04.05.1970
Neðri deild: 97. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (2153)

Námslán

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð að lokum. — Það má með sanni segja, að það er dálítið vandlifað. Ef ég svara stúdentum ekki, þá er það gagnrýnt, að þeir séu hunzaðir, ef ég svara þeim, þá kallar hv. þm. það skollaleik eða eitthvað í þá átt. Ég hef talið sjálfsagt að svara þeim bréfum og orðsendingum, sem ég hef fengið, tel það sjálfsagða mannasiði og mun halda því áfram að sýna stúdentum eins og öllum öðrum, sem við mitt rn. eiga skipti, sjálfsagða kurteisi. Varðandi hitt, sem ég er alveg sammála hv. þm. um, að auðvitað er efni málsins aðalatriðið, um það er ég búinn að gefa margar yfirlýsingar fyrir hönd ríkisstj. og sé enga ástæðu til þess að endurtaka það einu sinni enn. En ríkisstj. hefur á undanförnum árum stóraukið stuðning við námsmenn og hefur þessi mál til stöðugrar athugunar og ætlar sér að halda áfram að stórauka stuðning við námsmenn.

Varðandi það efnisatriði, sem fram kom í ræðu hv. 4. þm. Reykv., þá vil ég líka segja, að honum virðist vera dálítið vandsvarað. Hann virðist ætlast til þess, að ég gefi á þessari stundu yfirlýsingu um það, að ríkisstj. hafi gert upp hug sinn varðandi fjármál lánasjóðs á árinu 1971 fyrir einhvern ákveðinn dag í sumar. Ég vona, að allir sanngjarnir menn sjái, að það er ekki hægt að ætlast til þess, að ég gefi neina slíka yfirlýsingu á þessari stundu. En hitt get ég sagt og það skal ég segja, og vona, að þá loksins verði hv. þm. ánægður, að ég mun vinna að því, og þykist viss um, að það muni geta tekizt, að fjármál lánasjóðsins fyrir árið 1971 verði afráðin svo snemma í sumar, að þeir, sem hyggja á nám erlendis, nýtt nám og framhaldsnám, viti í tíma, hvaða aðstoðar þeir geta vænzt á komandi námsvetri.