10.04.1970
Sameinað þing: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1607 í B-deild Alþingistíðinda. (2077)

Utanríkismál

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vildi einungis láta það koma alveg skýrt fram af minni hálfu og Sjálfstfl., að við leggjum ríka áherzlu á það, að það verði náin samvinna um framvindu og aðgerðir í landhelgismálinu nú á næstunni, eftir því sem efni standa til. Og ég tel eðlilegt, að leitað verði eftir því formi, sem líklegast er til árangurs um það, að ekki þurfi að spretta upp ágreiningur vegna tortryggni á milli flokka. Það má vel vera, að efniságreiningur komi í ljós, en fyrir fram skulum við ekki gera ráð fyrir því og a. m. k. kanna allar leiðir til þess, að menn geti unnið saman að þessu mjög svo þýðingarmikla máli fyrir Íslendinga. Þetta vil ég, að liggi alveg ljóst fyrir af okkar hálfu.

Þá vildi ég, vegna þess sem ég hef heyrt af þessum umr., — ég hef ekki heyrt þær allar, því ég var veikur, eins og menn vita, þegar fyrri hlutinn fór fram, — láta það koma í ljós, að mér finnst stundum of lítið gert úr þætti utanríkisþjónustunnar varðandi fyrirgreiðslu um verzlun og viðskipti. Þann tíma, sem ég var utanrrh., þá vil ég fullyrða, að mikill hluti af starfi sumra sendiherranna, — ég vil segja: meiri hluti af starfi sumra sendiherranna beindist einmitt að fyrirgreiðslu í þessum efnum og ég hygg, að svo sé enn víða, eftir því er atvik standa til. Það er auðvitað nokkuð misjafnt eftir því, hvaða lönd þetta eru, en ég þekki ekki dæmi þess, að sendiherrarnir hafi vikið sér undan fyrirgreiðslu, þegar til þeirra hefur verið leitað. Annað mál er, að ég hygg, að útflytjendasamtökin séu því ekki sérlega fylgjandi, að sendiherrarnir eða skrifstofurnar taki að sér umboðsmennsku í þessum efnum eða of mikil afskipti. Það er ljóst, að þessum málum verður ekki ráðið til lykta nema með náinni samvinnu milli utanríkisþjónustunnar, sendiráðanna og þessara samtaka.

Í þriðja lagi vildi ég, út af því sem utanrrh. sagði hér áðan, taka fram, að ég er honum ósammála varðandi það, hvern hátt eigi að hafa á vali manna og störfum í Sameinuðu þjóðunum. Það hefur komið fram áður, og það er bezt, að það sé í vitund manna. Ég tel, að það megi ekki líta á þetta eins og hann hefur tilhneigingu til eftir tillögum okkar aðalumboðsmanns þarna, sendiherrans við Sameinuðu þjóðirnar, að það eigi fyrst og fremst að meta það, hvað menn geti lagt af mörkum í starfi í einstökum nefndum. Sannleikurinn er sá, að okkar þátttaka í þeim verður hvort eð er lengst af harla ófullkomin, af því að við höfum ekki þann mannafla og getum ekki haft, sem þarf til þess að menn geti látið til sín taka önnur mál en þau, sem við höfum alveg sérstakan áhuga fyrir. Þetta er staðreynd, sem við komumst ekki fram hjá, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Úr því að svona er, tel ég, að það eigi fyrst og fremst að leggja áherzlu á það, að ýmsir áhrifamenn, þm. og aðrir, geti farið á fundi Sameinuðu þjóðanna, verið þar t. d. hver um sig hálfan starfstímann frá því í september, er þingið byrjar, og fram að jólum. Það er ekki hægt að búast við því, að menn, sem öðrum störfum hafa að gegna, geti verið þar óslitið 3–4 mánuði, en ég tel alveg hiklaust, að það hafi komið að mjög miklu gagni, að fjölmargir þm. og fleiri hafa átt þess kost að vera á þessum fundum, kynnast þar málum og vita miklu betur, hvað um er að ræða. Þeir geta því af meiri þekkingu og reynslu lagt til mála í umr. innanlands. Og ég held, að þær umr. séu þýðingarmeiri heldur en hvað við getum lagt til á þessum alþjóðavettvangi, nema varðandi þau mál, sem við látum sérstaklega til okkar taka og þarfnast meiri undirbúnings heldur en hægt er að ætlast til, að einn maður, sem fylgist með nefndarstörfum, geti lagt af mörkum.