17.11.1969
Neðri deild: 15. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1711 í B-deild Alþingistíðinda. (2165)

Fréttir í hljóðvarpi og sjónvarpi

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs hér utan dagskrár út af hneyksli, sem átti sér stað í fréttaflutningi sjónvarps og hljóðvarps nú um helgina. S. l. laugardag var haldinn á vegum stúdentafélagsins Verðandi fundur í Háskólabíói til stuðnings kröfunni um tafarlausan og algeran brottflutning bandarísks herliðs frá Víetnam. Fundur þessi var svo fjölmennur, að slíks eru fá dæmi hér á landi. Það var ekki aðeins, að hvert einasta sæti í hinum stóra sal væri setið, en þau munu vera um 930, heldur var svo þétt skipað í ganga og annað pláss þarna, að óhætt er að fullyrða, að tala fundarmanna hafi verið a. m. k. tvöföld sætatalan. Það er aldrei minna en svona 1800 manns. Fundarmenn voru á öllum aldri, en meiri hlutinn skólafólk. Fundarsóknin og undirtektir allar á fundinum staðfestu það, að krafa sú, sem þarna var fram borin, sama krafan og fram var borin á mótmælafundum — fjölmennum mótmælafundum — og í mótmælagöngum vestur í Bandaríkjunum nú um þessa sömu helgi, þessi krafa nýtur öflugs og ótvíræðs stuðnings skólafólks hér í höfuðstaðnum.

Ég fullyrði hiklaust, að fátt hafi skeð frásagnarverðara hér á landi nú um langt skeið heldur en þessi fundur, fátt fréttnæmara, fátt sjálfsagðara til ýtarlegrar frásagnar af hálfu heiðarlegra fréttamanna. En þeir, sem valizt hafa til þess að segja þjóðinni merk tíðindi á vegum ríkisrekinna fyrirtækja, þ. e. a. s. fréttamenn sjónvarps og hljóðvarps, virtust hins vegar líta svo á, að fréttamennskuheiðri þeirra væri bezt borgið með því að minnast varla á þetta mál eða haga þannig því litla, sem þeir létu þjóðina af því vita, að þeir hefðu betur þjónað sannleikanum með því að segja ekkert um þetta. Sjónvarpið s. l. laugardagskvöld minntist ekkert á þann fjölda, sem á fundinn kom, og sagði ekki heldur neitt um það, sem þar fór fram, en birti hins vegar kvikmynd af nokkrum hluta, aðeins litlum hluta fundarmanna á göngu að fundarstaðnum, og svo undarlega vildi til, að þegar gangan var alveg að komast þangað, sem mannfjöldi stóð fyrir utan húsið og beið þess að komast inn, þá slokknaði allt í einu á myndinni. Áhrifin af þessu hlutu að verða þau fyrir allan þann fjölda sjónvarpsáhorfenda, sem ekki vissu betur, að þetta hefði verið misheppnaður fundur, á hann hefði aldrei komið nema þessi hópur göngumanna.

Hvernig stóð á þessu? Það getur verið, að sjónvarpið sé fátækt fyrirtæki. En ósköp hlýtur sú fátækt að vera orðin alvarleg, ef sjónvarpið verður alveg uppiskroppa með filmur strax og það fer að komast í námunda við sannleikann í máli, sem það læzt þó vera að fræða fólk um. Ég ætla ekki að fullyrða, að það, sem valdið hafi þessu undarlega háttalagi hjá fréttamönnum sjónvarpsins, hafi verið skortur á heiðarleika, en skortur á einhverju var það. Og hann virðist næsta undarlegur, þankagangur þessara manna,það get ég fullyrt eftir að hafa rætt við tvo fréttamenn sjónvarpsins um þetta mál. Ég spurði, af hverju þeir hefðu ekki kvikmyndað inni í sjálfum fundarsalnum, en aðeins látið nægja að kvikmynda umrædda göngu. „Gangan var á hreyfingu“, sögðu þeir, „fundarmenn, sem sitja hreyfingarlausir í sal, eru hins vegar ekki merkilegt sjónvarpsefni.“ Óneitanlega nokkuð svo nýstárleg speki, þetta. Út af þessu gæti maður næstum freistazt til þess að beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh., yfirmanns þessarar stofnunar, sjónvarpsins, hvort fréttamönnum sjónvarpsins hafi verið gert að segja ekki sannleikann nema hann sé á hreyfingu. Staðreyndirnar gera reyndar slíka fsp. alveg óþarfa. Sjónvarpið hefur hvað eftir annað sýnt nákvæmar kvikmyndir af fólki, sem situr hreyfingarlaust í fundarsal, og ekki hvað sízt einmitt í þessum sal, Háskólabíói, og er eitt dæmi nærtækt. S. l. laugardag var haldin samkoma í Háskólabíói til heiðurs okkar ástsæla Nóbelsskáldi, og sjónvarpsmenn voru þar með kvikmyndatökuvélar sínar í gangi, eins og líka vera bar, og þeir sýndu kvikmynd frá þessari samkomu um kvöldið, jafnvel þó að ekki væri hægt að segja, að það væri neitt tiltakanlega mikil hreyfing á samkomugestum. Kvikmyndatökuvéla þeirra varð hins vegar hvergi vart á þeim fundi, sem hófst þó þarna aðeins stuttri stundu síðar. Og hvers vegna? Það hefur þó varla verið vegna þess, að sjónvarpsmönnum hafi fundizt, að enn meira hreyfingarleysi væri á þeim fundi heldur en hinni virðulegu samkomu þarna rétt á undan.

