem einkum snerta hagsmuni íslenzku þjóðarinnar, og geta þá jafnframt athafna og afstöðu ríkisstj. til utanríkismála. Eru þar með talin varnarmálin eða stefnan í öryggismálum lands og þjóðar.

Enda þótt tímabilið, sem litið er til, sé ekki lengra en eitt ár, geta slíkar skýrslur um svo margvíslega málefnaflokka, sem falla undir utanríkismál, ekki orðið annað en útdráttur helztu mála og ágrip atvika í hverju tilfelli. Það verður aðeins unnt að stikla á stærstu atriðunum, en ógerningur er að gera öllum utanríkismálum s. l. árs skil í stuttu máli. Að þessu sinni mun ég ekki fara nánar út í undirstöðuatriði, sem liggja til grundvallar utanríkisstefnu okkar. Ég minni aðeins á þau ummæli mín í fyrra, að utanríkisstefna ríkisstj. markast aðallega af fjórum meginþáttum:

1. Náinni samvinnu við hin Norðurlöndin.

2. Þátttöku í störfum Sameinuðu þjóðanna.

3. Þátttöku í Norður-Atlantshafsbandalaginu.

4. Góðri samvinnu við okkar viðskiptalönd og raunar við allar þjóðir, án tillits til þess, hvernig þær haga sínum innanlandsmálum og stjórnarfari.

Það, sem hér fer á eftir, greinist í stórum dráttum í þessa 4 aðalþætti íslenzkra utanríkismála.

18. þingfundi Norðurlandaráðs er nýlega lokið hér í Reykjavík. Var það í þriðja sinn, sem Norðurlandaráð hefur haldið fundi hér á landi. Fór þinghaldið hið bezta fram öllum til sóma, sem áttu þar hlut að máli. Eins og alþm. er bezt kunnugt, er Norðurlandaráð einungis ráðgefandi stofnun. Það samþykkir ályktanir til ríkisstjórnanna, eins og segir í starfsreglum ráðsins. Orð eru til alls fyrst, og hefur Norðurlandaráð imprað á mörgu góðu máli eða komið þeim til leiðar. Þar hafa margar hugmyndir fyrst verið ræddar og afstaða Norðurlanda á fjölmörgum sviðum verið samræmd, og þó sérstaklega í menningarmálum, félagsmálum og réttarreglum ýmiss konar og einnig í samgöngumálum og efnahagsmálum.

Á ári hverju eru geysimörg mál, sem koma til umræðu á þingfundum Norðurlandaráðs, sum hver mikilvæg og önnur ekki, eins og gengur og gerist. Hafa jafnvel ábyrgir aðilar líkt ráðinu við pappírsmyllu vegna þess mikla málafjölda, sem þar er tekinn fyrir á stuttum tíma. Endurskoðun fer nú fram á starfsreglum Norðurlandaráðs, og hefur nefnd undir forystu Karls August Fagerholm starfað um skeið að þessari endurskoðun. Liggja nú fyrir þrjár álitsgerðir frá nefndinni og ákveðnar till. að viðbótarákvæðum við samstarfssamning Norðurlanda, er gerður var í Helsingfors 1962. Á fundinum hér í Reykjavík var samþ. að mæla með þessu samningsuppkasti við ríkisstj. En erfitt verður eflaust að skera niður málafjöldann, og raunar er það ekki æskilegt á meðan Norðurlandaráð er starfhæft og skilar frá sér samþykktum í mikilvægum málum.

Við Íslendingar höfum tekið virkan þátt í þessu samstarfi, bæði á vegum Norðurlandaráðs, á vegum ríkisstj. beint og einnig á vegum fjölmargra stofnana, og þannig treyst samband okkar við Norðurlönd. Eigum við tvímælalaust að mínu viti að halda áfram á þeirri braut og leggja enn meiri rækt við norrænt samstarf. Þar er um auðugan garð að gresja og margir möguleikar fyrir hendi, sem við eigum að notfæra okkur af beztu getu.

Almennt ber mönnum saman um, að þetta síðasta þing Norðurlandaráðs hér í Reykjavík hafi verið hið merkasta, jafnvel hið mikilvægasta fram til þessa, er marka muni tímamót í norrænni samvinnu. Ber þar ýmislegt til. Þetta er í fyrsta skipti, sem sérstakir fulltrúar frá Færeyjum og Álandseyjum áttu rétt til setu á þingfundum Norðurlandaráðs. Var það okkur Íslendingum ekki sízt gleðiefni, að fagna þátttöku Færeyinga, okkar næstu nágranna, í þinghaldi Norðurlandaráðs hér í Reykjavík. En það eru störf ráðsins og samþykktir, sem skipta þó mestu máli, þegar svo djúpt er tekið í árinni að ræða um straumhvörf í norrænni samvinnu.

Ef litið er á langan lista yfir ályktanir síðasta þings, en þessar ályktanir voru samtals 36 að tölu, — þá ber tvær samþykktir þar öllu hæst, auk þeirra sem ég hef þegar nefnt, um endurskipulagningu sjálfrar stofnunarinnar. Í fyrsta lagi, ályktun um eflingu samstarfsins í menningarmálum; en ráðið leggur til, að gerður verði á næstu misserum samningur um víðtækt menningarsamstarf Norðurlanda. Verði samningsgerð þessari lokið eigi síðar en 1. janúar 1972. Hin ályktunin, sem ég hef í huga, fjallar um Nordek-samvinnuna, sem verið hefur ofarlega á baugi að undanförnu. Lagði Norðurlandaráð til með öllum greiddum atkv., að Nordek-samningurinn verði sem fyrst lagður fyrir þjóðþing Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar til samþykktar, þannig að afgreiðslu ljúki á vorþinginu og fullgildingarskjöl verði strax afhent að fengnu samþykki. Fer ekki á milli mála, að Nordek-samningurinn var veigamesta málið, sem Norðurlandaráð fjallaði um að þessu sinni.

Það hafa verið gerðar margar tilraunir til þess að koma á samningum um efnahagssamvinnu Norðurlanda, en samningatilraunir um tollabandalag og samvinnu á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs hafa allar farið út um þúfur fram til þessa. Danmörk, Noregur og Svíþjóð hafa raunar öll verið í EFTA frá upphafi, Finnland varð þar aukaaðili rúmu ári eftir að EFTA var stofnað, — og innbyrðis verzlunarviðskipti Norðurlanda hafa einmitt aukizt stórlega vegna aðildar þeirra að EFTA. En Fríverzlunarsamtök Evrópu eru ekki tollabandalag, þ. e. a. s. það eru engin ákvæði um sameiginlegan ytri toll EFTA-ríkjanna gagnvart löndum, sem standa fyrir utan Fríverzlunarsamtökin. Í EFTA-samningnum eru heldur ekki ítarleg ákvæði um samvinnu í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum. EFTA-samningurinn fjallar fyrst og fremst um tollfrjáls viðskipti með iðnaðarvarning á milli aðildarríkjanna. Fyrir tveimur árum var ástandið þannig í markaðsmálum Evrópu, að ekkert útlit virtist vera fyrir inngöngu þeirra ríkja, sem sótt höfðu um aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu. Frakklandsforseti hafði þá öðru sinni bægt Bretum frá inngöngu í Efnahagsbandalagið og þar með einnig Dönum og Norðmönnum, sem óskað hafa eftir fullri aðild að Rómarsáttmálanum um stofnun Efnahagsbandalags Evrópu. Viðræðum um aðildarumsóknir virtist slegið á frest um ófyrirsjáanlegan tíma.

Þetta ástand í markaðsmálum álfunnar setti sinn svip á umræðurnar á 16. fundi Norðurlandaráðs í Osló í febrúarmánuði 1968, og þá var það, að Hilmar Baunsgård, forsætisráðherra Dana, vakti máls á þörfinni fyrir aukið efnahagssamstarf Norðurlanda. Að frumkvæði Dana var síðan boðað til fundar forsrh. Norðurlanda í Kaupmannahöfn tveim mánuðum seinna, en af Íslands hálfu sat viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, fundinn. Á Kaupmannahafnarfundinum var ákveðið að setja á stofn embættismannanefnd og hefja samningaviðræður um eflingu efnahagssamvinnu Norðurlanda. Síðan hafa þær viðræður staðið nær stanzlaust og bæði ráðh. og embættismenn hafa fjallað um málið á fjölmörgum fundum.

Um miðjan júlímánuð í fyrra sendi embættismannanefndin frá sér skýrslu ásamt uppkasti að samningi um stofnun samtaka um norræna efnahagssamvinnu, Nordek. Hafði þá þegar náðst samkomulag um samningsákvæði á velflestum sviðum, en þó ekki öllum. Voru það aðallega 5 málaflokkar, sem erfiðast var að ná samkomulagi um í veigamiklum atriðum. Þeir snertu ytri tollinn, landbúnaðinn, sjávarútveginn, réttindi til atvinnurekstrar og sameiginlega sjóði, upphæðir þeirra og skiptingu innbyrðis. En áfram var haldið að vinna að lausn þessara mála, og í nóvember s. l. settu forsrh. sér það mark að ljúka samningsgerðinni fyrir fund Norðurlandaráðs hér í Reykjavík. Um tíma blés þó ekki byrlega, því að í desemberbyrjun skýrði finnska ríkisstj. frá því, að finnskir ráðh. mundu ekki geta tekið þátt í frekari samningaviðræðum. Lausn var þó fundin á þessum vanda, þegar kom fram í miðjan janúarmánuð, og fengu þá finnsku þm. umboð til þess að ganga frá Nordek-samningsuppkastinu að öllu leyti, enda hafði þá verið samþ. viðbót við uppsagnarákvæði samningsins að ósk finnsku ríkisstj. þess efnis, að sérhvert aðildarríki gæti hætt Nordek-samstarfinu um leið og eitthvert annað aðildarríki tekur ákvörðun um að ganga í Efnahagsbandalag Evrópu. Hefur því verið lýst yfir af Finna hálfu, að þeir muni hætta samstarfinu og segja samningnum upp fyrir sitt leyti, þegar hafnir verða raunhæfir samningar um aðild einhvers Norðurlandanna að Efnahagsbandalagi Evrópu.

Það stóðst á endum, samningsgerðinni lauk hinn 4. febrúar s. l. í Stokkhólmi, er þátttakendur í Norðurlandaráði voru að tygja sig til Íslandsferðar. Lögðu embættismennirnir þá fram nýja skýrslu, en þeir höfðu verið í nánu sambandi við forsrh. sína, meðan á síðustu samningafundum stóð. Eitt vandamál var þó enn óleyst, en það voru fjármálin, en samkomulag náðist hér í Reykjavík milli forsrh. um heildarupphæð Nordeksjóðanna og skiptingu þeirra. Með fullfrágengið samningsuppkast og meðmælaályktun Norðurlandaráðs ættu ríkisstjórnirnar fjórar að geta innan skamms undirritað Nordek-samninginn, þannig að þjóðþingin fái tækifæri til að ræða og afgreiða samþykktir um fullgildingu hans, áður en vorþingum lýkur. Með samþykki þjóðþinganna gæti því Nordek-samningurinn tekið gildi á sumri komanda, er fullgildingarskjölin hafa verið afhent. Ekki er þó með öllu víst, að þessi tímaáætlun standist. Veltur þar aðallega á afstöðu finnsku ríkisstj., en þingkosningar fóru fram þar nú alveg nýlega, um síðustu helgi, og getur verið, að þær kosningar valdi einhverju um, hve langan tíma það tekur að fá samþykkt ríkisþinganna í þessu efni.

Því er ekki að leyna, að viðhorfin til Nordek eru nokkuð misjöfn, og skiptir þar meginmáli afstaða Norðurlanda til Efnahagsbandalags Evrópu. 3 þjóðir af 4 hafa lagt fram inntökubeiðni í Efnahagsbandalagið. Danir og Norðmenn óska eftir fullri aðild, en Svíar hafa beðið um viðræður um nánari tengsl við bandalagið. Á Haag-fundi leiðtoga Efnahagsbandalags Evrópu í byrjun desembermánaðar s. l. var tekin ákvörðun um að hefja viðræður á fyrri hluta þessa árs, 1970, við þær þjóðir, sem óskað hafa aðildar að bandalaginu. Standa nú vonir til, að slíkar viðræður um aðild að Efnahagsbandalaginu beri árangur, þar sem afstaða Frakka virðist hafa breytzt og þær þjóðir, sem lagt hafa fram inntökubeiðnirnar, hafa fullan hug á að hraða viðræðunum eins og unnt er. En viðræðurnar munu þó taka sinn tíma, jafnvel þó að allt gangi vel, sem raunar er alls óvíst og enginn getur sagt fyrir um. Danski markaðsmálaráðh., Paul Nybo Andersen, skýrði t. d. frá því í þingræðu, daginn áður en hann hélt til Íslands á Norðurlandaráðsfundinn, að hann reiknaði með því, að raunverulegar samningaumræður byrjuðu með haustinu og tækju þær a. m. k. eitt ár. Síðan tæki annað ár að ganga frá fullgildingu aðildar með samþykki þjóðþinganna, þannig að aðild gæti tekið gildi í fyrsta lagi 1. janúar 1973. Og danska stjórnin álítur ekki nauðsynlegt að fara fram á aðlögunartíma, heldur geti Danir gengizt undir öll ákvæði Rómarsáttmálans, sem liggur til grundvallar bandalaginu, um leið og aðild er fullgild. Að þessu stefna Danir, fullri aðild á sem skemmstum tíma, og vísa til þess, að Nordek hafi frá upphafi verið ætlað m. a. að auðvelda sérhverri Norðurlandaþjóðanna þátttöku í víðtækara efnahagssamstarfi í Evrópu.

