15.10.1969
Sameinað þing: 3. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1662 í B-deild Alþingistíðinda. (2120)

Atvinnuleysi

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hæstv. iðnmrh. sagði áðan.

Ég vék í ræðu minni að iðnaðinum, af því að ég taldi hann svo þýðingarmikinn í sambandi við atvinnumálin, vegna þess, að það er öllum ljóst, að iðnaðurinn verður að taka við miklu af þeirri mannfjölgun, sem kemur á vinnumarkaðinn. Þess vegna er það auðvitað stórskaðlegt, ef samdráttur á sér stað þar. Þvert á móti þarf framvindan að vera sú á því sviði, að þar eigi sér stöðugur vöxtur stað. Þetta vildi ég taka fram, og þess vegna minntist ég á iðnaðinn, en ekki af því að ég vildi sérstaklega fara að deila á hæstv. iðnmrh. í þessu sambandi. Skiljanlegt er auðvitað, að hann sé viðkvæmur fyrir þessum málaþætti, þar sem hann hefur veitt honum forstöðu um skeið.

Það er auðvitað svo, eins og þegar hefur verið sagt hér og sýnt fram á af öðrum ræðumanni, að tölur þær, sem hæstv. ráðh. fór með um fjármunamyndun í iðnaði og ég út af fyrir sig efast ekki um að séu réttar, sýna ekkert um það, hvort það hefur fækkað eða fjölgað þeim mönnum, sem hafa unnið við iðngreinarnar. En um þessar tölur ætla ég ekkert að fara að deila frekar við hæstv. ráðh. Ég sagði ekki annað en það, sem ég hélt vera staðreyndir, sem svo að segja hvert mannsbarn í landinu þekkti. Ég vona, að þær staðreyndir hafi ekki með öllu farið fram hjá hæstv. iðnmrh. Ég vona, að það hafi ekki farið fram hjá honum, að iðnaðarmenn hafa svo að á hundruðum leikur horfið til útlanda í atvinnuleit. Væntanlega mundu þeir ekki hafa farið á þann erlenda vinnumarkað, ef hér hefði verið næg atvinna fyrir þá. Ég veit ekki betur en að þeim iðnaðarmönnum hafi fækkað stórlega, sem hafa haft atvinnu af byggingariðnaði. Ég hygg, að það sé alkunn staðreynd. Ég veit ekki betur en að hjá ýmsum fyrirtækjum, sem hafa verið myndarleg iðnfyrirtæki, t. d. hér í Reykjavík, hafi orðið verulegur samdráttur og fækkun manna, sem þar hafa unnið að undanförnu. Og ég efast ekki um, að hæstv. iðnmrh. á mjög auðvelt með að kynna sér, hver þau fyrirtæki eru. Það mætti sjálfsagt nefna t. d. eins og járniðnaðinn og vélsmiðjurnar, og það mætti nefna mörg fleiri iðnaðarfyrirtæki, þar sem verulegur samdráttur hefur orðið, og því miður svo verulegur samdráttur, að sum fyrirtæki, án þess að ég ætli að fara að nafngreina þau hér, hafa beinlínis orðið að loka og hætta sinni starfsemi. Ég efast ekki um, að hæstv. iðnmrh. er kunnugt um nokkur slík fyrirtæki, þannig að ég held, að það sé sízt ofmælt, sem ég sagði, að samdráttur hefði orðið í iðnaði að því leyti til, að mörg iðnfyrirtæki hefðu orðið að rifa seglin og draga úr starfsemi sinni og fækka starfsmönnum sínum. Hitt er sjálfsagt aftur á móti svo, að það hafa komið til sögunnar einhver ný iðnfyrirtæki, og það hefur sem betur fer gengið misjafnlega hjá iðnfyrirtækjum og sum iðnfyrirtæki hafa eitthvað lagað aðstöðu sína einmitt nú á þessu ári.

Ég hygg, að þessar staðreyndir, sem ég hef hér bent á og ég gæti talið hér miklu fleiri fram, sýni það ótvírætt, að fram hjá því verður ekki gengið, að það hefur orðið samdráttur í iðnaðinum og það vandamál, sem nú er við að glíma, á a. m. k. að talsverðu leyti rætur að rekja til þess.