02.02.1970
Efri deild: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (2125)

Ómæld yfirvinna ríkisstarfsmanna

Björn Jónsson:

Herra forseti. Mig langar til að segja nokkur orð um þetta, kannske í fyrsta lagi vegna þess, að ég geri ekki ráð fyrir, að aðrir taki að sér vörn fyrir það blað, sem hér bar á góma, eða verji það, sem þar stendur. En sannast sagna verð ég að segja það, eftir að hafa heyrt ræðu hæstv. fjmrh., að ég sé ekki, hvaða ástæðu hann hefur til þess að halda því fram, að mjög sé rangt með farið í blaðinu. Ég fann ekki betur en að hæstv. ráðh. staðfesti allt, sem blaðið hefur um þetta sagt. Hann meira að segja bætti því við, að það hefði átt að telja aðra frekar heldur en þá, sem eru upp taldir og hefðu notið þessara kaupuppbóta, sem hann hefur einhliða ákveðið, og hann sagði ekki, að það væri rangt með farið, að þessir aðilar, sem þar væru upp taldir, hefðu fengið slíka kaupbót, heldur bætti hann því við, að þar hefði frekar átt að nefna aðra. En málið gerist einfaldlega þannig, að ritstjóri blaðsins hringir í þennan tiltekna mann í rn. og aflar upplýsinganna, sem í greininni standa, þannig að það er þá þessi undirmaður hæstv. ráðh., sem hefur farið rangt með, ef eitthvað er rangt með farið, sem ég held að ekki sé, en ekki blaðið.

Ég ætla ekki að gera þetta að miklu umtalsefni eða leggja neinn dóm á það, sem hér hefur gerzt, þ. e. a. s. það, að hæstv. fjmrh. hefur tekið sér einhliða vald til þess að ákveða mjög verulega kaupuppbót handa nokkrum hálaunamönnum í ríkiskerfinu, eða um 5000 kr. á mánuði, sem mörgum mundi þykja notaleg kaupuppbót á þessum síðustu og verstu tímum. Ég læt nægja að þessu sinni að lýsa ánægju minni yfir því, að hann metur ástandið þannig í efnahagsmálum og fjármálum ríkisins, að þetta sé hægt, og munu þá auðvitað aðrir draga af því sína lærdóma.

En það er fleira í þessu blaði, sem er gert að umtalsefni í sambandi við launamálin, sem mig langaði þá líka, af því að mér finnst það eiga við, að spyrjast fyrir um. Þar er skýrt frá því í annarri grein, að ráðh. hafi seint á s. l. ári, held ég sé rétt, ég hef nú ekki blaðið í höndunum, en held, að það sé rétt með farið, þá hafi hann einhliða ákveðið breytingar á því vísitölukerfi, sem opinberir starfsmenn hafa sætt samkvæmt kjaradómi, þ. e. a. s. að þeir fengju sömu vísitöluuppbót og lægra launaðir menn alveg upp úr kerfinu, allt upp í toppana, og hafi þannig fengið kaupuppbót, sem ekki er mikil, eða frá 100 kr. á mánuði og upp í tæpar 1200 kr., þ. e. a. s. þeir sem eru í 18. launaflokki og upp úr. Þeir hafi ekki fengið þær bætur samkvæmt neinum samningum eða tilmælum frá BSRB, heldur hafi þar verið um einhliða ákvörðun fjmrh. að ræða. Mér sýnist, að í þessu tilviki sé það enn þá augljósara, að gengið hafi verið fram hjá þeim reglum, sem lög mæla fyrir um greiðslu kaups opinberra starfsmanna, heldur en í hinu tilvikinu, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. gerði að umtalsefni. Hér er beinlínis með einhliða ákvörðun ráðh., ef rétt er með farið, algerlega gengið fram hjá ákvörðun um kjaradóm um þetta, og það er vissulega athyglisvert.

Nú er ég ekki að leggja neinn dóm á það, að þetta sé í sjálfu sér ósanngjarnt, heldur þykir mér ýmislegt mæla með því, að þessi háttur sé á hafður, sem hæstv. ráðh. hefur samkvæmt frásögn blaðsins haft á. En ég tel hins vegar, að málið hefði átt að takast upp á allt annan hátt, þ. e. a. s. með samningum við BSRB eða þá með því að vísa því til kjararáðs. En eftir því sem bezt verður séð, ef hér er ekki mjög missagt í blaðinu, þá hefur ekki verið farið að réttum lögum um þetta, heldur ráðh. einn hnekkt kjaradómi. Vil ég þá spyrja svipað og hv. 1. þm. Norðurl. v.: Hvaðan kemur ráðh. slík heimild?

Ég ætla ekki að tefja tímann lengur en þetta. Ég veit, að ráðh. gefur rétt og greinargóð svör við þessari spurningu. En ég vil aðeins endurtaka það, að ummæli hans um ranghermi blaðsins í sambandi við fyrra atriðið, sem hér var til umr., eru algerlega úr lausu lofti gripin. Hann einmitt lagði sjálfur áherzlu á það, að þetta hefði átt sér stað, og manni skildist, að það hefði átt sér stað að jafnaði á hverju ári, að slíkar kaupuppbætur hefðu verið greiddar. En það þykir mér alveg greinilegt af þeim umr., sem hér hafa farið fram, að þær hafi verið í miklu ríkara mæli nú upp á síðkastið en nokkru sinni áður. En það er út af fyrir sig einkar ánægjulegt, að fjármálaástandið skuli vera þannig, að það sé talið af ráðh., að það séu nægileg fjárráð til þess að bæta hæst launuðu mönnunum í ríkiskerfinu upp sín laun.