Á hinn bóginn er svo afstaða Finna. Þeir eru eina þjóðin af þessum 4, sem ekki hafa farið fram á viðræður við Efnahagsbandalag Evrópu, og þeir lýsa yfir því, að þeir óski að hafa frjálsar hendur, ef og þegar eitthvert Norðurlandanna gengur í Efnahagsbandalagið. Þarna á milli standa svo Norðmenn og Svíar. Afstaða Norðmanna er að vísu mjög svipuð afstöðu Dana, en þó er hún kannske ekki alveg eins ákveðin. En meiri hl. þingsins er þó örugglega fylgjandi fullri aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu.

Svíar vilja aftur á móti halda fast við hlutleysisstefnu sína í utanríkismálum, eins og raunar Finnar líka, en munurinn er sá, að Svíar hafa óskað eftir viðræðum við Efnahagsbandalagið, enda þótt þeir treysti sér ekki til þess að sækja um fulla aðild. Allt stendur þetta eða fellur með því, hvernig Bretum farnast nú næstu mánuðina, er þeir hefja samningaviðræður á nýjan leik við Efnahagsbandalagið. En viðhorfin hafa breytzt til mikilla muna. Nú ríkir bjartsýni, raunar misjafnlega varfærin, en þegar Nordek-viðræðurnar hófust fyrir tveimur árum, voru allir mjög svartsýnir á, að nýir aðilar fengju í bráð inngöngu í Efnahagsbandalag Evrópu.

Ég hef nú rakið að nokkru sögu Nordek-samningaviðræðnanna og reifað útlitið, eins og það er í dag, um framtíð þessara samninga um efnahagssamvinnu Norðurlanda. Ég skal þá snúa mér að samningsuppkastinu sjálfu og ákvæðum þess.

Í fáum orðum verður Nordek-samningnum ekki lýst, nema rétt lauslega. Samningurinn sjálfur er yfir 30 þéttprentaðar síður, og þar við bætast auðvitað viðaukar við tollskrá, sérstakir vörulistar o. fl., sem eru samtals á annað hundrað síður. Þó að samningsuppkastinu hafi nokkuð verið lýst í blöðum hér og að nokkru leyti af öðrum til viðbótar, þá tel ég rétt að lýsa því hér nú nokkru ýtarlegar, því að ýmsir hv. alþm. hafa látið í ljós áhuga á málinu og vel má vera, að það komi til kasta Alþ. fyrr en síðar.

Þessi samningur skiptist í 20 kafla auk alllangs formála, þar sem lýst er aðstæðum, sem liggja til grundvallar fyrir samningnum, og þar sem sett eru fram markmið samningsins í almennum orðum. Í formálanum er lögð áherzla á, að samvinnan eigi að vera öllum Norðurlöndum til hagsbóta, bæði í hverju einstöku landi og þeim öllum í heild. Samstarfið á að létta Norðurlöndunum þátttöku í víðtækari og vaxandi Evrópumarkaði, enda verði leitazt við að auka sem mest viðskipti við önnur lönd. Stuðla skal að frjálsari verzlunarháttum í heimsviðskiptum, og verði þá sérstakt tillit tekið til þarfa þróunarlandanna. Í formála er einnig sérstaklega tekið fram, að samstarfið innan Nordek nái ekki til utanríkis- og öryggismálastefnu Norðurlandanna.

Í I. kafla er skýrt frá höfuðtilgangi efnahagssamvinnu Norðurlanda: atvinna fyrir alla og fullnýting auðlinda, aukinn hagvöxtur og aukin velferð félagslega. En síðan eru taldar upp nýjar stofnanir, sem komið hefur verið á fót til þess að sjá um framkvæmd samningsins, en þar á Norðurlandaráð líka sínu hlutverki að gegna. Í IX. kafla eru svo nánari fyrirmæli um þessar nýju samvinnustofnanir, ráðherraráð, fastanefndir embættismanna, samstarfsnefndir sameiginlega skrifstofu og ráðgjafarnefnd. Yfirstjórn framkvæmdar samnings er í höndum ráðherraráðsins, og þar á hvert aðildarríki einn fulltrúa og hefur eitt atkv. Ákvarðanir ráðsins verða aðeins teknar með shlj. atkv., þannig að hvert aðildarríki hefur neitunarvald í ráðinu. Ákvarðanir ráðsins eru bindandi nema í þeim málum, þar sem samþykki þjóðþinganna þarf að koma til. Í slíku tilfelli verður ákvörðun ráðsins fyrst bindandi, er þingið hefur veitt samþykki sitt. Fasta embættismannanefndin undirbýr störf ráðherraráðsins og framkvæmir þau verk, sem ráðherraráðið mælir fyrir um. Nefndin er skipuð á sama hátt og ráðið, einn fulltrúi frá hverju ríki og sans konar ákvæði gilda um atkvgr. Þegar er ákveðið að koma á fót níu samstarfsnefndum, sem hver á að vinna á sínu sérstaka sviði efnahagslífsins, sem samningurinn nær til, t. d. verður sett á stofn samstarfsnefnd í sjávarútvegsmálum. Heimilt er að stofna fleiri nefndir, ef þörf krefur. Samstarfsnefndir þessar eiga að skila álitsgerðum, gera till. til ráðherraráðsins og embættismannanefndarinnar. Ráðherraráðið ræður 4 forstjóra, sinn úr hverju landi til fjögurra ára í senn, er stjórna skulu sameiginlegu skrifstofuliði, sem starfar að framkvæmd samningsins. Skrifstofustjórarnir taka ekki við fyrirmælum frá stjórnvöldum í einstöku aðildarríki, heldur eiga þeir að starfa með sameiginlega hagsmuni allra aðildarríkjanna í huga. Loks er svo ráðgjafarnefnd, sem á að tryggja stöðugt samband við einstakar atvinnugreinar, samtök neytenda, verkalýðsfélaga og vinnuveitenda, 7 fulltrúar frá hverju landi eiga sæti í ráðgjafarnefnd.

Í II. kafla Nordek-samningsins eru ákvæði um samræmingu stefnunnar í efnahagsmálum. Skal ráðherraráðið marka í meginatriðum stefnuna í skattamálum, ríkisfjármálum og peningamálum. Mikilvægar efnahagsráðstafanir á ekki að gera nema að höfðu samráði við alla samningsaðila, og er þá sérstaklega tekið fram, að gengisbreytingar verði ekki framkvæmdar nema í samráði við samningsaðila, enda teljast gjaldeyrismál vera málaflokkur, þar sem öll löndin hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta. Samstarfsnefnd á að fylgjast almennt með þróun efnahagsmála á Norðurlöndum öllum og skila ráðherraráðinu reglulegum skýrslum þar um. Jafnframt skal fylgjast nánar með efnahagsþróun einstakra landshluta og samræma aðgerðir til eflingar atvinnulífinu í einstökum byggðarlögum.

Í III. kaflanum, sem fjallar um fjármagnshreyfingar, er ráðherraráðinu falið að vinna að því á næstu þremur árum að afnema smám saman hindranir á þessu sviði á milli aðildarríkjanna, eftir því sem efnahagssamvinna þeirra þróast. Frjálsari fjármagnshreyfingar eru ekki.

Ákvæði um tollabandalagið og viðskiptamál er að finna í IV. kafla samningsuppkastsins, og er það lengsti kaflinn, enda reyndist einna erfiðast að ná samkomulagi um sameiginlega tollskrá. Í sambandi við hæð ytri tollanna og gildistöku tollabandalagsins skiptir litlu máli, hvaða álit menn hafa á væntanlegri inngöngu Norðurlanda í Efnahagsbandalag Evrópu innan skamms tíma. Þar við bætist svo, að erfiðlega gekk að ná samkomulagi um ýmsar aðgerðir í landbúnaði, sjávarútvegi og fjármálum, sem gera á samtímis stofnun tollabandalagsins. Þar bindur eitt annað og heildarlausnin fékkst ekki fyrr en rétt fyrir síðasta fund Norðurlandaráðs, eins og þegar hefur verið tekið fram. Tollabandalagið nær til landanna fjögurra, en þó er Svalbarði undanskilinn og möguleiki er á því að undanskilja Grænland, Færeyjar og Álandseyjar. Innbyrðis verða ekki tollar né heldur aðrar inn- eða útflutningshömlur á milli Norðurlanda, en sameiginlegi ytri tollurinn umlykur þau öll. Gildir þetta fyrst og fremst um nær allar iðnaðarvörur, en undantekningar eru ýmsar og sérreglur um afurðir landbúnaðar og sjávarútvegs. Hæð ytri tollanna er vegið meðaltal af núverandi tollum landanna. En þó er jafnan tekið sjónarmið af því, hversu háir tollar Efnahagsbandalags Evrópu eru, þannig að ráðgert er, að ytri tollar beggja bandalaganna verði mjög svipaðir, verði nýju tollunum komið á í tveim áföngum. Munurinn á núverandi tollum og nýju tollunum verður helmingaður 1. janúar 1972 og síðan verður sameiginlega ytri tollinum komið á að fullu tveim árum seinna eða 1. janúar 1974, svo fremi að samstarfinu ljúki ekki fyrir þann tíma, vegna inngöngu einhvers Norðurlandanna í Efnahagsbandalag Evrópu. — Ýmsar undanþágur eru veittar frá hinum sameiginlega tolli. Sumar eru þessar undanþágur án tímatakmarkana, t. d. eru járn og stál og fleiri vörur til iðnaðarframleiðslu tollfrjálsar um óákveðinn tíma, en taka á til endurskoðunar á 5 ára fresti, hvort setja skuli sameiginlega tolla á þessar vörur. Aðrar undanþágur gilda í 15 ár, eins og t. d. fyrir hráefni til plastiðnaðar, og enn aðrar undanþágur eru veittar til 10 ára, eins og t. d. fyrir efnivörur ýmsar til iðnaðar. — Ekki ætla ég að rekja hér nánar hina ýmsu þætti tollasamkomulagsins. Þar eru mörg smáatriði ærið flókin og líklega sérfræðinganna einna að skilja þau til hlítar, en í tolla- og viðskiptakafla samningsins eru ýmis önnur ákvæði um samræmingu tollalaga, tollgæzlu, reglugerða um takmörkun innflutnings frá þriðja landi o. s. frv. Yfir höfuð er ætlunin, að Norðurlönd hafi náið samstarf um stefnumótun í viðskiptamálum og reki sömu verzlunarpólitík gagnvart umheiminum. Einnig er ráðherraráðinu fengið það verkefni að semja reglur um skiptingu tolltekna milli aðildarríkjanna, eftir að sameiginlegi tollurinn tekur gildi. Reglur þessar á að semja fyrir 1. janúar 1974, á grundvelli rannsóknar á viðskiptum Norðurlandanna innbyrðis og við önnur lönd.

Tveir kaflar eru í samningnum um samgöngumál. Í fyrsta lagi skal stefnt að því að gera verzlunarsiglingar sem frjálsastar. Í öðru lagi skal samræma aðgerðir til þess að koma á sem hagkvæmustu flutningakerfi á landi. Um flutningakerfi í lofti ætla ég, að sé ekki getið. Í kaflanum um iðnað og orku er samkomulag um að efla beri samvinnu í iðnaði til þess að standast tæknikröfur tímans í harðri samkeppni við önnur lönd, og leitazt verður við að sjá iðnaðinum sameiginlega fyrir nægri orku á sem hagkvæmastan hátt. Fær samstarfsnefnd um iðnað og orku það verkefni að fylgjast með þróun þessara mála og gera tillögur til ráðherraráðsins, sem ákveður meginreglur samvinnunnar á þessu sviði sem öðrum.

