19.03.1970
Sameinað þing: 40. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (2070)

Utanríkismál

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vil endurtaka það, sem ég sagði hér í dag utan dagskrár, að ég tel hæstv. utanrrh. hefja góða venju með því að gefa þinginu slíka skýrslu eins og hann hefur flutt í dag og síðan geti farið fram umr. um hana. Hins vegar tek ég undir það, sem hér kom fram við umr. utan dagskrár, að það hefði verið heppilegt, að slík skýrsla lægi fyrir, áður en umr. færi fram. Mér finnst þó rétt að upplýsa það í þessu sambandi, að áður en hæstv. ráðh. tók til máls gaf hann kost á því, að ræðu hans yrði alveg frestað, þangað til hún gæti legið fyrir aðgengileg fyrir þm. En af því varð þó ekki. Hann minntist meira að segja á þetta við mig, og ég taldi ekki ástæðu til þess, eins og komið var, þegar fundurinn var að byrja, að ráðh. frestaði ræðu sinni af þessum ástæðum. En hins vegar tel ég eðlilegt, að það geti orðið til athugunar eftirleiðis, að svo eigi að vera.

Ég mun ekki minnast á nema örfá atriði af því, sem ráðh. minntist á í ræðu sinni, og aðallega mun ég minna á það mál, sem ræða ráðh. benti til, að geti orðið örlagaríkasta utanríkismálið, sem Alþ. og ríkisstj. þurfa að fjalla um næstu missiri.

Eins og hæstv. ráðh. rakti, samþykkti seinasta allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna tillögu, þar sem framkvæmdastjóranum var falið að leita eftir áliti þátttökuþjóðanna, hvort þær væru því ekki fylgjandi, að haldin yrði bráðlega ráðstefna um réttarreglur á hafi úti, þar sem stefnt verði m. a. að því að ná endanlegu samkomulagi um víðáttu landgrunnsins, landhelginnar og fiskveiðilögsögunnar. Verði svör meiri hl. þátttökuríkjanna jákvæð, eins og fremur er búizt við, er talið sennilegt, að þessi ráðstefna verði haldin vorið 1971. Verði ekki samkomulag um þessa ráðstefnu, munu Sovétríkin og Bandaríkin hafa í hyggju að beita sér fyrir annarri ráðstefnu, sem aðeins nái til víðáttu landhelginnar og fiskveiðilögsögunnar. Jafnframt hafa þessi ríki komið sér saman um að beita sér fyrir lögfestingu á 12 mílna mörkunum, bæði varðandi landhelgina og fiskveiðilögsöguna, án nokkurra teljandi fiskveiðiréttinda fyrir strandríki utan fiskveiðilögsögunnar.

Það, sem nú blasir við í landhelgismálinu, er að á nýrri hafréttarráðstefnu, sem verður e. t. v. haldin innan rúmlega árs, reyni stórveldin að koma á alþjóðlegri reglu, sem er andstæð þeim rétti, sem Íslendingar telja sig hafa til landgrunnsins utan núverandi fiskveiðitakmarka. Það var reyndar strax ljóst, eftir fyrri hafréttarráðstefnuna í Genf, 1958, að Íslendingar þyrftu að hafa hraðan á í landhelgismálinu, því áhrifamikil ríki mundu reyna að koma á reglum, sem settu skorður við útfærslu á fiskveiðilandhelginni. Því varð strax hafizt um það handa, eftir að þeirri ráðstefnu lauk, að færa fiskveiðilandhelgina út í 12 mílur. Deilur milli Íslendinga og Breta, sem hlutust af þeirri útfærslu, urðu til þess að afla 12 mílna reglunni svo öflugs fylgis, að ekki var reynt að hamla gegn henni að ráði á síðari hafréttarráðstefnunni, sem var haldin 1960, heldur beindist þá öll viðleitni hinna íhaldssamari ríkja að því að gera hana að bindandi reglu, þannig að fiskveiðilandhelgin mætti ekki verða meira en 12 mílur. Það tókst með naumindum að koma í veg fyrir þessa bindingu þá, m. a. vegna þess að Bandaríkjamenn og Rússar voru þá ósammála. En þann ágreining, sem þá var á milli þeirra, hafa þeir nú jafnað, og því standa nú stórveldin saman um 12 mílna löggildinguna. Úrslitin á hafréttarráðstefnunni í Genf 1960 bentu til þess, að þess gæti orðið skammt að bíða, að gerð yrði ný tilraun af hálfu stórveldanna til að koma á 12 mílna bindingu. Þess vegna þurftu Íslendingar enn að hafa hraðan á og ráðast í nýja sókn sem fyrst, í framhaldi af útfærslu fiskveiðilandhelginnar 1954 og 1958.

