02.02.1970
Efri deild: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1672 í B-deild Alþingistíðinda. (2126)

Ómæld yfirvinna ríkisstarfsmanna

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara að taka upp langar orðræður um þetta mál, þó það megi vafalaust ýmislegt um það segja. Hv. 4. þm. Norðurl. e. rann nokkuð blóðið til skyldunnar að verja það tiltekna blað, sem ég leyfði mér að halda hér fram áðan að hefði farið með villandi upplýsingar. Ég skal ekki fara að karpa við hann um það, en ég endurtek, að þessar upplýsingar eru mjög villandi. Þar er sagt beinlínis, að það sé árleg venja að greiða þessar uppbætur til þessara starfsmanna, og það er ekki rétt. Það hafa verið greiddar, eins og ég sagði, á ýmsum árum vissar uppbætur til yfirmanna stofnana, það er rétt, en það er metið á hverju ári, hvort ástæða sé til þess eða ekki. Það hefur ekki skapazt um það venja, að tilteknir embættismenn fái þessar föstu greiðslur frá ári til árs, en öðruvísi er ekki hægt að skilja frásögn blaðsins. Og komið hefur í ljós, að það er mjög rangt farið með þær upplýsingar, sem blaðið fékk frá fjmrn., þó vægilega sé sagt og án þess að ég skuli fara nánar út í þá sálma. Þetta skiptir kannske ekki öllu máli að öðru leyti en því, að það gefur þá hugmynd óneitanlega þeim, sem lesa, að þarna sé tiltekinn hópur embættismanna, sem á hverju ári sé úrskurðuð ákveðin þóknun fyrir aukavinnu, og það er það, sem efnislega er rangt, því það er metið hverju sinni, hvort ástæða er til eða ekki.

Ég er hv. 1. þm. Norðurl. v. algerlega sammála um það, að það er mjög óheppilegt að hafa þetta greiðslufyrirkomulag á, og ég tel, að það sé mikil nauðsyn, að engar slíkar greiðslur þurfi að koma til, alveg eins og það er margt annað, sem er gallað, og ég ætla ekki að fara að ræða það hér. Ég og hv. þm., formaður BSRB, sem á hér einnig sæti í d., við höfum margrætt um ýmsa annmarka á þessu kerfi, og sé ég ekki ástæðu til utan dagskrár að gera það að umtalsefni. Það eru mörg atriði í því, sem við höfum báðir verið sammála um, að æskilegt væri að lagfæra. Það fer fram núna með samkomulagi þessara aðila beggja ákveðið starfsmat. Því miður hefur verið af einhverjum ástæðum farið að birta í blöðum, — ég sé það í einu blaði í dag, — upplýsingar um það starfsmat, sem er auðvitað algerlega rangt með farið, að aðilar hafi komið sér saman um. Það voru settir vissir trúnaðarmenn til þess að vinna að því mati, og það er ekki nema gott að það komi fram hér, að hvorugur aðilanna hefur lýst yfir afstöðu sinni til þessa mats. Þetta er vinnuplan, en báðir aðilar eru sammála um það, að reynslan hefði sýnt og sannað, að það væri óumflýjanlegt að gera endurskoðun á launakerfinu og reyna að koma í veg fyrir það, að við hverja einustu kjarasamninga skuli þurfa að hafa um það uppi harðvítugar deilur, í hvaða launaflokki þessi eða hinn eigi að vera. Hitt er öllum hv. þdm. mætavel kunnugt um, að háskólamenn hafa talið sinn hlut mjög slæman og hér væri orðinn óhæfilega lítill launamunur. Með því er ég ekkert að segja um það, að ekki sé nauðsynlegt að lagfæra laun þeirra, sem lægra eru settir í kerfinu, það er allt annað mál, en ég hygg, að það sé orðin nokkuð almenn skoðun manna, að launamunurinn í kerfinu sé orðinn óeðlilega lítill, þó ég hins vegar taki það alveg skýrt fram, að það hefur af hvorugs aðila hálfu, hvorki rn. né BSRB, verið tekin nokkur afstaða til þess, hvað eðlilegt sé, að launamismunurinn sé mikill. Það er algerlega óumsamið mál og er enn þá á athugunarstigi.

