20.04.1970
Neðri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1685 í B-deild Alþingistíðinda. (2135)

Aðgerðir námsmanna í sendiráði Íslands í Stokkhólmi

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr., það er næsta tilgangslítið, en ég vil aðeins vekja athygli á því, að það er hvorki á færi hæstv. menntmrh. né á mínu færi að fullyrða neitt um það, hvernig íslenzkir námsmenn á Norðurlöndum líta á þessa atburði, um það vitum við hreinlega ekki neitt, og þýðir lítið að vera með staðhæfingar af því tagi hér úr þessum stól. Ég held líka, að það sé ákaflega tilgangslítið að vera með þungar fordæmingar, eins og hæstv. ráðh. var hér með áðan. Það hljóta allir að vera sammála um það, að til slíkra atburða eigi ekki að koma. En ábyrgðin á þessum atburðum hvílir ekki á þeim ungu mönnum, sem gripu til þessa ráðs í morgun, heldur hvílir hún á mönnum, sem sitja hér inni í þessum sal.

Það hefur verið vakin athygli á því árlega og oft á ári, að aðstoð okkar við námsmenn erlendis hefur verið allt of lítil. Ég hef tekið þátt í því hér á hverjum vetri að flytja till. um hækkaðar fjárveitingar, og við höfum reynt að færa rök að því, að þetta hafi verið óhjákvæmilegt. En þessu hefur ekki verið anzað, og það er þess vegna, sem gripið er til aðgerða, sem vekja athygli. Og ég vil leggja á það mikla áherzlu, að menn eiga að læra af reynslu eins og þessari, ekki með fordæmingu, heldur með því að bæta úr ágöllum, sem eru orðnir algerlega óþolandi.

Ég vil leggja á það áherzlu, sem ég sagði hér áðan, að ég tel það vera skyldu Alþ. að skoða þetta mál til fullnustu og grípa til sinna ráðstafana, áður en þingið er sent heim nú í vor.