Kem ég þá að kaflanum um landbúnað, sem allmiklum erfiðleikum olli, meðan á samningaviðræðunum stóð. Milliríkjaviðskipti með landbúnaðarafurðir á Norðurlöndum eru almennt háð leyfisveitingum. Samkomulag var um að ganga þannig frá málum, að norrænir bændur hafi forgangsrétt til að fullnægja eðlilegum innflutningsþörfum alls staðar á Norðurlöndum, þ. e. a. s. ef litið er á þetta frá innflutningshliðinni. Þær þjóðir, sem ekki eru sjálfum sér nægar og þurfa að flytja inn búvörur, eiga að kaupa þær fyrst og fremst hjá nágrannaþjóðunum á Norðurlöndum. Kemur þetta aðallega til góða dönskum bændum, sem eru útflytjendur, en Svíar, Norðmenn og Finnar eru nettóinnflytjendur á landbúnaðarvörum. En um leið og útflytjendum eru veitt þessi fríðindi, á að tryggja sanngjarnt verðlag fyrir innflytjendurna og jafnframt að framleiðendur í innflutningslandinu verði ekki fyrir tekjumissi. Í samkomulaginu um framkvæmd þessarar meginreglu er ýmsum aðferðum beitt. Tollfríðindi í Noregi á ákveðnum verðlagsgrundvelli, hækkandi tollar í Svíþjóð á búvörum frá öðrum löndum en þeim, sem eru innan Nordek, og hærri tollendurgreiðsla Svía vegna innfluttra afurða frá Danmörku. Þar við bætist verðlagssjóður vegna landbúnaðarins, sem tryggja á stöðugra verðlag og framkvæmdalán til undirstöðubreytinga í landbúnaði Noregs og Finnlands. Þegar lengra er litið fram á veg, er samkomulag um, að fyrir 1. janúar 1974 geri ráðherraráðið sameiginlega áætlun um alhliða samvinnu í landbúnaðarmálum, sem stefnir að sameiginlegum markaði fyrir allar búvörur, sem tryggir bændum þá ákveðnar tekjur af hagkvæmum búrekstri. Skal þá leggja til grundvallar lágmarksverðkerfi, frekar en treysta á aðflutningsgjöld og leyfisveitingar fyrir innflutningi. Einnig verða framlög úr sameiginlegum sjóðum notuð til að hrinda endurskipulagningu og hagkvæmari uppbyggingu landbúnaðarins í framkvæmd.

Næst kemur svo kaflinn um sjávarútveg, þar sem stefna skal að því að bæta framleiðslu- og sölumöguleika fyrir sjávarafurðir og gera sjávarútveginum í heild auðveldara að aðlaga sig breytingum, sem verða við öra efnahags- og tækniþróun. Tryggja skal sjómönnum sanngjörn lífskjör, og samræma skal smám saman aðgerðir aðildarríkjanna í sjávarútvegi, með það fyrir augum að koma upp sameiginlegum markaði fyrir sjávarafurðir, enda verði tollar og takmarkanir á innbyrðis viðskiptum Norðurlanda með fisk afnumdar 1. janúar 1972. Gera skal fiskverðið á fyrsta sölustigi stöðugra og stofna til þess sameiginlegan sjávarútvegssjóð. Einnig verði unnið sameiginlega að útflutningi til annarra landa, einkum þeirra landa, sem hafa ríkiseinkasölu á innflutningi. Sett verði jafnframt lágmarksútflutningsverð og samningi komið á um sölustarfsemi erlendis. Stöðugra verði fyrir fisk upp úr skipi á að ná með allflóknu lágmarksverðkerfi. Til þess að framkvæma þetta lágmarksverðkerfi hefur verið komið á fót norrænni verðlagsnefnd undir samstarfsnefnd um sjávarútvegsmál. Verða framlög úr sjávarútvegssjóðnum notuð til að halda verðlaginu uppi, en sjóðurinn á einnig að styrkja hagkvæma uppbyggingu sjávarútvegsins til frambúðar. Verður þá sérstaklega tekið tillit til byggðarlaganna, sem byggja að mestu á sjávarútvegi og hafa ekki aðra orku né möguleika nema að takmörkuðu leyti. Norðmenn héldu fast á sínum málum í sambandi við sjávarútveginn og fengu um síðir upphæð sameiginlega sjóðsins hækkaða. Þeir gengust ekki inn á að leyfa löndun og uppskipun á fiski í norskum höfnum né heldur flutning á fiski í ár og vötn. Á móti voru samþykktar aðlögunarráðstafanir í Svíþjóð og Finnlandi til 5 og 10 ára, enda verði löndunar- og umhleðslubannið tekið til endurskoðunar í ráðherraráðinu í síðasta lagi á árinu 1977.

Kem ég þá að fjórum næstu köflum Nordek-samningsins, sem samkomulag náðist fljótlega um, en í þeim var fjallað um atvinnuréttindi, ríkisstyrki, ríkisinnkaup og opinberar framkvæmdir, samkeppnisreglur, atvinnurekstrarréttindi og samræmingu löggjafar, sem mesta þýðingu hefur fyrir atvinnulíf. Stefna skal að því á öllum þessum sviðum að gera aðstöðu einstaklinga og fyrirtækja sem jafnasta hvar sem er á Norðurlöndum og afnema allar takmarkanir, sem byggja á þjóðerni eða ríkisfangi. Norðmenn vildu þó ekki ganga mjög langt í átt til frjálsræðis í sambandi við rétt til að stofna fyrirtæki. Fengu þeir sínu framgengt og verða útlendingum aðeins veitt atvinnurekstrarréttindi, eftir því sem nauðsynlegt er talið, til þess að norræn markaðssamvinna komist á. En ráðherraráðinu er falið að rannsaka mál þessi nánar og taka ákvörðun um framkvæmd þeirra fyrir 1. janúar 1975.

Næst koma svo tveir kaflar með allýtarlegum ábendingum um meiri samvinnu um skólamál og rannsóknir alls konar. Ráðið skal á næstu 5 árum vinna að frekari samræmingu á þessum sviðum. Sams konar ákvæði er að finna í stuttum kafla um aðstoð við þróunarlöndin, hvort heldur er á tvíhliða grundvelli eða um hendur alþjóðastofnunar.

Loks kemur svo allmikill kafli um samvinnu í fjármálum. Ákveðið var að stofna 3 sjóði, almennan sjóð, verðlagssjóð fyrir landbúnað og verðlagssjóð fyrir sjávarútveg. Að auki verður svo stofnaður fjárfestingarbanki. Hlutverk almenna sjóðsins er að styrkja þær framkvæmdir, sem ekki teljast hæfar til að fá fyrirgreiðslu í bönkum, með fjárframlögum, lánum eða ábyrgðum. Hlutverk verðlagssjóðanna er, hvort tveggja í senn, að halda afurðaverði stöðugra, ofan við ákveðið lágmark, og einnig að efla hagkvæmara skipulag landbúnaðar og sjávarútvegs til frambúðar. Fjárfestingarbankinn lánar með venjulegum bankakjörum til framkvæmda, sem Norðurlöndin hafa sameiginlegan áhuga á. Heildarframlög til sjóðanna þriggja nema samtals 2200 millj. sænskra króna á næstu 5 árum, eða árlega 440 millj. sænskra króna. Árlega fær sjávarútvegssjóðurinn 50 millj. sænskra króna, landbúnaðarsjóðurinn 90 millj. og almenni sjóðurinn 300 millj. sænskra króna, en samkvæmt samkomulagi, sem forsrh. gerðu hér í Reykjavík, var ákveðið að úr almenna sjóðnum renni árlega 10 millj. sænskra króna til uppbyggingar og undirstöðubreytingar í finnskum landbúnaði og 38 millj. sænskra króna vegna sams konar endurskipulagningar á norskum landbúnaði og sjávarútvegi. Miðast framlag hvers lands við þjóðarframleiðslu þeirra, og verður þá hlutdeildin nánast þannig, að Norðmenn og Finnar eru mjög svipaðir með u. þ. b. 16%, Finnar þó heldur lægri, Danir verða síðan með nokkru hærra framlag eða 24%, en Svíar bera bróðurpartinn eða 46%, eða h. u. b. þrefalt það framlag, sem Finnar og Norðmenn leggja til hvorir í sínu lagi. Höfuðstóll fjárfestingarbankans skal vera 200 millj. dollara eða 1000 millj. sænskra króna og skiptist hann á milli landa í sömu hlutföllum og sjóðsframlögin. 1/4 hluti höfuðstólsins er afturkræfur fyrstu 5 árin, en útlánageta hans á að verða 2500 millj. sænskra króna. Svíar hafa samþ. þessar fjárhæðir allar til fyrstu 5 áranna, án þess að skuldbinda sig frekar um næsta 5 ára tímabil, en Norðmenn, Finnar og Danir telja að þá verði þörf fyrir enn hærri upphæðir til eflingar norrænu efnahagssamstarfi.

Ég hef þá gert lauslega grein fyrir öllum köflum Nordek-samningsins, nema lokakaflanum, en þar er að finna m. a. uppsagnarákvæðin, sem áður er getið, í sambandi við þær óskir Finna, að þeir hafi rétt til að draga sig út úr samstarfinu ef eitthvert landanna gengur í Efnahagsbandalag Evrópu. En almennt séð gildir samningurinn í 10 ár, og framlengist síðan sjálfkrafa um önnur 10 ár í senn, nema honum sé sagt upp með 2 ára fyrirvara.

Samkvæmt 17. gr. lokakaflans er tekið fram, að Ísland geti gerzt aðili að Nordek-samningnum með þeim skilyrðum, sem um kann að verða samið. Haft hefur verið í huga frá upphafi, að Ísland geti gengið í norrænt efnahagssamstarf, og strax á ráðherrafundinum í apríl 1968, sem ég hef áður minnzt á, var tekið skýrt fram, að Íslendingum stæði til boða að gerast aðili að Nordek, og þess vegna hef ég rakið aðalefnisatriði samningsins svo ýtarlega sem ég hef gert hér. Enda þótt við höfum ekki tekið virkan þátt í samningaviðræðunum undanfarin 2 ár, höfum við fylgzt náið með þeim og íslenzkir fulltrúar hafa setið suma viðræðufundina. Eins og ljóst má vera, er hér um mjög ýtarlegt og víðtækt efnahagslegt samstarf að ræða, og efalaust getum við Íslendingar ekki tekið á okkur allar þær skuldbindingar, sem í Nordek-samningnum felast nú þegar, og e. t. v. ekki heldur auknar skuldbindingar, sem eiga eftir að koma á daginn, eftir því sem efnahagssamvinnan eflist. En það er ánægjulegt til þess að vita, að við höfum átt og eigum kost á að semja um inngöngu í þetta samstarf. Við þurfum líka að gera nákvæmar og umfangsmiklar athuganir á þessu máli og það sem fyrst. Þetta var áréttað núna á síðasta Norðurlandaráðsfundi, er samþykkti samhljóða þá ályktunartillögu frá íslenzku fulltrúunum, þar sem mælt var með því við ríkisstjórnirnar fimm að taka upp viðræður um það, hvenær og hvernig Ísland gæti gerzt aðili að Nordek. Í þessu sambandi kom fram augljós velvilji í okkar garð hjá öllum helztu ræðumönnum, sem fjölluðu um Nordek-málið á Norðurlandaráðsfundinum hér í Reykjavík. Það var einnig næsta fróðlegt að heyra ráðamenn þessara frændþjóða okkar, sem allar eru miklu fjölmennari en við og öflugri á allan hátt, ræða um það, að nauðsyn bæri til þess að taka þátt í auknu efnahagssamstarfi til að örva hagvöxt og efla velferð þjóðfélagsþegnanna allra. Einar sér geta þessar þjóðir ekki staðið. Alhliða samþykktir þurfa að eiga við allar aðrar þjóðir. Ef ekki næst samkomulag um slíka efnahagssamvinnu, dragast þjóðirnar aftur úr, þær einangrast og lífskjör þegnanna versna í samanburði við það, sem bezt gerist hjá þeim þjóðum, sem eiga hlut að stærri mörkuðum og margháttuðu efnahagssamstarfi.

Við úrlausn margslunginna vandamála í tækniþjóðfélagi nútímans þarf sameinaða krafta og samstillt átak. En vandi þessara frændþjóða, sem eru miklu fjölmennari en við, er sá sami og okkar, og vandinn er sá, að finna rétt form fyrir slíka efnahagssamvinnu. Hér takast á annars vegar sjálfstæðisvilji þjóðarheildarinnar og hins vegar þörf eða öllu heldur kröfur einstaklingsins til betri lífskjara, sem fást ekki nema með örari hagvexti, sem byggir fyrst og fremst á nánum samskiptum við aðrar þjóðir. Segja má, að við Íslendingar höfum farið að með allri gát í þessum efnum, því við erum nú fyrst aðilar að stórum markaðssamtökum margra ríkja. Við göngum í EFTA, Fríverzlunarsamtök Evrópu, 10 árum eftir að þau voru stofnuð. Ástæður eru margar og óþarfi að rekja þær nú, enda hefur málið um aðild okkar verið til ýtarlegrar umræðu á yfirstandandi þingi. EFTA-aðildin verður íslenzku efnahagslífi vonandi örugglega til góðs. Byrjunarörðugleikar verða sjálfsagt nokkrir og ýmsar breytingar þarf að gera til aðlögunar, en þegar frá líður er enginn vafi á, að afkoma okkar batnar fyrir tilverknað samvinnunnar við EFTA-þjóðir. Núverandi verzlunarviðskipti okkar við EFTA-þjóðirnar verða öll greiðari. Bretland er okkar stærsta viðskiptaland innan EFTA, og viðskiptin við Breta eiga eftir að eflast, nú þegar við erum orðnir aðilar að Fríverzlunarsamtökunum. Hið sérstaka samkomulag, sem gert var hér um lágmarksverð fyrir freðfiskflök, sem flutt eru inn til Bretlands frá Norðurlöndum, ætti að lofa góðu fyrir íslenzkan sjávarútveg, en fiskur verður enn um langt skeið okkar helzta útflutningsvara. Aftur á móti opnar EFTA-aðildin okkur mikla möguleika til viðskipta með nýjar vörutegundir, en okkur er einmitt nauðsynlegt að efla nýjar útflutningsgreinar. Þótt viðskipti okkar aukist innan EFTA, þá á það ekki að koma niður á verzlunarsamböndum, sem við höfum haft um langt skeið, bæði í austri og vestri. T. d. er svo um hnúta búið, að viðskipti okkar við Sovétríkin munu ekki bíða hnekki við inngöngu Íslands í EFTA.