En ég nefni þó þetta aðeins sem dæmi um það, að ég hygg, að það sé almennt viðurkennt, að forstöðumenn margra stofnana og þeir, sem gegna mjög ábyrgðarmiklum störfum, hafi orðið óeðlilega lág laun miðað við fjölda sinna undirmanna, sem hafa miklu veigaminni störfum að gegna og minni ábyrgð. Þetta held ég að sé kjarni málsins, sem menn almennt viðurkenna í dag, og það er kannske þess vegna ekkert að undra, þó að það komi í vaxandi mæli fram kröfur um það, að eitthvað sé reynt að bæta forstöðumönnum stofnana, þar sem svo hrópandi misræmi er í launakjörum, að fjöldi undirmanna þeirra hefur miklu hærri laun en þeir sjálfir. Og þetta er kjarni málsins í því, sem nú hefur verið gert. Það, að þetta megi ekki heita yfirvinna og geti ekki fallið inn í rammann, það er ekki rétt. Það er í lögum beinlínis heimild. Í 5. gr. kjarasamningalaga segir að vísu, að forstöðumenn stofnana eigi ekki rétt á yfirvinnugreiðslu samkv. 1. málsgr. þeirrar gr., en þurfi þeir samt að vinna verulega yfirvinnu vegna embættisanna, er heimilt að greiða þeim sérstaka þóknun til viðbótar mánaðarlaunum þeirra. Þetta stendur hér beint í lögunum og fjmrh. ákveður þá þóknun, þannig að hér er beinlínis gengið út frá því, að það sé heimilt að veita yfirmönnum stofnana, þegar sérstaklega stendur á, slíka kjarabót, slíka uppbót, þegar það er sýnilegt, að vinna þeirra er með þeim hætti. Og ég tek það skýrt fram, eins og ég sagði í upphafi míns máls, að varðandi öll laun, sem hér voru greidd, var lögð rík áherzla á það af mér, að viðkomandi rn. yrði að gæta þess vendilega, — og auðvitað getur fjmrh. ekki fylgzt með þessu í öllum einstökum tilvikum, — að hér væru ekki teknir nema menn, sem gegndu hinum þýðingarmestu forstjórastörfum og sem sannanlega að mati viðkomandi ráðh. hefðu leyst af hendi starf, sem yrði að teljast það umfangsmikið, að það gæti ekki með eðlilegum hætti fallið innan þeirra vinnutíma. Á þessu er þessi heimild byggð.

Þá var spurt að því, hvort nokkurt samband hefði verið haft við BSRB um þetta mál. Það er rétt, að BSRB — ég tek það fram — er a. m. k. ábyrgðarlaust um það. Það má kannske segja, að ég hefði átt að hafa samvinnu við það um málið. En það er nú einu sinni svo, að í rauninni hafa forstjórar enga aðild að BSRB og þeir eru ekki í þeim félögum, sem eru aðildarfélög BSRB, og raunar hefur BSRB aldrei gert kröfu til þess að fara með mál forstjóra, þó að þeir verði auðvitað að falla inn í kjarasamningarammann, það er allt annað mál, á sínum stöðum. En þetta gerir það að verkum, að það er auðvitað ekki sambærilegt, hvort það er átt við BSRB og fer fyrir kjaranefnd ágreiningur um mál aðila, sem eru félagar í BSRB, eða ríkisstarfsmanna, sem alls ekki eru þar félagsbundnir.

