18.03.1970
Sameinað þing: 39. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1619 í B-deild Alþingistíðinda. (2083)

Framkvæmd vegáætlunar 1969

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Þetta eru aðeins örfá orð. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þá skýrslu, sem hann hefur gefið hér og hefur reyndar verið útbýtt prentaðri áður og þá ýtarlegri. Þó virtist mér hann gefa nokkru ýtarlegri upplýsingar um viss atriði heldur en í þessari prentuðu skýrslu voru, og hef ég ekki getað gert mér grein fyrir þeim upplýsingum enn, því að þær voru fluttar fyrir stuttri stundu.

Hæstv. ráðh. sagði eitthvað á þá leið, ef ég hef tekið rétt eftir, að ríkisstj. hafi á tilteknum tíma nú nýlega ákveðið að hraða lagningu hraðbrauta í landinu, sem ég skil auðvitað svo, að hún hafi ákveðið að beita sér fyrir því, að lagningu hraðbrauta verði hraðað. Ég vil aðeins í þessu sambandi leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort ríkisstj. hafi nokkra ákvörðun tekið um að hraða eða beita sér fyrir að hraða lagningu þjóðbrauta.

Hraðbrautirnar, sem svo eru nefndar í vegalögum, eru ekki mjög mikill hluti af þjóðbrautakerfi landsins, þ. e. a. s. þeirri hringbraut í kringum landið í ýmiss konar ástandi, sem segja má að nú sé til. En megnið af þessum aðalbrautum eru hinar svokölluðu þjóðbrautir, sem tengja saman landshluta og byggðarlög og eru samgöngulífæð landsins. Og um þetta er fsp. mín, hvort stjórnin hafi tekið nokkra sérstaka ákvörðun varðandi þjóðbrautirnar.

Hæstv. ráðh. ræddi hér nokkuð um viðhald þjóðveganna og þá sérstaklega um snjómokstur, og ég hygg, að þau nýju atriði, sem fram komu í ræðu hans og ég minntist á hér áðan, hafi verið um þau efni. Nú ætla ég ekki að spyrja um neitt í sambandi við þetta, en ég vil bara vekja athygli á því, að sums staðar á landinu telja menn sig afskipta að því er varðar snjómoksturinn. Það munu vera til reglur, sem vegamálastjórnin fer eftir um þetta efni, sem ég hef nú ekki í höndum og veit ógerla hvernig eru, og ég ætla mér ekki heldur að spyrja um þær reglur að svo stöddu, enda kunna þær að vera eitthvað breytilegar. En ég vil endurtaka þetta, að ýmsum finnst þeir vera afskiptir um snjómokstur, eftir því sem þeir frétta úr öðrum héruðum og öðrum landshlutum. Ég vil leggja áherzlu á, að athugun fari fram á þessum efnum og þessum reglum, ef einhverjar eru, til þess að gera sér grein fyrir, hvort það hafi við rök að styðjast, að í sumum hlutum landsins sé óeðlilega lítill snjómokstur miðað við aðra, og vil ég í því sambandi alveg sérstaklega nefna Norðausturland.