Aðstoð Norðurlandaþjóðanna í sambandi við aðildina að EFTA hefur verið okkur mjög mikilsverð. Það hefur hallazt nokkuð á okkur í verzlunarviðskiptum Íslands við Norðurlöndin og stendur það til bóta með aðild okkar að EFTA, því Norðurlöndin hafa gert samkomulag um að kaupa t. d. nú þegar aukið magn af íslenzku kindakjöti. En fleira ætti að koma til, ef rétt er haldið á málum. Er þá norræni iðnþróunarsjóðurinn veigamesta atriðið fyrir Ísland til þess að efla nýjar útflutningsgreinar. Þar hafa Norðurlönd sýnt í verki meiri skilning á þörfum Íslendinga fyrir aukna fjölbreytni í atvinnumálum. Verður iðnþróunarsjóðurinn vonandi til að efla útflutning okkar til Norðurlanda. Reynsla Norðurlandaþjóðanna að EFTA-samstarfinu hefur einmitt verið sú, að innbyrðis viðskipti milli þeirra hafa jafnan aukizt meira en viðskiptin við allar EFTA-þjóðirnar í heild. Sama á trúlega eftir að koma upp á teninginn hvað okkur snertir. Verður það þá til þess, að við athugum nánar möguleika á Nordek-samningnum, þegar okkur gefst tóm til, eftir allar þær aðgerðir, sem taka tíma okkar nú í upphafi máls, þegar EFTA-aðildin kemur til framkvæmda. En við Norðurlöndin eigum við að hafa sem nánasta samvinnu á öllum sviðum.

Ég hef nú rætt nokkuð tvo af fjórum aðalþáttum utanríkismála okkar, en þessir tveir þættir eru líka næsta samtvinnaðir, þ. e. samvinnan við Norðurlöndin og verzlunarviðskipti okkar við aðrar þjóðir, á Norðurlöndum, í EFTA og annars staðar. Ég skal þá næst gera nokkra grein fyrir þátttöku okkar í störfum Sameinuðu þjóðanna á s. l. ári.

Segja má, að 24. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hafi verið rólegt þing og æsingalítið. Minna bar á pólitískum ýfingum á milli austurs og vesturs en mörg undanfarin ár. Um styrjöldina í Víetnam var rætt í allsherjarumræðum þingsins, en umræður um málið í þn. mótuðust yfirleitt ekki af afstöðu til styrjaldarinnar. Svipað má segja um átökin fyrir botni Miðjarðarhafs. Leynilegar viðræður Bandaríkjanna og Sovétríkjanna um málið höfðu staðið mánuðum saman og sumir virtust gera sér vonir um, að þær bæru einhvern árangur, þannig að þessir tveir aðilar, ásamt Bretlandi og Frakklandi, gætu gefið skýrslu til U Thants í þingbyrjun, sem kynni að leiða til þess, að Gunnar Jarring gæti aftur hafið viðræður sínar við styrjaldaraðilana. Viðræðurnar báru hins vegar engan árangur. Þær héldu þó áfram á meðan á þinginu stóð, og fulltrúar fjórveldanna hittust loks undir lok þingsins. En allt kom fyrir ekki.

Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs hafði staðið á dagskrá allsherjarþingsins, en kom aldrei til umræðu. Málið var sett á dagskrá 25. allsherjarþingsins, þ. e. a. s. á dagskrá næsta þings. Deilumál Ísraelsmanna og Araba voru hins vegar óspart rædd í nefndum þingsins, bæði í sambandi við umræður um skýrslur flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna um Palestínuflóttamenn og einnig í sambandi við umræður um mannréttindamál í 3. nefnd þingsins.

Það vakti athygli á þessu allsherjarþingi, hversu lík afstaða Bandaríkjanna og Sovétríkjanna var til margra helztu mála, sem rædd voru á þinginu, og hversu lítið var um pólitískar orðahnippingar á milli fulltrúa þessara tveggja höfuðstórvelda vesturs og austurs. Að vísu voru þeir ekki sammála um mörg mál, sem rædd voru, en þeir virtust gera sér far um að gera lítið úr þeirri hlið mála, sem þeir voru ósammála um, og virtust í æ fleiri málum hafa svipaðra hagsmuna að gæta. Í sumum málum kom þessi samstaða þannig fram, að Sovétríkin og Bandaríkin lögðu í sameiningu fram þáltill., svo sem í afvopnunarmálum. Viðbrögð meðalstórra ríkja og óháðu ríkjanna yfirleitt urðu þau, að hjá þeim kom fram nokkur tortryggni gagnvart því, að stórveldin tvö væru á bak við tjöldin að gera sín á milli samkomulag um stórmál, sem þau ætluðust síðan til, að þingheimur Sameinuðu þjóðanna samþykkti athugasemdalaust eða athugasemdalítið, enda þótt margt kynni að vera í samningunum, sem smærri ríkin teldu ganga gegn sínum hagsmunum. Viðbrögð óháðu ríkjanna svokölluðu voru hér að vissu leyti mótsagnakennd, því þessi ríki hafa verið hlynnt því, að Bandaríkjamenn og Sovétmenn reyndu að jafna deilumál sín og lækka spennuna milli austurs og vesturs. En jafnskjótt og Bandaríkin og Sovétríkin, tvíveldin, sýna tilhneigingu til að koma sér saman um meiri háttar mál án samráðs við aðra, þá vaknar tortryggni smærri ríkjanna, og þetta varð í ýmsum málum til þess að þjappa miðlungsstóru ríkjunum, óháðu ríkjunum og smáríkjunum saman í hagsmunahópa gegn stórveldunum tveimur, Bandaríkjunum og Sovétríkjunum.

Hinn 23. sept. s. l. ávarpaði ég allsherjarþingið og í ræðunni var gerð allýtarleg grein fyrir afstöðu ríkisstj. Íslands til alþjóðamála, m. a. til afvopnunar- og friðargæzlumála, og síðan vikið að þeim málum, sem Ísland hefur sérstaklega beitt sér fyrir á þingi Sameinuðu þjóðanna. Var á það minnzt, að á 23. allsherjarþinginu hefðu verið samþykktar tvær tillögur, sem Ísland hefði átt frumkvæði að. Sú fyrri var þess efnis, að framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna yrði falið að semja álitsgerð varðandi ráðstafanir og reglur um að hindra mengun hafsbotnsins, sem gæti haft skaðleg áhrif á fiskstofnana og sprytti frá vinnslu á hafsbotni. Væri Ísland eitt hinna 42 ríkja í hinni föstu hafsbotnsnefnd og teldi íslenzka ríkisstj. að mikil nauðsyn væri á að setja haldgóðar alþjóðareglur fyrir það svæði, sem lægi fyrir utan lögsögu hinna einstöku ríkja. Önnur till. Íslands hefur fjallað um hagnýtingu og verndun lífrænna auðæfa hafsins. Voru þar ríkisstjórnir hvattar til þess að auka samvinnu sína um hagnýtingu, vernd og ræktun fiskstofnanna og sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna falið að auka og skipuleggja betur samvinnu sína á þessu sviði. Báðar þessar ályktunartillögur Íslands voru samþ. á 23. allsherjarþinginu og nutu þar mikils fylgis og voru þær báðar mikilsvert skref í áttina til haldbetri verndunar og skynsamlegri hagnýtingar auðlinda hafsins. Var síðan í ræðunni vikið að því, að frekari aðgerða sé brýn þörf til þess að tryggja strandríkjum sanngjarnan og réttlátan skerf til þeirra auðæfa, sem veiðast undan ströndum þeirra. Sagði síðan, orðrétt:

„Genfarsamningurinn frá 1958, um fiskveiðar og vernd fiskstofna í úthafinu, veitir strandríkjum engin slík sérréttindi á fiskimiðunum fyrir utan hina eiginlegu fiskveiðilögsögu, en fyrir 11 árum var ástandið í fiskveiðum heimsins allt annað en það er í dag. Í augum margra þeirra ríkja, sem tóku þátt í Genfarráðstefnunni 1958 og 1960, virtist þá ekki vera nein þörf fyrir slík sérréttindi strandríkja. Nú er ástandið hins vegar gerbreytt, eins og ég hef bent á. Að áliti ríkisstj. minnar ber því brýna nauðsyn til þess að setja slíkar reglur innan vébanda Sameinuðu þjóðanna, sem tryggi það að þjóðir, sem byggja afkomu sína að mestu leyti á fiskveiðum, geti notfært sér fiskimiðin undan ströndum sínum, eftir því sem þörf íbúanna krefur. Þessi skoðun okkar um slík ákvæði er aðeins réttmæt staðfesting á rétti allra þjóða, stórra sem smárra, til mannsæmandi lífskjara, en sá réttur er einn af hornsteinum samstarfs Sameinuðu þjóðanna á sviði efnahagsmála.“

Með þessari ræðu í almennu umr. á þinginu var undirstrikað, hve mikla áherzlu Íslendingar legðu á varðveizlu og verndun fiskstofnanna og ekki síður, hver nauðsyn það væri að framkvæma heildarendurskoðun á reglunum um fiskveiði- og landgrunnsréttindi strandríkja, en á undangengnu þingi voru það málefni hafsins, sem íslenzka sendinefndin lét sig mestu varða, og reyndi hún eftir föngum að hafa áhrif á gang þeirra og þróun á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Fiskveiðar og málefni hafsins komu til umr. í tveimur nefndum allsherjarþingsins. Í 1. nefnd, þegar rætt var um skýrslu hafsbotnsnefndar, og 2. nefnd, þegar fjallað var um verndun auðæfa hafsins og alþjóðasamvinnu á því sviði.

Snemma á þinginu hóf íslenzka sendinefndin trúnaðarviðræður við sendinefndir margra annarra ríkja. Var í þeim viðræðum skýrt frá sjónarmiðum Íslendinga varðandi nýtingu auðlinda hafsins og fiskveiðiréttindin og fjallað um afstöðu til ýmissa tillagna, sem fyrir lágu í þeim efnum og hafsbotnsmálum. Átti sendinefndin m. a. ýtarlegar viðræður um þessi málefni við sendinefnd Bandaríkjanna. Árangur þeirra viðræðna var sá, að þann 10. nóv. flutti bandaríski fastafulltrúinn, ambassadorinn C. H. Philips, ræðu á þinginu, þar sem hann ræddi einvörðungu um hagsmunamál Íslands í þessum efnum. Var þar lýst sérstöðu Íslands, nauðsyn þess að tryggt væri á alþjóðavettvangi, að Ísland hlyti í framtíðinni nægan afrakstur fiskveiðistofnanna til viðhalds góðum lífskjörum í landinu. Væru Bandaríkin fús til þess að styðja þá stefnu Íslendinga að veita fiskstofnum umhverfis landið nægilega vernd, svo að ekki væri óhóflega á þá gengið. Vakti þessi ræða bandaríska ambassadorsins mikla og verðskuldaða athygli, enda gerist það ekki á hverjum degi innan Sameinuðu þjóðanna, að fulltrúar stórveldanna veiti smáþjóðum slíkt liðsinni. Í ræðu, sem fulltrúi Íslands flutti í 2. nefnd þingsins 22. okt., var gerð ýtarleg grein fyrir stöðu Íslands sem sjávarútvegsþjóðar og hagsmunum þess í fiskveiði- og landhelgismálum.