Þá var líka að því spurt, hvort það væri rétt, sem sagt væri í þessu sama blaði og talið vera þó nokkurt afbrot af minni hálfu, að fallizt hefði verið á það að falla frá þeirri kröfu, sem gerð var á sínum tíma fyrir kjaradómi af hálfu ríkisins, að skert ýrði vísitala, skert yrði launauppbót þeirra, — maður getur kallað það vísitöluuppbót með venjulegum hætti, — sem skerðing var ákveðin á með kjarasamningunum 1968. En þá var ákveðið, eins og menn muna, að ef menn voru fyrir ofan 18.19. launaflokk, þá skyldu þeir ekki fá neina krónuupphæð frá 18–19 þús. kr. launum, held ég að það hafi verið, ekki fá neina dýrtíðaruppbót, en upp að þeim flokki frá 10 þús. kr., skyldu menn fá sömu krónuuppbót, hver sem launin væru. Það er rétt, að það var ágreiningsatriði þá, hvort þetta skyldi gert eða ekki, en ég vil taka það fram, að það var krafa BSRB á þeim tíma, að þessi launauppbót yrði greidd. Það er rétt, að fjmrn. féllst ekki á að greiða launauppbótina, ekki vegna þess að það væri skoðun okkar, að það væri ekki sanngjarnt að greiða þessa launauppbót, heldur vegna hins, að eins og atvik þá stóðu, þá var talið, að það væri óheppilegt, þar sem þetta hafði beinlínis verið sett inn í kjarasamninga stéttarfélaganna, að þessi uppbót yrði ekki greidd samkv. þeim samningum. Frá þessu var í rauninni fallið af stéttarfélögunum í samningunum s. l. ár. Það var að vísu þá ekki gert ráð fyrir, að það verkaði aftur í tímann, en þessari kröfu var ekki haldið þar fram og ég held ekki, að þessi krafa hafi neitt frekar komið frá vinnuveitendum heldur en frá stéttarfélögunum á sínum tíma, að þetta þak yrði sett þarna og að greiðslur yrðu ekki inntar af hendi til þeirra, sem hefðu hærri laun. En með hliðsjón af því, að þetta var niður fallið, þessi málsástæða í kjarasamningunum 1969, þá var það skoðun ríkisstj., að það væri ekki óeðlilegt, að þetta félli þá einnig niður núna varðandi opinbera starfsmenn. Það má vafalaust fetta fingur út í það formlega, að þetta skyldi vera gert. Það var rætt milli mín og forstöðumanns BSRB um þetta atriði, og hann að sjálfsögðu staðfesti það, að það hefði alla tíð verið krafa BSRB, að þetta yrði gert. Kjarasamningarnir áttu raunverulega að falla úr gildi núna með eðlilegum hætti. Þá var samið um, að þeir framlengdust um eitt ár vegna starfsmatsins, þannig að ríkisstj. þótti ekki óeðlilegt, að þessi breyting yrði þá miðuð við þessi áramót, því að undir öllum kringumstæðum hefði verið á hana fallizt, ef þetta hefði verið gert með eðlilegum hætti og kjarasamningar hefðu farið fram á réttum tíma. Ég sé því ekki, að hér sé um að ræða atriði, sem geti talizt hneykslanlegt, og sé það svo, þá skal ég fúslega taka á mig sökina af því, ef hér er talið, að eitthvað hafi verið rangt að farið. En ég tel málsatvik öll vera þau, að það sé ekki óeðlilegt, að þetta hafi verið gert. Og hér er sem sagt ekki af hálfu ríkisins verið að gera annað en að fallast á kröfur frá BSRB, sem á sínum tíma var eingöngu talið ófært að fallast á vegna þess, að það mundi skapa óeðlilegt fordæmi miðað við þá kjarasamninga, sem stéttarfélögin þá gerðu, og samningsaðilum eða gagnaðilum ríkisins, kjararáði BSRB, var þá beinlínis sagt, að það stafaði af því, að við teldum ekki, að við gætum tekið á okkur þá ábyrgð að semja af ríkisins hálfu um hagstæðari kjarasamninga heldur en stéttarfélögin höfðu þá samið um. Þó það sé alveg rétt, sem hér hefur verið bent á af þeim tveimur hv. þm., sem hafa á þetta minnzt, að auðvitað hlaut þetta að leiða til vandræða, ef tekin er burtu alveg uppbót á vissu stigi, þá leiðir það til þess, að einn launaflokkur fer upp fyrir annan. Kjaradómur féllst að vísu aldrei á þá aðferð, heldur jafnaðist þetta út á lengra bili, þannig að þetta ætti ekki að geta skeð, en hefur hins vegar leitt til þess, að það hefur lent saman ýmsum launaflokkum, sem enginn munur er lengur gerður á. Ég satt að segja hafði ekki haldið, að þetta atriði, sem er lítilvægt atriði, mundi verða að neinu stórmáli, en ég skal staðfesta það fúslega, að þetta hefur verið gert, og það verður þá að taka því, ef talið verður, að ég hafi farið eitthvað rangt að í þessu efni.