20.04.1970
Neðri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (2137)

Aðgerðir námsmanna í sendiráði Íslands í Stokkhólmi

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég vil ekki þola neinn misskilning á milli mín og hæstv. ráðh., því að ég finn, að þrátt fyrir allt, þá verður nú tekið á þessum málum og verður reynt að bæta úr. Og þá veitir ekki af, að við höfum þar um allir nokkra samvinnu. En misskilningurinn, sem mér sýnist gæta núna, er sá, að þegar hæstv. ráðh. talar um raungildi framlaganna til námsmanna, þá talar hann um hluta ríkissjóðsins. Ég skal ekki bera brigður á þær tölur. En það, sem ég er að tala um, er hlutur námsmannanna, sem nú berjast við að halda áfram námi sínu erlendis. Það er hann, sem ég segi að standi verr og miklu verr nú en hann gerði fyrir nokkrum árum.