Þessi kynningarsjónarmið Íslands í þessum efnum vöktu athygli og var vísað til þeirra af fulltrúum ýmissa annarra ríkja í umræðum um þetta mál. Flutti íslenzka sendinefndin síðan þáltill. í nefnd um varnir gegn mengun hafsins, en engar almennar alþjóðareglur um verndun auðæfa hafsins gegn skaðlegri mengun eru í gildi í dag: Samkvæmt þessari till. Íslands var framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna falið að safna gögnum með aðstoð hlutaðeigandi sérstofnana um hvers kyns skaðleg efni, sem geta valdið mengun í hafinu, og jafnframt að gera till. um reglur, sem taka mætti upp í allsherjar alþjóðasamning um varnir gegn mengun hafsins af hvers kyns orsökum. Bæri brýna nauðsyn til þess að vinda að þessu máli bráðan bug, þar sem ýmis eiturefni væru þegar farin að hafa skaðleg áhrif á fiskstofna. Um þessa till. urðu alllangar umr. og hlaut hún stuðning bæði Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, auk ýmissa annarra landa, sem lýstu fylgi sínu við hana, þar sem hér væri um að ræða bæði tímabært og nauðsynlegt málefni. Var talið, að sú gagnasöfnun, sem till. gerir ráð fyrir, mundi koma að góðu haldi við undirbúning alþjóðaráðstefnunnar um umhverfi mannsins, sem Svíar hafa gengizt fyrir að haldin yrði 1972, og þá ekki síður í sambandi við það löggjafarstarf, sem alþjóðastofnanir þurfa að vinna á næstu árum í því efni að varðveita náttúru veraldar. Ýmis ríki, sem hag hafa af fiskveiðum, töldu, að ekki mætti öllu lengur dragast, að alþjóðasamningur yrði gerður, sem tryggði það, að heimshöfin yrðu ekki fúapyttur verksmiðjuúrgangs og eiturefna, með þeim afleiðingum, að lífið slokknaði þar í æ ríkari mæli.

Till. Íslands var síðan samþ. í 2. nefnd þingsins 5. des. og einróma á sjálfu allsherjarþinginu skömmu fyrir þinglok. Framhaldið var það, að sérfræðingar frá hinum ýmsu sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna, svo sem FAO, Alþjóðahafrannsóknaráðinu, IMCO og fleiri aðilum, munu nú hefja þær rannsóknir og störf, sem ráð er fyrir gert í till., og skila áliti til Sameinuðu þjóðanna og allsherjarþingsins. Er óhætt að fullyrða, að með þeim íslenzku till. varðandi hafið og verndun auðæfa þess, sem samþ. voru á 23. þinginu 1968 og nú á síðasta þingi 1969, hafi Ísland tekið forystu í alþjóðlegu framfara- og nauðsynjamáli, sem auðvitað snertir beint okkar eigin efnahag og afkomu sem einnar af mestu fiskveiðiþjóðum heims.

Við skulum svo víkja örlítið nánar að málefnum hafsbotnsins. Sem kunnugt er, var Ísland eitt þeirra 42 ríkja, sem kjörin voru í hafsbotnsnefnd Sameinuðu þjóðanna á 23. allsherjarþinginu. Sú nefnd hefur það hlutverk að semja alþjóðalög, sem gilda eiga í framtíðinni varðandi hafsbotninn og friðsamlega nýtingu hans. Eitt meginatriðið í því starfi er að ákveða markalínuna á milli landgrunns, sem strandríkið á lögsögu yfir, og hafsbotnsins, sem ráðgert er, að verði alþjóðlegt svæði. Af þeirri ástæðu er eðlilegt, að Ísland láti sig starf nefndarinnar miklu varða, þar sem íslenzka landgrunnið er víðáttumikið og beztu fiskimið okkar liggja innan endimarka þess. Ýmis atriði önnur hafa verið ýtarlega rædd í nefndinni, og ber þar helzt að telja nauðsyn þess, að sem fyrst verði samþykktar nokkrar meginreglur um þetta geysilega umfangsmikla svæði, sem samtals er um 70% af yfirborði jarðarinnar. Á allsherjarþinginu var lýst meginsjónarmiðum Íslands í því efni. Þau eru m. a., að hafsbotninn skuli hagnýttur eingöngu í friðsamlegum tilgangi, hann skuli teljast alþjóðlegt svæði utan landgrunnsins, notkun hans skuli lúta grundvallarreglum Sameinuðu þjóðanna og auðæfi hafsbotnsins skuli hagnýtt í þágu alls mannkyns, en með sérstöku tilliti til hagsmuna og þarfa þróunarlandanna. Engu einstöku ríki verði heimilt að taka sér lögsögu yfir þessum hluta hafsbotnsins, þar sem auðæfi hans skulu vera alþjóðaeign.

Bæði í hafsbotnsnefndinni og á allsherjarþinginu urðu umræður um framtíðarskipulag í þessum efnum. Fulltrúar Íslands lögðu þar áherzlu á, að landgrunn hverrar þjóðar yrði markað sem stærst, en þar hefur strandríki einkarétt á vinnslu auðæfa þess út að hinu alþjóðlega svæði. Hafa sumar þjóðir lýst þeirri skoðun sinni, að mörk landgrunnsins skuli vera sett 100–200 mílur frá ströndum, en um þetta eru þó mjög skiptar skoðanir í nefndinni og aðrar þjóðir telja, að marka beri lögsögu hvers ríkis sem stytzt frá ströndinni. Þó hafa einnig verið skiptar skoðanir um nauðsyn þess að koma innan skamms á fót alþjóðastofnun, er fjalli um mál hafsbotnsins og myndaði hluta af réttarkerfi í þessum efnum. Sum stærstu iðnaðarveldin vilja fresta stofnun slíkrar alþjóðlegrar stjórnar, þar til mun fleiri og meiri rannsóknir hafa farið fram á auðlindum hafsbotnsins, en önnur ríki, þ. á m. flest þróunarlöndin, telja hins vegar, að nauðsynlegt sé að koma slíkri stjórn senn á laggirnar, og fylgir Ísland einnig þeirri stefnu.

Þá hafa tækniatriði hafsbotnsvinnslunnar verið ýtarlega rædd í nefndinni. Nú er hafinn hinn alþjóðlegi hafrannsóknaáratugur, sem skipulagður er af Alþjóðahafrannsóknaráðinu í París. Eitt verkefni hans eru stórauknar jarðfræðilegar rannsóknir á auðlindum landgrunnsins og hafsbotnsins almennt og er gert ráð fyrir víðtækari alþjóðasamvinnu um það verkefni. Kemur vissulega til greina, að rannsóknir á landgrunninu umhverfis Ísland og hugsanlegum auðlindum þess verði að einhverju leyti framkvæmdar innan ramma þessarar alþjóðlegu áætlunar.

Á allsherjarþinginu voru lagðar fram nokkrar till. í hafsbotnsmálinu. Voru Ísland og Noregur meðflutningsaðilar að till. Belgíu um, að hafsbotnsnefndinni skyldi falið að halda áfram störfum og leggja nú höfuðáherzluna á að semja um meginreglur, sem gætu orðið grundvöllur að frekari samningagerð um stöðu hafsbotnsins. Þá bar Malta fram till. þess efnis að fela framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna að kanna afstöðu ríkisstjórna um allan heim til þess áforms að kveðja saman í náinni framtíð alþjóðaráðstefnu til að ná samkomulagi um nákvæma þjóðréttarskilgreiningu á hafsbotnssvæði því, sem liggur utan lögsögu ríkjanna. Við þessa till. báru ýmis þróunarlönd fram brtt. þess efnis, að slíkri alþjóðlegri ráðstefnu skyldi falið að endurskoða alla Genfarsamningana frá 1958 um réttarreglur á hafinu. Var brtt. þessi samþ. gegn andstöðu allra Austur-Evrópuríkjanna, Bandaríkjanna og flestra Vestur-Evrópuríkja. Norðurlöndin sátu öll hjá við afgreiðslu þessarar till. Munu því Sameinuðu þjóðirnar kanna það á næstu mánuðum, hvort meiri hluti ríkja telur æskilegt að kalla saman alþjóðaráðstefnu til að endurskoða Genfarsamningana alla frá 1958, en þeir samningar fjalla um það að ákvarða landgrunnið, fiskveiðiréttindi utan landhelginnar og friðun fiskstofna þar. Er enn of snemmt að spá um það, hvort af slíkri heildarráðstefnu verður, en ljóst er, að þar yrði fjallað um mjög þýðingarmikið hagsmunamál Íslands.

Þá var og samþ. till. frá ýmsum þróunarlöndum um, að hafinn yrði undirbúningur að því að koma á laggirnar nýrri alþjóðastofnun, sem fjalli um alla starfsemi og rannsóknir, er hafsbotninn varða. Greiddi Ísland atkv. með þessari till.

Eins og af framansögðu má sjá, skipaði hafsbotnsmálið ofarlega sess á þessu síðasta þingi Sameinuðu þjóðanna. Er áhugi þjóða í því efni vaxandi, enda ákaflega miklir efnahagslegir hagsmunir því tengdir, þar sem gífurleg olíu- og gasauðæfi er nú kleift að vinna á hafsbotni auk mikilsverðra málma. Næsta skrefið í málinu er, að hafsbotnsnefndin komi saman til nýs fundar nú í marzbyrjun, og munu íslenzkir fulltrúar sækja þann fund að vanda. Þessi fundur stendur nú yfir. Í framhaldi af þessu skal þess og hér getið, að á 6. þingi Siglingamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, IMCO, sem haldið var í London í október s. l., var samþ. till., sem Ísland bar fram ásamt Svíþjóð, að efnt verði árið 1973 til alþjóðaráðstefnu á vegum stofnunarinnar í þeim tilgangi að undirbúa alþjóðaákvæði til að takmarka mengun sjávar og lofts frá skipum.

Í ræðu minni á allsherjarþinginu 23. október s. l. var þeirri hugmynd hreyft, að minnast bæri afmælis Sameinuðu þjóðanna m. a. á þann hátt, að einni kennslustund á mánuði yrði varið til fræðslu um samtökin í öllum skólum aðildarríkjanna afmælisárið. Var þessari till. síðan haldið fram af íslenzku nefndinni á þinginu, og fékk hún góðan hljómgrunn. Er nú verið að ganga frá skýrslu afmælisnefndarinnar um væntanleg hátíðahöld og annað vegna afmælisins. Munu meginhátíðahöldin fara fram í New York í septembermánuði, en jafnframt mun þessara merku tímamóta í sögu samtakanna verða minnzt í öllum aðildarríkjunum á verðugan hátt, og verður svo einnig hér á Íslandi.

Aðild að Sameinuðu þjóðunum fylgir aðild að sérstofnunum þeirra. Hefur Ísland á árinu notið fyrirgreiðslu nokkurra þeirra svo sem áður. Lokið var markaðskönnun, sem gerð var fyrir íslenzka niðursuðuiðnaðinn af hálfu Iðnþróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna í Vínarborg, UNITO, og jafnframt samið um, að sú stofnun gerði sérfræðilega könnun á stofnun nýrra iðngreina hér á landi og útflutningsmöguleikum þeirra. Þá hefur staðið yfir nær allt árið jarðefnaleit hér á Íslandi, og hefur til þess fyrirtækis verið varið allmiklu fé frá tækniaðstoð Sameinuðu þjóðanna. Því vísindastarfi mun verða haldið áfram á þessu ári, og hefur fengizt til þess fjárveiting frá stofnuninni. Þá var fyrir atbeina hennar gerð hér ferðamálakönnun, sem brezkur sérfræðingur annaðist, og er nú ráðgerð frekari skipulagning á þeim málum á grundvelli till. hans. Ísland veitir allmikið fé til starfsemi þessara sérstofnana Sameinuðu þjóðanna og Íslendingar starfa á vegum þeirra víða um heim og ekki hvað sízt á vegum Matvæla- og landbúnaðarstofnunarinnar, FAO. Þá hefur Ísland tekið virkan þátt í alþjóðlegum hjálparaðgerðum á s. l. ári, m. a. fyrir atbeina Rauða krossins og annarra hjálparstofnana. Má minna á hið mikla og mikilvæga starf, sem íslenzkir aðilar inntu af hendi við hjálparstörf í Bíafra og Nígeríu, meðan styrjöldin geisaði þar.

