19.03.1970
Sameinað þing: 40. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1564 í B-deild Alþingistíðinda. (2066)

Utanríkismál

Forseti (BF):

Forseti vill í tilefni af þessari athugasemd hv. 4. þm. Reykv. taka það fram, að hann heyrði það úr fleiri en einni átt, að það mundi vera heppilegra að ræða skýrslu hæstv. utanrrh. síðar, þar sem henni hefur ekki verið útbýtt hér á þinginu. Þetta er skýrsla, sem tekið hefur hátt á annan klukkutíma að flytja, og ég féllst á það fyrir mitt leyti að þau vinnubrögð, sem ég nefndi, væru æskileg til þess að hv. alþm. gætu rætt sem málefnalegast um þetta mál.

Ég get ekki að svo stöddu sagt, hvenær umr. verður haldið áfram. Ég þarf að athuga nánar, hvenær hægt verður að finna heppilegan tíma til þess, en ég get fullvissað hv. alþm. um, að það verður séð um, að nægilegur og góður tími gefist til að ræða þessa skýrslu ýtarlega.