15.10.1969
Sameinað þing: 3. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1703 í B-deild Alþingistíðinda. (2155)

Starfshættir Alþingis

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hæstv. dómsmrh. um nauðsyn þess, að störf þingsins séu skipulögð sem bezt. Það er alveg rétt, sem hann sagði, að það var svo s. l. vetur a. m. k., að mál gengu nokkuð treglega og hægt fram í Sþ. Það er vitaskuld slæmt, því að auðvitað eiga öll mál að fá hæfilega greiðan framgang í þinginu. En ég held, að í þessu sambandi verði menn að átta sig á því, að mikið af störfum Alþ. og miklu meira en gert var ráð fyrir í öndverðu hefur færzt í Sþ. Þess vegna sé ég ekki lengur neina nauðsyn á því að einskorða sig við það að hafa fundi í Sþ. aðeins einn dag í viku hverri. Ég held, að þingforsetar verði að skipuleggja þingstörfin og þingfundina eftir því, hvernig mál liggja fyrir einstökum samkomum í þinginu. En sú var a. m. k. reynslan á s. l. þingi, að það var mjög oft lítið um mál í Ed. a. m. k. og stuttir fundir þar. Þess vegna er hér ekki aðeins um það að tefla, að hæstv. alþingisforsetar skipuleggi störf Alþ. sem bezt, heldur líka hitt, að hæstv. ríkisstj. hagi flutningi sinna mála á þá lund, — þeirra frv., sem hún leggur áherzlu á, að nái fram að ganga, en það eru að jafnaði flest eða öll hennar mál, — að hún skipti þeim nokkuð jafnt á milli deilda, þannig að það verði nokkurt jafnræði og skipulag í störfum þingsins, en ekki algert ósamræmi á milli hinna einstöku samkoma þingsins að þessu leyti. Ég legg til, að það verði tekinn upp sá háttur í vetur, ef það sýnir sig, að það ætlar að fara svo eins og í fyrravetur, að það teygist mjög úr umr. í Sþ., að fundardagar í Sþ. verði fleiri en einn í viku hverri. Það er eðlilegasta lausnin.