Nokkrum orðum til viðbótar vildi ég fara um fiskveiði- og landhelgismál okkar. Enn sem fyrr eru fiskveiði- og landhelgismálin með hinum þýðingarmestu málaflokkum, sem utanríkisþjónustan fjallar um. Um skeið hafa ekki miklir stórviðburðir gerzt á því sviði, en nú virðist aftur vera að koma nokkur hreyfing á þessi mál á alþjóðavettvangi. Tvö stórveldanna hafa undanfarin misseri unnið að könnun á því, hvort grundvöllur sé fyrir því, að fram fáist alþjóðasamþykkt um, að landhelgin og fiskveiðilögsagan skuli bundin við 12 mílur. Eins og kunnugt er, var það meginefni ráðstefnanna í Genf 1958 og 1960 að freista þess að ná alþjóðasamþykkt um breidd landhelginnar og fiskveiðilögsögunnar. Það mistókst á báðum þessum ráðstefnum og við það hefur setið síðan. Er landhelgi og fiskveiðilögsaga ríkja mjög mismunandi, allt frá 3 og upp í 200 mílur, eins og kunnugt er. Þess vegna stefna stórveldin nú að því að kalla saman nýja alþjóðaráðstefnu, sem hafi það eitt hlutverk að ganga frá alþjóðasamþykkt um, að hámark landhelginnar skuli vera 12 mílur. Jafnframt er um það rætt, að utan þeirra takmarka skuli strandríki, sem á fiskveiðum byggja, hafa nokkur réttindi umfram önnur fiskveiðiríki til nýtingar fiskimiðanna á svæðum, sem að landhelginni liggja. Álits íslenzkra stjórnvalda hefur verið leitað á þessum till., svo sem álits margra annarra ríkja, og er þar skemmst frá að segja, að telja verður, að þessar till. um lögfest hámark landhelgi og fiskveiðilögsögu við 12 mílur gangi í berhögg við hagsmuni okkar Íslendinga og yfirlýsta stefnu þings og stjórnar í þessum efnum, svo sem hún kemur fram m. a. í samþykkt Alþingis frá 5. maí 1959. Það hefur verið og er einmitt hið mesta hagsmunamál okkar, að fiskveiðilögsagan fáist stækkuð frá því, sem hún er nú, þannig að fiskimiðin á landgrunninu komist undir íslenzka lögsögu. Þar af leiðandi er það gagnstætt okkar hagsmunum, að Íslendingar eigi þátt í nokkurri alþjóðasamþykkt um bindingu landhelginnar og fiskveiðilögsögunnar, sem ekki tekur tillit til þessara sjónarmiða okkar, lífshagsmuna og þeirrar sérstöðu, sem við höfum í þessum efnum. Í till. er að vísu gert ráð fyrir því, að um einhver aukin réttindi strandríkja verði að ræða frá því, sem nú er, en þau réttindi eru hvergi nærri fullnægjandi, svo að fiskveiðihagsmunir Íslendinga séu tryggðir. Vera má, að á því geti orðið einhver breyting, ef til nýrrar alþjóðaráðstefnu kemur, en allt er í óvissu um það enn þá.

Eins og sjá má af þessu, er hér um mál að ræða, sem getur orðið hið örlagaríkasta fyrir Íslendinga. Enn hefur alþjóðaráðstefnan, sem hér um ræðir, ekki verið afráðin, en ekki er talið ólíklegt, að á næsta þingi Sameinuðu þjóðanna nú í haust komi fram till. um, að slík ráðstefna verði kölluð saman strax á næsta ári. Er því þýðingarmikið, að Íslendingar freisti þess á næstu mánuðum að kynna og skýra sjónarmið sín og hagsmuni enn ýtarlegar og reyna jafnframt að hafa áhrif á þróun þessara mála í samvinnu við aðrar þjóðir, sem hér eiga svipaðra hagsmuna að gæta. Hafa fulltrúar utanrrn. raunar þegar kynnt ýtarlega sjónarmið okkar í fiskveiði- og landhelgismálum á síðustu missirum, bæði innan Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðsins og víðar, og hefur því jarðvegurinn þannig verið nokkuð undirbúinn fyrir frekari aðgerðir.

Ég hef þá gefið nokkurt yfirlit yfir tvo eða þrjá af þessum fjórum aðalþáttum utanríkismála okkar og getið að nokkru einstakra mála, sem einna helzt snerta okkar hag. Sný ég mér þá að lokum að ástandinu í heimsmálunum almennt og þá Evrópu sérstaklega, en stefnan í öryggismálum lands og þjóðar hlýtur að taka mið af stjórnmálaþróuninni í umheiminum nær og fjær.

Í skýrslu minni fyrir ári ræddi ég í alllöngu máli afstöðu okkar frá upphafi til Atlantshafsbandalagsins annars vegar og til varnarsamningsins við Bandaríkin hins vegar. Óþarfi er að rekja þá skýrslu hér að nýju, en niðurstöður mínar voru þær, að okkur beri að fylgjast rækilega með þróun öryggismála á og umhverfis Norður-Atlantshaf. Atburðarásin úti í hinum stóra heimi er oft hröð og erfitt getur verið að átta sig á hlutunum í fljótu bragði. Þó að vel líti út um skeið á yfirborðinu, hefur reynslan samt kennt okkur, að grundvallarbreytingar hafa litlar orðið. Er þá um að gera að rasa ekki um ráð fram. Vopnuð átök áttu sér stað á ýmsum stöðum í heiminum á s. l. ári, en meiri háttar styrjaldarsvæði voru þrjú: í Nígeríu, fyrir botni Miðjarðarhafs og í Víetnam. Vopnaviðskiptunum í Nígeríu lauk hinn 15. jan. s. l. með algerri uppgjöf Bíaframanna. Hörmungum fólksins á styrjaldarsvæðinu var þó ekki þar með lokið, en örðugleikar voru á hjálparstarfsemi, þar sem stjórnin í Lagos vildi ekki þiggja hjálp frá hverjum sem var. Hafði hún m. a. horn í síðu ýmissa aðila á Norðurlöndum, sem veitt höfðu hrjáðu fólki á Bíafrasvæðinu aðstoð meðan á borgarastyrjöldinni stóð. Undanfarnar vikur hefur þörfin verið mest í sambandi við dreifingu matvæla og lyfja, en nægilegar birgðir hjálpargagna hafa verið fyrir hendi. Íslendingar hafa veitt fólkinu í Nígeríu og Bíafra aðstoð, sem kostuð hefur verið bæði með frjálsum samskotum hér á landi, framlögum úr ríkissjóði og frá Rauða krossinum. Samtals nemur sú aðstoð þegar meira en 25 millj. kr. Af okkar hálfu stendur aðstoð enn til boða, og verður að sjálfsögðu haft samráð við Nígeríustjórn í því sambandi. Vonandi kemst ástandið sem fyrst í eðlilegt horf á þessum slóðum.

Styrjöldin í Suðaustur-Asíu heldur á hinn bóginn áfram. Þar draga þó Bandaríkin lið sitt til baka, a. m. k. að nokkru leyti, og ráðgera enn meiri heimflutning sveita sinna. Norður-Víetnam færir aftur á móti styrjöldina út, og að undanförnu hefur verið barizt heiftarlega í Laos. Í París halda raunar viðræður aðila áfram, en enginn sýnilegur árangur hefur orðið af þeim viðræðum, og það sem verra er, ekkert virðist benda til þess, að þær beri árangur á næstunni.

Fyrir botni Miðjarðarhafs er ástandið mjög ótryggt og virðast átökin magnast næstum með hverjum degi. Ekki nóg með það, að Arabar og Ísraelsmenn geri tíðum árásir hvorir á aðra, heldur eiga Arabar í erjum innbyrðis og hryðjuverk eru unnin víðs fjarri styrjaldarsvæðinu, jafnvel inni í miðri Evrópu. Fulltrúar stórveldanna fjögurra, Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands og Sovétríkjanna, eiga með sér viðræður til að reyna að finna friðsamlega lausn á deilu Ísraels og Arabaríkjanna á grundvelli ályktunar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá 22. nóv. 1967. En með ályktun þessari lauk 1. umr. Öryggisráðsins um afleiðingar „6 daga styrjaldarinnar“ svonefndu. Hafa þessar viðræður staðið í tæpt ár, en lítið sem ekkert hefur miðað í þá átt að finna lausn, sem deiluaðilar geta fellt sig við, og ekki bætir úr skák, að þessi sömu stórveldi sjá deiluaðilum stöðugt fyrir nýjum vopnabúnaði. Verða stórveldin þess vegna í vaxandi mæli óbeinir deiluaðilar. En það getur orðið heimsfriðnum næsta hættulegt, ef sú þróun heldur áfram. Gunnari Jarring, ambassador Svíþjóðar í Moskvu, var á sínum tíma falið að reyna að miðla málum í samræmi við áðurgreinda ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Jarring mistókst þetta ætlunarverk og hætti hann viðræðum við styrjaldaraðila, en vonandi tekur hann aftur til starfa á þessum vettvangi, því að reyna verður milligöngu og málamiðlun til hins ýtrasta.

En það hefur víðar komið til vopnaviðskipta í heiminum á s. l. ári, þó að í smærri stíl sé. Má þar til nefna landamæraerjur bæði í Mið-Ameríku, þar sem smáríki takast á, og austur í Asíu, þar sem stórveldi eiga hlut að máli. Eru það öllu alvarlegri erjur, þegar Rússar og Kínverjar skiptast á skotum á landamæralínu, um 5000 km langri, sem aðskilur þessi tvö víðlendustu ríki veraldar. Hér takast á tvö kommúnistaríki, og virðist mikill eldur búa þar undir. Snúast deilur þeirra bæði um hugmyndafræði kommúnismans og landafræði keisaranna fyrrverandi, og má ekki á milli sjá, hvorir leggja meir upp úr kreddutúlkun eða landaskipun, sem á milli ber. Þar sem hér eiga hlut að máli tvö kjarnorkuveldi, er þó gott til þess að vita, að deiluaðilar hafa byrjað viðræður sín á milli, þó raunar fréttist lítið af árangri þessara viðræðna, og virðist lítið miða í rétta átt.

Þannig var þá ástandið um víða veröld á árinu sem leið, styrjaldir og stórátök þjóða í milli svo að segja í hverjum heimshluta. U Thant framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hóf ársskýrslu sína á síðasta allsherjarþingi eitthvað á þessa leið:

„Á síðustu 12 mánuðum hefur enn haldið áfram það versnandi ástand í alþjóðamálum, sem ég benti á í formála að síðustu ársskýrslu minni. En í einum heimshluta hefur jafnvægi verið komið á. Friðsamasta svæðið er nú í Vestur-Evrópu, þar sem áður voru blóðugustu vígvellirnir í tveimur heimsstyrjöldum, sem báðar stóðu á þessari öld og eru eldri mönnum enn í fersku minni. Það liðu ekki nema rétt rúmlega 20 ár frá lokum fyrri heimsstyrjaldar, þar til styrjöldin brauzt út á ný í Evrópu. Nú eru tæp 25 ár liðin frá lokum hinnar síðari heimsstyrjaldar og það er ekki fyrir tilviljun, að Evrópa er í dag friðsamasta svæðið í heimi. Full ástæða er til þess að ætla, að friðurinn í Evrópu sé fyrst og fremst tilveru Atlantshafsbandalagsins að þakka. NATO var stofnað fyrir nærri 21 ári til þess að verja bandalagsríkin utanaðkomandi árás og treysta öryggi þeirra. Þessum höfuðtilgangi hefur bandalagið náð, því að vopnuð árás hefur ekki verið gerð á nokkurt aðildarríki á samningssvæðinu og bandalagsþjóðirnar búa þar við öryggi og frið.“

„Utanaðkomandi árás“, sagði hann, sem er raunar óþarft að taka fram. Það hefur alltaf legið í augum uppi. Í Atlantshafssamningnum segir einungis: „Vopnuð árás á einn samningsaðilann er talin árás á þá alla.“ Þetta er einfalt mál og skýrt, eins og raunar er á samningnum öllum, og verður ekki misskilið. Það hefur engum dottið í hug, að árás komi innan frá í Atlantshafsbandalaginu frá öðru þátttökuríki. Á því er engin hætta. Árásarhættan stafar utan frá, frá aðilum utan bandalagsins. Árás eins bandalagsríkis á annað hefur aldrei komið til greina, enda væri ekki eftirsóknarvert að eiga slíka bandamenn í varnarbandalagi. Þetta eru augljósir hlutir og óþarfi um þá að ræða, að maður skyldi ætla.

En tímarnir breytast og hugmyndafræðin, sem svo er kölluð, spinnur upp furðulegustu fyrirbæri. Nú orðið þurfum við að gera greinarmun á óvinaárás og á vinaárás. Þetta kemur upp í hugann í sambandi við hin hryggilegu örlög tveggja Evrópuþjóða, sem verið hafa allmikið til umr. í heimsfréttum undanfarin missiri, hvor þó á sinn máta, Tékkóslóvakar og Grikkir. Þessar tvær þjóðir tilheyra hvor sínu varnarbandalaginu, sem iðulega er líkt saman, en eiga þó í reynd fátt annað sameiginlegt en nafnið eitt, svo ólík eru Atlantshafsbandalagið og Varsjárbandalagið að uppbyggingu.

Í ágústmánuði 1968 réðust fimm aðildarríki Varsjárbandalagsins með her manns inn í sjötta bandalagsríkið, og síðan er Tékkóslóvakía hersetið land gagnstætt vilja þjóðarinnar. Ástæðan er sú, að bandalagsríkjunum líkaði ekki stefna þáv. ríkisstj. Tékkóslóvakíu í innanlandsmálum, og þar með var hervaldi beitt til að knýja stefnubreytingu fram. En samkv. Brezhnev-kenningunni svokölluðu hefur forysturíki kommúnismans, Sovétríkin, rétt til að hlutast til um innanlandsmál í öðru kommúnistaríki, ef sósíalismanum, eins og það heitir austur þar, er ógnað.