En þrátt fyrir ýmis ótvíræð merki um æskuþrótt á þeim fundi, þá fór hann hið bezta fram og var bæði fundarmönnum, fundarboðendum og öllum þátttakendum til sóma. Var það kannske þess vegna, sem sjónvarpið taldi hann ekki frásagnarverðan? Nei, fyrr mætti nú vera. Og þó mætti með nokkrum rétti spyrja slíkrar spurningar, ekki sízt þegar líka er athugaður hlutur hljóðvarpsins í þessu máli. Ég er hér með orðrétt afrit af því, sem hljóðvarpið sagði um fund þennan í sjö-fréttum á laugardagskvöldið, með leyfi hæstv. forseta:

„Í dag kl. 15.30 var efnt til Víetnam-göngu í Reykjavík. Var gengið frá Austurvelli að Háskólabíói, þar sem fundur hófst kl. 16.30. Fundinum var ekki lokið nú kl. 18.30, en allt hafði þá farið friðsamlega fram.“

Þetta hafði sem sé hljóðvarpið að segja um þennan fund. Allt og sumt. Ekkert minnzt á þann mikla fjölda, sem á fundinn kom, né heldur það, sem þar átti sér stað. Og ég vek athygli á því, að þó að þessi klausa sé stutt, þá tekst viðkomandi fréttamanni að brjóta með henni hlutleysi útvarpsins á hinn herfilegasta hátt. Í orðum hans má greinilega finna það, sem bókmenntagagnrýnendur nefna stundum undirtóna, djúpa undirtóna, — „en allt hafði þá farið friðsamlega fram.“ Til hvers er þetta sagt einmitt í sambandi við þennan fund? Því fer fjarri, að þetta sé venjan um fréttir útvarpsins af fundum yfirleitt. Af hverju endilega þessi aths. í sambandi við þennan fund? Af hverju? Um það skal ég ekkert fullyrða. En hitt fullyrði ég, að með þessu var hlustendum útvarpsins, hvort heldur það var viljandi gert eða óviljandi, gefið fyllilega í skyn, að þessi fundur hafi verið skrílsamkoma, þar sem búast hefði mátt við ýmsu miður viðkunnanlegu háttalagi.

Svona sagði sem sé hljóðvarpið frá þessum fundi og síðan ekki meir, ekkert orð. Og af hverju? Af því að hann reyndist ekki vera nein skrílsamkoma — eða hvað? Hefði útvarpið sagt nánar frá fundinum, ef á honum eða í sambandi við hann hefðu orðið óspektir eða eitthvað gerzt, sem ekki gat talizt kannske fundarmönnum til sóma? Ja, eftir að hafa rætt málið við fréttastofu útvarpsins liggur mér við að svara þessu játandi. Fréttastofan gaf mér svo hljóðandi skýringu: „Þegar við erum, eins og í þessu tilfelli, búin að segja frá fundum og samkomum, höfum skýrt frá efni þeirra fyrir fram, þá er ekki verið að fjalla neitt frekar um þetta eftir á, nema eitthvað sérstakt gerist.“ Þessi skýring stenzt nú reyndar ekki, og má nefna mörg dæmi því til sönnunar úr fréttaflutningi útvarpsins. En svarið er engu að síður auðskiljanlegt varðandi þennan fund. Frá honum hefði verið sagt nánar, ef á honum hefði gerzt „eitthvað sérstakt“. Er að furða þó að maður spyrji, hvort þessar stofnanir séu að segja það ungu fólki, sjónvarpið með kenningum sínum um hreyfanleikann og hljóðvarpið með útskýringum sínum varðandi þetta „eitthvað sérstakt“, sem þurfi að gerast, — er að furða þó að maður spyrji, hvort þessar stofnanir séu að tilkynna það ungu fólki, að því aðeins geti það komið á framfæri skoðunum sínum, að það efni til óspekta, geri eitthvað það, sem gefi góðborgurunum og blöðum þeirra átyllu til þess að kalla það skríl?

Þó að ég taki til máls í sambandi við þennan sérstaka fund, Víetnam-fundinn s. l. laugardag, og til þess að víta fréttaflutning hljóðvarps og sjónvarps í sambandi við hann, þá vil ég leggja áherzlu á, að hér er um að ræða miklu víðtækara mál. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum um vítaverðan fréttaflutning þessara stofnana og þá sérstaklega sjónvarpsins. Þær meginreglur, sem sú stofnun virðist fylgja á þessu sviði, eru í einu orði sagt forkastanlegar, þessi tilhneiging sjónvarpsins til þess að draga alltaf taum valdhafanna íslenzku, íslenzku ríkisstj., þar sem tilefni er til í innlendum fréttum, og hossa sjónarmiðum og áróðri Bandaríkjastjórnar í erlendum fréttum.

Einn hinna ungu manna, sem töluðu á Víetnamfundinum s. l. laugardag, gerði einmitt þetta mál að umtalsefni og komst m a. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Svona þjónusta kallast í mæltu máli heilaþvottur. Markvisst er stefnt að því að brjóta niður sjálfstæða hugsun neytandans. Stefnt er að því að gera manninn að viljalausum þræli hinnar opinberu skoðanamyndunar.“

Og ég leyfi mér í nafni þessa unga manns og í nafni allra félaga hans að mótmæla slíkri óhæfu. Og ég vænti þess, að hæstv. menntmrh. sýni, að hann finnur til ábyrgðar sinnar sem æðsti yfirmaður nefndra stofnana með því að taka nú mál þessi til rækilegrar athugunar, geri til að mynda fréttamönnum hljóðvarps það ljóst, að ungt fólk á rétt á að skoðanir þess séu túlkaðar til jafns við skoðanir annarra, hvort sem í sambandi við þær gerist „eitthvað sérstakt“ eða ekki, og komi fréttamönnum sjónvarps í skilning um, að þeir eiga í hverju máli að segja sannleikann, hvort sem hann hreyfist eða hreyfist ekki.