Með landhelgissamningnum við Bretland 1961 var sókn Íslendinga stöðvuð, og eru brátt 12 ár liðin síðan nokkuð hefur verið aðhafzt í landhelgismálinu. Sá langi biðtími getur átt eftir að reynast okkur dýr. Annað aðgerðaleysi getur einnig átt eftir að reynast okkur tilfinnanlegt. Í hinni sögufrægu ályktun Alþ. frá 5. maí 1959, var m. a. lögð áherzla á, að afla beri viðurkenningar á rétti Íslands til landgrunnsins alls. Eftir að landhelgissamningurinn var gerður við Bretland 1961 hefur ekki neitt verið gert, svo vitað sé, til að afla slíkrar viðurkenningar. Rétt er hins vegar að geta þess, að í þeim ræðum, sem íslenzkir aðilar hafa flutt tvö seinustu árin á erlendum ráðstefnum eða þingum, hefur verið haldið fram þeirri skoðun, að strandríki, sem eru háð fiskveiðum, skuli hafa vissan forgangsrétt til veiða utan fiskveiðilandhelginnar. Þetta er vissulega spor í rétta átt, en gengur hins vegar hvergi nærri eins langt og ályktun Alþ. frá 5. maí 1959 mælir fyrir um, þ. e. að fá rétt Íslands til landgrunnsins viðurkenndan.

Um orðna hluti tjáir hins vegar ekki að sakast. Nú er að bregðast vasklega við vandanum og reyna að ná því bezta, sem náanlegt er. Af hálfu Framsfl. hefur verið lögð á það áherzla á undanförnum þingum að reyna að ná sem mestri samstöðu innanlands um þetta mál. Formaður Framsfl.,Ólafur Jóhannesson, hefur þing eftir þing flutt till., sem hefur gengið í þessa átt. Hæstv. utanrrh. hefur í vetur haft nokkurt samráð við utanrmn. um þetta mál, og er það spor í rétta átt.

Það, sem nú virðist mest aðkallandi, er að kynna sem bezt og víðast sérstöðu Íslands og að hafa sérstakt samráð við þær þjóðir, sem hafa líka afstöðu til þessara mála og Íslendingar. Athuga ber gaumgæfilega möguleika Íslands til fiskverndar og friðunaraðgerða utan núverandi fiskveiðilögsögu. Ég hygg, að það sé álit fróðra manna um þetta efni, að Ísland hafi ýmsa möguleika til friðunaraðgerða utan fiskveiðilögsögunnar, án þess að það brjóti gegn gerðum milliríkjasamningum, sem aðeins ná til útfærslu á sjálfri fiskveiðilögsögunni. Þessa möguleika þarf að nýta og það fyrr en seinna, því að allt slíkt getur bætt stöðu okkar á alþjóðlegum ráðstefnum eða í samningum síðar. Má í því sambandi minna á, að útfærslan í 12 mílur reyndist okkur ómetanlegur styrkur á síðari Genfarráðstefnunni.

Ef litið er á yfirlýsingar stjórnmálaflokkanna frá alþingiskosningunum 1967, ætti ekki að verða erfitt að finna samstarfsgrundvöll fyrir flokkana. Allar yfirlýsingar þeirra um landhelgismálið hnigu í eina og sömu átt. Yfirlýsing landsfundar Sjálfstfl., sem haldinn var í apríl 1967, gæti t. d. vel orðið umræddur samstarfsgrundvöllur, en hún hljóðaði á þessa leið: „Unnið verði markvisst á alþjóðavettvangi að viðurkenningu á einkarétti Íslendinga til fiskveiða á landgrunninu, og að öðru leyti að nauðsynlegri fiskirækt og friðun fiskistofna við landið til að forðast ofveiði.“ Óhætt mun að segja, að ekki muni standa á stjórnarandstæðingum að styðja þá stefnu, sem hér er mörkuð, og því ætti að vera hægt að ná samstöðu um landhelgismálið, ef engin annarleg sjónarmið koma til sögunnar. En á það ber að leggja áherzlu, að hér verður að vinna vel, því að tíminn til stefnu getur orðið stuttur.

Fyrir afkomu Íslendinga skiptir fátt meira máli en að hindruð verði setning alþjóðareglu, sem skerðir rétt Íslands til landgrunnsins utan 12 mílna markanna. Um andstöðuna gegn slíkri reglu verða Íslendingar að vera sammála og leita sér liðsinnis gegn henni, hvar sem það er að finna. Hér er um að ræða eitt mesta hagsmunamál Íslands, og er furðulegt, ef þjóðir, sem telja sig Íslendingum vinveittar, eins og Bandaríkjamenn og Rússar, reyna að knýja slíka reglu fram, án þess að taka eðlilegt tillit til hinnar algeru sérstöðu Íslands í þessum efnum. Jafnvel þótt svo færi, að hin fyrirhugaða hafréttarráðstefna drægist meira á langinn en nú er ráðgert, gæti samt fljótlega skapazt viðhorf, sem gerði aðgerðir í landhelgismálinu mjög aðkallandi. Sökum ofveiði geta brátt hafizt umræður um að takmarka fiskveiðar á hafinu umhverfis Ísland, en þó að sjálfsögðu utan fiskveiðilandhelgi þess. Það getur skipt höfuðmáli, ef til slíkra viðræðna kemur, hve langt sérstakur réttur Íslands verður þá talinn ná.