Í Grikklandi ræður ríkjum herforingjastjórn, sem hrifsað hefur völdin í stjórnarbyltingu og nam stjórnarskrá landsins úr gildi. Herforingjastjórn þessi er þyrnir í augum ýmissa ríkisstjórna annarra, sem aðild eiga að Atlantshafsbandalaginu, og nokkur bandalagsríki hafa meira að segja kært Grikki fyrir brot á mannréttindasamningi Evrópu. Sá málarekstur hefur staðið lengi og skýrsla rannsóknarnefndar, sem sett var í málið, er nú fyrst að koma til umræðu og afgreiðslu í Evrópuráðinu. Í millitíðinni brast þolinmæði lýðræðisríkjanna í álfunni og tilskilinn meiri hluti í Evrópuráðinu var þess albúinn að samþykkja brottrekstur Grikkja, þegar herforingjastjórnin brá á það ráð að segja Grikkland úr Evrópuráðinu á ráðherrafundinum í desember s. l. Við Íslendingar höfum tekið þátt í þessum aðgerðum. Við höfum opinberlega lýst yfir stuðningi við kæruna, sem fram var lögð á sínum tíma vegna brota á mannréttindasamningnum, og ríkisstj. hafði samþykkt að greiða atkv. með brottrekstri í desembermánuði s. l. Þetta eru vinnubrögð, sem lýðræðisþjóðunum eru samboðin. Annað mál er það, hvort þau eru nægjanleg. Því miður er reyndin sú enn sem komið er, að herforingjastjórnin hefur ekki látið sér segjast, heldur fer sínu fram heima í héraði með svipuðum hætti og áður. Aftur á móti hefur engum ábyrgum manni á Vesturlöndum dottið í hug að ráðast með herafla inn í Grikkland til þess að knýja fram stefnubreytingu hjá illa þokkaðri ríkisstj., og í Atlantshafssamningnum eru alls engin ákvæði, sem gefa bandalaginu rétt til íhlutunar um innanlandsmál í einhverju aðildarríkjanna.

Fyrir ári ræddi ég nokkuð um uppsagnarákvæði Atlantshafssamningsins, enda nálgaðist þá sá dagur, sem fyrst gafst tækifæri til þess að segja samningnum upp, hinn 24. ágúst s. l. Ég leyfði mér að segja þá og lagði á það áherzlu, að staðreynd væri, að ekkert bandalagsríkjanna hygðist notfæra sér þennan möguleika, heldur þvert á móti. Þetta hafa reynzt orð að sönnu, og þó hafa ýmsar breytingar orðið í stjórnmálum Atlantshafsríkjanna, því að undanfarið hafa þingkosningar farið fram í allmörgum aðildarríkjanna og stjórnarbreytingar hafa fylgt í kjölfarið í sumum. Skal þá fyrst nefna, að í Þýzkalandi heldur nú um stjórnvölinn samsteypustjórn undir forystu Willy Brandts, sem reynir nýjar leiðir í utanríkismálum. Og í Frakklandi hefur de Gaulle horfið af sjónarsviðinu, en lítið ber til nýlundu í afstöðu eftirmanna hans til utanríkismála, nema þá helzt í sambandi við stækkun Efnahagsbandalags Evrópu. Pompidou Frakklandsforseti var gagngert spurður að því í sérstöku blaðaviðtali, rétt áður en hann fór í sína opinberu heimsókn til Bandaríkjanna, hvort möguleikar væru á því, að Frakkar segðu upp Atlantshafssamningnum. Forsetinn svaraði stutt og laggott: „Nei, alls ekki.“ Og það fór ekki á milli mála, að rétt var haft eftir honum, því að blaðamaðurinn fékk texta viðtalsins staðfestan, áður en til birtingar kom í heimsblöðunum.

Þannig mætti halda áfram að lýsa pólitískum veðrabrigðum beggja vegna Atlantshafs, en það yrði of langt mál. Aftur á móti er staðreyndin sú, að ekkert aðildarríkjanna hyggur á uppsögn, heldur þvert á móti. Eining aðildarríkjanna kom skýrt fram á ráðherrafundum bandalagsins á s. l. ári, bæði á afmælisfundinum í Washington s. l. vor og eins á hinum venjulega desemberfundi í Brüssel nú fyrir skemmstu. Á Washingtonfundinum í apríl var ýmislegt gert til hátíðabrigða, vegna þess að 20 ár voru liðin frá undirskrift samningsins. Í ræðu, sem Nixon, forseti Bandaríkjanna, flutti við það tækifæri, lét hann orð falla á þá leið, að nú væri þörf fyrir þriðju víddina í bandalaginu. Í 20 ár hefðu bandalagsþjóðirnar komið sér sameiginlega upp öflugum hervörnum. Í 20 ár hefðu bandalagsþjóðirnar borið saman ráð sín um pólitísk málefni. Þetta mundu bandalagsþjóðirnar halda áfram að gera. En til viðbótar setti forsetinn fram tillögu um að stofna nefnd til þess að kanna möguleika á því að bæta á allan hátt lífskjör fólks á Vesturlöndum og nota til þess sameiginlega þekkingu og sameinaða krafta allra bandalagsríkjanna. Nefnd þessi hefur nú verið sett á laggirnar og á hún að gera tillögur um lausn á hinum ýmsu vandamálum í nútímaþjóðfélagi. Er hún að taka til starfa fyrir alvöru um þessar mundir, og ætlunin er að rannsaka hin margvíslegustu vandamál. Hagfræðirannsóknir eru eitt þeirra verkefna, sem fyrst verða fyrir í þessu sambandi, og ættum við Íslendingar að leggja þeim lið eftir megni, enda munum við njóta góðs af. Ég nefni þessa nefndarstofnun sérstaklega nú, af því að fagna ber því, að nýtt líf færist í þessa þriðju hlið á NATO-samsteypunni. Við Íslendingar höfum alltaf óskað eftir öflugra samstarfi innan bandalagsins í samræmi við ákvæði 2. gr. samningsins, en þar er m. a. rætt um viðskiptatengsl og viðskiptasambönd milli aðildarríkjanna.

Eftir ráðherrafund Atlantshafsbandalagsins í Brüssel var ekki aðeins gefin út venjuleg fréttatilkynning um niðurstöður fundarins, heldur var að auki birt sérstök yfirlýsing. Í yfirlýsingu þessari frá 5. des. s. l. er gerð grein fyrir sameiginlegu áliti ríkisstjórna allra aðildarríkjanna 15 á þróun samskipta austurs og vesturs á næstunni. Er nú aftur horfið til Harmel-skýrslunnar svonefndu um framtíðarverkefni Atlantshafsbandalagsins út á við. En eins og ég gat um fyrir einu ári, er lögð höfuðáherzla á það í Harmel-skýrslunni, að hernaðarmáttur í varnarskyni og pólitískur vilji til bættrar sambúðar fari saman, enda skal leitað allra ráða til þess að leysa misklíðarefni austurs og vesturs, svo að varanlegur friður komist á í heiminum, Afturkippur kom í þessi mál við atburðina í Tékkóslóvakíu fyrir hálfu öðru ári. En nú hefur þráðurinn verið tekinn upp aftur. Óþarft ætti að vera að fara hér nákvæmlega út í einstök efnisatriði í yfirlýsingu ráðherrafundarins. Hún er opinbert plagg, sem allir geta kynnt sér. Ég vil þó drepa hér á tvennt eða þrennt. Reyna skal á öllum sviðum og alls staðar, þar sem austur og vestur mætast, að þoka málum í áttina til samkomulags. Eru ýmis sérsvið nefnd, þar sem möguleikar ættu að vera á að koma á betra samstarfi milli austurs og vesturs, bæði með tvíhliða og með marghliða viðræðum og samskiptum. Hagfræði er t. d. sérstaklega nefnd í þessu sambandi í yfirlýsingunni. Þýzkalands-málið er enn óleyst, og meðan svo er, skiptir það höfuðmáli í sambúð austurs og vesturs. NATO-ráðið lýsir yfir stuðningi sínum við tilraunir nýju stjórnarinnar í Þýzkalandi til þess að stofna til viðræðna um óleyst vandamál við Austur-Evrópuríkin, en Þjóðverjar bjóða m. a. til samninga um afneitun valdbeitingar í samskiptum þeirra við nágrannana í austri. Hafa slíkar viðræður þegar hafizt bæði í Moskvu og Varsjá, eins og kunnugt er af blaðagreinum, og virðast nú á næstunni verða á milli Austur- og Vestur-Þýzkalands. Vonir eru einnig bundnar við viðræður fjórveldanna um Berlín, en Rússar féllust hinn 10. febr. á að hefja slíkar viðræður um réttarstöðu borgaranna. Verði sýnilegur árangur af öllum þessum viðræðum og komi í ljós í tvíhliða viðræðum, sem eiga sér nú aftur stað í auknum mæli milli ráðh. á Vesturlöndum og starfsbræðra þeirra í Austur-Evrópu, að von sé um árangur af ráðstefnu um öryggismál Evrópu, þá ætti ekki að vera neitt því til fyrirstöðu að halda slíka ráðstefnu. En Varsjárbandalagsríkin hafa lagt það til að halda ráðstefnu um öryggismál Evrópu, og Finnar hafa boðizt til þess að hýsa hana, eins og kunnugt er. Líkur benda til, að unnt verði að ná samkomulagi um það, hverjir skuli taka þátt í slíkri ráðstefnu, en af hálfu NATO-ríkjanna hefur það verið gert að skilyrði, að bandalagsríkin í Norður-Ameríku eigi hér hlut að máli, bæði Bandaríkin og Kanada, og hefur því verið vel tekið. Aftur á móti sneiða dagskrártill. Varsjárbandalagsins fram hjá aðalvandanum, sem liggur til grundvallar öryggismálum Evrópu, eins og t. d. Þýzkalands-málinu, sem áður er nefnt, og afvopnunarmálum, sem NATO-ríkin hafa gert tillögu um.

Á ráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins hér í Reykjavík í júní 1968 voru gerðar ákveðnar tillögur um gagnkvæman niðurskurð herbúnaðar, en tilboði þessu er enn ósvarað af hálfu Varsjárbandalagsríkjanna. Ástæðulaust er að halda allsherjarráðstefnu um málefni, sem þegar eru bundin samningsákvæðum eða hafa þegar komizt í ákveðinn farveg. Skuldbindingar um að beita ekki valdi eða hótunum í milliríkjaviðskiptum er að finna í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna, og flest Evrópuríki hafa undirritað hana. Viðskiptamál hafa löngum verið afgreidd á tvíhliða grundvelli, en auk þess hafa viðskiptamál Austur- og Vestur-Evrópu verið rædd árum saman á marghliða grundvelli í efnahagsnefnd Evrópu, sem Sameinuðu þjóðirnar kalla árlega saman í Genf. Að halda ráðstefnu eingöngu ráðstefnunnar vegna, án þess að umræðuefnin séu þess virði eða án þess að von sé um árangur, verður engum til góðs. En vonandi miðar undirbúningur þessi í þá átt, að ástæða verði til, áður en langt um líður, að halda allsherjarráðstefnu um veigamikil atriði í öryggismálum Evrópu.

Við Íslendingar eigum mikið undir því komið, að frambúðarlausn finnist á Evrópuvandanum, og meðan öryggismál Evrópu leysast ekki til frambúðar og meðan austur og vestur eru ósammála um undirstöðuatriði, verður varnarmálum hér á landi bezt háttað á þann veg, sem verið hefur til þessa. — Fyrir rúmum mánuði kom varnarmálaráðh. Noregs, Otto Grieg Tidemann, í stutta heimsókn hingað til Reykjavíkur og hélt þá fróðlegan fyrirlestur um öryggismál á N.-Atlantshafi. Niðurstaða ráðh. var með almennum orðum sagt sú, að ekki væri ástæða til fyrir Atlantshafsbandalagið að slaka á og færa saman seglin, og Tidemann sagði einnig, að hvorki Noregur né Ísland gæti staðið eitt sér og verið eitt á báti, lausnin á öryggisvanda landanna fengist aðeins í samvinnu við bandamenn okkar í varnarsamtökum Vesturlanda. Þetta var hans álit, en þess ber jafnframt að geta, að öflug samstaða er með ríkisstj. og stjórnarandstöðu í Stórþinginu um stefnuna, sem fylgt er í utanríkis- og öryggismálum. Engin ástæða er því til að ætla, að hann flytji ekki með þessum orðum, sem hann sagði hér í Reykjavík, álit og afstöðu norsku ríkisstj. og stjórnarandstöðunnar að mestu leyti.

