15.01.1970
Neðri deild: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1627 í B-deild Alþingistíðinda. (2093)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vil nú í fyrsta lagi láta í ljós undrun mína yfir því, að hæstv. dómsmrh. vill gera formsatriði að meginatriði þessa máls. Það er vissulega engum skyldara en Alþ. að fylgjast með atburðum sem þessum, einkanlega þegar atburðasamhengi og atburðaröð vekur til alvarlegrar umhugsunar um, að eitthvað sé að, sem e. t. v. væri hægt að hafa áhrif á með mannlegum aðgerðum og engum væri skyldara að gera en Alþ. og ríkisstj., ef það væri á einhvern hátt á þeirra valdi. Enginn dráttur á slíkum hugleiðingum er réttlætanlegur og engin formsatriði geta þar orðið aðalatriði. Ég held því, að þegar leitinni var formlega hætt hafi verið rétt augnablik til þess að Alþ. taki slík mál til hugleiðingar og það væri gengið úr skugga um það, hvort hæstv. ríkisstj. hefði komið auga á nokkrar aðgerðir, sem gera bæri út af þessari dapurlegu, sorglegu atburðaröð, sem við hér horfumst í augu við að hefur átt sér stað.

Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir hans hlýlegu orð út af þessu máli og vænti þess, að hæstv. ríkisstj. taki það til athugunar, hvort nokkuð sé hægt að gera, sem þarna gæti orðið til þess að fyrirbyggja áframhaldandi röð slíkra slysa um vetrarmánuðina á þessum kafla íslenzku strandarinnar, sem alveg sérstaklega verður að beina athyglinni að í sambandi við þennan síðasta atburð og þá undanförnu.

Ég man það, að það var gefið út, að Bretar hefðu í upphafi lagt bann við veiðum á þessum árstíma fyrir Vestfjörðum eftir sjóslysin, en í framkvæmd hefur það ekki orðið svo. Mér er tjáð, að það hafi dregið úr því, að skip þeirra væru þarna vestur frá, en þau njóta leiðbeiningar brezka eftirlitsskipsins við veiðarnar og fá mjög tíðar aðvaranir um aðsteðjandi óveður og ísingarhættu, ef hún er séð fyrir af veðurspám, og það er áreiðanlegt, að upplýsingar um ísingarhættuna, ef hægt er að gefa upplýsingar um það fyrirfram, hafa gífurlega mikið að segja í þessu sambandi. Stundum hafa meira að segja leiðbeiningar frá brezka eftirlitsskipinu varðandi það atriði komið vestfirzka fiskiflotanum að gagni, þegar þær hafa borizt fyrr en frá íslenzku veðurstofunni. Ef hæstv. ríkisstj. hefur ekki tekið málið til aðgerða, — enda er það alveg á fyrsta stigi nú, að málið liggur fyrir, — þá vænti ég, að hún geri það, t. d. hvort það sé hugsanlegt, að staðsett sé eitthvert eftirlitsskip við Vestfirði frá byrjun haustvertíðar og fram á vetrarvertíðina. Mér sýnist það, það er mín sannfæring í samræmi við skoðun þeirra skipstjórnarmanna, sem ég ræddi við á Patreksfirði, og skipherrans á Ægi, því að það varð eiginlega fundur um borð um þessi mál þarna, m. a. var þarna einn af skipstjórum, sem hafði verið skipstjóri á Sæfaranum áður, sem gerþekkti skipið, og ræddi um þessi mál, og það var helzt niðurstaðan þessi, að skip á staðnum, á þessu svæði, einkanlega vesturhluta svæðisins, þar sem straumar eru harðastir í viðbót við allt annað, sem hefði a. m. k. aðvarandi vald og gæti betur en aðrir úr fjarlægð, vegna þess að skipið héldi sig á svæðinu, gefið upplýsingar um ástand og útlit til sjósóknar hverju sinni, og verið þannig starfandi að því, að allrar varúðar væri gætt, mundi draga úr ofurkappi sjósóknar og gefa upplýsingar af svæðinu sjálfu. Ég er alveg sannfærður um það, að þó að þetta muni kosta fé, þá muni enginn í það horfa, ef menn á annað borð sannfærast um það, að slíkt gæti að haldi komið og e. t. v. í einhverjum tilfellum afstýrt slysum.