Ég skal svo víkja nokkrum orðum að fleiri atriðum, sem koma fram í ræðu hæstv. ráðh. Þegar rætt var um utanríkismál á seinasta þingi, var lýst þeirri afstöðu Framsfl., að hann áliti rétt, að Ísland væri áfram í Atlantshafsbandalaginu að óbreyttum aðstæðum. Síðan hafa engir atburðir gerzt, er breyti þeirri afstöðu. Afstaða Framsfl. til varnarliðsins er einnig óbreytt. Hann telur orðið tímabært, að hafnar séu viðræður um, að það verði flutt héðan í áföngum. Flokkurinn hefur hins vegar ekki flutt till. um þetta efni á Alþ., m. a. vegna þess, að reynt hefur verið að vinna að athugun og undirbúningi málsins í utanrmn. Jafnframt eru að gerast atburðir, sem geta stuðlað að framangreindri lausn, en þar á ég m. a. við auknar ráðagerðir í Bandaríkjunum um, að þau minnki verulega herafla sinn í Evrópu og fækki herstöðvum þar.

Það hlýtur að ráða miklu um afstöðu Íslands til Atlantshafsbandalagsins og varnarmálanna yfirleitt, hver þróunin verður í sambúðinni milli austurs og vesturs í Evrópu og milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Þar eru ýmis ánægjuleg teikn á lofti, eins og aukin viðleitni hinnar nýju ríkisstj. Vestur-Þýzkalands til að bæta sambúðina við Austur-Evrópu. Sama gildir um viðræður Bandaríkjanna og Sovétríkjanna um viss afvopnunarmál. Vafalaust gæti það þó orðið enn frekara spor í þessa átt, ef haldin yrði bráðlega ráðstefna um öryggismál Evrópu. Hún mundi m. a, leiða betur í ljós, hver hin raunverulega staða væri í dag. Jafnvel þótt ekki næðist þar mikill árangur, gæti það eigi að síður orðið til þess að bæta andrúmsloftið, að helztu leiðtogar þjóðanna hittust og ræddust við. Slík ráðstefna er þó ekki líkleg til að bera árangur, nema öll Evrópuríkin taki þátt í henni, ásamt Bandaríkjunum og Kanada. Þátttaka tveggja síðast nefndu landanna er eðlileg, vegna þess að þau hafa orðið að skerast í leikinn í Evrópu í tveimur heimsstyrjöldum á þessari öld.

Sérstök ástæða er til að leggja áherzlu á, að Ísland hafi sem nánasta samvinnu við hin Norðurlöndin í alþjóðlegum samtökum. Norðurlöndin geta oft haft veruleg áhrif, ef þau standa saman. Ástæða er til að harma það, að Ísland skuli ekki hafa sömu afstöðu á þingi Sameinuðu þjóðanna og hin Norðurlandaríkin til aðildar Kína að Sameinuðu þjóðunum. Innan Atlantshafsbandalagsins þurfa Norðurlandaríkin, sem þar eru, að standa sem bezt saman. Danmörk og Noregur beita sér þar oft fyrir málum, sem miða að því að draga úr spennu og stuðla að bættri sambúð þjóðanna. Í því sambandi má m. a. minna á viðleitni þeirra til að fá afnumda þá vegabréfaáritun í Vestur-Berlín, sem Austur-Þjóðverjar þurfa að sæta, ef þeir ferðast til NATO-landanna. Á sama hátt eru Danir og Norðmenn þær þátttökuþjóðir Atlantshafsbandalagsins, sem standa dyggastan vörð um frelsishugsjón bandalagsins. Má í því sambandi minna á, að norska Stórþingið samþykkti einróma á s. l. hausti að skora á stjórnina að vinna að því innan og utan Atlantshafsbandalagsins, að þátttökuþjóðir þess létu ekki fasistastjórnina í Grikklandi fá vopn. Norska stjórnin hefur síðan unnið að þessu, og sama hefur danska stjórnin einnig gert. Ég tel, í framhaldi af ummælum hæstv. forsrh. um norræna samvinnu, að það sé mikilsvert að reyna að efla og styrkja hana á sem flestum sviðum. En í því sambandi er vert að minna á, að Íslendingar eiga nú í samningum við þrjú Norðurlandaríki um mál, sem er mikilvægt að þeirra dómi, en þar á ég við Loftleiðamálið. Það mundi valda miklum vonbrigðum hér á landi, ef þessar viðræður leystust ekki á þann hátt, að Loftleiðir mættu vel við una.