Ég þarf ekki að rekja hér enn á ný afstöðu ríkisstj. til varnarsamningsins við Bandaríkin. Eins og ég sagði áðan, gerði ég það í alllöngu máli í skýrslu minni í fyrra

Öll standa þau ummæli mín óbreytt í dag. Ég vil einungis endurtaka þetta, og það hef ég raunar sagt utan þings og innan: Þótt við höfum góða reynslu af samskiptunum við varnarliðið og þau hafi farið batnandi, þá er okkur óefað hollast að hafa ekki erlent herlið hérna í landinu til langdvalar. Þess vegna þurfum við stöðugt að endurmeta allar aðstæður og athuga, hvort breyting geti talizt æskileg á skipun þessara mála. Þetta hefur ríkisstj. gert og gerir enn. Ég vil geta þess, að kanadískur sérfræðingur, sem nýtur hins bezta álits á sínu sviði í heimalandi sínu og raunar miklu víðar, vinnur nú að því, að ósk ríkisstj., að semja hlutlausa álitsgerð um hernaðarþýðingu Íslands og framtíðarhorfur í þeim efnum.

Ég er þá kominn að lokum þessa ársyfirlits, og ég vík aftur að því, sem ég sagði í upphafi máls míns um fjóra aðalþætti utanríkisstefnu okkar Íslendinga.

Við viljum hafa sem nánast samstarf við frændþjóðir okkar á Norðurlöndum. Þess vegna treystum við böndin við þær með þátttöku í Norðurlandaráði og norrænni samvinnu á fjölmörgum sviðum, ekki hvað sízt í menningar- og félagsmálum, og eflaust, er fram í sækir, einnig í efnahagsmálum í auknum mæli.

Í öðru lagi, þar sem afkoma okkar byggist að miklu leyti á útflutningi og við þurfum að auka þann útflutning, bæði að magni og fjölbreytni, til þess að bæta lífskjör þjóðarinnar, þá tökum við þátt í margvíslegu alþjóðasamstarfi til þess að gæta hagsmuna okkar og afla útflutningsvörum okkar markaða. Innganga Íslands í EFTA markar tímamót á þessu sviði.

Við viljum fara með friði og eiga vinsamleg samskipti við allar þjóðir heims, enda virði þær sjálfstæði okkar og fullveldi. Af þessum ástæðum tökum við virkan þátt í Sameinuðu þjóðunum. Í þeim samtökum gefst okkur tækifæri til að hafa áhrif á þróun þjóðaréttar, er lýtur að landhelgi og fiskveiðiréttindum.

Þar sem okkur lærðist í síðari heimsstyrjöld, að okkur var ekki stoð í hlutleysi, og þar sem fljótlega kom í ljós eftir heimsstyrjöldina, að Sameinuðu þjóðirnar voru engan veginn færar um að tryggja frið og öryggi í heiminum, þá gerðumst við stofnaðilar að NATO vorið 1949. Og við viljum halda áfram þátttöku í varnarbandalagi vestrænna þjóða.

Að þessum málefnaflokkum vinnur utanríkisþjónustan stöðugt. Hana þarf að efla til mikilla muna, því verkefnin fara vaxandi og víðar er sótt til samstarfs við aðrar þjóðir. Við höfum nú fastafulltrúa við aðalskrifstofu EFTA í Genf og erum að taka upp stjórnmálasamband við Sameinuðu Arabalýðveldin, Egyptaland og fleiri ríki í Afríku. Fyrir Alþ. liggur nú frv. til l. um utanríkisþjónustu. Þau lög þarf að gera þannig úr garði, að þau skapi grundvöll fyrir öflugri utanríkisþjónustu, sem þjóðin þarfnast örugglega í náinni framtíð. Þetta frv. þarf þó nánari endurskoðunar við og alveg sérstaklega eftir inngöngu okkar í EFTA. Þannig legg ég ekki áherzlu á, að það verði gert að lögum á þessu þingi, heldur skoðað nánar og lagt þá fyrir næsta þing, sem kemur saman haustið 1970.

Við þurfum í auknum mæli að gæta hagsmuna okkar erlendis og við þurfum að fylgjast vel með gangi heimsmálanna. Segja má, að við stöndum nú að mörgu leyti á tímamótum. Ég nefndi áðan inngöngu okkar í EFTA um þessar mundir. Öfluga norræna efnahagssamvinnu stendur fyrir dyrum að athuga og þörf á þátttöku okkar í henni. Enn fremur er þess að minnast, þegar litið er yfir sögu alþjóðasamvinnu eftir stríðið, að Atlantshafsbandalagið og Evrópuráðið urðu hvort tveggja 20 ára á s. l. ári og Sameinuðu þjóðirnar verða 25 ára síðar á þessu ári. Við stöndum á mörkum tveggja áratuga, og er því enn meiri ástæða til þess að staldra við og líta yfir farinn veg og hyggja að, hvert stefnir á 8. tug aldarinnar, í upphafi 12. aldar Íslandsbyggðar.

Í alþjóðamálum eiga sér alltaf stað breytingar, og sumar hverjar geta þessar breytingar haft hin víðtækustu áhrif. Á s. l. áratug hafa komið æ skýrar í ljós ýmis atriði, sem eiga trúlega eftir að hafa áhrif á þróun alþjóðamála næstu áratugi. Fyrir 10 árum var kalda stríðið enn í algleymingi. Kalda stríðinu er lokið, en undirstöðuágreiningur er enn mikill milli austurs og vesturs. Fyrir 10 árum lýstu Rússar og Kínverjar sig vera bandamenn um alla eilífð. Bræðralagi þessara kommúnistaríkja er nú lokið, en í staðinn kominn djúpstæður ágreiningur, þar sem þeir kommúnistar deila innbyrðis um kennisetningar um óhjákvæmilegt stríð milli kommúnismans og imperialismans. Virðist meiri hætta á sem stendur, að styrjöld geti brotizt út milli þeirra sjálfra. Fyrir 10 árum áttu Bretar, Frakkar og Belgir enn stórar nýlendur, einkum í Afríku. Nú er nýlendustefnan liðin undir lok, en eigi að síður breikkar bilið á milli ríkra þjóða á norðurhveli jarðar og fátækra þjóða í suðri. Hagvöxturinn er þar minnstur, sem þörfin er þó allra mest. Fyrir 10 árum höfðu Rússar skotið Spútnik á loft og virtust komnir vel á veg til tunglsins. Tækniþróunin hefur þó orðið sú, að kapphlaupinu til tunglsins lauk á s. l. ári, er Bandaríkjamenn stigu þar fyrstir manna fæti. Fyrir 10 árum var ekki styrjöld í Víetnam og ekki heldur í Austurlöndum nær. Hér reyndist þó einungis um vopnahlé að ræða, því ekki leið á löngu, þar til bardagar hófust að nýju í Mið-Austurlöndum og í Suðaustur-Asíu.

Ekki fer á milli mála, að mest veltur á því fyrir heimsfriðinn, hvernig risaveldunum tveimur, Bandaríkjunum og Sovétríkjunum, tekst að búa saman í skugganum af eldflaugum sínum og kjarnavopnabúrum. Risaveldin hafa lært mikið af reynslunni s. l. áratug, og sambúð þeirra virðist nú að sumu leyti fara batnandi. Á haustnóttum árið 1962 stóð veröldin á heljarþröm, þegar Kúbudeilan kom upp á milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Átökin um staðsetningu sovézkra eldflauga á Kúbu voru þau alvarlegustu, sem upp hafa komið á milli risaveldanna, og síðan hafa þau forðazt slíka beina árekstra, er leitt gætu til þess, að annar hvor aðilinn gripi til atómvopna heldur en að láta undan. En skynsemin réð á síðustu stundu, og mannkynið allt getur þakkað, að Kennedy forseti ákvað þá að láta ekki kné fylgja kviði, er sovézku eldflaugarnar voru fluttar brott, en bauð heldur Krúsjeff flokksritara strax að taka upp nánari samvinnu um lausn vandamála risaveldanna. Þeir eiga sannarlega þakkir skilið fyrir, að því tilboði var tekið. Og árangurinn hefur orðið allmikill: Samningurinn um bann við kjarnorkusprengingum í tilraunaskyni, beint símasamband á milli Hvíta hússins og Kreml, yfirlýsing um vopnlausan himingeim, samningur um friðsamlega nýtingu himingeimsins, samningur um að dreifa ekki kjarnorkuvopnum og nú síðast samningaviðræður í Helsingfors um takmörkun kjarnavopna.

Almennt hefur andrúmsloftið einnig batnað, og má í því sambandi nefna, að fjórveldin hafa nú á nýjan leik tekið upp viðræður í sinn hóp og markvisst er stefnt að því af hálfu Vesturveldanna að leggja traustan grundvöll að friðsamlegri lausn ágreiningsins. Fyrir nokkrum dögum sendi Nixon Bandaríkjaforseti út yfirgripsmikla skýrslu til þingsins um utanríkisstefnu Bandaríkjanna á þessum áratug, sem nú er að byrja. Þegar forsetinn lagði fram skýrsluna, hafði hann þau orð um við blaðamenn, að hún væri ýtarlegasta grg. um utanríkismál Bandaríkjanna, sem nokkru sinni hefði verið gerð. Og víst er um það, að hér er um merkilegt skjal að ræða, sem girnilegt er til fróðleiks, enda er það nú rannsakað í stjórnarskrifstofum um heim allan. Íhugunarvert er einnig, að Bandaríkjaforseti lét þau orð falla, að um væri að ræða vatnaskil í utanríkispólitík eftir stríð. Verður reynslan að skera úr um, hvort Nixon-kenningin, sem útlistuð er í skýrslunni, á eftir að marka tímamót, en ýmissa breytinga er eflaust að vænta í Washington, enda stefnir stjórnin að því, að draga heldur úr afskiptum Bandaríkjanna af heimsmálunum um allar jarðir, án þess þó að hverfa aftur til einangrunarstefnu.

Heima fyrir verður Bandaríkjastjórn að finna lausn á kynþáttavandamálinu og vandamálum vegna eitrunar umhverfisins. Krefjast þessi vandamál aukinna fjárveitinga. Reynt verður því að lækka hernaðarútgjöld til Víetnam-styrjaldarinnar, og styrjöldina í Suðaustur-Asíu á að leysa og koma í veg fyrir, að stríð verði þar hafið á ný. Treysta verður kjarnorkuvopnajafnvægið við Sovétríkin og ekki leggja út í nýtt vígbúnaðarkapphlaup með gagnflaugakerfi og kjarnasprengjum, sem miða má með sömu eldflauginni á skotmörk í öðrum heimsálfum. Bendir raunar margt til þess, að Bandaríkjamönnum megi takast að draga úr hernaðarkostnaði, þar sem Rússar hafa náð kjarnavopnajafnvægi með miklum tilkostnaði á undanförnum áratug. Þar sem Rússar eru ekki lengur óvefengjanlegir leiðtogar einhuga kommúnistaríkja, þá ættu að vera möguleikar á samningi við Sovétríkin um takmörkun á kjarnavopnabúnaði. Herkostnaður Rússa liggur líka þungt á efnahagsþróun Sovétríkjanna. Rússar hafa þörf fyrir tækniaðstoð að vestan, og athygli þeirra á hernaðarsviðinu beinist æ meir í austurátt vegna ósamlyndis við Kínverja. Stórþjóðirnar í V.-Evrópu og Japanir, sem ugglaust eiga eftir að gegna auknu hlutverki í Austurlöndum fjær, hafa efnazt mjög mikið á undanförnum árum og áratug og eru nú færar um að taka á sig þyngri byrðar vegna eigin öryggismála. Og þróunin meðal þeirra þjóða, sem nýlega hafa hlotið sjálfstæði, sýnir, að þær ánetjast ekki endilega kommúnismanum, heldur vilja þær standa óháðar og utan við deilur austurs og vesturs.

Þrátt fyrir miklar breytingar undanfarin 10 ár er þó margt enn óbreytt, og margt eitt, sem e. t. v. á ekki eftir að breytast á næstu 10 árum. Þróunin er oft ör í alþjóðamálum, en umgerðin er þó enn að mestu leyti óbreytt. Óvarlegt er að spá langt fram í tímann, en næsti áratugur ber eflaust veigamiklar breytingar í skauti sínu, einkum og sér í lagi í öðrum heimsálfum. En því miður sér ekki fyrir endann á styrjöldinni í Víetnam og í Austurlöndum nær sýður upp úr aftur og aftur, og aldrei er að vita, hvenær þar verður stórsprenging. En bilið á milli ríkra þjóða og snauðra eða misskipti norðurs og suðurs lagast lítið, heldur hið gagnstæða. Þó vonir standi til bættrar sambúðar, eru vandamál austurs og vesturs í raun lítið breytt, en þar stefnir samt í rétta átt sums staðar. Göt eru reyndar komin á járntjaldið, en það er alls ekki horfið, og Berlínarmúrinn er áþreifanlegt tákn um klofningu Þýzkalands og þar með Norðurálfu.

Íslendingar ættu að geta horft með bjartsýni fram á veg. Samskipti okkar við aðrar þjóðir eiga eftir að eflast á alla vegu og það verður okkur áreiðanlega til góðs, meðan við veljum það bezta, sem aðrar þjóðir hafa upp á að bjóða, en gleymum þó ekki uppruna okkar, heldur leggjum jafnframt rækt við það, sem íslenzkt er að stofni. Þá mun íslenzku þjóðinni vel farnast.