04.05.1970
Neðri deild: 97. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1635 í B-deild Alþingistíðinda. (2105)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég ætla að bregða út af þingvenju að þessu sinni. Mér er ómögulegt að þakka svör hæstv. ráðh. við fsp. minni, heldur segi ég: Hamingjan góða. Ríkisstj. hefur ekki haft þetta mál til athugunar, ekki tekið afstöðu til þeirra atburða, sem síðustu daga hafa verið að gerast þarna austur frá. Víst veit ég eins og alþjóð, að allmikil tíðindi hafa einnig verið að gerast hér á Íslandi þessa sömu daga, vígsluhátíðir miklar og veizluhöld. En fyrr má nú vera, að slíkt þurfi að valda því, að ríkisstj. gefi sér ekki tóm til að íhuga þann voða, sem er á ferðum þarna austur frá, þann ægilega háska fyrir friðinn í heiminum öllum og tilveru alls mannkynsins. Þarna hafa átt sér stað stóraukin hernaðarátök og útbreiðsla stríðsins í Indó-Kína orðin ískyggileg. Ýmsar ríkisstj. og ótaldar ríkisstj. hafa a. m. k. látið sig þetta einhverju varða. Talsmenn þeirra lýstu yfir skoðunum þeirra á þessum viðburðum, flestir hafa látið í ljós mikinn ugg út af þessu og margir þeirra og þ. á m. nokkrir helztu valdamenn á Vesturlöndum fordæmt harðlega atferli Nixons forseta í þessu sambandi. Og hörðust hefur fordæmingin og mótmælin orðið heima hjá honum sjálfum, í Bandaríkjunum, enda ærin ástæða til þess að mótmæla og taka afstöðu, ábyrga afstöðu til þessara atburða — eða þykir hæstv. ríkisstj. Íslands ekki nóg að gert, eftir að Síhanouk fursta, sem nýtur ástsældar allrar alþýðu landsins, hafði verið steypt að undirlagi bandarísku leyniþjónustunnar? Á því leikur enginn vafi, enda hafa þeir hershöfðingjar, sem við völdunum tóku þá, fengið óbeina blessun Bandaríkjastjórnar í vopnasendingum síðan. Eftir að þeir atburðir gerðust og þessir hershöfðingjar voru setztir í valdastólana, þá opinberuðu þeir umsvifalaust innræti sitt með því að hefja fjöldamorð á saklausu fólki.

Óðar en varir hefur nú Nixon ráðizt í nýtt stórræði, sent bandarískt herlið inn í Kambódíu, og það er svo mikið í þessa hernaðaraðgerð lagt samkv. opinberum tilkynningum Bandaríkjastjórnar, að loftárásir, sem henni fylgja, eru þær mestu, sem bandaríski flugherinn hefur gert síðan í Kóreustríðinu fyrir 20 árum. Manni verður á að spyrja: Allt sprengjuregnið í Víetnam öll þessi ár, meira sprengjumagn heldur en kastað var á meginland Evrópu í allri heimsstyrjöldinni síðari, — allt þetta sprengjuregn, verður það e. t. v. einhvern tíma síðar talið smámunir einir í samanburði við það regntímabil, sem bandaríski flugherinn er nú að hefja þarna?

Ég ætla ekki að fjölyrða um afleiðingar þessara atburða. En það er nú orðið ljósara en nokkru sinni fyrr, að Bandaríkjunum stjórna stórhættulegir menn, menn, sem neita að læra af þeirri reynslu, sem vonlaust kúgunarstríð þeirra í Víetnam ætti að hafa kennt þeim, en forherðast þess í stað, — menn, sem magnast í ofstopa sínum því meir sem þeim verður minna ágengt með honum, — menn, sem eru vísir til að grípa til hverra þeirra örþrifaráða sem þeir telja líkleg til að fullnægja sjúklegum metnaði sínum. Við þekkjum slíka menn úr sögunni og það er jafnvel enginn óratími síðan þeir skóku alla veröldina með ofsa sínum. Adolf nokkur Hitler hét því á sínum tíma, að ekki aðeins hans eigin þjóð, heldur drjúgur hluti mannkynsins skyldi hrapa með honum til glötunar, ef hann tapaði stríðinu. Mundi ekki mega finna ofurlítinn skyldleika milli slíkra heitstrenginga og þeirrar yfirlýsingar, sem Nixon gaf til afsökunar innrásinni í Kambódíu, að hann vildi heldur baka sér óvild allrar þjóðar sinnar heldur en að stofna í voða sóma hennar og virðingu með því að taka ekki í taumana í Kambódíu? Taka ekki í taumana. Taka í taumana. — Það þarf ekki að fjölyrða um, hvað það táknar í munni bandarískra valdhafa og reyndar rússneskra líka, þegar því er að skipta. Afsakanirnar, sem þarna eru hafðar uppi, eru nákvæmlega þær sömu eins og Rússar höfðu uppi, þegar þeir gerðu innrás í Tékkóslóvakíu. Það var að forða þjóðinni frá hættulegum mönnum, sem höfðu búið þar um sig. Það er margt líkt með skyldum, röksemdafærsla beggja ribbaldanna í austri og vestri sú sama.

En spyrja mætti í sambandi við þetta tal Nixons um sóma bandarísku þjóðarinnar, hvort Nixon forseti telji, að sómi Bandaríkjanna standi í réttu hlutfalli við það sprengjumagn, sem þeir geta kastað yfir saklaust fólk. Þessarar spurningar er Nixon spurður nú hvarvetna um heim og ekki hvað sízt heima hjá honum sjálfum, í Bandaríkjunum, þar sem nú virðist vera að rísa öflugri mótmælaalda en nokkru sinni fyrr gegn stríðsaustri Bandaríkjanna. Þeirri mótmælaöldu hljóta sannarlega allir góðir menn að fagna og vonandi ber hún tilætlaðan árangur. Vonandi verður hún til þess að forða mannkyninu frá þeirri skelfingu, sem stefna Nixons, ef áframhald verður á henni, hlýtur að leiða yfir það. Vonandi tekst þetta þrátt fyrir það, að ríkisstj. Íslands tekur ekki afstöðu.