02.03.1970
Sameinað þing: 36. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1634 í B-deild Alþingistíðinda. (2102)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Hafi ég sagt, að mér hafi ekki borizt vitneskjan um fsp. fyrr en eftir hádegið, þá er það ranglega sagt, því mér barst hún á milli kl. 10 og 10.30 í morgun, svo að það sé rétt.

Ég vil taka undir það með hv. þm., að ég tel eðlilegt, og hef reyndar margoft lýst því yfir áður, að fleiri skip séu við þessar leitir heldur en verið hefur undanfarin ár, og komið hefur fram vilji Alþ. í sömu átt, m. a. með því, að til þessarar starfsemi hefur aldrei verið veitt hærri fjárhæð en veitt var á fjárl. í haust. Enn fremur er rétt að undirstrika það, að nú um mitt þetta ár eða upp úr miðju þessu ári er væntanlegt enn nýtt hafrannsóknaskip, sem á að geta fullnægt þörfinni í þessum efnum og annazt ýmis þau störf, sem vélskipið Árni Friðriksson hefur gert að undanförnu, þannig að honum ætti að vera auðveldara að beita sér meira að þessum göngufiski, sem hefur reynzt okkur svo sveiflukenndur undanfarin ár, eins og síldin og loðnan, og hann ætti því að geta verið meira í þessum rannsóknum eftir að hið nýja hafrannsóknaskip, sem flestir tala nú þegar um undir nafni, hefur tekið við öðrum þeim störfum, sem að sjálfum hafrannsóknunum lúta.