15.01.1970
Neðri deild: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1627 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það hefur að vonum vakið athygli manna, að á þessum slóðum hafa tíðir mannskaðar orðið, og er eðlilegt, að það mál verði hugleitt sérstaklega. Skal ég ekki ræða frekar um það nú. En það var eingöngu vegna þess, sem hv. 9. þm. Reykv. sagði varðandi ráðstafanir Breta, að ef það stendur rétt í mínum huga, — og getur skeð, að það sé rangminni eða misskilningur, — þá hafi Bretar bannað sínum skipum að vera á þessum slóðum á þeim tíma, sem hér um ræðir, eða meðan ísingarhætta er mest og allra veðra von. Er það töluvert róttækari ráðstöfun heldur en hv. þm. talaði um. Það herskip, sem er hér á slóðum, hygg ég, að sé til þess að fylgja eftir þessu banni. Hvort menn treysta sér til svo róttækra aðgerða hér, það er annað mál, en ég vil láta þetta koma fram strax. Í mínum huga stendur málið þannig, að brezkum skipum sé yfirleitt bannað að vera á þessum slóðum á þessum árstíma.