02.02.1970
Efri deild: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1677 í B-deild Alþingistíðinda. (2129)

Ómæld yfirvinna ríkisstarfsmanna

Kristján Thorlacius:

Herra forseti. Í tilefni af því, sem hæstv. fjmrh. sagði um sambúð, ef svo mætti segja, hans við BSRB, þá vil ég taka undir þau orð. Það er ákaflega gott að eiga samskipti við hann af hálfu samtakanna að því er varðar allar ytri aðstæður, ef svo má segja. Við höfum ekki verið sammála að sjálfsögðu um stefnuna. Þar hafa orðið hörð átök, en að því er varðar persónuleg samskipti forystumanna BSRB við hæstv. fjmrh. er ekkert nema gott að segja. Þannig vona ég, að það verði framvegis.

Í sambandi við þau vandamál, sem hann kom hér inn á í sambandi við afgreiðslu á því máli, sem hér var til umr. eftir fsp. hv. 4. þm. Norðurl. v., þá sé ég nú enga ástæðu til þess að segja það ekki hreint út, hver vandamál það eru. Það er krafa, sem Bandalag háskólamanna gerir um að eiga samningsaðild fyrir háskólamenntaða menn í landinu. Sú stefna, að Bandalag háskólamanna eigi samningsrétt fyrir háskólamenntaða menn í þjónustu ríkisins, er mótuð af Sambandi norrænna háskólamanna og er verið að vinna að henni á öllum Norðurlöndunum með allmikilli sókn.

Ég vil gjarnan, að mín skoðun um samningsaðild í sambandi við kjör opinberra starfsmanna komi hér fram, úr því að tilefni er gefið til í þessum umr. En mín skoðun er sú, að fyrir Bandalag starfsmanna ríkis og bæja sé það síður en svo neitt grundvallaratriði, að heildarsamtökin fari með kjarasamninga fyrir alla ríkisstarfsmenn. Samkv. vinnulöggjöfinni frá 1938 er það ekki Alþýðusambandið og önnur heildarsamtök verkalýðsfélaga, sem með samningsréttinn fara, heldur einstök félög. Frá mínu sjónarmiði gæti það verið hagkvæmara að hafa sama hátt á um starfsmenn ríkisins. að hvert einstakt félag fái samningsrétt fyrir sína meðlimi. Mér virðist, að BSRB ætti að óska eftir rétti fyrir hvert félag fyrir sig innan BSRB til að fara með samninga á sama hátt og verkalýðsfélögin innan Alþýðusambandsins. Ég vil í þessu sambandi leggja á það áherzlu, að hér verður að gilda ein regla, en frá sjónarmiði opinberra starfsmanna, held ég, að slík allsherjarregla mundi verða mjög til hins betra.