29.04.1970
Sameinað þing: 49. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (2160)

Starfshættir Alþingis

Forseti (BF):

Forseti vill út af ræðu hv. 1. þm. Norðurl. v. aðeins segja það, að hann telur ekki, að á þessu þingi hafi verið viðhöfð önnur vinnubrögð varðandi störf Sþ. en tíðkazt hafa, a. m. k. svo lengi sem hann sjálfur hefur setið á þingi. Ég skal fúslega taka undir það með hv. 1. þm. Norðurl. v., að þessir starfshættir þurfa endurskoðunar við. Ég hef ekki verið fyrir mitt leyti ánægður með það, að svo skyldi til ganga með afgreiðslu mála í Sþ. Ég harma í því sambandi fyrir mitt leyti, að það frv. til nýrra þingskapa, sem legið hefur fyrir Alþingi ár eftir ár, skuli ekki hafa náð fram að ganga. Það frv. hefur að sjálfsögðu ekki verið til meðferðar í Sþ. Ég hef einnig oftar en einu sinni látið það í ljós, að ég tel fsp. vera of fyrirferðarmiklar á fundum Sþ., og að því leyti svaraði hv. þm. sjálfum sér, þegar hann var að leita eftir skýringum á því, hvers vegna þáltill. á dagskrá kæmust ekki að. Ég hef ekki í sambandi við þá þáltill., sem hann nefndi sérstaklega, neina aðra skýringu fram að færa á því, að hún hefur ekki komizt að, en þá, að fsp. hafa yfirleitt farið með mestallan tíma Sþ. og á stundum umr. utan dagskrár, sem forseti hefur leyft, þótt honum beri ekki nein skylda til þess.

Að öðru leyti en þessu sé ég ekki ástæðu til að svara frekar ræðu hv. 1. þm. Norðurl. v., en ég get fyrir mitt leyti lýst því yfir að þessu gefna tilefni frá honum, að eigi það eftir að koma í minn hlut aftur að sitja í þessum stól, er ég fús til þess að ræða við forustumenn þingflokkanna um bætta starfshætti hvað þetta snertir.