04.05.1970
Neðri deild: 97. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1701 í B-deild Alþingistíðinda. (2152)

Námslán

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þegar hér urðu nokkrar umr. um vandamál íslenzkra námsmanna erlendis upp úr atburðunum, sem urðu í Stokkhólmi fyrir nokkru, þegar nokkrir námsmenn þar tóku á sitt vald skrifstofur sendiráðs Íslands þar í borg, þá lagði ég á það áherzlu í þeim umr., að það, sem væri aðalatriði í þessum efnum, væri, að ríkisstj. brygðist þannig við, að ekki færi á milli mála, að hún ætlaði sér að leysa vandamál námsmannanna. Hitt væri vitanlega algert aukaatriði, að þrefa um það fram og til baka, hvort einstakir námsmenn hefðu gert einhverjar villur í þessu eða hinu tilfellinu með framkomu sinni. Það væri ekki aðalatriði málsins. Hitt væri aðalatriðið, að hér væri um mikinn vanda að ræða, — vanda, sem yrði að leysa. Í umr. þá var skýrt frá því af hálfu ríkisstj., að hún hefði mælzt til þess við lögregluyfirvöld í Svíþjóð, að rétt væri að stjaka námsmönnunum eða ýta þeim út úr sendiráðinu án verulegra átaka og þá án þess að ætlazt væri til þess, að þeir yrðu fangelsaðir fyrir þau brot, sem þeir hefðu framið þarna. Ég sagði í tilefni af þessu, að það væri skoðun mín, að þó að sá háttur væri á hafður í þessu tilviki að ýta námsmönnunum út með lögregluvaldi, ef ekkert gerðist frekar í málinu, þá mundi þessi leikur halda áfram, af því að hér væri um óleyst vandamál að ræða. Námsmennirnir mundu halda áfram að gera sínar kröfur, bregðast við þeim með ýmsum hætti. Og því væri aðalatriðið að snúa sér að því að leysa vandann.

Nú höfum við veitt því athygli, hvað hefur verið að gerast í þessum málum, síðan þessir fyrstu atburðir gerðust. Meginsvipurinn er þessi: Íslenzkir námsmenn koma saman 80–90 talsins í Kaupmannahöfn, 27–28 taka nú sendiráðsskrifstofurnar í Osló og allmikill fjöldi námsmanna hefur síðan komið saman í Stokkhólmi. Kröfurnar og fsp. dynja á hæstv. ríkisstj. og síðan stendur hæstv. menntmrh. í því að senda skeyti eftir skeyti út í lönd til samtaka námsmanna og þræta við þá fram og til baka í rauninni um aukaatriði málsins. Getur það verið, að hæstv. menntmrh. ætli sér að halda þessum leik áfram nú á næstu vikum og mánuðum? Vitanlega er það ekkert svar fyrir þá námsmenn erlendis, sem nú standa í vanda í þessum efnum, að fá yfirlýsingu frá ríkisstj. um það, að hún ætli sér að bera saman stuðning við íslenzka námsmenn og þann stuðning, sem erlendir námsmenn njóta frá heimalöndum sínum. Þetta er auðvitað svar alveg út í hött. Ég get varla búizt við öðru en því, að t. d. stjórn lánasjóðs námsmanna hafi fyrir löngu kynnt sér það, hvernig þessum málum sé háttað með lán og styrki til námsmanna hér í okkar nágrannalöndum. Og ég ætlast einnig til þess, að hæstv. menntmrh. viti talsvert mikið um það.

Það var líka auðvitað alveg út í hött að tala um það og sérstaklega segja okkur það hér á hv. Alþ.,ríkisstj. geti í rauninni ekki svarað námsmönnunum neinu um það, hvernig verði með mál þeirra farið á næstunni, vegna þess að ríkisstj. ráði ekki öllum málum, heldur sé fjárveitingarvaldið hjá Alþ., það þurfi að undirbúa fjárlög og síðan að samþ. fjárl. til þess að við sjáum, úr hverju verði að spila. Við þekkjum það og íslenzkir námsmenn þekkja það eflaust líka, að í fjöldamörgum tilvikum gefur ríkisstj. yfirlýsingu um það, að hún muni beita sér fyrir auknum fjárframlögum, ýmist í þessu skyni eða einhverju öðru. Auðvitað getur ríkisstj. nú gefið yfirlýsingu um það, að hún muni beita sér fyrir því, að stuðningurinn við námsmenn verði aukinn, og að hún muni gera ráðstafanir í þeim efnum á næsta þingi. Eins og hefur komið fram í þessum umr., leikur enginn vafi á því, að ríkisstj. hefur yfirgnæfandi stuðning á Alþ. til þess að gefa slíkar yfirlýsingar.

Ég vil nú í tilefni af því, sem hér hefur fram farið um þetta mál, beina því enn einu sinni til hæstv. menntmrh., að hann hætti þessari þrákelkni í viðskiptum sínum við íslenzka námsmenn erlendis, hann hætti þessum endalausu skeytasendingum fram og til baka, sem ekkert hafa að segja, en beiti sér hins vegar fyrir því í ríkisstj., að hann fái heimild til þess að lýsa því yfir afdráttarlaust, að ríkisstj. muni beita sér fyrir auknum stuðningi við námsmenn þegar á næsta námsári. Það er vitanlega aðalatriðið í þessum efnum. Ég trúi því ekki, að hæstv. menntmrh., svo veraldarvanur sem hann er, sjái það ekki, að þessum leik hans og ríkisstj. verður að linna. Það er ekki hægt að halda þessu áfram. Það er enginn vafi á því, að námsmennirnir munu halda áfram baráttu sinni. Þeir gefast ekki upp. Svör í skeytum, efnislaus í sjálfu sér, breyta þar engu um.

Ég endurtek svo tilmæli mín til hæstv. ráðh., að hann taki nú á þessu vandamáli á þann hátt, að það stefni að því, að vandi sá, sem við er að glíma, verði leystur.