15.10.1969
Sameinað þing: 3. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (2114)

Atvinnuleysi

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég lýsi ánægju minni yfir því, að hv. þm. skuli vilja leggja lið sitt til þess að koma í veg fyrir þann vanda, sem hann lýsti, og að sjálfsögðu er ríkisstj. meira en fús til þess. Hún telur sjálfsagt að hafa sem allra bezt samstarf við Alþ. í heild og þingflokka og einstaka þm., sem þar hafa till. fram að bera, og vonast ég til þess, að þaðan komi nýtar till. Hv. þm. gat þess, að flokkur hans — eða einhver aðili í flokknum — hefði óskað eftir því, að þing yrði kallað saman um miðjan september. Ég hef séð ríkisstj. ámælt fyrir að svara þeirri málaleitan ekki berum orðum. Þar var að farið eins og um slíkar málaleitanir til stjórnvalda yfirleitt, t. d. áskoranir til Alþ., að það er ekki tilkynnt um ákveðið svar öðruvísi en sem kemur fram í þeirri ákvörðun, sem tekin er með hliðsjón af þeim till. eða áskorunum, sem fyrir hendi eru. Ekki þótti ástæða til að kveðja þingið saman af þessu tilefni, m. a. vegna þess, að þarna voru engar ákveðnar till. fram bornar. Hins vegar hafði ríkisstj. þá þegar fyrir löngu tekið upp samvinnu við fulltrúa verkalýðsfélaganna um þessi mál og átti einmitt um miðjan september ýtarlegar viðræður innan atvinnumálanefndar ríkisins við fulltrúa bæði atvinnurekenda og verkamanna um þessi málefni. Og síðast í gær var haldinn fundur í atvinnumálanefnd ríkisins, þar sem þessi mál voru rædd. Í nefndinni hefur verið tekin afstaða til þeirra einstöku till., sem fyrir liggja. Og ég hygg, að það séu ekki ýkjur, þó að sagt sé, að varðandi þær einstöku, ákveðnu till., — þá á ég ekki við stefnu í meginmálum, sem mönnum sýnist sitt hvað um, heldur einstakar ákveðnar ráðstafanir, sem gerðar voru till. um í ályktun verkamannaráðstefna hér í september, — hafi þá þegar og síðan verið vikizt við þeim till. á þann veg, að þær hafi verið samþ. í meginefnum. Ríkisstj. hafði undirbúið mörg þessara mála áður í sumar, svo að þá þegar var jafnskjótt hægt að gefa yfirlýsingar, sem mér skilst, að eftir atvikum hafi verið taldar fullnægjandi. Það hefur sem sagt verið unnið látlaust að þessum málum frá því í fyrravetur, bæði innan atvinnumálanefndanna og af hálfu ríkisstj., með þeim ánægjulega árangri, að enn fer atvinnuleysið minnkandi. Það hefur t. d. síðasta hálfan mánuð fækkað nokkuð atvinnulausum mönnum hér í Reykjavík, og svo hygg ég, að sé einnig víðar á landinu.

Ég skal ekki ræða þetta mál í einstökum atriðum nú, — ef hefði átt að ræða það rækilega, hefði verið eðlitegra að taka upp um það formlega umr., — en einungis ítreka, að ríkisstj. er fús til samráðs við alla aðila, sem ákveðnar till. hafa fram að færa, vitanlega alla þm. Hún er þegar í samráði við verkalýðshreyfinguna, fulltrúa Alþýðusambandsins. Þeir hafa ekki borið fram óskir um, að því samráði og þeirri samvinnu yrði öðruvísi háttað. Fyrir milligöngu atvinnumálanefndanna er einnig haft náið samráð við sveitarstjórnir víðs vegar á landinu. Þar er sumpart einnig beint samráð við þær sveitarstjórnir, sem hafa sérstakar málaleitanir fram að færa.

Það má auðvitað endalaust segja, að seint gangi við afgreiðslu tiltekinna mála. Það er rétt, að fyrst nú nýlega er gefin formleg tilkynning um það, hvernig haga eigi fyrirgreiðslu við smíði á skipum, sem ekki er fyrir fram búið að selja. En efnislega má segja, að þessari skipan hafi verið komið á þegar í fyrravetur og það var þá kunnugt skipasmíðastöðvum, sem eftir því báru sig, að þær gátu fengið slíka fyrirgreiðslu. Ýmis atvik, þ. á m. önnur verkefni, hafa orðið til þess, að þær sinntu þessu ekki. Nú er þetta orðið enn meira aðkallandi en áður og liggur alveg ljóst fyrir, eftir hvaða meginreglum á að fara, enda hygg ég, að aðilar telji þær viðunandi eftir atvikum.

Ég lýsi svo enn ánægju minni yfir áhuga hv. þm. og vonast til þess, að menn geti haft um þetta gott samstarf, því að hvað sem öðrum ágreiningi líður, þá veit ég, að allir mæla það af heilum hug, að við teljum, að vinna eigi á móti atvinnuleysi með öllum tiltækum ráðum.