20.04.1970
Neðri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1685 í B-deild Alþingistíðinda. (2136)

Aðgerðir námsmanna í sendiráði Íslands í Stokkhólmi

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson, 5. þm. Austf., sagði, að ekki þýddi fyrir mig eða nokkurn annan að bera það á borð, að raungildi aðstoðar íslenzka ríkisins við íslenzka námsmenn heima og erlendis hefði aukizt á undanförnum árum. Þetta er engu að síður staðreynd, ómótmælanleg staðreynd. Hitt er annað mál, að með því er ekki sagt, að allur vandi íslenzkra námsmanna sé leystur, og það er eflaust rétt, að þrátt fyrir aukna aðstoð í raunverulegum krónum og gjaldeyri, sem hefur átt sér stað, þá óski námsmennirnir eftir meiri aðstoð. Um þær óskir er mér fullkunnugt. Ég hef fyrir mitt leyti jafnan verið allur af vilja gerður til þess að mæta þessum óskum svo sem frekast er unnt, en það verður að segjast umbúðalaust, að atburðirnir í morgun létta þá baráttu ekki.

Ég hef í morgun beðið stjórn lánasjóðs íslenzkra námsmanna að semja grg. um þetta mál allt saman, og geri ég ráð fyrir, að hún verði birt í blöðum á næstunni, til þess að allur almenningur geti um það dæmt, hver aðstoðin raunverulega er. Ég tel nauðsynlegt að upplýsa það og hvernig hún hefur breytzt á undanförnum árum. Þær upplýsingar eru til, áttu raunar að hafa verið birtar þegar í tilefni af þeim miklu skrifum og orðsendingum, sem íslenzkir stúdentar hafa sent hingað heim að undanförnu. Það, sem mér hefur borizt af þessu efni, hef ég jafnan sent til stjórnar lánasjóðsins með ósk um það, að því yrði svarað af stjórn lánasjóðsins sjálfri og samin grg. um það, hvernig þessi mál stæðu. Mér var sagt í morgun, að sú grg. væri í rauninni fullsamin og geti orðið birt í blöðum og öðrum fjölmiðlunartækjum einhverja næstu daga, og þá geta bæði hv. alþm. og þjóðin öll fengið sanna og rétta mynd af málinu.

En það skal ég enn segja, að þó að aðstoðin hafi aukizt mikið á undanförnum árum, þá tel ég mjög æskilegt, að sú aukning geti haldið áfram og með sem hröðustum skrefum.

Að síðustu þetta: Hv. þm. Magnús Kjartansson sagði, að ábyrgðin á því, sem gerzt hefði í Stokkhólmi í morgun, hvíli ekki á herðum stúdentanna sjálfra, ekki þeirra manna, sem gerðu það, sem átti sér stað, heldur á herðum manna hér innan veggja hins háa Alþ. Aldrei þessu vant er ég sammála hv. þm. Ábyrgðin á þessum hlutum hvílir á herðum hans og skoðanabræðra hans í íslenzkum stjórnmálum.